Sýnir færslur með efnisorðinu hrísgrjón. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu hrísgrjón. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 22. desember 2015

Möndlugrautur (risalamande) | Gleðilega hátíð

Möndlugrautur (risalamande), uppskrift · Lísa Hjalt


Þá líður að jólum og tími kominn á síðustu bloggfærslu ársins. Ég mátti til með að endurbirta uppskriftina að möndlugraut (risalamande), sem er ávallt ein af mest skoðuðu uppskriftunum fyrir jól á matarblogginu gamla. Möndlugrautur var eftirréttur í minni barnæsku en hann var kannski ekki árleg jólahefð. Grauturinn hefur verið á jólaborðum Dana síðan um lok 19. aldar og hann hefur gengið í gegnum einhverjar breytingar. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að rjómanum hafi ekki verið bætt í grautinn fyrr en á tímum Síðari heimstyrjaldarinnar, til að drýgja grjónin sem þá voru dýr. Fyrir nokkrum árum síðan bjuggum við í Kaupmannahöfn og um jólin var okkur boðið í mat hjá Dísu frænku minni og dönskum eiginmanni hennar Lars. Hann bar grautinn fram sem eftirrétt með lífrænni kirsuberjasósu sem var dásemdin ein. Þetta var árið 2009 og síðan þá hefur grauturinn verið ein af jólahefðum okkar.


Grautinn ber ég fram á aðfangadagskvöld. Ef notuð er tilbúin sósa þá má fá lífræna sem inniheldur ekki hvítan sykur. Sósuna er annars auðvelt að útbúa sjálfur. Í þau skipti sem ég hef getað keypt fersk kirsuber á þessum árstíma þá hef ég notað 600 grömm. Ég sker berin og fjarlægi steinana áður en ég mauka berin í matvinnsluvél ásamt 1 matskeið af hreinu hlynsírópi. Ég læt þau svo á litla pönnu, bæti 2-3 matskeiðum af hrásykri saman við og kreisti örlítinn safa úr sítrónu yfir. Berin sýð ég við vægan hita í 10-15 mínútur, eða þar til vökvinn hefur að mestu gufað upp. Sósuna læt ég svo kólna í skál. Það má líka nota frosin kirsuber en þá nota ég bara 350 grömm sem ég læt beint á pönnuna ásamt sírópinu, sykrinum og sítrónusafanum án þess að mauka og sýð lengur. Ég stappa þau í lokin með gaffli. Um daginn tókum við smá forskot á jólin og með grautnum bar ég fram sósu sem ég gerði með frosnum blönduðum berjum. Hún var ákaflega góð með grautnum, en það er sú sósa sem sést á myndunum.

Heimilið er tilbúið fyrir jólin og hangikjötið á leið með hraðsendingu frá Íslandi. Það er lítil von um hvít jól í Skotlandi: fyrir utan borðstofugluggann er runni sem er byrjaður að bruma, auk þess sem grasið í garðinum er enn þá fagurgrænt. Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári um leið og ég þakka fyrir innlitin á bloggið og hlýjar kveðjur á liðnum árum.
Möndlugrautur (risalamande), uppskrift · Lísa Hjalt


Uppskriftina að möndlugrautnum birti ég á gamla matarblogginu um jólin 2010 þegar við bjuggum í Antwerpen og það var nú bara vegna þess að einhver spurði mig hvernig ég gerði risalamande (stundum skrifað ris a la mande eða ris à l'amande), sem ég hafði eitthvað minnst á. Sem fyrr segir kemur hún frá fyrrnefndum Lars og ég gerði bara örlitla breytingu: ég nota aðeins meiri sykur því börnunum finnst það betra (Lars notar hálfa matskeið) og ég afhýði ekki möndlurnar því hýðið gefur trefjar. Hún er dásamleg vanillulyktin sem berst um allt hús að morgni aðfangadags en grautinn geri ég alltaf nokkuð snemma því hann þarf að kólna. Ef ég fæ ekki lífræna kirsuberjasósu þá einfaldlega bý ég til sósu sjálf eins og fram kom hér að ofan. Ef þið viljið útbúa léttari útgáfu af grautnum þá má skipta út rjómanum fyrir gríska jógúrt eða blanda grískri jógúrt og rjóma saman. Um jólin erum við samt alltaf með alvöru graut, eins og einhver orðaði það, og notum rjóma eingöngu.

MÖNDLUGRAUTUR (RISALAMANDE)

190 g grautargrjón
250 ml vatn
1 lítri mjólk
1 vanillustöng
2 matskeiðar lífrænn hrásykur
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
75 g möndlur
400 ml rjómi

Byrjið á því að gera grjónagrautinn: Skolið grjónin, sjóðið þau í 250 ml af vatni í 2 mínútur og bætið svo mjólkinni út í. Sjóðið grjónin í ca. 35 mínútur á lágum hita og tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn. (Þessi suðutími á við algeng grautargrjón (grødris) í Danmörku, aðrar tegundir gætu þurft lengri suðutíma, en grjónin eiga að vera mjúk og mestur vökvi gufaður upp.)

Áður en vanillustönginni er bætt út í pottinn þarf að kljúfa hana í tvennt. Skerið í gegnum hana miðja með beittum hníf og skafið kjarnann úr henni (notið svo endilega kjarnann til þess að búa til ykkar eigin vanillusykur með hrásykri í glerkrukku).

Þegar grauturinn er tilbúinn skuluð þið fjarlægja pottinn af hellunni og veiða báða helminga vanillustangarinnar upp úr. Setjið grautinn í stóra skál og blandið saltinu og hrásykrinum saman við. Setjið lok/plastfilmu á skálina og látið grautinn kólna í kæliskáp.

Hakkið möndlurnar með hníf eða í matvinnsluvél og blandið saman við kaldan grautinn í skálinni (ef þið viljið afhýða möndlurnar þá eru þær látnar liggja í heitu vatni og hýðið er nuddað af). Þeytið því næst rjómann (ekki stífþeyta) og blandið honum rólega saman við grautinn með sleif.

Berið möndlugrautinn fram með kirsuberjasósu eða sósu með blönduðum berjum.


Recipe in English.




þriðjudagur, 12. maí 2015

Svartbaunaborgarar (vegan)

Svartbaunaborgarar (vegan) · Lísa Stefan


Ást mín á svörtum baunum þekkir engin landamæri og þessir svartbaunaborgarar fengu mig til að skipta alfarið yfir í grænmetisborgara. Ég myndi ekki segja nei við góðum borgara matreiddum úr gæða kjöti en þegar ég fæ löngun í borgara þá geri ég þessa. Þetta snýst ekki bara um bragðið heldur alla þessa dásamlegu ferskvöru á borðinu þegar ég útbý máltíðina.
Kóríander · Lísa Stefan


Ferskan kóríander vil ég helst alltaf eiga. Ég elska bragðið (nefnt „pungent“ í ensku) og upp á síðkastið stend ég mig að því að nota meiri kóríander en uppskriftir segja til um. „Cilantro“ er annað heiti yfir ferskan kóríander sem Bandaríkjamenn nota úr spænsku. Svo eru sumir sem tala um blöðin sem arabíska steinselju („parsley“) og enn aðrir sem kínverska steinselju. Ekki skrýtið að fólk verði stundum ruglað á öllum þessum heitum.

Svartbaunaborgarar (grænmeti) · Lísa Stefan


Á þessum bæ hefur þróast ákveðin svartbaunaborgarahefð. Í hvert sinn sem ég geri borgarana, sem er ansi oft, þá útbý ég sama meðlætið: Ég steiki sveppi í örlítilli léttri ólífuolíu með hvítlauk og smá salti sem notum líka í borgarana.

Talandi um sveppi. Fyrir mörgum árum síðan fór vinur minn á fyrirlestur með búddhamunki sem sagði eitthvað á þá leið að enginn ætti að borða sveppi því þeir vaxa ekki í sól. Allir hafa rétt á sínum skoðunum en þetta hafði ég um málið að segja: Enginn munkur eða heimspeki skyldi koma á milli mín og minna sveppa og frá þeirri stundu strengdi uppreisnarmaðurinn innra með mér það heit að ég skyldi borða enn meira af þeim. Það er bara þannig sem ég rúlla.
Svartbaunaborgarar · Lísa Stefan


Uppskriftin að svartbaunaborgurunum kemur frá leikkonunni Gwyneth Paltrow, en hana er að finna í bók hennar, Notes From My Kitchen Table. Ég veit að margir þola hana ekki en hún má eiga það að þessi uppskrift er góð (ég gerði bara örlitlar breytingar). Það er auðvelt að matreiða borgarana og eðal að skella í þá ef þið eigið afgang af soðnum brúnum grjónum. (Tekur annars 25-30 mínútur að sjóða þau: 30 g (ca 3 matskeiðar) = 75 g soðin).
Svartbaunaborgarar · Lísa Stefan


Ég vil borgarana steikta en ég bætti við ofnbakaðri útgáfu fyrir þá sem kjósa það frekar. Ég tvöfaldaði skammtinn af broddkúmeni í uppskriftinni og nota 2 matskeiðar af söxuðum ferskum kóríander. Ég bætti líka chilliflögum og næringargerflögum (nutritional yeast flakes), sem ég merki sem val. Ég ber borgarana fram með steiktum sveppum og hvítlauk, sem ég minntist á hér að ofan, tómötum, avókadó, salatblöðum og gæða majónesi eða heimagerðu. Það er laukur í uppskriftinni og því finnst mér óþarfi að setja hráan lauk eða rauðlauk á borgarann, en þegar ég vil aðeins sterkara bragð þá nota ég jalapeno úr krukku. Með borgaranum fæ ég mér stundum lítið glas af ísköldum bjór með nýkreistum límónusafa.

SVARTBAUNABORGARAR

1½-2 matskeiðar létt ólífuolía
1 lítill laukur
2 hvítlauksrif
½ teskeið broddkúmen (ground cumin)
klípa rauðar chilliflögur (má sleppa)
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
¼ teskeið nýmalaður svartur pipar
1 dós (400g) lífrænar svartar baunir
75 g soðin brún hrísgrjón
1-2 matskeiðar ferskur kóríander
1 matskeið næringargerflögur (má sleppa)
1-2 matskeiðar lífrænt mjöl (til steikingar)
2-3 matskeiðar jurtaolía (til steikingar)
4 gróf hamborgarabrauð

Sjóðið 30 g af brúnum hrísgrjónum áður en byrjað er á borgurunum. Setjið svörtu baunirnar í sigti og skolið af þeim. Setjið til hliðar.

Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt. Hitið ólífuolíuna á pönnu og steikið lauk, hvítlauk, broddkúmen og chilliflögur (ef notaðar) í 5-7 mínútur við lágan-meðalhita.

Bætið salti, pipar, svörtum baunum og grjónum á pönnuna, steikið í 2 mínútur og hrærið á meðan.

Saxið ferskan kóríander smátt og bætið á pönnuna ásamt næringageri (ef notað) og hrærið saman við. Takið pönnuna af hellunni.

Notið kartöflustöppu til að stappa blönduna án þess að mauka hana alveg. Hún má halda smá grófleika. Leyfið henni að kólna þar til auðvelt er að meðhöndla hana og mótið þá 4 borgara (á þessum punkti má líka setja hana í kæli í nokkrar klukkustundir).

• Steiktir borgarar: Stráið báðar hliðar með mjöli. Hitið olíuna á stórri pönnu við meðal-hæsta hita og brúnið borgarana, í um mínútu á hvorri hlið. Berið þá fram í grilluðu hamborgarabrauði með því ferska hráefni sem ykkur þykir best.

• Ofnbakaðir borgarar: Setjið borgarana á ofnplötu með bökunarpappír. Bakið við 190°C (175°C á blæstri) í 8-10 mínútur á hvorri hlið.

Örlítið breytt uppskrift úr bókinni Notes From My Kitchen Table eftir Gwyneth Paltrow



mánudagur, 23. mars 2015

Kort og kjúklingaleggir

Kort og latte · Lísa Hjalt


Ég hélt að á þessum tímapunkti gæti ég sýnt ykkur vorið í allri sinni dýrð en sú myndataka verður aðeins að bíða því þetta vor virðist vera með smá hiksta. Það vantar ekki páskaliljur og krókusa í blóma en ég er að bíða eftir að ákveðið magnólíutré í bænum taki að blómstra. Þegar sá dagur kemur að ég labba fyrir hornið og sé tréð í fullum blóma þá verður vorið komið hjá mér. Og hvað hefur þetta að gera með kort og kjúklingaleggi? Nákvæmlega ekkert.
Kort úr bókunum The Food of France, myndskreyting eftir Russell Bryant,
og The Food of India, eftir Rosanna Vecchio

Nýverið var sonurinn að vinna að verkefni í skólanum sem snerist um mat, sem leiddi til enn meiri matarumræðu en gengur og gerist á heimilinu. Þar sem pizza er uppáhaldsmaturinn hans rataði Ítalía í verkefnið og þá kom nú kortið mitt að góðum notum. Síðan þá hefur kortið legið hérna á borðinu mínu og stuðlað að þó nokkru korta-oflæti (mér finnst myndskreytt kort líka svo flott) og ferðahugmyndum: Einn vill fara til Japans, annar til Fiji eða Hawaii og svo fékk ég líka spurninguna, Mamma, hvernig er í Norður-Kóreu?, sem varð til þess að ég fór að hugsa um hvort þar væri hægt að fá latte. Ég get nú ekki sagt að latte-drykkja í Norður-Kóreu hafi ratað á listann minn góða en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér?



Ég veit ekki hvar ég væri án Google-kortanna en ég verð að segja að það jafnast nú ekkert á við að dreifa úr stóru landakorti á borð og gera ferðaplön eða bara að láta sig dreyma.

Þar sem páskarnir eru á næsta leiti er ég aðeins farin að huga að því hvað ég eigi að bralla í eldhúsinu. Allar páskaminningar úr barnæsku snúast um páskaegg, veisluborð og fermingar. Ég veit ekki með ykkur en hjá okkur eru engar páskaveislur og við höfum þetta eins einfalt og hugsast getur. Hérna megin við Atlantshafið er líka veðrið yfirleitt orðið það gott að ég nenni ekki að vera inni að stússast í eldhúsinu þegar ég get verið úti í sólinni. Ég fór því að hugsa um kjúklingaleggi.
Kjúklingaleggir, maríneraðir · Lísa Hjalt


Mér líkar einfaldleikinn sem fylgir því að elda og bera fram maríneraða kjúklingaleggi. Maríneraður kjúklingur finnst mér mjög góður en ég vil ekki að maríneringin steli of miklu bragði frá kjúklingakjötinu. Kannski má segja að sú heimspeki eigi við alla mína matargerð því ég er lítið hrifin af því þegar eitthvað eitt tiltekið bragð verður einkennandi. Ég mæli með því að marínera leggina yfir nótt. Þegar ég ber þá fram með grjónum þá rista ég yfirleitt sesamfræ á pönnu og strái yfir grjónin áður en ég ber þau fram.

MARÍNERAÐIR KJÚKLINGALEGGIR

9-10 kjúklingaleggir (helst velferðar-/free-range)
1 matskeið jurtaolía
1 matskeið tamarisósa
1 matskeið appelsínusafi, nýkreistur
1 rautt chilli aldin
lítill bútur ferskt engifer
má sleppa: nokkrir dropar Tabasco-sósa

Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið. Afhýðið og fínsaxið engiferið.

Setjið kjúklingaleggina ásamt öðru hráefni í góðan frystipoka. Lokið pokanum vel og veltið leggjunum í pokanum til að dreifa vel úr maríneringunni. Setjið pokann í skál og látið leggina marínerast í alla vega 2-4 klukkustundir í kæliskáp, helst yfir nótt og snúið þá pokanum nokkrum sinnum.

Þegar kjúklingaleggirnir hafa marínerast skuluð þið dreifa þeim í ofnskúffu með grind. Eldið við 200°C (180° ef blástursofn) í 35 mínútur (þar til safinn er orðinn glær).

Berið fram með, til dæmis, hvítum eða brúnum basmati hrísgrjónum og tamarisósu, og jafnvel með sneiðum af avókadó og rauðri papriku.

Recipe in English
Kjúklingaleggir · Lísa Hjalt


miðvikudagur, 28. janúar 2015

Maður með bláan trefil | Klattar

Maður með bláan trefil eftir Martin Gayford · Lísa Stefan


Á sínum tíma sat ég í kúrsi um sjálfs/ævisögur og skrifaði BA ritgerð um sama efni þannig að ég hef nokkuð sterkar skoðanir á slíkum ritum. Ég hef enga þolinmæði fyrir höfundum ævisagna sem gleyma sér í slúðursögum um viðfangsefnið eða eru í því að skreyta textann með nöfnum þekktra einstaklinga. Að því sögðu þá langar mig að segja aðeins frá bókinni sem ég er að lesa, Man With a Blue Scarf, sem er svo til laus við slíkt. Jarðbrúnir tónar eru einnig ofarlega í huga mér og klattar. Klattar með grjónum.

Þessa dagana nýt ég þess að lesa bók eftir Martin Gayford, Man With a Blue Scarf: On Sitting for a Portrait by Lucian Freud. Hún er ekki ævisaga heldur brot úr dagbók Gayfords þann tíma sem hann sat fyrir á mynd. Hann fer með okkur inn í vinnustofu Lucian Freud og við kynnumst listamanninum betur. Lucian Freud (1922-2011) var breskur listamaður, fæddur í Þýskalandi, einn áhrifamesti sinnar kynslóðar; maður með sterkan persónuleika (Sigmund Freud var afi hans). Dagbókarfærslur Gayfords sýna okkur málarann að störfum og hvernig hann nálgast viðfangsefni sitt.


Bókin er heillandi innsýn í líf listamannsins, sem átti nokkra daga í 81 árs afmælið þegar þessi bútur var skrifaður:
In practice, we alternate between conversation and periods when his concentration is intense. During those he keeps up a constant dance-like movement, stepping sideways, peering at me intently, measuring with the charcoal. He holds it upright, and with a characteristic motion moves it through an arc, then back to the canvas to put in another stroke … he mutters to himself from time to time, little remarks that are sometimes difficult to catch: 'No, that's not it', 'Yes, a little' … Once or twice he steps back and surveys what he has done, with his head on one side. (bls. 10)
Þeir félagar áttu skemmtilegar samræður um aðra listamenn, bókmenntir (Henry James, Gustave Flaubert og Thomas Hardy voru í uppáhaldi Freuds) og þeir töluðu jafnvel um matargerð (man einhver eftir Elizabeth David? Freud var hrifinn af bókum hennar). Í bókinni eru 64 myndir: verk eftir Freud og aðra listamenn og myndir af vinnustofunni. Ég er ekki búin og stend sjálfa mig að því að lesa síðustu blaðsíðurnar hægt því ég vil einfaldlega ekki að hún endi. Ég fékk eintakið lánað á safninu en þessa bók vil ég eignast.

Í desember byrjaði ég að lesa Breakfast with Lucian eftir Geordie Greig. Bókin byrjaði vel og skrautlegar lýsingar á Freud voru ansi skemmtilegar. Svo kom að því að ég hreinlega missti þolinmæðina, þegar Greig, sem var einnig vinur listamannsins, fór að segja fullmargar sögur af elskhugum Freud og ástarþríhyrningum og -flækjum. Honum gekk ekkert illt til og tónninn var gamansamur, en allt í einu fannst mér eins og ég væri að lesa slúðurrit (hef engan áhuga á þeim) og hætti lestrinum.

Hvað fleira hef ég enga þolinmæði fyrir? Klisjur í tímaritum ná ofarlega á listann.

Ég hef alltaf sagt að mér líkar litlu hlutirnir í lífinu og kætist til dæmis í hvert sinn þegar tímarit berst inn um lúguna. Í vikunni var það marsútgáfa Elle Decoration. Ég er hrifin af umfjöllun um liti sem er fastur liður, en hún fyllir eina blaðsíðu og segir sögu litarins og t.d. hvernig listamenn hafa notað hann. Í þessu tölublaði verða djúpir, brúnir tónar fyrir valinu og greinin hefst svona: „Startling news to report from the design world: brown is back.“ Er það já? Hvarf brúnn litur af yfirborði jarðar? Og hvað er svona startling? Í september var spurt á forsíðu: „Is black the new white?“ Nei, svo er ekki, svartur er svartur og hvítur er hvítur! Nær tilgangslaus pirringur minn að skína í gegn? Hvað um það, brúna skálin í umfjölluninni er frá Nicola Tassie, borðbúnaðurinn frá Reiko Kaneko og kjóllinn í forgrunni er úr vorlínu Chloé (hönnuður: Clare Waight Keller) árið 2015.

Eigum við ekki bara að fikra okkur yfir í klattana?

Þessa dagana er ég óð í möndlusmjör með chiafræjum og nota það á klattana með bláberjasultu. Þá má bera fram með ýmsu, eins og smjöri, osti og sultu, með lífrænu súkkulaði/hnetusmjöri eða hverju sem er. Krakkarnir borða þá oft með hlynsírópi.
 Klattar með grjónum · Lísa Hjalt


Ef þið eigið afgang af grjónagraut eða soðnum grjónum í kæli er upplagt að skella í klatta með morgunkaffinu eða eftir skóla fyrir börnin. Upprunalega uppskriftin kemur frá gamalli vinkonu og ég gerði síðar glútenlausa útgáfu þegar einn lítill gutti með óþol kom í heimsókn (ég nota glútenlausa mjölið frá Doves). Í staðinn fyrir glútenlaust mjöl má nota spelti eða lífrænt hveiti og minnka þá eilítið mjólkina (og sleppa þá xathangúmmí sem er algengt í glúteinlausum bakstri). Það má líka nota örlítið af kanil eða söxuðu súkkulaði með hrásykri. Stundum nota ég fersk bláber í klattana og læt þá 3-4 bláber á yfirborð hvers klatta um leið og deigið er komið á pönnuna. Ef bláberin fara beint í skálina verður deigið bláleitt! Uppskriftin gerir 10-12 klatta.

KLATTAR MEÐ GRJÓNUM

1-2 eggjahvítur eða 1 (hamingju)egg
2 matskeiðar lífrænn hrásykur eða hlyn-/agavesíróp
1 teskeið lífrænir vanilludropar
1½-2 matskeiðar góð jurtaolía
1 bolli (2½ dl) grjónagrautur eða soðin (brún) grjón
1 bolli glútenlaust mjöl (ca. 175 g) (eða spelti/hveiti)
má sleppa: ⅛ teskeið xanthangúmmí
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
ca. 175-200 ml möndlumjólk eða önnur mjólk

Hrærið saman eggjahvítum, sykri, vanillu og olíu í skál (ef þið notið 1 egg ætti 1½ msk af olíu að duga). Hrærið grjónagraut/soðnum grjónum saman við.

Blandið saman í minni skál glútenlausu mjöli, salti og xanthangúmmíi (ef notað í glútenlausri útgáfu). Hellið svo út í hina skálina ásamt mjólkinni og hrærið saman. Það er ágætt að byrja með 175 ml af mjólk og bæta við ef þarf. Deigið á að vera nokkuð þykkt í sér.

Hitið pönnu við meðalhita og pennslið með smá olíu. Ausið deigi á pönnuna (ég geri yfirleitt 2 klatta í einu) og bakið þar til botninn er gullinbrúnn. Snúið við með spaða og bakið hina hliðina í eilítið styttri tíma. Setjið á disk og endurtakið.

Bak við tjöldin: persneskur köttur treður sér inn í mynd