föstudagur, 31. október 2014



Það stóð nú alltaf til að tilkynna að ég væri á leiðinni í stutt bloggfrí fram í næstu viku vegna haustfrís í skólum barnanna, en það fór svo að ég tilkynnti það bara á ensku útgáfunni. Undanfarnar vikur hafa leitað á mig hugmyndir að breytingu á bloggunum og núna í fríinu hafa þær orðið skýrari og eiginlega ekki látið mig í friði. Án þess að fara nánar út í þær hér þá ætla ég að gera hlé á íslensku útgáfu bloggins fram yfir áramótin og nota frekar tímann til að leika mér aðeins með þessar hugmyndir mínar. Ég mæti aftur til leiks á ensku útgáfunni á miðvikudaginn í næstu viku.

Gleðilega hrekkjavöku!

fimmtudagur, 16. október 2014

Innlit: fyrrum textílverksmiðja í Como



Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta innlit. Ítalski arkitektinn og listamaðurinn Marco Vido endurgerði þetta ris í Como á Ítalíu en á 3. áratugnum var húsið textílverksmiðja. Ég er í einhvers konar haltu mér-slepptu mér sambandi við iðnaðarstíl því stundum finnst mér hann of kaldur og fráhrindandi. Hérna finnst mér hafa vel tekist til því það er nóg af hlýjum við sem skapar jafnvægi. Auk þess finnst mér svörtu gluggarnir svakalega flottir.


myndir:
Nathalie Krag fyrir Interior Design, ágúst 2014 af Pinterest

miðvikudagur, 15. október 2014

Rýmið 76



- forstofa íbúðar í Mílan
- eigandi og hönnuður Roberto Peregalli (og Laura Sartori Rimini), innblásinn af hönnuðinum Lorenzo (Renzo) Mongiardino

mynd:
The World of Interiors, júlí 2013 af síðu Jane Ellsworth Interiors/Pinterest

miðvikudagur, 8. október 2014

Handmáluð viskustykki frá Bertozzi


Í vikunni uppgötvaði ég vefsíðu AllÓRA, sem er verslun í London sem selur hvers kyns ítalskt handverk. Ítalska orðið allóra þýðir ,í fortíðinni' og kjörorð fyrirtækisins eru ,oggi come AllÓRA' sem mætti þýðast 'í dag sem þá'. Hjá AllÓRA hafa þau myndað náið samband við handverksfólkið og þau leggja áherslu á gæði vörunnar og að hún sé ekta, að handverkið sé fallegt og unnið með ástríðu. Verslunin, sem er einnig netverslun, býður upp á gott úrval en það sem aðallega fangaði athygli mína voru handmáluðu viskustykkin frá ítalska fyrirtækinu Stamperia Bertozzi.
Handmáluð viskustykki frá Bertozzi · Lísa Hjalt


Stamperia Bertozzi er ítalskt fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1920. Þau nota fornar handverksaðferðir til að búa til handmáluð og handprentuð efni með ástríðu. Þau blanda litina sjálf og nota blöndur sem hafa varðveist innan fjölskyldunnar, frá einni kynslóð til annarrar.

Þessi stílhreinu viskustykki - línan kallast Gradation - eru unnin úr 100% líni. Efnið sem er notað í viskustykkin er lífrænt og ofið í vefstól sem skilar efni sem er mjúkt viðkomu. Með tímanum tekur það breytingum og verður bara fallegra í útliti.

Þegar efnið er málað er það ekki bara sett til hliðar og látið þorna heldur er línið unnið þrisvar sinnum og málað með mismunandi litatón í hvert sinn. Að lokum nota þau sérstaka Bertozzi handverksaðferð til að festa litinn sem felst í því að nota gufu sem er drifin með sólarorku. Útkoman er skær eða sterkur litur sem endist lengur.

Ég féll kylliflöt fyrir viskustykkjunum í bláu (indigo) og brúnu (cacao) og myndi gjarna vilja sjá þau í mínu eldhúsi, en Gradation-línan er einnig fáanleg í grænu og bleiku.

- stærð – 70 x 55 cm - má fara í þvottavél - þarf ekki að strauja


AllÓRA | 66 Oxford Gardens | London W10 5UN
Sími: +44 (0)20 3701 4076 | Netfang: info@allorashop.com

myndir:
af vetsíðu AllÓRA

þriðjudagur, 7. október 2014

Rýmið 75



- stofa í húsi á nýsjálensku eyjunni Waiheke Island, Auckland
- hönnun Fearon Hay Architects

mynd:
Patrick Reynolds fyrir Fearon Hay Architects af vefsíðu ArchDaily

fimmtudagur, 2. október 2014

Innlit: þakíbúð með verönd í East Village, NY



Á fimmtudögum á ensku útgáfu bloggsins er ég með seríu þar sem ég birti veröndir og önnur útisvæði. Í dag var ég með stóra verönd virklega fallegrar þakíbúðar í East Village hverfinu í New York og hugsaði með mér, því ekki að deila innri rýmunum hér á íslensku útgáfunni. Það var arkitektinn Michael Neumann sem hjálpaði eigendunum að ráðast í endurnýjun og miklar breytingar á húsnæðinu. Glerhurðirnar með svörtu römmunum og bogadregnu gluggarnir sem einkenna rýmið finnst mér hafa heppnast ákaflega vel, en samtals fimm hurðir opnast út á veröndina. Stíllinn er hrár en samt hlýlegur, mikið er um muni úr náttúrulegum efnum og brúnir tónar eru einkennandi.


Einn eigandanna er einn af yfirmönnum hjá Ralph Lauren veldinu og því er að finna mikið af húsgögnum og munum fyrir heimilið frá Ralph Lauren Home, til dæmis sófann og stólana í stofunni. Rammaða prentverkið fyrir ofan arininn er eftir Richard Serra.


Persónulega langaði mig að sleppa að nota þessa mynd af borðstofunni því mér finnst borðskreytingin svo yfirdrifin eða, svo ég segi það bara hreint út, forljót. En hin myndin sem ég fann var bara of lítil. Ég vildi samt sýna ykkur rýmið því þaðan sést vel út á veröndina og myndin sýnir hurðirnar og gluggana vel. Það er annars alveg merkilegt hvað þetta er algeng stílisering í innlitum í amerískum tímaritum, eins og það þurfi alltaf að vera einhver svakalegur vasi með risastórum blómum eða greinum ofan á hringborði sem gnæfir yfir allt annað. Þess má geta að stólarnir í iðnaðar- eða verksmiðjustílnum eru gamlir Tolix stólar og eru líka notaðir við borðið á veröndinni.


myndir:
Miguel Flores-Vianna fyrir Architectural Digest, apríl 2012