miðvikudagur, 20. mars 2013

vorið er komið

It's spring fever. That is what the name of it is. And when you've got it, you want--oh, you don't quite know what it is you DO want, but it just fairly makes your heart ache, you want it so!
Mark Twain, Tom Sawyer, Detective
Í dag leyfi ég mér að pósta sömu myndunum á báðum bloggunum því vorið hófst formlega í dag. Tilvísun Mark Twain hér að ofan á því vel við.

Það rignir svolítið í dag sem er í góðu lagi mín vegna. Allt annað en snjór er í góðu lagi mín vegna! Nú fer náttúran að vakna til lífsins eftir kuldakast síðustu viku og hlutirnir gerast hratt; áður en ég veit af verða magnólíur og kirsuberjatré í blóma allt um kring.

Ég á von á garðyrkjumanni fljótlega sem ætlar að klippa greinar og hreinsa til og þegar hann hefur lokið sínu starfi get ég farið á stjá. Við fluttum hingað í fyrra og sinntum bara hefðbundnum garðyrkjustörfum þar sem við vildum fá tilfinningu fyrir garðinum. Hér eru fallegar rósir í ýmsum litum, vínviður og tré en í ár langar mig að kaupa fleiri plöntur til að auka aðeins litadýrðina. Innar í götunni býr Bibba blómakona, eins og ég kalla hana (þekki hana ekki neitt), og blómin í hennar garði eru hreint út sagt stórkostleg. Ég hjóla alltaf mjög hægt fram hjá húsinu hennar til að njóta dýrðarinnar. Kannski að ég ætti að gefa mig á tal við hana einn daginn til að fá ráð.

Hvernig líst ykkur á sólskálann á myndinni hér að ofan? Hann er í eigu breska hönnuðarins Jasper Conran, en hann á glæsilega eign í Somerset sem kallast Ven House. Á vefsíðu hans fann ég svo fallegt myndskeið með myndum eftir ljósmyndarann Andrew Montgomery, en hann á einmitt neðstu myndina í þessari bloggfærslu. Á vefsíðunni er líka að finna brot úr bókinni Country eftir Conran sjálfan sem var gefin út 2010 (sjá nánar á Amazon). Það var Montgomery sem tók myndirnar í bókinni.

Þetta er brot af því sem hefur veitt mér innblástur upp á síðkastið.

Gleðilegt vor 2013!

myndir:
1: af vefsíðu Mon Jardin & ma maison / 2: World of Interiors af vefsíðu The Rural Society / 3: Franck Bel fyrir Mon Jardin & ma maison / 4: Andrew Montgomery


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.