fimmtudagur, 21. apríl 2016

Carrington og Strachey | Gleðilegt sumar

Carrington og Strachey | Gleðilegt sumar · Lísa Hjalt


Þessi uppsetning eða stemning er orðin kunnugleg; ég á púða á gólfinu umvafin bókum (málverkið í bókinni er eftir Vassily Kandisky, Capricious Forms, 1937) og tímaritum, stundum með kvikmynd eða dramaþáttaröð í spilaranum. Það vantar bara kaffibollann. Á breska Netflix voru þeir að bæta við spennuþáttaröðinni The Honourable Woman frá BBC, sem mér fannst gaman að sjá aftur (var held ég sýnd á RÚV í fyrra). Leikaravalið er frábært en að mínu mati ber Stephen Rea af. Einnig má finna þar eina af mínum uppáhaldsmyndum, Testament of Youth (2014), sem gerist á tímum Fyrri heimsstyrjaldarinnar og skartar Alicia Vikander í aðalhlutverki. Myndin er byggð á æviminningum Veru Brittain sem bera sama heiti. Leikmyndin er glæsileg; einnig búningarnir. Ein af mínum eigin myndum sem ég hef látið rúlla í spilaranum undanfarið er Carrington (1995), sem fjallar um sérstakt samband listakonunnar Doru Carrington (1893-1932) og rithöfundarins Lytton Strachey (1880-1932).

Carrington og Strachey, sem leikararnir Emma Thompson og Jonathan Pryce túlka, tilheyrðu Bloomsbury-hópnum. Strachey var samkynhneigður en samband hans og Carrington var afar sérstætt og þau bjuggu saman. (Ef þið eruð stödd í London og langar á safn þá getiði séð mynd sem hún málaði af honum í National Portrait Gallery.) Saga þeirra er svo sannarlega ástarsaga, en annars eðlis, með harmrænum endalokum. Carrington tók sitt eigið líf stuttu eftir að Strachey andaðist eftir baráttu við krabbamein. Thompson er dásamleg í sínu hlutverki en þar sem Strachey var afar hnyttinn og orðheppinn þá stelur Pryce oft senunni. Penelope Wilton (Isobel Crawley úr Downton Abbey) í hlutverki Lady Ottoline Morrell er einnig senuþjófur. Hún er einfaldlega frábær. Í öllu sem hún leikur í.

Bókalistinn minn lengist sífellt og á honum er að finna Strachey. Mig langar að lesa Lytton Strachey: The New Biography eftir Michael Holroyd og einnig The Letters of Lytton Strachey í ritstjórn Paul Levy. Ég á bara eftir að ákveða hvora ég les fyrst. Hafiði lesið þær?

Gleðilegt sumar!



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.