fimmtudagur, 23. nóvember 2017

Stríðsdagbækur Astrid Lindgren

Stríðsdagbækur Astrid Lindgren: A World Gone Mad · Lísa Hjalt


Á bókalista sem ég birti í mars var að finna stríðsdagbækur Astrid Lindgren, A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45, sem bókaútgáfan Pushkin Press gaf út á ensku síðasta haust (þýð. Sarah Death). Sænska barnabókahöfundinn Lindgren og dásamlegu persónurnar sem hún skapaði þarf vart að kynna fyrir íslenskum lesendum. Ég man enn eftir nestistímum í barnaskóla þegar kennarinn las Á Saltkráku og bókin sem ég las í óteljandi skipti og er mér hvað kærust er Bróðir minn Ljónshjarta. Sem barn spáir maður held ég ekki mikið í persónulegt líf höfundar heldur gleymir sér bara í þeim heimi sem hann skapar. Dagbækur hennar sýndu mér því hlið á höfundinum sem ég vissi ekkert um: Lindgren sem ung móðir að reyna að ná utan um hrylling heimsstyrjaldarinnar, ekki laus við sektarkennd í hlutlausri Svíþjóð.

Hefur ekki nóg verið skrifað um síðari heimsstyrjöldina; hafa dagbækur Lindgren einhverju við það að bæta? Það sem mér þótti áhugavert við lesturinn er að hún er tæplega 32 ára gömul þegar stríðið brýst út og finnur greinilega hjá sér þörf fyrir að halda utan um framgang þess. Hún safnar blaðaúrklippum og skrifar mislangar færslur í leðurbundnar bækur, sautján talsins sem fundust á heimili hennar í Dalagatan í Stokkhólmi eftir andlát hennar árið 2002 (gefnar út í Svíþjóð árið 2015). Bókin inniheldur eingöngu færslurnar sjálfar, og nokkrar myndir, og það sem kom mér á óvart var hversu nákvæm hún var. Ég hélt að ég væri að fara að lesa persónulegar hugrenningar Lindgren en áttaði mig fljótt á því að þetta var bók um stríð á mannamáli.
Stríðsdagbækur Astrid Lindgren: A World Gone Mad · Lísa Hjalt


Lindgren kemur sér beint að efninu og er laus við óþarfa dramatík þó að hún upplifi að sjálfsögðu ótta og reiði. Fyrstu færsluna skrifar hún 1. september 1939 þegar Þjóðverjar ráðast inn í Pólland. Með nokkuð stöðugri rödd ber hún friðsamt lífið í Svíþjóð á stríðstímum - þar sem engin átök áttu sér stað; bara áhrif skömmtunar - við hryllinginn sem á sér stað annars staðar í Evrópu, einkum í nágrannalöndunum Finnlandi og Noregi. Þegar hún fer að vinna fyrir sænsku leyniþjónustuna við ritskoðun pósts erlendis frá þá færist stríðið enn nær; hún minnist einmitt á persónulegt bréf Gyðings („profoundly sad Jewish letter“) á meginlandinu til vinar í Svíþjóð.

Um jólin 1944 dregur af henni og niðurbrot á sér stað, sem margir lesendur sem ekki þekkja Lindgren gætu túlkað sem afleiðingu stríðsins og vinnu hennar: „I've had a hell of a six months this second half of 1944 and the ground beneath me has been shaken to its very foundation; I'm disconsolate, down, disappointed, often melancholy - but I'm not really unhappy.“ Hún skrifar ekki ástæðuna í dagbókina en þeir sem hafa lesið um líf Lindgren vita að það voru vandræði í hjónabandi hennar. Eiginmaður hennar hafði kynnst annarri konu og farið fram á skilnað, sem hann svo fylgdi ekki eftir.

Dagbókaskrifin komu á undan barnabókum Lindgren, en á síðunum má segja að rithöfundur verði til því á stríðsárunum er hún að skrifa sínar fyrstu bækur: „I'm the happiest when I write.“ Þetta er samt ekki eiginleg dagbók rithöfundar eins og margir vilja meina, ekki dagbók með færslum um skrif og stíl. Fyrsta barnabókin hennar, um stúlkuna Britt-Mari, var gefin út 1944 og fyrir hana hlaut hún verðlaun. Í mars 1944 þegar dóttir hennar er rúmliggjandi með mislinga er hún að skrifa handritið að Línu langsokk og á lokasíðum bókarinnar má sjá mynd af höfnunarbréfinu sem henni barst eftir að hún sendi inn handritið í apríl 1944. Ári síðar talar hún aftur um Línu, um endurskrif - „to see if I can make anything of that bad child.“ Við vitum öll hvernig það endaði.

Ég get mælt með þessari bók sem er fljótlesin og, eins og áður sagði, sýndi mér nýja hlið á mínum uppáhaldsrithöfundi úr æsku. Það eina sem ég hef út á hana að setja er smávægilegt: mér fannst skorta fleiri myndir. Þarna eru myndir af Lindgren og fjölskyldu hennar en ég hefði viljað sjá meira af sjálfum færslunum og blaðaúrklippunum, sérstaklega með sumum lykilorrustum sem Lindgren fjallar um í færslum sínum. Það hefði hjálpað til að tengja á sjónrænni hátt við hennar upplifun af stríðinu.

A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45
Höf. Astrid Lindgren
Pushkin Press
Innbundin, 240 blaðsíður, myndskreytt
Kaupa