föstudagur, 22. ágúst 2014

Sýnishorn: CafeSigrun uppskriftabókin

CafeSigrun uppskriftabókin · Lestur & Latte


Fyrr í vikunni sagði ég ykkur að uppskriftir væru mér hugleiknar þessa dagana, meira en venjulega, og nú langar mig að segja ykkur út af hverju (enginn föstudagsblómapóstur í dag). Ég tók að mér að ritstýra bókinni hennar Sigrúnar vinkonu minnar sem heldur úti CafeSigrun vefsíðunni, þar sem má heldur betur finna úrval af frábærum uppskriftum sem eru lausar við hvítan sykur, hvítt hveiti, ger og fleira. Sigrún hefur haldið úti vefsíðunni í fjölmörg ár, með mjög svo óeigingjörnu starfi, og núna er hún að koma með sína fyrstu uppskriftabók. Hún vann allar uppskriftirnar sjálf í eldhúsinu sínu (fyrst í London, þar sem hún bjó áður, og svo heima á Íslandi) og tók einnig allar myndirnar sjálf. Þess má geta að hún er í fullu námi í klínískri barnasálfræði og á auk þess tvö lítil kríli þannig að þetta hefur verið mikil vinna, en vel þess virði því bókin verður virkilega falleg.
CafeSigrun uppskriftabókin


Þessa dagana hugsa ég eiginlega í uppskriftum og á skrifborðinu eru ekkert nema útprentaðir kaflar frá Sigrúnu. Ég gæti allt eins svarað með orðinu múskat eða grasker ef einhver spyrði mig hvernig ég hefði það. Eins gaman og þetta er þá verð ég að viðurkenna að um leið er þetta eins konar sjálfspynting því þegar ég samþykkti að aðstoða Sigrúnu þá gleymdi ég einu atriði: Öllum myndunum sem verða í bókinni sem ég fæ í tölvupósti! Ég sit hér í sakleysi mínu að lesa yfir kafla þegar tölvupóstur berst með ekki einni heldur kannski fimm myndum af guðdómlegustu súkkulaðisneið sem fyrir finnst (þessar sem innihalda alvöru súkkulaði sem glampar á!) og svo spyr Sigrún eins og ekkert sé: „Hver er best?“ Og þegar ég hef rétt jafnað mig á þessari sendingu þá berst annar póstur með kannski svakalega girnilegum grænmetisrétti, fiskrétti, salati, súpu, brauði, ís, konfekti og ég veit ekki hvað. Og svona er þetta alla daga. Alla! Bara nú í dag hef ég fengið um 10 myndir eða svo.

Myndirnar í þessari bloggfærslu eru bara örlítið brot af kræsingunum í bókinni (og fyrrnefndri sjálfspyntingu!).
CafeSigrun uppskriftabókin


Það er enn ekki kominn útgáfudagur á bókina, sem Forlagið gefur út, en ég segi ykkur að sjálfsögðu hvenær það gerist. Handritinu skilar Sigrún inn núna í byrjun september og við erum auðvitað voðalega spenntar yfir þessu öllu. Næstu viku ætlum við að nota til þess að fínpússa handritið fyrir skil og því ætla ég að taka frí frá bloggskrifum.

Ég óska ykkur góðrar helgar og vona að þessir síðustu dagar ágústmánaðar leiki við ykkur!

myndir:
Sigrún Þorsteinsdóttir - CafeSigrun

þriðjudagur, 19. ágúst 2014

Tzatziki eftir listakonuna Felicita SalaUppskriftir eru mér ansi hugleiknar þessa dagana, enn meira en venjulega. Ég segi ykkur síðar út af hverju. En í matarvímu hérna áðan (lasagna í matinn og lífrænt súkkulaði í dessert) þá mundi ég allt í einu eftir þessum skemmtilegu prentverkum með uppskriftum eftir listakonuna Felicita Sala.

Þessi væri nú svolítið sæt á vegg í eldhúsinu yfir sumartímann, er það ekki?

mynd:
Felicita Sala Illustrations af Pinterest

fimmtudagur, 14. ágúst 2014

Rýmið 70- borðstofa í uppgerðu húsi í Silver Lake, Los Angeles í eigu stílistans Jessica de Ruiter (C, Elle, Harper’s Bazaar, W) og listamannsins Jed Lind (skúlptúr)
- ljósakrónan er upprunaleg Paavo Tynell hönnun; það kemur ekki fram í innlitinu í C Home en ég held að þetta sé örugglega Saarinen túlipanaborð
- arkitekt Gregory Ain (1908-1988)

mynd:
Douglas Friedman af vefsíðu C Home

miðvikudagur, 13. ágúst 2014

Í minningu Lauren Bacall og Robin Williams
Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni að í vikunni kvöddum við tvær stórar stjörnur, Lauren Bacall (f. 1924) og Robin Williams (f. 1951). Bacall var orðin 89 ára gömul og hafði skilað sínu, en andláti Williams er erfiðara að kyngja. Það er dapurlegt og sýnir okkur alvarleika þunglyndis, og líka þá hlið á Hollywood sem við vitum að er falin á bak við glamúrinn og gleðina á rauða dreglinum, hlið sem sjáum sjaldan nema þá kannski hjá ungum leikurum sem leiðast út í óreglu og virðast lifa lífinu í beinni.

Eins og segir í gömlu viðtali við Lauren Bacall í Vanity Fair frá árinu 2011 er hún „síðasta vitnið að gullnu öldinni“ í Hollywood. Fyrsta hlutverk hennar var í kvikmyndinni To Have and Have Not (1944) þar sem hún aðeins 19 ára lék á móti og kynntist Humphrey Bogart, sem var 25 árum eldri. Þau gengu í hjónaband árið 1945 og eignuðust tvö börn, og ólíkt því sem gengur og gerist í kvikmyndaborginni voru þau gift þar til Bogart lést af völdum hálskrabbameins árið 1957. Hún lék í fjölmörgum myndum og var ógleymanleg sem Vivian Rutledge í The Big Sleep (1946) þar sem hún lék aftur á móti Bogart.

Bacall var glæsileg kona og ein af þeim sem hélt glæsileikanum á efri árum, eins og sést á ljósmyndunum hér að ofan. Ein af mínum uppáhaldskvikmyndum er einmitt ein af síðari myndum hennar, The Mirror Has Two Faces (1996) í leikstjórn Barbra Streisand. Bacall var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt. Þær stöllur leika mæðgur með töluvert ólíka sýnið á lífið og tilveruna og þessi eldhússena er afbragð.

Þess má svo geta að Bacall bjó í Dakota-byggingunni í New York, þeirri sömu og John Lennon. Hún heyrði byssuskotin þegar hann var myrtur fyrir utan bygginguna í desember 1980 en hélt að skotin væru bara hvellir úr bíl.


Því verður ekki neitað að Robin Williams var stórkostlegur gamanleikari en það voru einkum hlutverk hans í alvarlegri kvikmyndum sem heilluðu mig. Hann náði fyrst til mín í Dead Poets Society (1989), í leikstjórn Peter Weir, en fyrir leik sinn fékk hann tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir aðalhlutverk í annað sinn (sú fyrsta var fyrir Good Morning, Vietnam (1987) og sú þriðja fyrir The Fisher King (1991)). Hann lék kennara með sérstakar kennsluaðferðir í mjög svo íhaldssömum skóla og lokasenan kallar fram gæsahúð í hvert sinn. Það er svo ekki hægt að minnast Williams án þess að nefna aukahlutverkið í Good Will Hunting (1998), en fyrir það fékk hann sinn fyrsta og eina Óskar. Ég man ekki hvort það var í viðtali sem ég sá við Ben Affleck eða Matt Damon, sem skrifuðu handritið saman (fengu Óskar fyrir) og léku í myndinni, þar sem fram kom að um leið og Williams samþykkti að vera með opnuðust allar gáttir og allir voru tilbúnir að leggja fram krafta sína.

Þegar ég hugsa um Williams þá kemur leikarinn Billy Crystal alltaf upp í hugann líka en þeir unnu lengi saman ásamt Whoopi Goldberg að uppistandi sem kallaðist Comic Relief. Ef þið eruð gamlir Friends-arar þá ættuð þið að muna eftir þeim félögum Williams og Crystal sem gestaleikurum í þessari kaffihúsasenu. Ég get ekki sleppt því að minnast á uppáhaldsþáttinn minn, Inside the Actors Studio, en þar átti hann ógleymanlega stund með James Lipton og nemendunum. Einn í salnum endaði víst á spítala eftir allan hláturinn! Hér er brot af því besta en endilega leitið að og horfið á þáttinn í fullri lengd á YouTube. Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

myndir:
1: af vefsíðu TSM | 2: af TSM | 3: Sean Hagwell

mánudagur, 11. ágúst 2014

Uppskrift: gulrótarmöffinsÉg var að afsaka mig á matarblogginu fyrir að hafa ekki birt uppskrift síðan í desember á síðasta ári! Já, þið lásuð rétt. Ég þarf víst að afsaka mig hér líka því ég birti ekki eina einustu færslu í síðustu viku. Vikan hreinlega flaug frá mér; ég ætlaði alltaf að birta eitthvað að kvöldi til og mundi svo þegar ég lagðist á koddann að ég hafði gleymt því. En hér er ég mætt að nýju með uppskrift að gulrótarmöffinsum. Vonandi eruð þið í stuði fyrir bakstur. Mig langaði samt að segja að það verður kannski rólegt hérna á íslensku útgáfunni í ágúst því ég er frekar upptekin þessa dagana.