sunnudagur, 25. nóvember 2018

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar · Lísa Hjalt


Þessi ljúffenga gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar er bragðgóð og rjómakennd. Líkaminn bókstaflega öskrar á hana á haustin þegar ný gulrótauppskera kemur í verslanir. Sigrún vinkona á uppskriftina sem birtist í bók hennar, Café Sigrún: Hollustan hefst heima (við skemmtum okkur vel þegar ég var að aðstoða hana með handritið). Sigrún hefur ferðast mikið um Austur-Afríku og súpan er innblásin af undursamlegum dögum á eyjunni Zanzibar: Þar sem hún sat og gæddi sér á gulrótasúpu naut hún útsýnis yfir Indlandshafið og í loftinu var ilmurinn sem barst frá matarbásunum á Forodhani-markaðnum, í hinni sögulegu borg Stone Town. Súpan er vegan, auðvelt er að matreiða hana (þið þurfið töfrasprota eða matvinnsluvél) og hún gefur ykkur nauðsynleg vítamín og trefjar. Þetta er ein vinsælasta uppskriftin á CafeSigrun-vefsíðunni: Ég hef engar breytingar gert á innihaldinu, bara örlitlar á aðferðinni.

GULRÓTA- OG KÓKOSSÚPA FRÁ ZANZIBAR

2 matskeiðar kókosolía
1 stór laukur
4 hvítlauksrif
lítill bútur ferskt engifer
300 g lífrænar gulrætur
150 g sætar kartöflur
1 teskeið karrí
2 lífrænir grænmetisteningar
750 ml vatn
150 ml kókosmjólk
½-1 teskeið sjávar/Himalayasalt
má sleppa: pipar eftir smekk
má sleppa: 7-10 saffranþræðir

Skolið gulræturnar (burstið ef þarf) og afhýðið annað grænmeti. Saxið allt gróft. (Afhýðið eða skafið gulræturnar ef þið notið ekki lífrænar.)

Hitið kókosolíuna í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið hvítlauk og engifer út í, steikið áfram í nokkrar mínútur og hrærið svo karrí saman við (ég nota kraftmikið karrí).

Bætið gulrótum og sætum kartöflum út í og veltið upp úr karríblöndunni. Hellið vatninu í pottinn ásamt grænmetisteningunum, aukið hitann og hrærið vel. Hitið upp að suðu, hrærið ½ teskeið af salti saman við, setjið svo lok á pottinn og leyfið súpunni að malla við vægan hita í 25-30 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni og blandið kókosmjólkinni ásamt saffranþráðunum saman við. Maukið súpuna með töfrasprota þar til áferðin er silkimjúk. Farið varlega því súpan er sjóðandi heit: Haldið töfrasprotanum alveg beinum og ýtið á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni (ef maukuð í matvinnsluvél/blandara er betra að leyfa súpunni að kólna aðeins áður hún er maukuð í smá skömmtum).

Hitið súpuna upp og smakkið til með salti og pipar án þess að láta hana sjóða. Berið súpuna fram með nýbökuðu brauði eða bollum.

Recipe in English




föstudagur, 16. nóvember 2018

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð · Lísa Hjalt


Árið 1971 skrifaði Joan Didion ritgerð um Doris Lessing sem byrjaði á orðunum: „To read a great deal of Doris Lessing over a short span of time is to feel that the original hound of heaven has commandeered the attic. She holds the mind's other guests in ardent contempt“ (The White Album, bls. 119). Áhugavert. Ég hef orð hennar í huga þegar ég les Martha Quest, fyrstu bókina af fimm í Children of Violence seríunni. Þessi bókalisti minn er að nokkru leyti byggður á rithöfundatryggð: skáldsögurnar The Grass Is Singing og The Golden Notebook eftir Lessing voru á lista № 7 og á síðasta voru bækur eftir Didion, Johnson og Baldwin.

№ 17 bókalisti:
1  Martha Quest  eftir Doris Lessing
2  Two Lives  eftir William Trevor
3  Housekeeping  eftir Marilynne Robinson
4  Where I Was From  eftir Joan Didion *
5  Play It as It Lays  eftir Joan Didion
6  The Uncommon Reader  eftir Alan Bennett
7  Jesus' Son  eftir Denis Johnson
8  Nobody Knows My Name  eftir James Baldwin
9  Will You Please Be Quiet, Please?  eftir Raymond Carver **

* Úr We Tell Ourselves Stories in Order to Live, útg. Everyman's Library.
** Úr Collected Stories, útg. The Library of America.

Í fyrsta sinn er ég að lesa verk eftir þá William Trevor og Raymond Carver, og Play It as It Lays er fyrsta skáldsagan eftir Didion sem ég les. Á næsta bókalista verða japanskar bókmenntir eingöngu. Ég lofaði öðrum slíkum lista fyrir löngu og ætla að uppfylla það loforð sem fyrst.



mánudagur, 1. október 2018

№ 16 bókalisti | Black History Month (UK)

№ 16 bókalisti · Lísa Hjalt


Bókasöfn eru hamingjustaðurinn minn. Eða svo hélt ég. Í síðustu viku var ég á safninu með minnisbók, þá sem ég nota fyrir bókatitla sem mig langar að lesa. Eins og þið getið ímyndað ykkur var ég eins og lítill krakki á leið í Disneyland. Ég gekk upp þrepin og inn á hæð hugvísinda (þetta er háskólabókasafn, það er stórt) þar sem ég í sæluvímu gekk á milli hárra bókarekka. Skoðaði bækur, snerti bækur. Fjarlægði bækur af bókalistanum sem ég hafði þegar í huga til að skapa pláss fyrir þær sem kröfðust þess að vera á honum. Setti bækur aftur á listann, kannski til þess eins að taka þær af honum aftur stuttu síðar. Bara eðlileg bókasafnshegðun.

En svo gerðist eitthvað, eitthvað sem ég var ekki búin undir: ég upplifði augnabliks hræðslukast. Í nokkrar sekúndur, þar sem ég stóð við fyrstu hillurekkana með bandarískum skáldskap, gerði ég mér skyndilega grein fyrir því hversu margar bækur voru þarna á hæðinni, í öllum þessum hillum: Í þessu lífi kæmist ég aldrei yfir það að lesa allar bækurnar á langar-að-lesa listanum því hann verður alltaf lengri. Ég get ekki verið eini bókaunnandinn sem hefur upplifað þennan ótta. Getur ekki verið. Það er eins gott að það sé líf á eftir þessu, þar sem okkar bíður bókasafn með öllum ólesnu bókunum sem okkur langar að lesa. Það er eins gott.

№ 16 bókalisti:
1  Blue Nights  · Joan Didion
2  Go Tell It on the Mountain  · James Baldwin
3  Sing, Unburied, Sing  · Jesmyn Ward
4  The Human Stain  · Philip Roth
5  Stet  · Diana Athill
6  Train Dreams  · Denis Johnson
7  The Bookshop  · Penelope Fitzgerald
8  Do Not Say We Have Nothing  · Madeleine Thien
9  The Collected Essays of Elizabeth Hardwick  · ritstj. D. Pinckney


Á laugardaginn - kannski hafið þið þegar séð það á Instagram - las ég æviminningar Didion, Blue Nights, í einum rykk. Hún skrifaði bókina eftir andlát dóttur sinnar, Quintana, sem var aðeins 39 þegar hún lést. (Hún skrifaði The Year of Magical Thinking eftir andlát eiginmannsins, rithöfundarins John Gregory Dunne). Mér líkaði Blue Nights. Þetta er ekki sorgarsaga sem kallar á bréfþurrku við lesturinn. Stíll Didion er ekki ofurhlaðinn tilfinningum. Hún er bara að reyna að ná utan um þetta allt. Að reyna að finna svör við spurningum sem ekki er hægt að svara.

Okótber er Black History Month í Bretlandi, mánuður tileinkaður sögu blökkumanna (febrúar í BNA). Ég sýni stuðning minn með tveimur skáldsögum á listanum, eftir James Baldwin og Jesmyn Ward. Hún hlaut verðlaunin National Book Awards 2017 fyrir Sing, Unburied, Sing. Það var í annað sinn sem hún hlaut þau, árið 2011 fyrir skáldsögu sína Salvage the Bones.



fimmtudagur, 13. september 2018

Lestrarkompan 2017: Roy, Mahfouz, Athill ...

Lestrarkompan mín: Roy, Mahfouz, Athill · Lísa Hjalt


Ég var næstum búin að gleyma hversu dásamlegur september getur verið, aðallega stolin augnablik á veröndinni með bækur og kaffi. Lesandi undir markísunni, að kynna mér nýjar bækur á netinu eða hlusta á bókahlaðvörp, geta liðið klukkustundir án þess að ég taki eftir því. Svo lengi sem enginn truflar. Í gær voru birtir tveir listar með fyrstu tilnefningunum („longlists“) til verðlaunanna National Book Awards 2018. Ég var spennt fyrir þýddu skáldverkunum, sem er nýr flokkur. Á listanum voru tvær bækur sem ég hafði þegar nótað hjá mér: Disoriental eftir hina frönsk-írönsku Négar Djavadi og Flights eftir pólsku skáldkonuna Olga Tokarczuk (bók hennar hlaut Alþjóðlegu Man Booker verðlaunin). Í dag verða birtar tilnefningar fyrir ljóð og óskáldað efni, og á morgun fyrir skáldskap. Ef þið eruð í leit að lestrarhugmyndum þá ættuð þið að kynna ykkur listana. Nokkur orð um Lestrarkompuna mína: Ef mér líkar ekki bók sem birtist á bókalista hjá mér ekki láta það aftra ykkur frá því að lesa hana. Ég hef mínar skoðanir og smekk, en ég hef engan áhuga á því að segja fólki hvaða bækur skal lesa og ekki lesa. Svo lengi sem fólk les bækur og þær eru gefnar út er ég sátt.

№ 11 bókalisti (6 af 9):

· The Ministry of Utmost Happiness eftir Arundhati Roy. Ég vildi að ég gæti sagt ykkur að mér líkaði þessi skáldsaga, hennar fyrsta í tuttugu ár, en mér tókst ekki einu sinni að klára hana, gafst upp í kringum blaðsíðu 200. Hún er pólitísk, sem kemur ekki á óvart þegar höfundurinn er þekktur aðgerðasinni. En mér fannst eins og Roy væri að reyna að varpa ljósi á hvert einasta vandamál í indversku samfélagi, eins og ég væri að rekast á nýtt á hverri síðu. Kannski er auðveldara fyrir lesendur sem hafa lesið almenn rit Roy og fylgst með baráttu hennar að skilja hverju hún er að reyna að koma til skila í þessari sögu. Að mínu mati var stíllinn yfirhlaðinn og kaótískur. Af því sem ég las þá get ég ekki mælt með bókinni, en mér líkaði vel fyrsta skáldsaga hennar The God of Small Things, sem hlaut Man Booker-verðlaunin 1997.

· Palace Walk eftir Naguib Mahfouz. Ég þurfti því miður að skila þessari á bókasafnið áður en ég náði að klára hana vegna flutninganna í fyrra (á eftir 150 síður eða svo). Nóbelskáldið Mahfouz er dásamlegur sögumaður og þessi bók er sú fyrsta í Kaíró-þríleiknum hans. Hún byrjar í borginni árið 1917 og við fáum að fylgjast með lífi Al Jawad-fjölskyldunnar. Faðirinn er harðstjóri sem sveiflast öfganna á milli: heima fyrir notar hann Kóraninn til að ráðskast með og kúga fjölskylduna en leggur svo „trúarkenningarnar“ til hliðar svo hann geti notið lystisemdanna sem næturlíf Kaíró býður upp á. Lesturinn er ekki alltaf skemmtilegur og þarna er nokkuð um múslimskar staðalímyndir. Bókin hefur ýtt á marga takka hjá mér og farið með mig í gegnum allan tilfinningaskalann, en ég ætla mér svo sannarlega að klára hana. Svo ætla ég að lesa hinar tvær, Palace of Desire og Sugar Street.

· The Black Prince eftir Iris Murdoch. Ég þurfti líka að skila þessari á bókasafnið og hafði ekki lesið nógu mikið í henni til að geta farið út í smáatriði. Ég á eftir að næla mér í annað eintak og fjalla þá kannski um hana síðar.

· Gilead eftir Marilynne Robinson. Prósi þessarar bókar er fallegur og samanstendur af bréfum aðalpersónunnar, prestsins John Ames. Til að segja ykkur nánar frá henni finnst mér best að gefa Barack Obama forseta orðið, en hann átti samræður við höfundinn árið 2015:
I first picked up Gilead, one of your most wonderful books, here in Iowa. ... And I’ve told you this—one of my favorite characters in fiction is a pastor in Gilead, Iowa, named John Ames, who is gracious and courtly and a little bit confused about how to reconcile his faith with all the various travails that his family goes through. And I was just—I just fell in love with the character, fell in love with the book.
Ef þið viljið lesa allar samræður þeirra þá getið þið fylgt þessum tengli: The New York Review of Books. Ég mæli eindregið með Gilead fyrir lesendur sem þurfa ekki alltaf fléttu í bókum eða mikla atburðarás.

· Waking Lions eftir Ayelet Gundar-Goshen. Þetta er önnur bók ísraelsku skáldkonunnar og ég hef þegar sagt ykkur frá sögusviðinu og hvernig ég frétti af bókinni. Þessi væri eins og týpísk spennusaga ef í henni væru ekki hlutar með sjálfskoðun persónanna, hlutar sem hægja á lestrinum: Á heimleið eftir vakt ekur læknir á mann sem deyr. Hann flýr af vettvangi og þegar ekkja mannsins bankar upp á hjá honum þá veit lesandinn að líf hans er við það að taka drastískum breytingum. Ég segi ekki meira. (Ensk þýð. Sondra Silverston.)

· Instead of a Letter eftir Diana Athill. Lestur þessara æviminninga ollu mér vonbrigðum, aðallega vegna óspennandi innihalds, ekki skrifanna sjálfra. Fyrstu hundrað síðurnar fjalla um uppeldisárin og svo fer hún til Oxford í nám. Mörgum síðum eyðir hún í trúlofun sem upp úr slitnaði - tókst aldrei að kalla fram sérstaka vorkunn hjá mér - og í kynlífsreynslu sína á þrítugsaldri, sem líklega hneykslaði marga lesendur þegar bókin kom fyrst út árið 1962. Ég efast um að lesendur nútímans lyfti brúnum yfir þeim lýsingum. Það var ekki fyrr en undir lokin, í kafla 14 sem byrjar á bls. 168 (af 224), sem mér fannst bókin verða áhugaverð, þegar hún hóf störf í útgáfubransanum. Í lokin er bókin orðin að einhvers konar ferðaskrifum og frásögnin verður hálf brotakennd. Ég er þegar byrjuð á síðari æviminningabók hennar Stet þar sem hún einblínir á líf sitt sem ritstjóri hjá André Deutsch forlaginu (ekki lengur starfandi). Bókin hefur hlotið mikið lof og verður á næsta bókalista hér á blogginu.

mynd mín, birt á Instagram 04/09/2018



föstudagur, 24. ágúst 2018

Travels in a Dervish Cloak e. Isambard Wilkinson

Ritdómur: Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Má ég freista ykkar með grípandi bókarkápu og frábæru innihaldi? Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson fjallar um ævintýraleg og hættuleg ferðalög hans í Pakistan á þeim tíma sem hann skrifaði fréttir fyrir The Daily Telegraph um Stríðið gegn hryðjuverkum. Wilkinson er frábær penni, hnyttinn og eftirtektarsamur, laus við þann sjálfhverfa stíl sem stundum einkennir ferðafrásagnir. Hann fer með lesandann um allt Pakistan, land sem hann skilur og þykir vænt um án þess að vera blindur gagnvart vandamálum þess („the mysterious world that I was so eager to capture before it disappeared“). Eftir stendur glögg frásögn höfundar um framandi menningu þess. Þetta var uppáhaldsbókin mín árið 2017. Hún er nú fáanleg í kiljubroti og ég hvet alla sem áhuga hafa á ferðaskrifum að næla sér í eintak.

Í bókinni sýnir Wilkinson okkur breidd pakistanskt þjóðfélags; fólk við hversdagslega iðju, heilaga menn, stríðsherra, þrjóta og aðrar furðuverur í landi sem er að breytast hratt. Nálgun hans er fræðandi, tilgerðarlaus og skemmtileg. Hér heimsækir hann gamalt virki í grennd við ættbálkasvæði:
Sitting in the courtyard, I could almost feel the modern age clamouring at its walls, wanting to bash down its gates and slay its lord, who I imagined would have gone without a murmur, accepting his fate as the natural order of things.
Hann er trúr viðfangsefni sínu og dæmir ekki hart. Athugasemdir hans um fólk og staði hljóma sannar. Í textanum eru tilvísanir í bókmenntir og ein kallaði fram hlátur: hann hittir herskáan stríðsmann sem neitar að „go gentle into that good night“. Aldrei grunaði mig að ég ætti eftir að tengja ljóðskáldið Dylan Thomas við stríðsmann í Baluchistan-héraði! Sá hinn sami lifir að vísu ekki af. Stundum er bókin líkari skáldsögu; ég fletti síðunum af miklum ákafa, allt að því haldandi niðri í mér andanum. Á einhverjum punkti þurfti ég að minna sjálfa mig á að það væri engin bók ef höfundurinn hefði ekki sloppið lifandi. Þetta er bók fyrir þá sem vilja sjá aðra hlið á Pakistan heldur en þá sem endurspeglast í Hollywood-framleiðslum. Þetta er alvöru stöff.

Ritdómur: Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt
Úr bókinni: Kennari og nemendur hans í Kasmír, 2005 eftir Chev Wilkinson

Ef þið fylgist með heimsfréttum ættuð þið að vita að ný ríkisstjórn er tekin við í Pakistan, undir forystu Imran Khan sem virðist ætla að gera umbætur. (Ef við lítum á núverandi valdhafa Hvíta hússins þá held ég að fyrrum krikketspilari sem forsætisráðherra sé ekki versti kostur þjóðar.) Ég man enn eftir þeirri sjokkerandi frétt í desember 2007 þegar Benzir Bhutto var ráðin af dögum á kosningafundi í Rawalpindi. Mér fannst það alltaf lofa góðu að kona hefði verið forsætisráðherra íslamsks ríkis, og það tvisvar. Tveimur mánuðum áður var Wilkinson nálægt hryllingnum í Karachi þegar hún slapp lifandi frá sprengjuárás, en á Írlandi þegar örlög hennar réðust. Hann hafði verið rekinn úr landi fyrir ritstjórnargrein sem var þáverandi forseta, Pervez Musharraf, ekki að skapi. Í janúar þar á eftir var honum leyft að snúa til baka. Á flugvellinum beið skelfilegi bílstjórinn hans með „forljót appelsínugul blóm“.

Bílstjórinn Allah Ditta er einn af mörgum litríkum persónum í bókinni. Nafn hans merkir „Gjöf frá Guði“ og ég get bara sagt að Guð hlýtur að hafa furðulega kímnigáfu. Kokkurinn hans Basil er engu betri. Þessum tveimur kemur ekki saman og afleiðingin er kostulegur ófriður á heimili Wilkinson. Mín uppáhaldspersóna er bróðir hans Chev:
'You can't hang about here like a mixture of a wannabe Lord Byron and Lord Fauntleroy waiting for the next cup of tea or bout of diarrhoea. Pick a spot on the map and let's be off,' he said. ... His presence was reassuring. He's always stuck by me, whatever my failings. He doesn't mind sharing a bed with me, as long as there's a pillow between us lest I grow amorous in my sleep. And he's good at pointing out if I have food round my mouth before I interview people.
Chev, sem er ljósmyndari, er hinn upplagði ferðafélagi. Mikilvægara er að Wilkinson neyðist til að yfirgefa Pakistan vegna nýrnabilunar og þá fáum við að vita að það var Chev sem bjargaði lífi hans: Hann gaf honum nýra.

Ég vildi geta sagt ykkur að önnur ferðasaga væri væntanleg frá Wilkinson en hann hefur farið í tvær nýrnaskiptaaðgerðir og því ólíklegt að hann hætti sér til varhugaverðra staða. Ég virkilega naut þeirrar ríku frásagnargáfu sem finnst í Travels in a Dervish Cloak, bók sem er full af kímni og kryddum. Hún var tilnefnd til verðlauna sem kallast Stanford Dolman Travel Book of the Year Award. Ef þið dæmið bók af kápunni þá get ég lofað að þessi skilar sínu.


Travels in a Dervish Cloak
Eftir Isambard Wilkinson
Eland
Innbundin, 256 blaðsíður, myndskreytt
Kaupa innbundna | Kiljubrot


myndir mínar | mynd úr bókinni eftir Chev Wilkinson | myndskreyting kápu: Dorry Spikes



föstudagur, 17. ágúst 2018

Lestrarkompan 2017: Modiano, DeLillo, Bedford ...

Lestrarkompan mín: Modiano, DeLillo, Bedford ... · Lísa Hjalt


Hvað eruð þið að lesa þessa dagana? Ég er að lesa The Hare with Amber Eyes eftir Edmund de Waal af síðasta bókalista og þegar farin að hlakka til að deila þeim næsta. Ég var sko að kaupa bækur og á vefsíðu bóksafnsins fann ég margar sem mig hefur langað að lesa, til dæmis bókina The Bookshop eftir Penelope Fitzgerald. Ég efast um að kvikmyndin hafi farið fram hjá bókaunnendum. Ég er alltaf jafn spennt fyrir því að sjá heim bókmenntanna birtast á hvíta tjaldinu og dauðlangar að sjá Glenn Close og Jonathan Pryce í The Wife, byggð á samnefndri skáldsögu eftir Meg Wolitzer. En nóg í bili um bókmenntalegar kvikmyndir, við skulum halda áfram með Lestrarkompufærslur ársins 2017.

№ 10 bókalisti (7 af 9):

· The Ballad of the Sad Café eftir Carson McCullers. Það eru fínar sögur í þessu safni en að mínu mati er það titilsagan sem stendur upp úr: Loftið í þessari nóvellu er svo þykkt að það má næstum snerta það, snerta spennuna sem er í uppsiglingu. Þessi tilvísun segir allt: „This was not a fight to hash over and talk about afterwards; people went home and pulled the covers up over their heads.“ Aðalpersónan, fröken Amelia Evans, verður varanlega greipt í minnið.

· Patrick Modiano: Tvær bækur eftir franska höfundinn og Nóbelsverðlaunahafann voru á listanum, Pedigree (ensk þýð. Mark Polizzotti) og In the Café of Lost Youth (þýð. Euan Cameron). Sú fyrri er persónuleg saga höfundar, um foreldra hans. Ég nótaði ekki hjá mér neinar tilvísanir, en skrifaði að yfir bókinni hvíldi dapurleiki. Sú síðari fór rakleiðis með mig á götur Parísar. Skrif Modiano finnst mér meira snúast um stemningu heldur en söguþráð. Að lesa hann er oft eins og að horfa á kvikmynd; honum tekst að gera ákveðnar persónur ljóslifandi á síðunni án þess að eyða um þær mörgum orðum. Næst ætla ég að lesa The Occupation Trilogy.

· Invisible Cities eftir Italo Calvino. Þessi stutta skáldsaga er ein af þeim sem höfðar ekki til allra. Hún greip mig ekki á fyrstu síðu en því meira sem ég las því meira heillaðist ég af prósanum. Bókin samanstendur af samræðum á milli Marco Polo og mongólska keisarans Kublai Khan. Polo er að lýsa fyrir honum borgunum sem hann hefur heimsótt þegar hann er í raun alltaf að lýsa sömu borginni, Feneyjum. (Ensk þýð. William Weaver.)

· Stoner eftir John Williams. Þessi fannst mér virkilega góð. Varð heilluð af William Stoner en þoldi ekki konuna hans, persónu sem ýtti á alla mína takka. Stoner er fátækur bóndastrákur frá Missouri sem fer í háskóla og uppgötvar bókmenntir. Þær senur eru fegurð bókarinnar, unaður fyrir alla bókaorma. En líf Stoner er fullt af vonbrigðum, svo miklum að það næstum dregur lesandann niður. Gæti verið ástæðan fyrir því að bókin seldist ekki vel, sem er einmitt viðfangsefni þessarar áhugaverðu greinar sem birtist í The New Yorker.

· Point Omega eftir Don DeLillo. Þessi stutta skáldsaga fór beint á listann yfir uppáhaldsbækurnar mínar árið 2017. Skrifin heilluðu mig; áferð textans. Sagan gerist aðallega í eyðimörkinni í Kaliforníu og verður að eins konar spennusögu þegar ein sögupersónan hverfur. Einn daginn ætla ég að kaupa mér eintak og lesa bókina aftur.

· Jigsaw: An Unsentimental Education eftir Sybille Bedford. Það er ekki auðvelt að skrifa í fáum orðum um þessa skáldsögu sem að hluta til er sjálfsævisöguleg. Ef þið lesið hana finnst mér líklegt að hún festist í minninu. Bedford ólst upp í Þýskalandi hjá föður sínum og hjá móður sinni á Ítalíu eftir andlát hans. Hún menntaði sig í Englandi og upp úr 1920 ferðaðist hún á milli Englands og Suður-Frakklands (móðir hennar og stjúpi höfðu flutt þangað til að flýja uppgang fasismans). Þrátt fyrir að vera gallagripur og algjörlega óáreiðanleg er móðir hennar heillandi karakter með mikinn áhuga á bókmenntum („I must have read (with earnest marginal notes) and my mother re-read half of Balzac, most of Maupassant, some Zola ...“). Í Frakklandi lifði fjölskyldan menningarlegu, bóhemísku lífi; í vinahóp þeirra var Huxley-fjölskyldan (Aldous Huxley var lærifaðir Bedford; hann gaf henni leyfi til að skrifa ævisögu sína). Þetta er vel skrifuð þroskasaga sem gerist á milli tveggja heimsstyrjalda en hún er svo miklu meira en það.

mynd mín, birt á Instagram 27/06/2017



fimmtudagur, 2. ágúst 2018

№ 15 bókalisti | #WITMonth

№ 15 bókalisti: Eisenberg, McPhee, McEwan · Lísa Hjalt


Hitabylgja mætti á svæðið. Ég vona að hún fari að láta sig hverfa því ég get ekki lesið í þessum kæfandi hita, get ekki einbeitt mér. Hitabylgjur eru ekki fyrir fólk sem er fætt í nálægð við heimskautsbauginn. Þessa dagana eru það ís og sjónvarpsþættir sem hjálpa okkur að höndla ástandið. Bókalistinn, sem ég ætlaði að deila fyrr, hefur gengið í gegnum breytingar: Ég hef til dæmis fjarlægt tvær bækur sem ég endurlas og bókina The Human Stain eftir Philip Roth, sem nú er látinn. Roth verður að bíða því bókasafnið átti ekki eintak.

№ 15 bókalisti:
1  Enduring Love  · Ian McEwan
2  Draft No. 4  · John McPhee
3  Under the 82nd Airborne  · Deborah Eisenberg *
4  The Hare with Amber Eyes  · Edmund de Waal
5  Cheerful Weather for the Wedding  · Julia Strachey **
6  Comet in Moominland  · Tove Jansson **

* Eintakið mitt er ófáanlegt. Tengillinn leiðir ykkur á annað safn sem inniheldur
sömu smásögurnar.  ** Endurlestur

Ég keypti bókina eftir John McPhee í vor. Þó að vikur séu liðnar frá því ég las hana þá vildi ég hafa hana á listanum; mæla með henni fyrir alla sem hafa áhuga á skrifum. Hún er ekki hefðbundin ritstílsbók með dæmum og áherslulistum heldur safn ritgerða. Prófessor McPhee notar persónulegar dæmisögur til að deila innsýn sinni í það sem hann kallar skapandi óskálduð skrif (e. creative nonfiction). Á listanum er rit eftir listamanninn Edmund de Waal sem skrifaði sögu fjölskyldu sinnar. Það var textílhönnuðurinn Lisa Fine sem mælti með bókinni hér á blogginu og það er kominn tími til að lesa eintakið sem ég keypti í Skotlandi síðasta sumar.


Ágúst er Women in Translation Month, eða mánuður tileinkaður þýddum bókum eftir konur. Á samfélagsmiðlunum gengur hann undir merkinu #WITMonth. Það var Meytal Radzinski, sem heldur úti blogginu Bibliobio, sem sýndi frumkvæði árið 2014 og kynnti hann til sögunnar. Ég hef aldrei tekið þátt, sennilega vegna þess að ég, eins og aðrir Íslendingar, hef lesið þýddar bækur eftir konur (og karla) frá því ég man eftir mér. Að lesa þýdd verk telst eðlilegt meðal lesanda sem fæðast í löndum þar sem enska er ekki móðurmálið. Ég ákvað samt að lýsa stuðningi við #WITMonth í ár með því að bæta einni bók um Múmínálfana á bókalistann: Comet in Moominland eftir finnsku skáldkonuna Tove Jansson, í enskri þýðingu eftir Elizabeth Portch. Á íslensku kallast bókin Halastjarnan og það var Steinunn S. Briem heitin sem þýddi. Steinunn var ötull þýðandi.



föstudagur, 29. júní 2018

Nýjar bækur | Sumar 2018

Nýjar bækur | Sumar 2018 · Lísa Hjalt


Tell me, what is it you plan to do
with your one wild and precious life?

Undanfarnar vikur hef ég verið að hugsa um þessar línur bandaríska ljóðskáldsins Mary Oliver (úr ljóðinu The Summer Day sem birtist í New and Selected Poems, Vol. One) og hef ekki enn fundið svar. Það er óhætt að segja að einföld spurning hennar komi huganum á flug. Mér finnst eins og ég sé ekki alveg lent í Þýskalandi. Ekki misskilja mig, mig langaði að flytja aftur til meginlandsins - menningin og lífsstíllinn í þessum hluta Evrópu á betur við mig - en hélt að á þessum tímapunkti hefði ég komið mér betur fyrir. Ég hef verið í leit að hlutastarfi þar sem ég get æft þýskuna áður en ég tek að mér meira krefjandi verkefni en hef ekki fundið neitt. Bókabúð svaraði ekki einu sinni tölvupósti frá mér. Hversu írónískt er það? Góðu fréttirnar eru þær að elsta dóttirin hefur lokið námi sínu í Skotlandi. Við fórum að sækja hana, tókum ferju frá Calais yfir Ermasundið og fengum að dást aftur að Hvítu klettunum í Dover.

Uppköstin bíða í röðum en mig langaði að enda þessa bloggþögn á lista yfir nýjar bækur. Ég er spennt fyrir nýrri skáldsögu Michael Ondaatje, Warlight, hans fyrstu í sjö ár. Ef þið eruð hrifin af verkum hans þá vil ég benda ykkur á nýlegt viðtal Eleanor Wachtel við hann fyrir CBC Radio. Hlaðvarpið hennar Writers and Company er eitt af þeim bestu fyrir bókaunnendur.

Nýjar bækur:
· Warlight  eftir Michael Ondaatje (Vintage). Síðasta bókin sem ég las eftir hann var Anil's Ghost, og á undan henni, The English Patient. Líkaði báðar. Þið kunnið nú þegar að hafa tekið eftir bókarkápunni í hliðardálki bloggsins og megið búast við að sjá hana á bókalista í náinni framtíð.
· The Beautiful Summer  eftir Cesare Pavese (Penguin). Þroskasaga sem gerist á Ítalíu á fjórða áratug síðustu aldar. Kom fyrst út árið 1949.
· The Years  eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo, í þýðingu Alison L. Strayer). Þetta er breska útgáfan en æviminningar hennar á ensku hafa þegar komið út í BNA. „[A] masterpiece memoir of French life“ segir í titli ritdóms The Guardian. Hann kveikti áhuga minn og ég ætla að lesa bókina þó að ég hafi aldrei lesið neitt eftir höfundinn.
· There There  eftir Tommy Orange (Vintage). Ein af tveimur frumraunum á þessum lista yfir nýjar bækur, gerist í samfélagi Indjána í Oakland, Kaliforníu, þar sem höfundurinn fæddist og ólst upp. Þessi bók hefur fengið góða dóma. Flott bókarkápa.


· 100 Books That Changed the World  eftir Scott Christianson og Colin Salter (Rizzoli). „A tour of global history by way of history’s most important scrolls, manuscripts, and printed books, from Plato and Homer to the twenty-first century—100 must reads.“ Bók um bækur sem gæti verið gaman að hafa á kaffiborðinu. Þessi kom út í vor en mig langaði að hafa hana á listanum.
· The Collected Stories of Machado de Assis  (Liveright Publishing, í þýðingu Margaret Jull Costa + Robin Patterson). Í sannleika sagt man ég ekki eftir að hafa heyrt um Joaquim Maria Machado de Assis (1839-1908), einn mesta rithöfund Brasilíu, þar til ég las ritdóm Parul Sehgal fyrir The New York Times. Ég hengi höfuðið í skömm. Ef ykkur líkar smásögur þá ætti það að gleðja ykkur að safnið er 930 blaðsíður.
· A Place for Us  eftir Fatima Farheen Mirza (Vintage). Frumraun höfundar sem fjallar um indversk-múslimska fjölskyldu sem undirbýr brúðkaup elstu dótturinnar. Útgáfustjórinn Sarah Jessica Parker valdi bókina fyrir útgáfumerkið SJP for Hogarth. Ég hef oft varann á þegar stórstjörnurnar leggja nafn sitt við eitthvað en ég veit að Parker er ötull lesandi og hef heyrt hana mæla með góðum bókum. Höfundurinn, sem ólst upp í Kaliforníu en á rætur að rekja til Indlands, var nýlega í viðtali í The Guardian, sem þið hafið kannski áhuga á.
· The Outsider  eftir Stephen King (Hodder & Stoughton). Að lokum, ný spennusaga fyrir alla King-aðdáendur.

Café Tölke í Schnoor-hverfinu í Bremen, Þýskalandi · Lísa Hjalt
Café Tölke í Schnoor-hverfinu, Bremen

Í vor ætlaði ég að deila myndum frá Bremen á blogginu en komst aldrei í það. Sumarið kom snemma og á hlýjum sunnudegi hjólaði ég inn í miðbæ og fór í göngutúr um gamla Schnoor-hverfið. Það var of sólríkt fyrir myndatökur en ég tók þessa mynd sem fangar stemninguna fyrir framan Café Tölke, eitt af fyrstu kaffihúsunum sem ég fór á eftir að við fluttum hingað. Lítið og sjarmerandi kaffihús sem sérhæfir sig í kökum og bökum. Þegar þið finnið borð og setjist niður með kaffibolla og eplastrúdel gætuð þið fengið það á tilfinninguna að svo lengi sem þessi staður helst opinn verður veröldin í lagi. Þannig er andi sumra kaffihúsa.

myndir mínar, birtust á Instagram 05/03/2018 og 28/05/18



miðvikudagur, 11. apríl 2018

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar · Lísa Hjalt


Þegar ég er ekki með andlitið grafið ofan í bók þá má líklega sjá mig dásama mynstraðan textíl með heillandi mótífum (ég óska þess oft að hafa stundað nám í skreytilist). Í vikunni komst ég að því að bráðum bætist ný hönnun í línu Schuyler Samperton Textiles, sem kom á markað í fyrra. Ég bíð spennt. Á blogginu hef ég nú þegar kynnt nokkur af mynstrum hennar og í dag eru það blá og rauð efni sem ég lék mér að því að raða saman, með áherslu á mynstrin Overlea, Cordoba og Nellcote. Einnig langaði mig að sýna ykkur lítið brot úr innliti í Lamb's House í Leith, sem er í eigu íslensks arkitekts og birtist í House & Garden UK árið 2016.

En fyrst er það textíllinn. Bláa og rauða blómamynstrið er Overlea og þessi litur kallast Vermillion. Ég ætla að nota hann til að skreyta einn krók á heimilinu þegar ég er búin að kaupa nokkrar nauðsynjar. Ég held að efnið í þessum sama lit sómdi sér vel sem borðdúkur. Mynstrið í bláum tón kallast Marine, sem sést við hliðina á myndinni af herberginu. Hitt samanbrotna, bláa efnið er Cordoba í Indigo; hönnunin er með paisley-mótífi. Röndótta efnið er Pendleton í litnum Brighton.

Mynstrið Nellcote er hönnun sem ég hef þegar deilt og fæ ekki nóg af. Efnaprufan með spjaldinu sýnir það í bláum tón sem kallast Montego. Efst í hægra horninu sést glitta í það í litnum Apricot, sem er minn uppáhalds í fáanlegum litum þessa mynsturs (bláa efnið undir því er Firefly í litnum Deep End). Í eldri bloggfærslum þar sem textílhönnun Samperton hefur verið til umfjöllunar hef ég alltaf sýnt mynstrið Doshi; það sést undir lattebollanum í bláa tóninum Lake. Vinsamlegast fylgið tenglunum á mynstrin til að skoða fáanlega liti á vefsíðu Schuyler Samperton Textiles.

Lamb's House stofa, House & Garden UK · Davide Lovatti | Lönsj & Latte
Úr tímaritinu House & Garden UK: stofan í Lamb's House/Davide Lovatti

Svefnherbergið á myndinni minni tilheyrir Lamb's House í Leith (Edinborg), sem var byggt árið 1610 og hefur verið uppgert. Eigendurnir eru arkitektar sem sérhæfa sig í húsfriðun og það vill svo til að eiginkonan er íslensk, Kristín Hannesdóttir. Ég man eftir því að hafa kolfallið fyrir þessu rými, textílnum og viðarbitunum í loftinu, þegar ég sá innlitið í fyrsta sinn í tímaritinu House & Garden UK (ljósmyndari Davide Lovatti). Hér má einnig sjá stofuna og vinnustofu Kristínar, en tunnulaga loftið í henni er unnið úr lerki frá Síberíu. Smellið á tengilinn ef þið hafið áhuga á því að lesa um endurbæturnar á húsinu og til að sjá fleiri myndir.

Lamb's House vinnustofa, House & Garden UK · Davide Lovatti | Lönsj & Latte
Vinnustofa Kristínar Hannesdóttur arkitekts í Lamb's House/Davide Lovatti

efsta mynd mín | heimild: House & Garden UK, desember 2016 · Davide Lovatti