Sýnir færslur með efnisorðinu dora carrington. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu dora carrington. Sýna allar færslur

laugardagur, 13. apríl 2019

Vorstemningin

Vorstemning, textíll · Lísa Stefan


Í fullkomnum heimi. Nei, við skulum segja betri, fullkomnun er leiðinleg. Í betri heimi sit ég í baststól á veröndinni og finn varma sólarinnar í gegnum markísuna. Á borðinu hvílir bókastafli, við hlið kaffibollans og pressukönnunnar eru minnisbækur. Stuðningurinn við bakið er þykkur, mjúkur púði með ábreiðu gerðri úr einum af mynstraða textílnum sem sést á myndinni hér að ofan, sem ég kalla: Vorstemningin mín með Annie Ernaux og Schuyler Samperton Textiles.

Raunveruleikinn er sá að ég sit innandyra. Sú harða birta sem einkennir byrjun vorsins er enn til staðar og þó að brum hafi blómgast hafa sólríku dagarnir, sem lofuðu almennilegu vori, orðið kaldari (í dag kom haglél). Að bíða eftir vorinu er ekki mín sterkasta hlið. Góðu fréttirnar eru þær að ein af bókunum sem ég er að lesa hefur verið tilnefnd til Alþjóðlegu Man Booker verðlaunanna: æviminningar Annie Ernaux, The Years, sem þýdd er úr frönsku af Alison L. Strayer. Fyrir utan að vera skotin í eintakinu mínu, sem er gefið út af Fitzcarraldo Editions, verð ég að segja að frásögnin, skrifuð í þriðju persónu, heillar mig. Ég man ekki eftir að hafa lesið æviminningar í þriðju persónu. Bókin spannar árin 1941 til 2006 og stuðst er við „minni, minningarbrot úr fortíð og nútíð, ljósmyndir, bækur, lög, útvarp, sjónvarp, auglýsingar og fréttafyrirsagnir.“ Ég er ekki búin að lesa bókina en get hiklaust mælt með henni. Það er gefandi þegar bók sem mann hefur langað að lesa stenst ekki aðeins væntingar manns heldur fer fram úr þeim.

Magnólíutré í blóma, Antwerpen, vorið 2011 · Lísa Stefan
Magnólía í blóma, Antwerpen 2011

Við bjuggum í Antwerpen þegar ég tók þessa mynd af magnólíu í blóma. Mér þykir vænt um hana - þetta var fyrsta vorið mitt í Belgíu og ég man enn eftir þessu götuhorni - en hún birtist því miður ekki lengur á gömlu útgáfu bloggsins. Albúm sem tengist því virðist hafa gufað upp.

Aftur að textílnum: Schuyler Samperton Textiles er bandarískt merki sem lesendur bloggsins ættu að þekkja. Textílhönnuðurinn Schuyler er ein af mínum uppáhalds. Á blogginu hef ég deilt mörgum mynstrum úr vaxandi textíllínu hennar. Ég var að bíða eftir vorkomunni til að deila tveimur mynstrum sem sjást á efstu myndinni minni. Efnið Eden er efst: Í fölbleika litnum kallast það Eden/Sweet Pea, í fölgræna Eden/Meadow. Shalimar er blómamynstrið með hvíta bakgrunninum. Prufan með miðanum er Shalimar/Mist, með bláu og grænu mynstri. Shalimar/Cielo kallast það bláa. Öll þessi efni eru úr 100% líni.

Listaverk: Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921, Tate
Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921

Græna palettan sem listakonan Dora Carringon notar í verkinu Farm at Watendlath höfðar til mín þetta vor. Árið 1921 eyddi hún sumarleyfi sínu í Lake District. Það litla sem ég veit um líf hennar er fengið úr kvikmyndinni Carrington (1995), sem fjallar um samband hennar og rithöfundarins Lytton Strachey, og lýsingum í bindunum sem ég hef lesið af dagbókum Virginiu Woolf. Fyrstu kynni Woolf af Carrington voru henni ekki beint í hag, en í ágúst 1920 kveðjur við annan tón: „Carrington is ardent, robust, scatterbrained, appreciative, a very humble disciple, but with enough character to prevent insipidity“ (2. Bindi). Á íslensku má orða það að hún sé áköf, hraust, utan við sig, þakklát, mjög auðmjúkur nemandi, en með nógu mikinn karakter til að fyrirbyggja andleysi.

Ég verð hérna bráðum aftur með nýjan bókalista.

Dora Carrington listaverk af vefsíðu Tate



fimmtudagur, 21. apríl 2016

Carrington og Strachey | Gleðilegt sumar

Carrington og Strachey | Gleðilegt sumar · Lísa Stefan


Þessi uppsetning eða stemning er orðin kunnugleg; ég á púða á gólfinu umvafin bókum (málverkið í bókinni er eftir Vassily Kandisky, Capricious Forms, 1937) og tímaritum, stundum með kvikmynd eða dramaþáttaröð í spilaranum. Það vantar bara kaffibollann. Á breska Netflix voru þeir að bæta við spennuþáttaröðinni The Honourable Woman frá BBC, sem mér fannst gaman að sjá aftur (var held ég sýnd á RÚV í fyrra). Leikaravalið er frábært en að mínu mati ber Stephen Rea af. Einnig má finna þar eina af mínum uppáhaldsmyndum, Testament of Youth (2014), sem gerist á tímum Fyrri heimsstyrjaldarinnar og skartar Alicia Vikander í aðalhlutverki. Myndin er byggð á æviminningum Veru Brittain sem bera sama heiti. Leikmyndin er glæsileg; einnig búningarnir. Ein af mínum eigin myndum sem ég hef látið rúlla í spilaranum undanfarið er Carrington (1995), sem fjallar um sérstakt samband listakonunnar Doru Carrington (1893-1932) og rithöfundarins Lytton Strachey (1880-1932).

Carrington og Strachey, sem leikararnir Emma Thompson og Jonathan Pryce túlka, tilheyrðu Bloomsbury-hópnum. Strachey var samkynhneigður en samband hans og Carrington var afar sérstætt og þau bjuggu saman. (Ef þið eruð stödd í London og langar á safn þá getiði séð mynd sem hún málaði af honum í National Portrait Gallery.) Saga þeirra er svo sannarlega ástarsaga, en annars eðlis, með harmrænum endalokum. Carrington tók sitt eigið líf stuttu eftir að Strachey andaðist eftir baráttu við krabbamein. Thompson er dásamleg í sínu hlutverki en þar sem Strachey var afar hnyttinn og orðheppinn þá stelur Pryce oft senunni. Penelope Wilton (Isobel Crawley úr Downton Abbey) í hlutverki Lady Ottoline Morrell er einnig senuþjófur. Hún er einfaldlega frábær. Í öllu sem hún leikur í.

Bókalistinn minn lengist sífellt og á honum er að finna Strachey. Mig langar að lesa Lytton Strachey: The New Biography eftir Michael Holroyd og einnig The Letters of Lytton Strachey í ritstjórn Paul Levy, sem er líklega bara hægt að fá notaða. Ég á bara eftir að ákveða hvora ég les fyrst. Hafiði lesið þær?

Gleðilegt sumar!