miðvikudagur, 2. mars 2016

Casa No Name - hús Deborah Turbeville

Casa No Name - hús Deborah Turbeville · Lísa Hjalt


Á föstudaginn lofaði ég að birta síðar nokkrar myndir sem ég smellti af innliti í Mexíkó. Umfjöllunin, sem kallast Destination unknown, birtist í desembertöluhefti 2015 af The World of Interiors (ljósmyndari Ricardo Labougle). Húsið átti Deborah Turbeville heitin (1932-2013), en hún var þekktur tískuljósmyndari og lifði eins konar hirðingjalífi. Hún skírði húsið Casa No Name, en það er staðsett í hinni sögulegu borg San Miguel de Allende í mexíkóska ríkinu Guanajuato. Þegar Turbeville keypti húsið var það í hræðilegu ásigkomulagi, en ef þið þekkið til verka hennar þá skiljið þið út af hverju það heillaði hana. Vinur hennar sem hafði umsjón með framkvæmdunum, sem tóku tvö ár, sagði vinnumönnunum að gera þetta ekki of fullkomið, „Senjorídan vill hafa það þannig“ (bls. 190). Það er ekkert eitt sem dregur mig að húsinu heldur er það mikilfengleikinn sem hrífur mig; glæsilegt safn af mynstruðum textíl, litir, gifsveggir, þakverönd . . . þetta er það sem meint er þegar talað er um að gera hús að heimili.


Árið 2009 kom út á vegum Rizzoli bókin Casa No Name eftir Turbeville sjálfa. Ég hef séð nokkrar myndir úr henni og hún er ekki allra. Við skulum bara orða það þannig að hún sé öðruvísi bók um innanhússhönnun og innihaldi margar hreyfðar myndir. Eldheitir Turbeville-aðdáendur verða ekki fyrir vonbrigðum.

Ég fann stutt viðtal við Turbeville á YouTube, sem var tekið í húsinu hennar Casa No Name þegar Toast var að ljósmynda þar línuna sína fyrir vor/sumar 2010.


Fyrir alla sem hafa áhuga á tískuljósmyndun get ég mælt með bókinni Deborah Turbeville: The Fashion Pictures. Hún er einnig gefin út af Rizzoli og í henni er að finna hinar frægu en umdeildu baðhúsmyndir sem hneyksluðu margar þegar þær birtust í Vogue árið 1975.
Casa No Name í tímaritinu The World of Interiors · Lísa Hjalt


myndir mínar | heimild: The World of Interiors, desember 2015, Destination unknown, bls. 182-191 · Ricardo Labougle

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.