þriðjudagur, 11. júní 2019

№ 21 bókalisti: ritgerðir eftir Zambra

№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Hjalt


Jæja, það er kominn tími á fyrsta bókalista sumarsins. Samkvæmt hefð er eitt ritgerðasafn á honum, Not to Read eftir chileska rithöfundinn Alejandro Zambra (No Leer á spænsku). Í þeirri fyrstu viðurkennir hann að hafa sem krakki horft á Madame Bovary (1949) fyrir próf í stað þess að klára að lesa bókina. Til hliðar við rautt F skrifaði kennarinn hans: „Vincente Minnelli!!“ Þessar stuttu ritgerðir eru konfekt fyrir bókaunnendur. Ég ætlaði að hafa á listanum skáldsögu sem ég var byrjuð að lesa, The Friend eftir Sigrid Nunez sem hlaut verðlaunin National Book Awards fyrir bókmenntir árið 2018, sem veitt eru í BNA. Mér fannst hún áhugaverð, einkum vegna bókmenntalegra tilvísana (sögumaðurinn er rithöfundur), en svo fór mér að leiðast ritstíllinn og ég kláraði hana ekki. Það er heilsusamlegt að endurlesa eitthvað gott eftir lestur sem veldur vonbrigðum; ég valdi Mávinn eftir rússneska leikskáldið Anton Chekhov.

№ 21 bókalisti:
1  Not to Read  · Alejandro Zambra
2  The Collected Stories of Grace Paley 
3  Milkman  · Anna Burns
4  Disgrace  · J. M. Coetzee
5  The Voyage Out  · Virginia Woolf
6  Journal of Katherine Mansfield  · ritstj. John Middleton Murry
7  The Seagull  · Anton Chekhov

Enskar þýðingar: 1) Not to Read: Megan McDowell; 7) The Seagull: Laurence Senelick

Þið sem fylgist með blogginu vitið að Virginia Woolf er í miklu uppáhaldi. Háskólabókasafnið í Bremen á gömul bindi af öllum verkum hennar frá Hogarth Press, útgáfunni sem hún og maðurinn hennar Leonard settu á fót. Þessar innbundnu útgáfur eru fagurgrænar að lit og fyrst fékk ég The Voyage Out, hennar fyrstu skáldsögu, að láni bara til að fletta henni. Bókin er ekki mín uppáhalds eftir Woolf en ég stóðst ekki freistinguna og ákvað að endurlesa hana.
№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Hjalt


Ég viðurkenni að stundum sakna ég gömlu bloggvenja minna, þegar ég safnaði myndum af innlitum í möppur og gat ekki beðið eftir að deila þeim. Þið kunnið að hafa tekið eftir að stundum nota ég myndir af málverkum í bloggfærslur, en núna ákvað ég að sýna ykkur tvö rými á heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London, sem birtist í tímaritinu House & Garden UK. Þessi listrænu horn - þar sem kaffiborðinu bregður fyrir og bókahillunni við gluggann - höfða til áhugakonunnar um innanhússhönnun innra með mér. Fágað og smekklegt.

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte
Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London. House & Garden UK

myndir mínar | heimild: House & Garden UK · Greg Funnell