þriðjudagur, 22. mars 2016

№ 1 bókalisti: M Train eftir Patti Smith

№ 1 bókalisti: M Train eftir Patti Smith


Ég sit hérna með kaffibollann minn í örygginu á mínu eigin heimili. Mér er brugðið og ég finn fyrir dofa og sorg yfir atburðum í Brussel. Innra með mér er líka einhver tilfinning sem ég á ekki orð yfir. Eins og flest ykkar vita bjuggum við í Belgíu í tvö ár og fyrstu hugsanirnar voru, Er í lagi með vini okkar? Flestir þeirra búa í Antwerpen og sem betur fer höfum við ekki fengið neinar slæmar fréttir. Þegar ég horfi á fréttirnar þá get ég ekki annað en hugsað um það að íslenska sendiráðið er bara rétt hjá Maelbeek-stöðinni. Þegar maður hefur rölt um þessar götur þá er þessi óhugnaður á einhvern hátt of nálægt manni.

···

Horfandi á bunkann sem ég kom með heim af bókasafninu fannst mér það skrýtið að fara beint frá því að lesa dagbækur og verk eftir Virginiu Woolf yfir í M Train eftir Patti Smith. Það alla vega hljómaði skrýtið. Skyndilega kom upp í kollinn á mér, Bíddu nú við, sá ég ekki viðtal við Patti sem var tekið í Charleston-húsinu? Listamennirnir Vanessa Bell (systir Woolf) og Duncan Grant áttu þar heimili. Ég leitaði og fann viðtalið á YouTube og þarna var hún, að dást að húsinu og listrænu lífi Bloomsbury-hópsins. Ég fann meira að segja upptöku af því þegar Smith les verk eftir Woolf fyrir sal fullan af fólki.

Að fara frá Woolf yfir í Patti Smith virkaði núna ósköp eðlilegt.

Patti Smith byrjar M Train á orðunum: "Það er ekki svo auðvelt að skrifa um ekkert" (It's not so easy writing about nothing). Ef hún er að skrifa um ekkert þá gerir hún það svo sannarlega vel. Ég gat varla slitið mig frá lestrinum og áður en ég kláraði bókina var ég ákveðin í að kaupa mér eintak. Til að gefa ykkur hugmynd um þetta „ekkert“ þá drekkur lesandinn kaffi með Patti í Greenwich Village-hverfinu í New York (og syrgir líklega Café 'Ino á Bedford Street), heimsækir grafir rithöfunda í ýmsum heimshornum og horfir á glæpaþáttaseríur. Muniði eftir Linden og Holden úr The Killing, amerísku útgáfunni af dönsku seríunni Forbrydelsen? Þau eru þarna. Haruki Murakami er þarna; eftir að Patti las bók hans The Wind-Up Bird Chronicle varð ekki aftur snúið. Það mikilvægasta á síðunum er nærvera eiginmanns hennar Fred Sonic Smith sem féll frá 1994. Á einum punkti kemur hjartnæmt ákall: „Þú hefur verið nógu lengi í burtu. Komdu bara aftur“ (You've been gone long enough. Just come back - bls. 171). Að vissu leyti fjallar M Train um ekki neitt, eftir lesturinn situr samt svo mikið eftir. Einu vonbrigðin voru að bókin tók enda. Ég get ekki beðið eftir því að redda mér eintaki af Just Kids, æviminningunum sem færðu henni verðlaunin National Book Awards árið 2010. Skömmustuleg verð ég að viðurkenna að þá bók hef ég ekki lesið.


Kannski undir áhrifum Virginiu Woolf, sem stundum skrifaði bókalista í dagbókina sína, deili ég mínum bókalista fyrir þetta vor:

1  M Train  · Patti Smith
2  Among the Bohemians  · Virginia Nicholson
3  The Shadow of the Sun  · Ryszard Kapuscinski
4  Timebends: A Life  · Arthur Miller
5  The Great Railway Bazaar: By Train Through Asia  · Paul Theroux
6  African Textiles  · John Gillow
7  Japanese Textiles: In the Victoria and Albert Museum  · Anna Jackson
8  Art: A New History  · Paul Johnson

Fyrstu bókina er ég jú búin með. Ég er byrjuð á næstu tveimur á listanum og verð að segja að bók Nicholson kom mér skemmtilega á óvart. Þegar ég byrjaði á sjálfsævisögu Miller þá fangaði hún mig strax og ég held að eitt af leikritum hans rati á næsta bókalista. Það eru nefnilega mörg ár síðan ég las verk eftir hann.


mánudagur, 14. mars 2016

Wild Thing í red emerald frá Lewis & Wood

Wild Thing mynstrið frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt


Textílprufan hér að ofan er bútur af efninu Wild Thing í litnum red emerald frá Lewis & Wood sem ég hef dáðst að mánuðum saman. Síðasta haust sendu þau mér bunka af textílprufum og þessi tiltekna var sú fyrsta sem fangaði athygli mína. Ég hafði séð efnið í heild sinni - djarft mynstur með laufum, blómum og dýralífi - á heimasíðunni og get ekki sagt að það hafi höfðað neitt sérstaklega til mín, kannski vegna þess að það voru læti í því; eins og það væri of villt fyrir minn smekk. Þegar ég sneri prufunni við til að skoða upplýsingarnar á bakhliðinni þá hélt ég fyrst að búturinn hefði verið ranglega merktur. Þegar hugurinn fór svo smám saman að átta sig á því að þetta væri í raun Wild Thing mynstrið þá gerði ég mér grein fyrir því hversu mikilvægt það er að skoða vel smáatriði í textílhönnun áður en maður dæmir.



Mótífin í mynstrinu eru blóm, lauf, fuglar og api. Það sem að mínu mati gerir efnið einkum áhugavert er hversu óhefluð jurtalitunin er. Það eru útlínur í efninu en litirnir eru bæði innan og utan lína, sem gerir hönnunina jafnvel villtari og meira lifandi.

Wild Thing í litunum red emerald og ginger kiwi frá Lewis & Wood

Wild Thing mynstrið er fáanlegt í þremur litaafbrigðum: copper cobalt, ginger kiwi, og í fyrrnefndu red emerald. Ég held að copper cobalt afbrigðið (hér að neðan) sé kjörið fyrir þá sem vilja fara eilítið rólegra í sakirnar en fyrir mig hefur red emerald vinninginn. Ég á auðvelt með að sjá það efni fyrir mér sem gluggatjöld í svefnherberginu síðar meir.

Wild Thing í litnum copper cobalt frá Lewis & Wood



miðvikudagur, 2. mars 2016

Casa No Name - hús Deborah Turbeville

Casa No Name - hús Deborah Turbeville · Lísa Hjalt


Á föstudaginn lofaði ég að birta síðar nokkrar myndir sem ég smellti af innliti í Mexíkó. Umfjöllunin, sem kallast Destination unknown, birtist í desembertöluhefti 2015 af The World of Interiors (ljósmyndari Ricardo Labougle). Húsið átti Deborah Turbeville heitin (1932-2013), en hún var þekktur tískuljósmyndari og lifði eins konar hirðingjalífi. Hún skírði húsið Casa No Name, en það er staðsett í hinni sögulegu borg San Miguel de Allende í mexíkóska ríkinu Guanajuato. Þegar Turbeville keypti húsið var það í hræðilegu ásigkomulagi, en ef þið þekkið til verka hennar þá skiljið þið út af hverju það heillaði hana. Vinur hennar sem hafði umsjón með framkvæmdunum, sem tóku tvö ár, sagði vinnumönnunum að gera þetta ekki of fullkomið, „Senjorídan vill hafa það þannig“ (bls. 190). Það er ekkert eitt sem dregur mig að húsinu heldur er það mikilfengleikinn sem hrífur mig; glæsilegt safn af mynstruðum textíl, litir, gifsveggir, þakverönd . . . þetta er það sem meint er þegar talað er um að gera hús að heimili.


Árið 2009 kom út á vegum Rizzoli bókin Casa No Name eftir Turbeville sjálfa. Ég hef séð nokkrar myndir úr henni og hún er ekki allra. Við skulum bara orða það þannig að hún sé öðruvísi bók um innanhússhönnun og innihaldi margar hreyfðar myndir. Eldheitir Turbeville-aðdáendur verða ekki fyrir vonbrigðum.

Ég fann stutt viðtal við Turbeville á YouTube, sem var tekið í húsinu hennar Casa No Name þegar Toast var að ljósmynda þar línuna sína fyrir vor/sumar 2010.


Fyrir alla sem hafa áhuga á tískuljósmyndun get ég mælt með bókinni Deborah Turbeville: The Fashion Pictures. Hún er einnig gefin út af Rizzoli og í henni er að finna hinar frægu en umdeildu baðhúsmyndir sem hneyksluðu margar þegar þær birtust í Vogue árið 1975.
Casa No Name í tímaritinu The World of Interiors · Lísa Hjalt


myndir mínar | heimild: The World of Interiors, desember 2015, Destination unknown, bls. 182-191 · Ricardo Labougle