miðvikudagur, 17. apríl 2013

sumarskyrtan


Það er búið að vera svo dásamlegt veður hérna hjá okkur að ég hef að mestu leyft tölvunni að vera í fríi. En nú er ég mætt út á verönd í nýju skyrtunni minni með ermarnar brettar upp og ætla að tala um sumarskyrtur.

Nýverið fór ég í leiðangur þar sem mig langaði að finna klassíska og tímalausa skyrtu til að nota þegar vorið léti sjá sig. Ég var búin að sjá margar hvítar en þar sem ég er með ljósa húð þá finnst mér þær ekki fara mér nógu vel, ekki nema að ég noti klút og í hitanum hér á sumrin er það ekki að gera sig. Ég endaði í Massimo Dutti þar sem ég mátaði þó nokkrar og féll kylliflöt fyrir þessari ljósbláu á myndinni hér að ofan. Hún er úr vorlínunni þeirra og er úr 100% líni. Allar skyrturnar sem ég mátaði hjá þeim voru úr náttúrulegum efnum, sem er mér að skapi. Ég hreinlega sé rautt þegar ég sé öll þessi gerviefni sem verið er að þröngva upp á neytendur í dag og passa því alltaf að skoða merkingarnar vel. Þessi skyrta er flott ein og sér eða óhneppt yfir til dæmis hvítan þunnan stuttermabol eða hlýrabol. Það sakar ekki að vera með flottan hatt líka.

Ef þið eruð í skyrtuleit þá læt ég fylgja nokkar myndir úr vorlínu DKNY, svona til að gefa ykkur hugmyndir. Auðvitað voru margir tískuhönnuðir sem sýndu fallegar skyrtur þegar þeir kynntu vorlínu sína en ég mundi sérstaklega eftir sýningu DKNY því Donna Karan paraði þær við alls kyns buxur og það sat í mér.

Á Pinterest er ég svo með alla vega þrjár skyrtur sem eiga heima í þessum pósti. Þessi hvíta skyrta er klassísk og bara sumarlegt að vera í öllu hvítu og brjóta upp með belti. Leikkonan Gwyneth Paltrow er hér í mjög smart svartri skyrtu við gallabuxur sem klikkar ekki ef verið er að fara út að kvöldi. Ein önnur skyrta sem ég væri til í að eiga í mínum fataskáp er þessi ljósröndótta sem Emmanuelle Alt, ritstjóri Vogue Paris, var mynduð í. Með svona flíkur í skápnum er maður gulltryggður og það má leika sér með endalausa möguleika.


myndir:
1: Lísa Hjalt / 2-7: Gianni Pucci + Yannis Vlamos af Vogue US


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.