miðvikudagur, 22. mars 2017

Nellikur á skrifborðinu mínu



Um daginn vorum ég og sonurinn að borða morgunmat þegar hann spurði mig hver væru uppáhaldsblómin mín. Án umhugsunar svaraði ég nellikur (á borðinu var vasi með gulum). „Af hverju?“ spurði hann. „Af því þær eru svo endingargóðar,“ sagði ég „þær lifa svo lengi.“ Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég svarað hvítir túlipanar eða bóndarósir (sem ég kalla alltaf peóníur). Þegar ég hugsa um það þá get ég varla gert upp á milli þessara þriggja, en nellikur eru blóm sem ég kaupi oftast (Spánverjar vissu hvað þeir sungu þegar þeir völdu rauða nelliku sem þjóðarblóm). Ég tók þessa mynd í morgun þegar ég var að njóta lattebolla með múskati. Nellikur og bókastaflar eru algeng sjón á skrifborðinu mínu. Njótið dagsins!



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.