þriðjudagur, 22. desember 2015

Möndlugrautur (risalamande) | Gleðilega hátíð

Möndlugrautur (risalamande), uppskrift · Lísa Hjalt


Þá líður að jólum og tími kominn á síðustu bloggfærslu ársins. Ég mátti til með að endurbirta uppskriftina að möndlugraut (risalamande), sem er ávallt ein af mest skoðuðu uppskriftunum fyrir jól á matarblogginu gamla. Möndlugrautur var eftirréttur í minni barnæsku en hann var kannski ekki árleg jólahefð. Grauturinn hefur verið á jólaborðum Dana síðan um lok 19. aldar og hann hefur gengið í gegnum einhverjar breytingar. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að rjómanum hafi ekki verið bætt í grautinn fyrr en á tímum Síðari heimstyrjaldarinnar, til að drýgja grjónin sem þá voru dýr. Fyrir nokkrum árum síðan bjuggum við í Kaupmannahöfn og um jólin var okkur boðið í mat hjá Dísu frænku minni og dönskum eiginmanni hennar Lars. Hann bar grautinn fram sem eftirrétt með lífrænni kirsuberjasósu sem var dásemdin ein. Þetta var árið 2009 og síðan þá hefur grauturinn verið ein af jólahefðum okkar.


Grautinn ber ég fram á aðfangadagskvöld. Ef notuð er tilbúin sósa þá má fá lífræna sem inniheldur ekki hvítan sykur. Sósuna er annars auðvelt að útbúa sjálfur. Í þau skipti sem ég hef getað keypt fersk kirsuber á þessum árstíma þá hef ég notað 600 grömm. Ég sker berin og fjarlægi steinana áður en ég mauka berin í matvinnsluvél ásamt 1 matskeið af hreinu hlynsírópi. Ég læt þau svo á litla pönnu, bæti 2-3 matskeiðum af hrásykri saman við og kreisti örlítinn safa úr sítrónu yfir. Berin sýð ég við vægan hita í 10-15 mínútur, eða þar til vökvinn hefur að mestu gufað upp. Sósuna læt ég svo kólna í skál. Það má líka nota frosin kirsuber en þá nota ég bara 350 grömm sem ég læt beint á pönnuna ásamt sírópinu, sykrinum og sítrónusafanum án þess að mauka og sýð lengur. Ég stappa þau í lokin með gaffli. Um daginn tókum við smá forskot á jólin og með grautnum bar ég fram sósu sem ég gerði með frosnum blönduðum berjum. Hún var ákaflega góð með grautnum, en það er sú sósa sem sést á myndunum.

Heimilið er tilbúið fyrir jólin og hangikjötið á leið með hraðsendingu frá Íslandi. Það er lítil von um hvít jól í Skotlandi: fyrir utan borðstofugluggann er runni sem er byrjaður að bruma, auk þess sem grasið í garðinum er enn þá fagurgrænt. Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári um leið og ég þakka fyrir innlitin á bloggið og hlýjar kveðjur á liðnum árum.
Möndlugrautur (risalamande), uppskrift · Lísa Hjalt


Uppskriftina að möndlugrautnum birti ég á gamla matarblogginu um jólin 2010 þegar við bjuggum í Antwerpen og það var nú bara vegna þess að einhver spurði mig hvernig ég gerði risalamande (stundum skrifað ris a la mande eða ris à l'amande), sem ég hafði eitthvað minnst á. Sem fyrr segir kemur hún frá fyrrnefndum Lars og ég gerði bara örlitla breytingu: ég nota aðeins meiri sykur því börnunum finnst það betra (Lars notar hálfa matskeið) og ég afhýði ekki möndlurnar því hýðið gefur trefjar. Hún er dásamleg vanillulyktin sem berst um allt hús að morgni aðfangadags en grautinn geri ég alltaf nokkuð snemma því hann þarf að kólna. Ef ég fæ ekki lífræna kirsuberjasósu þá einfaldlega bý ég til sósu sjálf eins og fram kom hér að ofan. Ef þið viljið útbúa léttari útgáfu af grautnum þá má skipta út rjómanum fyrir gríska jógúrt eða blanda grískri jógúrt og rjóma saman. Um jólin erum við samt alltaf með alvöru graut, eins og einhver orðaði það, og notum rjóma eingöngu.

MÖNDLUGRAUTUR (RISALAMANDE)

190 g grautargrjón
250 ml vatn
1 lítri mjólk
1 vanillustöng
2 matskeiðar lífrænn hrásykur
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
75 g möndlur
400 ml rjómi

Byrjið á því að gera grjónagrautinn: Skolið grjónin, sjóðið þau í 250 ml af vatni í 2 mínútur og bætið svo mjólkinni út í. Sjóðið grjónin í ca. 35 mínútur á lágum hita og tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn. (Þessi suðutími á við algeng grautargrjón (grødris) í Danmörku, aðrar tegundir gætu þurft lengri suðutíma, en grjónin eiga að vera mjúk og mestur vökvi gufaður upp.)

Áður en vanillustönginni er bætt út í pottinn þarf að kljúfa hana í tvennt. Skerið í gegnum hana miðja með beittum hníf og skafið kjarnann úr henni (notið svo endilega kjarnann til þess að búa til ykkar eigin vanillusykur með hrásykri í glerkrukku).

Þegar grauturinn er tilbúinn skuluð þið fjarlægja pottinn af hellunni og veiða báða helminga vanillustangarinnar upp úr. Setjið grautinn í stóra skál og blandið saltinu og hrásykrinum saman við. Setjið lok/plastfilmu á skálina og látið grautinn kólna í kæliskáp.

Hakkið möndlurnar með hníf eða í matvinnsluvél og blandið saman við kaldan grautinn í skálinni (ef þið viljið afhýða möndlurnar þá eru þær látnar liggja í heitu vatni og hýðið er nuddað af). Þeytið því næst rjómann (ekki stífþeyta) og blandið honum rólega saman við grautinn með sleif.

Berið möndlugrautinn fram með kirsuberjasósu eða sósu með blönduðum berjum.


Recipe in English.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.