mánudagur, 24. desember 2012

gleðileg jólJæja, nú eru jólin heldur betur að fara að koma. Bóndinn er búinn að setja hangikjötið í pottinn og lyktin berst um allt hús. Börnin koma reglulega niður og taka einn hring í eldhúsinu - þau bókstaflega elska hangikjöt og við borðum það jú bara einu sinni á ári. Ég er búin að gera grautinn fyrir risalamande-ið og kirsuberjasósuna, sem við berum fram með grautnum.

Við vorum alltaf með kalkúnamáltíð á aðfangadag og vorum þá meira og minna í eldhúsinu allan daginn að undirbúa. Svo gerðist það ein jól þegar við fjölskyldan vorum í Kaupmannahöfn að ofninn í íbúðinni sem við vorum í reyndist bilaður og því ekki hægt að elda kalkún. Það var ekkert annað í stöðunni en að fá sent hangikjöt frá Íslandi. Þennan dag fannst okkur við eiga allan tímann í heiminum því þetta var svo einföld eldamennska. Við ákváðum síðar að taka upp þennan sið, nota aðfangadag til að slaka á í eldhúsinu og stússast meira yfir pottum og pönnum á jóladag.

Hjá mér verða þetta bókajól. Eftir matinn í kvöld hyggst ég koma mér þægilega fyrir á legubekknum og á borðinu bíður mín sæmilegur stafli af bókum. Hluti af þeim er á myndinni. Ég er að vísu búin að lesa appelsínugula doðrantinn, sjálfsævisögu Grace Coddington, sem ég talaði um fyrr á blogginu (er í raun ekki doðrantur því letrið í bókinni er stórt.) Hún var skemmtileg aflestrar en mér fannst vanta meiri dýpt í hana. Hún fer hratt yfir sögu og eyðir yfirleitt ekki mörgum orðum í erfið tímabil í lífi sínu. Hún lýsir vel starfi sínu innan tískugeirans og hún lætur það eiga sig að segja slúðursögur, sem ég kann vel að meta. Mér leiðist það ógurlega að lesa ævisögur fólks sem eru fullar af slúðri um aðra. En eins og ég sagði, það vantar dýpt í bókina.

Bókin sem ég ætla að byrja á eftir matinn og pakkana í kvöld heitir Balenciaga and Spain og er rituð af Hamish Bowles (sá sami og skrifar fyrir Vogue US). Mig hefur lengi langað til að lesa um tískuhönnuðinn Cristóbal Balenciaga (1895-1972) en ég vissi eiginlega ekki hvaða bók ég ætti að velja. Það var svo góð bloggvinkona mín, Ada sem heldur úti blogginu Classiq, sem mælti sérstaklega með þessari. Ég lét eiginmanninn gefa mér hana í jólagjöf og mér líst mjög vel á hana. Hún er stútfull af spænskri menningu og list, akkúrat eins og ég vil hafa tískubækur. Ég ætla svo að klára að lesa Anna Karenina eftir Tolstoy og á bókasafninu um daginn rak ég augun í The Great Gatsby eftir Fitzgerald og ákvað að lesa hana aftur. Ég hugsa að ég komist varla yfir meira þessi jól.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og enda færsluna á einu af mínum uppáhaldsjólalögum, hér í flutningi Coldplay.mynd:
Lísa Hjalt

You Tube: Coldplay / Have yourself a merry little Christmas

fimmtudagur, 20. desember 2012

Rólegur dagur í borginni

Rólegur dagur í Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég þurfti aðeins að skreppa inn í borg í gær og smellti af einni mynd á Rue du St. Esprit þar sem það voru svo fáir á ferli. Það er alltaf jafn fallegt að horfa þarna yfir. Það var töluvert af fólki á verslunargötunum en ég varð ekki vör við neitt jólastress. Þetta eru fyrstu jólin okkar hér og mér sýnist Lúxarar vera nokkuð spakir í desember.

mynd:
Lísa Hjalt

mánudagur, 17. desember 2012

luxembourg: jólamarkaður á place d'armes


Ég fór inn í borg á laugardaginn og ætlaði að festa jóladýrðina á filmu en áttaði mig á því að ég hafði gleymt að hlaða batteríið. Ég náði því ekki að taka nema þessar fjórar myndir áður en vélin fór að hætta að vinna eðlilega. En hvað um það, þær fanga stemninguna á Place d'Armes torgi. Það er torgið sem er í kjarna borgarinnar og út frá því liggja hellulagðar götur með verslunum. Kosturinn við borgarkjarnann í Luxembourg er sá að bílaumferð er mjög takmörkuð og engin í helstu verslunargötunum. Fyrstu myndina tók ég fyrir utan blómabúð á Rue Philippe II, sem er rétt hjá torginu. Það eru alltaf svo sætar skreytingar fyrir utan þessa búð og á laugardaginn var einstaklega jólalegt hjá þeim. Þessi tré með gervisnjó heilluðu mig einna helst.

Ef þið eruð að ferðast um Evrópu á þessum árstíma þá mæli ég með að fara til Luxembourg. Borgin er svo fallega skreytt og allt er frekar lítið og kósí í sniðum.

Þetta var annars notaleg helgi. Þarna á laugardeginum fórum við á bókasafnið og svo kippti ég með sushi á leiðinni heim og át á mig gat. Í gær fórum við að sjá The Hobbit: An Unexpected Journey (2012) og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var ekkert annað en 3D veisla fyrir augað; Peter Jackson og allir þeir sem komu að þessari mynd eru ekkert annað en helv... bölv... snillingar, eins og bóndinn myndi orða það. Nú er ég ekki mikið fyrir svona ævintýramyndir en við erum miklir aðdáendur Lord of the Rings myndanna og vorum búin að bíða spennt eftir þessari. Núna bíðum við enn þá spenntari eftir framhaldinu.

myndir:
Lísa Hjalt

laugardagur, 15. desember 2012

Súkkulaðibitakökur með möndlum og haframjöli

Uppskrift að súkkulaðibitakökum með möndlum og haframjöli · Lísa Hjalt


Í gær lofaði ég ykkur aukafærslu og hér er uppskriftin sem ég minntist á, súkkulaðibitakökur með möndlum og haframjöli. Ég setti þessa saman á fimmtudaginn og bakaði svo kökurnar aftur í gær til að vera alveg viss um að uppskriftin væri skotheld. Í öllu þessu sykursulli sem dynur á fólki fyrir jólin þá er oft ágætt að huga að innihaldinu í því sem við erum að baka. Þessar eru ekki lausar við sykur, alls ekki, en sykurmagnið er hóflegt og það er ekkert smjör í þeim. Þær eru samt dásamlega bragðgóðar.

þriðjudagur, 11. desember 2012

rómantísk og sveitarleg jól


Þessar rómantísku og sveitarlegu myndir eru hluti af auglýsingaherferð H&M Home fyrir jólin í fyrra en eru tímalausar. Ef þessi sæta stofa á fyrstu myndinni væri mín þá myndi ég bara henda út þessari galvaniseruðu fötu og nota fallega viðarfötu eða -kassa í staðinn. Ég þoli ekki galvaniseraðar vörur innandyra. Ég set þær í sama flokk og bækur raðaðar eftir litum; mér verður beinlínis illt í augunum þegar ég sé svoleiðis.

Eruð þið ekki annars komin í jólaskap? Ég er að byrja að undirbúa afmælisveislu fyrir yngstu dótturina sem er ellefu ára í dag. Hún ætlar að koma með tvær vinkonur heim eftir skóla og ég er náttúrlega búin að lofa að baka allt sem hún bað um. Ég er voðalega fegin að eiga ekki von á öllum stelpunum í bekknum í hús. Ég er lítið fyrir risastór barnaafmæli og sem betur fer eru börnin á sömu skoðun.

myndir:
H&M Home jól 2011 auglýsingaherferð

fimmtudagur, 6. desember 2012

rýmið 16


- stofa í Upper West Side, NY
- hönnuður og eigandi Susan Becher

mynd:
Patrick Cline fyrir Lonny, nóvember/desember 2011, bls. 203


miðvikudagur, 5. desember 2012

holmegaard jólastemning


Ein af mínum uppáhaldsborgum í desember er án efa Kaupmannahöfn. Ég var svo heppin að búa í borginni um tíma og upplifði því danska jólastemningu til hins ítrasta. Það jafnaðist fátt á við það að rölta um skreyttar götur og taka einn hring í Illums Bolighus til að dást að fallegri skandinavískri hönnun. Jólavörurnar frá Holmegaard voru í miklu uppáhaldi og eru enn. Ég fann þessar myndir á síðunni þeirra. Þær eru frá því í fyrra en hönnunin er klassísk.

myndir:
af vefsíðu Holmegaard