mánudagur, 12. ágúst 2013

Eftirminnilegt sumar



Ég hef verið að hugsa um síðustu tækifærin til að njóta ákveðinna hluta í sumar. Því er ekki enn lokið en það er næstum því komið fram í miðjan ágúst og bara tímaspursmál hvenær við förum að finna fyrir kaldara morgunlofti. Eitt og annað í þessari færslu einkennir kannski meira loftslagið hér á meginlandinu en blóm á gluggasillum er eitt dæmi um þessi síðustu tækifæri til að njóta. Annað er að sitja á fremri veröndinni langt fram eftir kvöldi og lesa eða horfa á fólk labba fram hjá með hundana sína. Nú er ég ekki með fremri verönd hjá mér en ég hef sama útsýnið frá svölunum því það er göngustígur handan garðsins.


Annað dæmi er að njóta morgunkaffibollans úti á verönd eða úti í garði.


Enn annað dæmi er að sigla en þessi mynd er tekin á ágústdegi í Central Park í New York. Ég kalla þetta bátsferð með stæl.


Bráðum lýkur siglingatímabilinu og þá fara skútueigendur að gera skúturnar klárar fyrir veturinn.


Hér í Luxembourg hefur verið afskaplega hlýtt í sumar. Núna fer lofthitinn smám saman að lækka en samt er veðrið dásamlegt. Í gær vorum við að borða úti á svölum frekar seint og þá vafði ég sjali utan um mig sem ég hef ekki gert í langan tíma. Ég fór því að hugsa um nokkra hluti fyrir haustfataskápinn, eins og prjónaðar peysur sem má líka para við sumarpils og -kjóla.


Ég hef líka verið að skoða töskur. Í fyrstu Eftirminnilegt sumar færslunni deildi ég hvítri tösku úr Salt Creek línunni hennar Mary Jo Matsumoto sem er ansi sumarleg. Núna er ég að skoða aðrar töskur frá henni. Á óskalistanum mínum er Thalia Street taskan, sem er úr brúnu leðri sem er brotið upp með mjórri túrkíslitaðri leðurrönd, en ég er líka svag fyrir bláu töskunni úr Trestles línunni hennar. Mjóa neon gula leðurröndin brýtur skemmtilega upp bláa litinn og að innan er taskan klædd ofurfínu grasgrænu rúskinni sem minnir á sumarið.


Ef þið eruð svo heppin að geta tekið auka sumarleyfisdaga í haust þá er um að gera að ferðast á framandi slóðir til þess að lengja sumarið. Ég held að þessi mynd sé nú bara tekin á Spáni en stíllinn virkar marokkóskur. Ég er ekki á leiðinni til Marokkó í haust og læt mig því bara dreyma um indjánasumar í staðinn.


myndir:
1: Steve Steinhardt af síðunni Style Me Pretty / 2: Rob Karosis af Garden Design / 3: Ngoc Minh Ngo af Garden Design / 4: Tip Toes (Central Park, NY) / 5: Koto Bolofo fyrir GQ UK, ágúst 2010 af The Fashionisto | módel: Danny Beauchamp, stílisering: Jo Levin / 6: Alex Cayley fyrir Vogue España, ágúst 2013 af The Fashionography | Bette Franke í Céline, haust 2013, stílisering: Sara Fernández / 7: Trestles Collection taska frá Mary Jo Matsumoto af blogginu hennar Trust Your Style / 8: El Mueble

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.