miðvikudagur, 20. desember 2017

Lestrarkompan 2017: Baldwin, Bandi, Bellow ...

Lestrarkompan mín: Baldwin, Bandi, Bellow · Lísa Hjalt


Lestrarkompan mín, muniði eftir henni? Ég er á eftir með bloggið (sem gaf mér þá hugmynd að nota Instagram-myndirnar mínar fyrir þennan flokk). Ég held að best sé að nota bara að-flytja-til-Þýskalands spilið mitt. Við erum enn að venjast nýju umhverfi og tungumálinu. Við höfum átt góðar stundir en líka ergjandi, og upplifað einstaka afturför. Svona er þetta bara. Stuttu eftir flutningana fór okkar elsta aftur til Skotlands vegna náms og ég kann að hafa skilið hluta hjartans eftir á flugvellinum. Þetta var allt laust við dramatík en ég held að ég hafi gert mér grein fyrir því að einn daginn verður hreiðrið tómt. (Ég gæti alltaf leikið eftir Faust og gert samning við djöfulinn, selt honum sálu mína svo börnin kjósi háskóla á svæðinu þegar sá tími kemur. Vandamálið er að ég trúi ekki á tilvist hans.) Um jólin verður fjölskyldan saman á ný og framundan er afslöppun og góður matur (nýverið í spjalli á Skype minntist ég á gjafirnar og tvö barnanna skutu inn í: „Mamma, okkur er alveg sama um gjafirnar, við viljum bara matinn!“). Áður en jólahátíðin gengur í garð ætla ég að deila nýjum bókalista, stuttum. Þarf bara að finna tíma til að taka mynd.

№ 8 bókalisti (5 af 8):

· The Accusation eftir Bandi. Þegar ég birti bókalistann þá gaf ég þessu smásögusafni, sem var smyglað út úr Norður-Kóreu, sérstakan sess. Sögurnar ásækja mig enn, sérstaklega ein sem kallast „City of Specters“, en sú er önnur í röðinni. Í hvert sinn sem Norður-Kórea er í fréttunum - svo til á hverjum degi - verður mér hugsað til þessa sögusafns sem minnir mig á óréttlætið, vonleysið og ómannúðlegar aðstæður fólksins.

· Another Country eftir James Baldwin. Ég vissi að hann yrði nýi uppáhaldshöfundurinn minn þegar ég kom að þessari persónulýsingu á síðu 18: „[H]e had discovered that he could say it with a saxophone. He had a lot to say.“ Frá fyrstu síðu skynjar maður rytma í frásögninni. Ég las einhvers staðar á netinu að það væri jazz og hugsaði með mér, Jazz, auðvitað! Skáldsagan gerist á síðari hluta 6. áratugarins, í Greenwich Village, NY. Hún er ekki fyrir alla (ef stutt er í blygðunarkennd ykkar ættuð þið að láta þessa eiga sig; ég verð þó að segja að þið eruð að missa af frábærum ritstíl) þar sem hún tekst á við ögrandi þemu eins og framhjáhald, samkynhneigð, tvíkynhneygð og sambönd fólks af ólíkum kynþætti. Athugið að bókin kom út árið 1962! Ég skammast mín fyrir að segja að þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Baldwin. Ég hafði bara lesið gömul viðtöl við hann og umfjallanir í tímaritum þar sem vísað var í verk hans og nú ætla ég mér að lesa allt sem hann skrifaði, skáldverk og ritgerðir.

· Seize the Day eftir Saul Bellow. Mín fyrsta bók eftir Bellow. Minnisverð nóvella sem gerist í NY en, ef ég á að segja alveg eins og er, greip mig ekki alveg frá byrjun (ég segi þetta með allri virðingu fyrir aðdáendum hans: á meðan lestrinum stóð kann Bellow að hafa eilítið fölnað í samanburði við Baldwin, sem hafði heltekið bókabéusinn innra með mér). Það var ekki fyrr en að lestrinum loknum sem sagan fór að koma reglulega upp í hugann og nú langar mig að lesa hana aftur.

· The Blue Touch Paper eftir David Hare. Æviminningar sem ég naut að lesa þó að sumir hlutar hafi ekki verið eins áhugaverðir og aðrir. Oft þegar ég les ævisögur þá leiðist mér barnæskuhlutinn (stundum er það vegna skorts á heiðarleika af hálfu höfundar; stundum á höfundur til með að mála helst til of rósrauða mynd), sem var ekki í þessu tilfelli. Áður en ég las bókina vissi ég ekkert um uppvaxtarár Hare og hann hélt mér við lesturinn með skemmtilegum og heiðarlegum sögum, eða svo held ég. Það er heilmikið um pólitík í bókinni, sem höfðar kannski ekki til allra, en leikhússena Lundúna vaknar til lífsins á síðunum og lesandinn fær að deila sigrum Hare, og ósigrum.

· Pale Fire eftir Vladimir Nabokov. Kláraði ekki bókina. Ekki minn tebolli. Á síðunum höfum við ljóðskáld, Shade, sem hefur samið langt ljóð fyrir andlát sitt. Nágranni hans og kollegi, Kinbote, greinir ljóðið ansi ítarlega og mjög fljótt áttar lesandinn sig á því að hann er úti á túni. Ég einfaldlega missti þolinmæðina við að lesa greiningu Kinbote, fyrir sjálfsblekkingu hans (það hafði ekkert með skrif Nabokov að gera).

[Eins og ég hef sagt áður, í lestrarkompufærslum geri ég engar athugasemdir við bækur sem ég endurles eða þær sem ég hef þegar fjallað um á blogginu. Sjá sér færslur fyrir þessar tvær af listanum: Stríðsdagbækur Lindgren A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45 og skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.]

mynd mín, birt á Instagram 29/07/2017



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.