föstudagur, 24. ágúst 2018

Travels in a Dervish Cloak e. Isambard Wilkinson

Ritdómur: Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Má ég freista ykkar með grípandi bókarkápu og frábæru innihaldi? Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson fjallar um ævintýraleg og hættuleg ferðalög hans í Pakistan á þeim tíma sem hann skrifaði fréttir fyrir The Daily Telegraph um Stríðið gegn hryðjuverkum. Wilkinson er frábær penni, hnyttinn og eftirtektarsamur, laus við þann sjálfhverfa stíl sem stundum einkennir ferðafrásagnir. Hann fer með lesandann um allt Pakistan, land sem hann skilur og þykir vænt um án þess að vera blindur gagnvart vandamálum þess („the mysterious world that I was so eager to capture before it disappeared“). Eftir stendur glögg frásögn höfundar um framandi menningu þess. Þetta var uppáhaldsbókin mín árið 2017. Hún er nú fáanleg í kiljubroti og ég hvet alla sem áhuga hafa á ferðaskrifum að næla sér í eintak.

Í bókinni sýnir Wilkinson okkur breidd pakistanskt þjóðfélags; fólk við hversdagslega iðju, heilaga menn, stríðsherra, þrjóta og aðrar furðuverur í landi sem er að breytast hratt. Nálgun hans er fræðandi, tilgerðarlaus og skemmtileg. Hér heimsækir hann gamalt virki í grennd við ættbálkasvæði:
Sitting in the courtyard, I could almost feel the modern age clamouring at its walls, wanting to bash down its gates and slay its lord, who I imagined would have gone without a murmur, accepting his fate as the natural order of things.
Hann er trúr viðfangsefni sínu og dæmir ekki hart. Athugasemdir hans um fólk og staði hljóma sannar. Í textanum eru tilvísanir í bókmenntir og ein kallaði fram hlátur: hann hittir herskáan stríðsmann sem neitar að „go gentle into that good night“. Aldrei grunaði mig að ég ætti eftir að tengja ljóðskáldið Dylan Thomas við stríðsmann í Baluchistan-héraði! Sá hinn sami lifir að vísu ekki af. Stundum er bókin líkari skáldsögu; ég fletti síðunum af miklum ákafa, allt að því haldandi niðri í mér andanum. Á einhverjum punkti þurfti ég að minna sjálfa mig á að það væri engin bók ef höfundurinn hefði ekki sloppið lifandi. Þetta er bók fyrir þá sem vilja sjá aðra hlið á Pakistan heldur en þá sem endurspeglast í Hollywood-framleiðslum. Þetta er alvöru stöff.

Ritdómur: Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt
Úr bókinni: Kennari og nemendur hans í Kasmír, 2005 eftir Chev Wilkinson

Ef þið fylgist með heimsfréttum ættuð þið að vita að ný ríkisstjórn er tekin við í Pakistan, undir forystu Imran Khan sem virðist ætla að gera umbætur. (Ef við lítum á núverandi valdhafa Hvíta hússins þá held ég að fyrrum krikketspilari sem forsætisráðherra sé ekki versti kostur þjóðar.) Ég man enn eftir þeirri sjokkerandi frétt í desember 2007 þegar Benzir Bhutto var ráðin af dögum á kosningafundi í Rawalpindi. Mér fannst það alltaf lofa góðu að kona hefði verið forsætisráðherra íslamsks ríkis, og það tvisvar. Tveimur mánuðum áður var Wilkinson nálægt hryllingnum í Karachi þegar hún slapp lifandi frá sprengjuárás, en á Írlandi þegar örlög hennar réðust. Hann hafði verið rekinn úr landi fyrir ritstjórnargrein sem var þáverandi forseta, Pervez Musharraf, ekki að skapi. Í janúar þar á eftir var honum leyft að snúa til baka. Á flugvellinum beið skelfilegi bílstjórinn hans með „forljót appelsínugul blóm“.

Bílstjórinn Allah Ditta er einn af mörgum litríkum persónum í bókinni. Nafn hans merkir „Gjöf frá Guði“ og ég get bara sagt að Guð hlýtur að hafa furðulega kímnigáfu. Kokkurinn hans Basil er engu betri. Þessum tveimur kemur ekki saman og afleiðingin er kostulegur ófriður á heimili Wilkinson. Mín uppáhaldspersóna er bróðir hans Chev:
'You can't hang about here like a mixture of a wannabe Lord Byron and Lord Fauntleroy waiting for the next cup of tea or bout of diarrhoea. Pick a spot on the map and let's be off,' he said. ... His presence was reassuring. He's always stuck by me, whatever my failings. He doesn't mind sharing a bed with me, as long as there's a pillow between us lest I grow amorous in my sleep. And he's good at pointing out if I have food round my mouth before I interview people.
Chev, sem er ljósmyndari, er hinn upplagði ferðafélagi. Mikilvægara er að Wilkinson neyðist til að yfirgefa Pakistan vegna nýrnabilunar og þá fáum við að vita að það var Chev sem bjargaði lífi hans: Hann gaf honum nýra.

Ég vildi geta sagt ykkur að önnur ferðasaga væri væntanleg frá Wilkinson en hann hefur farið í tvær nýrnaskiptaaðgerðir og því ólíklegt að hann hætti sér til varhugaverðra staða. Ég virkilega naut þeirrar ríku frásagnargáfu sem finnst í Travels in a Dervish Cloak, bók sem er full af kímni og kryddum. Hún var tilnefnd til verðlauna sem kallast Stanford Dolman Travel Book of the Year Award. Ef þið dæmið bók af kápunni þá get ég lofað að þessi skilar sínu.


Travels in a Dervish Cloak
Eftir Isambard Wilkinson
Eland
Innbundin, 256 blaðsíður, myndskreytt
Kaupa innbundna | Kiljubrot


myndir mínar | mynd úr bókinni eftir Chev Wilkinson | myndskreyting kápu: Dorry Spikes



föstudagur, 17. ágúst 2018

Lestrarkompan 2017: Modiano, DeLillo, Bedford ...

Lestrarkompan mín: Modiano, DeLillo, Bedford ... · Lísa Hjalt


Hvað eruð þið að lesa þessa dagana? Ég er að lesa The Hare with Amber Eyes eftir Edmund de Waal af síðasta bókalista og þegar farin að hlakka til að deila þeim næsta. Ég var sko að kaupa bækur og á vefsíðu bóksafnsins fann ég margar sem mig hefur langað að lesa, til dæmis bókina The Bookshop eftir Penelope Fitzgerald. Ég efast um að kvikmyndin hafi farið fram hjá bókaunnendum. Ég er alltaf jafn spennt fyrir því að sjá heim bókmenntanna birtast á hvíta tjaldinu og dauðlangar að sjá Glenn Close og Jonathan Pryce í The Wife, byggð á samnefndri skáldsögu eftir Meg Wolitzer. En nóg í bili um bókmenntalegar kvikmyndir, við skulum halda áfram með Lestrarkompufærslur ársins 2017.

№ 10 bókalisti (7 af 9):

· The Ballad of the Sad Café eftir Carson McCullers. Það eru fínar sögur í þessu safni en að mínu mati er það titilsagan sem stendur upp úr: Loftið í þessari nóvellu er svo þykkt að það má næstum snerta það, snerta spennuna sem er í uppsiglingu. Þessi tilvísun segir allt: „This was not a fight to hash over and talk about afterwards; people went home and pulled the covers up over their heads.“ Aðalpersónan, fröken Amelia Evans, verður varanlega greipt í minnið.

· Patrick Modiano: Tvær bækur eftir franska höfundinn og Nóbelsverðlaunahafann voru á listanum, Pedigree (ensk þýð. Mark Polizzotti) og In the Café of Lost Youth (þýð. Euan Cameron). Sú fyrri er persónuleg saga höfundar, um foreldra hans. Ég nótaði ekki hjá mér neinar tilvísanir, en skrifaði að yfir bókinni hvíldi dapurleiki. Sú síðari fór rakleiðis með mig á götur Parísar. Skrif Modiano finnst mér meira snúast um stemningu heldur en söguþráð. Að lesa hann er oft eins og að horfa á kvikmynd; honum tekst að gera ákveðnar persónur ljóslifandi á síðunni án þess að eyða um þær mörgum orðum. Næst ætla ég að lesa The Occupation Trilogy.

· Invisible Cities eftir Italo Calvino. Þessi stutta skáldsaga er ein af þeim sem höfðar ekki til allra. Hún greip mig ekki á fyrstu síðu en því meira sem ég las því meira heillaðist ég af prósanum. Bókin samanstendur af samræðum á milli Marco Polo og mongólska keisarans Kublai Khan. Polo er að lýsa fyrir honum borgunum sem hann hefur heimsótt þegar hann er í raun alltaf að lýsa sömu borginni, Feneyjum. (Ensk þýð. William Weaver.)

· Stoner eftir John Williams. Þessi fannst mér virkilega góð. Varð heilluð af William Stoner en þoldi ekki konuna hans, persónu sem ýtti á alla mína takka. Stoner er fátækur bóndastrákur frá Missouri sem fer í háskóla og uppgötvar bókmenntir. Þær senur eru fegurð bókarinnar, unaður fyrir alla bókaorma. En líf Stoner er fullt af vonbrigðum, svo miklum að það næstum dregur lesandann niður. Gæti verið ástæðan fyrir því að bókin seldist ekki vel, sem er einmitt viðfangsefni þessarar áhugaverðu greinar sem birtist í The New Yorker.

· Point Omega eftir Don DeLillo. Þessi stutta skáldsaga fór beint á listann yfir uppáhaldsbækurnar mínar árið 2017. Skrifin heilluðu mig; áferð textans. Sagan gerist aðallega í eyðimörkinni í Kaliforníu og verður að eins konar spennusögu þegar ein sögupersónan hverfur. Einn daginn ætla ég að kaupa mér eintak og lesa bókina aftur.

· Jigsaw: An Unsentimental Education eftir Sybille Bedford. Það er ekki auðvelt að skrifa í fáum orðum um þessa skáldsögu sem að hluta til er sjálfsævisöguleg. Ef þið lesið hana finnst mér líklegt að hún festist í minninu. Bedford ólst upp í Þýskalandi hjá föður sínum og hjá móður sinni á Ítalíu eftir andlát hans. Hún menntaði sig í Englandi og upp úr 1920 ferðaðist hún á milli Englands og Suður-Frakklands (móðir hennar og stjúpi höfðu flutt þangað til að flýja uppgang fasismans). Þrátt fyrir að vera gallagripur og algjörlega óáreiðanleg er móðir hennar heillandi karakter með mikinn áhuga á bókmenntum („I must have read (with earnest marginal notes) and my mother re-read half of Balzac, most of Maupassant, some Zola ...“). Í Frakklandi lifði fjölskyldan menningarlegu, bóhemísku lífi; í vinahóp þeirra var Huxley-fjölskyldan (Aldous Huxley var lærifaðir Bedford; hann gaf henni leyfi til að skrifa ævisögu sína). Þetta er vel skrifuð þroskasaga sem gerist á milli tveggja heimsstyrjalda en hún er svo miklu meira en það.

mynd mín, birt á Instagram 27/06/2017



fimmtudagur, 2. ágúst 2018

№ 15 bókalisti | #WITMonth

№ 15 bókalisti: Eisenberg, McPhee, McEwan · Lísa Hjalt


Hitabylgja mætti á svæðið. Ég vona að hún fari að láta sig hverfa því ég get ekki lesið í þessum kæfandi hita, get ekki einbeitt mér. Hitabylgjur eru ekki fyrir fólk sem er fætt í nálægð við heimskautsbauginn. Þessa dagana eru það ís og sjónvarpsþættir sem hjálpa okkur að höndla ástandið. Bókalistinn, sem ég ætlaði að deila fyrr, hefur gengið í gegnum breytingar: Ég hef til dæmis fjarlægt tvær bækur sem ég endurlas og bókina The Human Stain eftir Philip Roth, sem nú er látinn. Roth verður að bíða því bókasafnið átti ekki eintak.

№ 15 bókalisti:
1  Enduring Love  · Ian McEwan
2  Draft No. 4  · John McPhee
3  Under the 82nd Airborne  · Deborah Eisenberg *
4  The Hare with Amber Eyes  · Edmund de Waal
5  Cheerful Weather for the Wedding  · Julia Strachey **
6  Comet in Moominland  · Tove Jansson **

* Eintakið mitt er ófáanlegt. Tengillinn leiðir ykkur á annað safn sem inniheldur
sömu smásögurnar.  ** Endurlestur

Ég keypti bókina eftir John McPhee í vor. Þó að vikur séu liðnar frá því ég las hana þá vildi ég hafa hana á listanum; mæla með henni fyrir alla sem hafa áhuga á skrifum. Hún er ekki hefðbundin ritstílsbók með dæmum og áherslulistum heldur safn ritgerða. Prófessor McPhee notar persónulegar dæmisögur til að deila innsýn sinni í það sem hann kallar skapandi óskálduð skrif (e. creative nonfiction). Á listanum er rit eftir listamanninn Edmund de Waal sem skrifaði sögu fjölskyldu sinnar. Það var textílhönnuðurinn Lisa Fine sem mælti með bókinni hér á blogginu og það er kominn tími til að lesa eintakið sem ég keypti í Skotlandi síðasta sumar.


Ágúst er Women in Translation Month, eða mánuður tileinkaður þýddum bókum eftir konur. Á samfélagsmiðlunum gengur hann undir merkinu #WITMonth. Það var Meytal Radzinski, sem heldur úti blogginu Bibliobio, sem sýndi frumkvæði árið 2014 og kynnti hann til sögunnar. Ég hef aldrei tekið þátt, sennilega vegna þess að ég, eins og aðrir Íslendingar, hef lesið þýddar bækur eftir konur (og karla) frá því ég man eftir mér. Að lesa þýdd verk telst eðlilegt meðal lesanda sem fæðast í löndum þar sem enska er ekki móðurmálið. Ég ákvað samt að lýsa stuðningi við #WITMonth í ár með því að bæta einni bók um Múmínálfana á bókalistann: Comet in Moominland eftir finnsku skáldkonuna Tove Jansson, í enskri þýðingu eftir Elizabeth Portch. Á íslensku kallast bókin Halastjarnan og það var Steinunn S. Briem heitin sem þýddi. Steinunn var ötull þýðandi.