Sýnir færslur með efnisorðinu mynstur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu mynstur. Sýna allar færslur

sunnudagur, 22. ágúst 2021

Sicilia: A love letter to the food of Sicily · Ben Tish

Kápa bókarinnar Sicilia: A love letter to the food of Sicily eftir Ben Tish (Bloomsbury)


Sicilia: A love letter to the food of Sicily eftir Ben Tish kom út hjá Bloomsbury Publishing í júní. Bókin er stútfull af uppskriftum og ljósmyndum sem tengjast matargerð og menningu Sikileyjar. Um kápu bókarinnar þarf ekki að segja mörg orð, hún endurspeglar birtu og liti sumarsins í allri sinni dýrð. Þess má geta að fyrir tveimur árum sendi Tish frá sér bókina Moorish: Vibrant recipes from the Mediterranean, sem fjallar um menningaráhrif Norður-Afríku og Arabaheimsins á matargerð Miðjarðarhafssvæðisins.

Sicilia: A love letter to the food of Sicily
Höf. Ben Tish
Innbundin, myndskreytt, 304 blaðsíður
ISBN: 9781472982759
Bloomsbury Publishing



miðvikudagur, 11. apríl 2018

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar · Lísa Stefan


Þegar ég er ekki með andlitið grafið ofan í bók þá má líklega sjá mig dásama mynstraðan textíl með heillandi mótífum (ég óska þess oft að hafa stundað nám í skreytilist). Í vikunni komst ég að því að bráðum bætist ný hönnun í línu Schuyler Samperton Textiles, sem kom á markað í fyrra. Ég bíð spennt. Á blogginu hef ég nú þegar kynnt nokkur af mynstrum hennar og í dag eru það blá og rauð efni sem ég lék mér að því að raða saman, með áherslu á mynstrin Overlea, Cordoba og Nellcote. Einnig langaði mig að sýna ykkur lítið brot úr innliti í Lamb's House í Leith, sem er í eigu íslensks arkitekts og birtist í House & Garden UK árið 2016.

En fyrst er það textíllinn. Bláa og rauða blómamynstrið er Overlea og þessi litur kallast Vermillion. Ég ætla að nota hann til að skreyta einn krók á heimilinu þegar ég er búin að kaupa nokkrar nauðsynjar. Ég held að efnið í þessum sama lit sómdi sér vel sem borðdúkur. Mynstrið í bláum tón kallast Marine, sem sést við hliðina á myndinni af herberginu. Hitt samanbrotna, bláa efnið er Cordoba í Indigo; hönnunin er með paisley-mótífi. Röndótta efnið er Pendleton í litnum Brighton.

Mynstrið Nellcote er hönnun sem ég hef þegar deilt og fæ ekki nóg af. Efnaprufan með spjaldinu sýnir það í bláum tón sem kallast Montego. Efst í hægra horninu sést glitta í það í litnum Apricot, sem er minn uppáhalds í fáanlegum litum þessa mynsturs (bláa efnið undir því er Firefly í litnum Deep End). Í eldri bloggfærslum þar sem textílhönnun Samperton hefur verið til umfjöllunar hef ég alltaf sýnt mynstrið Doshi; það sést undir lattebollanum í bláa tóninum Lake. Vinsamlegast fylgið hlekkjunum á mynstrin til að skoða fáanlega liti á vefsíðu Schuyler Samperton Textiles.

Lamb's House stofa, House & Garden UK · Davide Lovatti
Úr tímaritinu House & Garden UK: stofan í Lamb's House/Davide Lovatti

Svefnherbergið á myndinni minni tilheyrir Lamb's House í Leith (Edinborg), sem var byggt árið 1610 og hefur verið uppgert. Eigendurnir eru arkitektar sem sérhæfa sig í húsfriðun og það vill svo til að eiginkonan er íslensk, Kristín Hannesdóttir. Ég man eftir því að hafa kolfallið fyrir þessu rými, textílnum og viðarbitunum í loftinu, þegar ég sá innlitið í fyrsta sinn í tímaritinu House & Garden UK (desember 2016, ljósmyndari Davide Lovatti). Hér má einnig sjá stofuna og vinnustofu Kristínar, en tunnulaga loftið í henni er unnið úr lerki frá Síberíu. Smellið á hlekkinn ef þið hafið áhuga á því að lesa um endurbæturnar á húsinu og til að sjá fleiri myndir.

Lamb's House vinnustofa, House & Garden UK · Davide Lovatti
Vinnustofa Kristínar Hannesdóttur arkitekts í Lamb's House/Davide Lovatti



þriðjudagur, 12. september 2017

Schuyler Samperton Textiles - ný hönnun

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Stefan


Heimur textílhönnunar auðgaðist á árinu þegar Schuyler Samperton, innanhússhönnuður með aðsetur í Los Angeles, tók af skarið og kynnti sína eigin línu undir nafninu Schuyler Samperton Textiles. Með framleiðslu efnanna rættist langþráður draumur Samperton, sem hefur safnað textíl frá unglingsaldri. Orðið glæsilegt var það fyrsta sem kom upp í hugann þegar ég sá úrvalið í fyrsta sinn, en það samanstendur af átta efnum úr 100% líni, fáanlegum í mörgum litum. Í tvo mánuði hef ég dáðst að smáatriðum í mynstrunum og spurt sjálfa mig að því, Hvar byrja ég eiginlega að deila þessari fegurð?

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote
Nellcote/Petunia frá Schuyler Samperton Textiles

Þið kunnið að hafa tekið eftir efnum frá Schuyler Samperton Textiles á Instagram-síðunni minni í sumar, en fyrir fyrstu bloggfærsluna valdi ég Nellcote/Apricot í aðalhlutverk, bóhemískt mynstur sem fyrir mér virðist á einhvern hátt bregða á leik. (Smáatriðið að ofan sýnir efnið í litnum Petunia.)

Nellcote/Apricot er efni og litur sem mig langar að nota á einn púða eða tvo í nýju stofunni minni, þegar við höfum keypt nýjan sófa - ég er að flytja, fer bráðum að pakka í kassa! Ég hef verið að leika mér með hugmyndir og í hvert sinn er þetta mynstrið sem kallar á mig, auk þess sem litirnir í því passa vel við þann textíl sem ég á nú þegar og þann sem ég hef augastað á.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Doshi
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Caledonia, Celandine · Lísa Stefan

Til vinstri: Efnið Doshi/Persimmon. Til hægri: Nellcote/Apricot í forgrunni;
Caledonia/Mandarin efst; Celandine/Sunset neðst til vinstri

Af efnunum átta er það Doshi sem er með dauflega prentuðu mynstri, einföldu blómamótífi. Það er fáanlegt í fimm litum sem má auðveldlega nota til að draga fram einhvern annan lit og skapa þannig fallega hannað rými. Fyrir þessa færslu valdi ég Doshi í litnum Persimmon en ég er líka skotin í bláu afbrigði, Doshi/Lake. Blómamynstrið sem sést í mynd minni hér að ofan kallast Celandine/Sunset.

Síðar á blogginu langar mig að fjalla um efnið Caledonia í sér færslu. Það er blómamynstrið með fiðrildinu sem einnig sést á myndinni hér að ofan, í litnum Mandarin. Efnið er einnig með fuglamótífi.
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Stefan


Önnur textílhönnun frá Schuyler Samperton sem ég er líka hrifin af og langar á nota á nýja heimilinu er Cordoba, efni með paisley-mótífi, sem sést brotið saman í litnum Spice í mynd minni hér að ofan - sjá einnig nærmynd hér að neðan (það glittir í efnið í bláa litnum Indigo undir keramikvasanum). Ég á enn eftir að velja á milli Cordoba/Spice og Cordoba/Dahlia.

Ég ætla að fjalla nánar um fleiri efni síðar en á heimasíðu Schuyler Samperton Textiles má skoða línuna í heild sinni og þar er einnig að finna lista yfir sýningarsali.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Cordoba
Mynstrið Cordoba/Spice frá Schuyler Samperton Textiles

Schuyler Samperton nam listasögu og skreytilist við Trinity College, NYU og Parsons School of Design, og í fjögur ár vann hún fyrir ameríska innanhússhönnuðinn Michael S. Smith. Verkefni hennar á því sviði eru aðgengileg á netinu.


Textíl- og innanhússhönnuðurinn Schuyler Samperton.
© Schuyler Samperton Textiles/Alexandre Jaras



föstudagur, 9. september 2016

Nýjar kaffiborðsbækur

Nýjar kaffiborðsbækur · Lísa Stefan


Það er nú ekki haustlegt um að litast hér við vesturströnd Skotlands en samt er ég komin í örlítinn haustgír. Ég er byrjuð að kveikja á kertum á morgnana og einstaka sinnum kveiki ég upp í arninum, bara í stutta stund. Bráðum gef ég sumarskyrtunum frí og dreg fram hlýjar peysur og sjöl í dekkri tónum. Ég er líka farin að huga að nýjum kaffiborðsbókum en útgáfa slíkra bóka er ávallt blómleg að hausti. Mig langar að deila með ykkur listanum yfir þær sem ég hef í sjónmáli.


· Nomad Deluxe: Wandering with a Purpose eftir Herbert Ypma. Þessi var að vísu gefin út fyrr á árinu en fangaði athygli mína nýverið. Þær ljósmyndir Ypma sem eru aðgengilegar á vefsíðu Assouline-útgáfunnar eru glæsilegar.
· Neisha Crosland: Life of a Pattern eftir Neisha Crosland. Bók eftir textílhönnuð full af mynstrum ... orð eru óþörf.
· Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli. Þessi bók er áreiðanlega gersemi fyrir þá sem hrífast af gömlum landakortum. Hún var gefin út á frönsku í fyrra en er loksins að koma út í enskri útgáfu. Ef þið þekkið ekki til verka Mattéoli þá getið þið kíkt á bloggið hennar, sem hún skrifar á bæði frönsku og ensku.
· Cecil Beaton at Home: An Interior Life eftir Andrew Ginger. Ég get ekki beðið að fletta í gegnum þessa. Ég held að hún eigi eftir að enda á kaffiborðinu mínu einn daginn.
· François Catroux eftir David Netto. Ég held að bók um hönnun Catroux hafi verið tímabær. Ég deildi einu sinni á ensku útgáfu bloggsins innliti á heimili Lauren Santo Domingo í París sem Catroux hannaði. Eitt af mínum uppáhaldsinnlitum er í íbúð hans í París.
· Urban Jungle: Living and Styling with Plants eftir Igor Josifovic + Judith de Graaff. Igor er kær bloggvinur minn og það er virkilega spennandi að sjá bókina hans loks koma út. Á bloggi sínu Happy Interior Blog deildi hann nokkrum myndum þar sem skyggnast má á bakvið tjöldin þegar vinnan við bókina stóð yfir.
· Wanderlust: Interiors That Bring the World Home eftir Michelle Nussbaumer. Textílhjartað mitt er þegar byrjað að slá hraðar. Sjá meira hér að neðan.
· Ottolenghi: The Cookbook eftir Yotam Ottolenghi + Sami Tamimi. Þetta er ný útgáfa af bókinni sem kom fyrst út árið 2008. Ekki beint kaffiborðsbók en bók þeirra Jerusalem er ein af þeim sem endar reglulega á mínu því hún er meira en bara uppskriftabók.

Það er ekki tilgangur minn að gera upp á milli bókanna á listanum en þegar ég sá textílinn og litapalettuna í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer, á heimili hennar í Sviss, þá varð ég að deila henni hér. (Ég held að þessa mynd sé að finna í bókinni en í henni er m.a. skyggst inn á heimili hennar í Sviss og Texas.) Það er kúnst að raða mismunandi mynstrum saman þannig að útkoman verði smekkleg og það er óhætt að segja að Nussbaumer fari létt með það. Þær myndir sem ég hef séð af hönnun hennar eiga það sameiginlegt að vera ríkar af antíkmunum, mynstruðum textíl og munum frá framandi löndum. Hún rekur gríðarlega vinsæla hönnunarbúð í Dallas, Ceylon et Cie.

Mynstraður textíll í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer

mynd af svefnherbergi · Melanie Acevedo af vefsíðu WSJ



miðvikudagur, 24. ágúst 2016

Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures

Bók: Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures · Lísa Hjalt


Fyrr í sumar fékk ég senda bókina Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures: Selections from the Al Lulwa Collection til umfjöllunar á ensku útgáfu bloggsins. Bókin er virkilega falleg og ég naut lestursins; mæli með henni fyrir alla sem hafa áhuga á framandi textíl og íslamskri menningu. Jennifer Wearden er höfundur texta og Jennifer Scarce skrifar inngang. Það var Altaf S. Al Sabah sem kom safninu upp til minningar um ömmu sína. Á undan formála sínum segir hún í stuttu máli að al lulwa þýði perla, sem var nafn ömmu hennar heitinnar. Forlagið Paul Holberton publishing annaðist útgáfu bókarinnar. Í fréttatilkynningu er komið inn á mikilvægi safnseignarinnar og arfleifðar hennar, en þar segir: „The Al Lulwa Collection has a heritage that reaches back well over a thousand years, and is significant both for its quality and as an illustration of the survival and adaptation of a major industry.“


Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures er í kiljubroti, 200 blaðsíður með 140 litmyndum. Hún skiptist í fjóra kafla: 1) Blómamynstur, 2) Geómetrísk mynstur, 3) Hið skrifaða orð, og 4) Ásaumað skraut. Textíllinn kemur frá Miðausturlöndum, Arabíuskaganum, Íran, Indlandi og Norður-Afríku. Wearden hefur skrifað flæðandi og skemmtilegar lýsingar við alla munina í bókinni. Textinn er fræðandi án þess að verða of fræðilegur og er auðgaður með sögulegum og menningarlegum smáatriðum.

Öllum lýsingum á textíl í bókinni fylgir mynd og stundum eru myndir af smáatriðum á sér síðu. Fyrir ólærða í textílhönnun, eins og mig, er það mjög áhugavert að geta skoðað nánar mótífin og mynstrin með texta Wearden til hliðsjónar. Stundum gerir hún samanburð á textílnum í bókinni og bendir á það sem er líkt og ólíkt, sem mér finnst ómetanlegt. Einstaka sinnum bendur hún á mistök í mynstrum, sem gera þau enn áhugaverðari að skoða. Bókin inniheldur einnig orðalista með teikningum af ýmsum saumum.

Smáatriði: Hluti af ábreiðu á gröf, Íran, snemma á 18. öld, bls. 140-3

Þar sem bókin barst mér til umfjöllunar á ensku útgáfu bloggsins hef ég ritdóminn ekki lengri hér. Í texta mínum í ensku bloggfærslunni er nokkuð um arabísk heiti og tilvísanir í bókina sem ég hefði hvort eð er ekki þýtt yfir á íslensku. Fyrir ykkur sem viljið lesa ritdóminn í heild sinni og sjá fleiri myndir bendi ég á færsluna á Lunch & Latte.


Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures:
Selections from the Al Lulwa Collection
Höf. Jennifer Wearden
Kilja, 200 blaðsíður, myndskreytt
Paul Holberton publishing


Khayamiya, veggteppi, Egyptaland, seint á 19. öld, bls. 174

Allar ljósmyndir í bókinni þa mínum myndum eru eftir Stephanie McGehee



föstudagur, 17. júní 2016

№ 2 bókalisti: flottar bókahillur

№ 2 bókalisti: bókahillur · Lísa Stefan


Ég er ástfangin af bókahillum. Ekki í fyrsta sinn. Með kaffibollanum hef ég verið að fletta fram og til baka innliti í hús í LA sem er með svo mörg smáatriði á hreinu (júlítölublað Elle Decoration UK, „House on the Hills“, ljósmyndari Stephanie Bjelkstam). Í opnum hillum í stofunni er bókum og skrautmunum raðað smekklega án þess að hillurnar virki yfirhlaðnar; bókum er raðað lóðrétt og lárétt sem gerir stíliseringuna enn áhugaverðari. Það er sem hillurnar andi og þær kallast á við gólfmottuna. Virkilega vel gert. Þessa dagana er ég að lesa nokkrar bækur og fljótlega mun ég gagnrýna eina hér á blogginu: Decorative Textiles from Arab and Islamic Cultures. Egypska bómullarábreiðan með ásauminum út til vinstri er smá sýnishorn.

Bókalisti sumarsins er tilbúinn (kannski ætti ég að segja sá fyrri þessa sumars) og samanstendur af leikritum og ævisögulegu efni. Nýverið skilaði ég á bókasafnið æviminningum Arthurs Millers Timebends (virkilega vel skrifuð bók sem ég mæli með) og fékk að láni tvö leikrit eftir hann. Á sama degi var ég að fletta uppi verkum eftir Virginiu Woolf á netinu og var svo heppin að finna tvær notaðar bækur (3. bindi dagbókar hennar er komið í hús og lítur út eins og nýtt - elska svoleiðis fund). Hér er listinn minn:

1  All My Sons  · Arthur Miller
2  Death of a Salesman  · Arthur Miller
3  Off the Road: Twenty Years with Cassady, Kerouac and Ginsberg  ·
Carolyn Cassady
4  The Diary of Virginia Woolf - Volume 3: 1925-1930  ritstj. Anne
Olivier Bell
5  The Letters of Virginia Woolf - Volume II: 1912-1922  ritstj. Nigel
Nicolson og Joanne Trautmann
6  Testament of Youth: An Autobiographical Study of the Years 1900-1925  ·
Vera Brittain

Sumir myndu kalla þetta frekar þungan sumarlestur en ég er bara ekki sú tegund lesanda sem nælir sér í stafla af léttefni í næstu bókabúð. Börnin voru að gera grín af mér um daginn og sögðu að ég læsi skrýtnar bækur. Ég er að reyna að muna rétt orðalag sem eitt þeirra notaði, „enskar yfirstéttarsnobbbókmenntir“ (English upper-class snob literature) eða eitthvað í þá áttina. Ég skellti upp úr.


Á aðeins persónulegri nótum: Ég óska ykkur gleðilegs þjóðhátíðardags en í dag eigum við hjónin 18 ára brúðkaupsafmæli. Í dag er einnig föstudagspizzudagur en eiginmaðurinn er staddur erlendis vegna vinnu. Við börnin ætlum bara að fá okkur franska osta, snittubrauð og vínber . . . og súkkulaði. Eigið góða helgi!

Bókhillumynd á minni mynd: Elle Decoration UK, júlí 2016, bls. 116 · Stephanie Bjelkstam



miðvikudagur, 27. apríl 2016

Fjólubláir tónar og upprunalegar gólfflísar

Fjólubláir tónar og upprunalegar gólfflísar · Lísa Stefan


Ég veit ekki með ykkur en ég fæ gjarnan síður úr tímaritum á heilann og get skoðað þær aftur og aftur. Þessi er ein þeirra. Svefnherbergið er í eigu hönnuðarins Stefano Guidotti, á heimili hans við Lake Como-vatnið á Ítalíu, sem var til umfjöllunar í aprílhefti Elle Decoration UK (Como in Colour, bls. 160-169, ljósmyndari Mads Mogensen). Hann segist vera heltekin af litum og þegar hann var að innrétta heimilið þá hugsaði hann upprunalegu mynsturflísarnar sem risastórar mottur. Fjólubláu tónarnir í svefnherberginu eru fallegir, rétt eins og safnið sem hann á af skrautmunum fyrir heimilið. Ef þið komist yfir tölublaðið þá skuluð þið kíkja á leðursófann í stofunni og litinn á borðstofunni. Þetta innlit veitir innblástur!

mynd smellt af Elle Decoration UK, apríl 2016, bls. 167

miðvikudagur, 27. janúar 2016

Tíma vel varið

Tíma vel varið: kaffi og Karen Blixen · Lísa Stefan


Ég þarf að játa svolítið. Í morgun var skýjað úti og grátt og þar sem ég þurfti ekki að fara neitt þá hugsaði ég með mér að best væri að klára að ganga frá restinni af fötunum okkar. Kommóða í svefnherberginu er enn tóm eftir flutningana og enn eru föt í kössum. Þetta byrjaði vel hjá mér en svo langaði mig í kaffi og gerði líklega þau mistök að fara upp með bollann. Áður en ég vissi af sat ég á mottunni með bækur og tímarit, og í spilaranum rúllaði kvikmyndin Out Of Africa (1985). Ég á enga afsökun. Flestar kommóðuskúffurnar eru enn tómar en ég álít tímanum vel varið. Að mínu mati getur það aldrei verið sóun á tíma þegar maður eyðir honum í eitthvað sem veitir innblástur.

Undanfarið hef ég verið að horfa mikið á Out of Africa. Ég sit ekki með augun límd við skjáinn heldur læt hana bara rúlla og horfi á með öðru auganu eða hlusta á meðan ég sinni öðrum verkefnum. Ég stilli gjarnan á athugasemdir leikstjórans Sidney Pollack því ég fæ ekki leið á því sem hann segir um Karen Blixen, Kenya og hvernig myndin var filmuð. Hann talar ekki bara um einstaka senur, eins og flestir leikstjórar gera, heldur fer hann dýpra og hann er góður sögumaður. Kannski er þetta bara mín leið til þess að halda í rödd hans þar sem hann er fallinn frá. Hvað um það, þetta er mynd sem ég hef horft svo oft á að ég hef ekki tölu á því og í hvert sinn höfða mismunandi senur til mín. Í morgun var það samband Blixen [Meryl Streep] og sómalska þjóns hennar Farah [Malick Bowens], sem vann fyrir hana allan tímann sem hún bjó í Kenya. Samræðurnar í senunum eru ekki langar en þær eru dásamlegar og gjarnan hnyttnar. Í bókinni Shadows on the Grass talar hún um Farah sem „servant by the grace of God“ og í mynd sinni finnst mér Pollack ná að fanga merkingu þess á fallegan máta.


Aðeins um endurlestur bóka. Out of Africa (Jörð í Afríku) eftir Karen Blixen er ein af þeim sem ég er að lesa aftur. Undanfarið hef ég verið að hugsa um það að því meira sem ég sé af því sem fólk deilir á samfélagsmiðlum - sjálfsmyndir og tilgangslausar vefsíður, leyfist mér að nefna heimsku? - því meira finn ég þörf fyrir að taka eitt skref til baka og snúa mér að vönduðum bókum og kvikmyndum. Þær hjálpa að hreinsa hugann af lélegum greinum og ljósmyndum sem gera ekkert fyrir andann.

Nokkrir punktar um myndirnar í færslunni: Á efri sést síða 133 í The World of Interiors, desembertölublaði 2015 (tekin af Andreas von Einsiedel). Greinin „Window on the World“ fjallar um Julian Barrow heitinn, listamann og heimsflakkara sem átti vinnustofu í Chelsea-hverfinu. Mynstrin eru úr bókinni V&A Pattern: Indian Florals. Á neðri sést síða úr sama hefti af WoI. Greinin „Bauhaus Below the Border“ sem byrjar á síðu 66 fjallar um Josef og Anni Albers. Sýningin A Beautiful Confluence: Anni and Josef Albers and the Latin American World er í safninu Museo delle Culture í Mílan og lýkur 21. feb.



fimmtudagur, 20. ágúst 2015

Innbyggðir setkrókar

Innbyggðir setkrókar · Lísa Hjalt


Í sumar hefur aðdáun mín á innbyggðum setkrókum færst upp á alveg nýtt stig. Ég held að það hafi byrjað með innliti á heimili í Ibiza sem birtist í Elle Decoration UK  og ég deildi í bloggfærslu í júní. Síðan þá hafa slíkir setkrókar verið að fanga athygli mína úr öllum áttum; einnig textíllinn, ábreiðurnar og púðarnir sem gera þá þægilegri. Ég á eintak af franska Elle Decoration frá síðasta sumri sem er stútfullt af innbyggðum setkrókum. Það hefur legið á borðinu mínu í sumar og ég varð að taka nokkar myndir fyrir bloggið. Sjáið til, ég lít á bloggið sem dagbók. Ég held ekki dagbók í kæra dagbók-stíl en er alltaf með skrifblokk innan handar. Myndræni þátturinn er mér líka mikilvægur; mér líkar að geta haldið til haga myndum á blogginu sem aðrir geta notið og sem ég get flett upp síðar meir.

Við skulum byrja á nokkrum setkrókum sem birtust í grein um gististaðinn Scorcialupi í Puglia-héraði á Ítalíu. Mér finnst svæðið utandyra hér að ofan glæsilegt og krókarnir tveir innandyra eru líka snotrir.


1-3: Scorcialupi, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 108-117/Christian Schaulin

Eins og mér líkar setkrókurinn hér að neðan - það er jafnvægi í mildri litapalettunni - þá er ég ekki viss um að ég myndi vilja hafa svona borðkrók á veröndinni, sérstaklega ef ég væri með gesti. Ef einn þarf að standa upp þá þurfa fleiri að færa sig eða hliðra til fyrir viðkomandi. En svona hrár stíll er mér að skapi og mér finnst smart hvernig iðnaðarstíll Tolix-stólanna skapar mótvægi (þessi mynd sínir bara einn). Krókurinn tilheyrir fallegu og stílhreinu húsi á grísku eyjunni Mykonos.

4: Mykonos innlit, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 130-141/Giorgio Baroni