fimmtudagur, 28. maí 2015

Pizzasósa

Pizzasósa · Lísa Hjalt


Um daginn áttaði ég mig á því að uppskriftin að pizzasósunni á gamla matarblogginu er orðin gömul og ég geri sósuna öðruvísi í dag. Árið 2010 bjuggum við í Danmörku og þar skapaðist sú hefð að hafa alltaf heimagerðar pizzur í matinn á föstudagskvöldum. Þegar maður gerir pizzur svona oft þá smám saman gerir maður breytingar og er sósan engin undantekning. Ég er líka búin að breyta pizzabotnunum (gerlaust deig) en þeirri uppskrift ætla ég að deila síðar.

Á föstudögum, á svo til alltaf sama tíma, set ég á mig svuntuna í eldhúsinu og byrja á því að útbúa pizzasósuna. Ég nota plómutómata úr dós, en ég elda þá ekki heldur kreisti vökvann úr þeim í gegnum sigti. Sósuna blanda ég með töfrasprota en ef þið eigið ekki slíkan þá má nota matvinnsluvél.

PIZZASÓSA

1 dós (400 g) plómutómatar
1 dós (140 g) tómatmauk
2 matskeiðar jómfrúarólífuolía
1 matskeið lífrænn hrásykur
1 teskeið balsamedik (Modena)
1-2 hvítlauksrif, pressuð
1 teskeið þurrkað óreganó
1 teskeið fersk basilíka, fínsöxuð (eða ½ teskeið þurrkuð)
¼-½ teskeið sjávar/Himalayasalt
nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Hellið úr plómutómatadósinni í sigti í vaskinum og kreistið tómatana með hendinni til að losna við sem mest af vökva. Látið þá liggja í sigtinu í smá stund.

Blandið öllu öðru hráefni saman í meðalstórri skál. Afhýðið hvítlaukinn og pressið áður en hann fer í skálina og fínsaxið fersku basilíkuna, ef notuð. Áður en þið bætið plómutómötunum saman við er gott að kreista þá aðeins aftur í sigtinu og rétt þrýsta ofan á þá með lófanum til að losna við sem mest af vökvanum. Bætið þeim svo í skálina og maukið sósuna með töfrasprota.

Pizzasósan geymist í kæli í 3-5 daga í hreinni glerkrukku með loki.


Recipe in EnglishEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.