mánudagur, 23. febrúar 2015

84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff



Muniði hvenær þið síðast urðuð ástfangin af bók á blaðsíðu 10? Það henti mig í síðustu viku þegar ég las 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff. Ég er lítið fyrir að segja fólki að það þurfi að lesa eitthvað en fyrir alla bókaunnendur þá er þessi eiginlega skyldulesning. Upphafið að þessu öllu er bréf sem fröken Hanff skrifar frá New York árið 1949 til bókabúðarinnar Marks & Co., á 84 Charing Cross Road í London, til að spyrjast fyrir um notaðar bækur á hagstæðu verði. Það leiddi til bréfaskrifta í 20 ár, aðallega við einn starfsmanninn, Frank Doel. Í þriðja bréfinu sínu hafði Hanff sleppt formlegheitunum og leyft kímni og einstökum húmor að njóta sín, en það gerðist ekki alveg strax hjá Bretanum Frank Doel. Hér er brot úr sjötta bréfi hennar frá mars 1950 (stafsetningin er hennar):
Where is the Leigh Hunt? Where is the Oxford Verse? Where is the Vulgate and dear goofy John Henry, I thought they'd be such nice uplifting reading for Lent and NOTHING do you send me. you leave me sitting here writing long margin notes in library books that don't belong to me, some day they'll find out i did it and take my library card away. (bls. 10)
Mér finnst kvörtunartónninn alveg dásamlegur og hvernig hún virðist garga á Doel. Ég hef ekki hugrekki Hanff til að skrifa út á spássíur bókasafnsbóka en í mínar eigin bækur merki ég heldur betur setningar og efnisgreinar með krossum eða lóðréttum strikum.


Bókin 84 Charing Cross Road er einungis 95 blaðsíður og því fljótlesin. Flest bréfin eru hreint út sagt dásamleg og svo eru nokkur, sérstaklega eitt, sem kremja hjartað. Ég segi ekki meira. Hanff sendi ekki bara bréf heldur lét hún einnig senda matarpakka (kjöt og egg) til starfsfólksins til að láta í ljós þakklæti sitt fyrir bækurnar sem hún fékk. Bréfaskiptin byrjuðu í Bretlandi eftirstríðsáranna og hún var hneyskluð yfir skömmtuninni sem henni þótti rýr. Í upphafi fékk hún alltaf bréf frá Marks & Co. þar sem hún var spurð hvort hún hefði enn áhuga á tilteknum bókum áður en þær voru sendar. Þetta gerði hún að umræðuefni í bréfi í september 1950, sem hún skrifaði frá íbúð sinni á 14 East 95th Street:
Never wonder if I've found something somewhere else, I don't look anywhere else any more. Why should I run all the way down to 17th St. to buy dirty, badly made books when I can buy clean, beautiful ones from you without leaving the typewriter? From where I sit, London's a lot closer than 17th Street. (bls. 15)
Bókin minnir mig á aðra dásamlega, The Guernsey Literary and Potato Peel Society (Bókmennta- og kartöflubökufélagið á íslensku) eftir Mary Ann Shaffer, sem ég minntist á í annarri bloggfærslu. Eftir lesturinn á þessum tveimur þá hélt ég eintökunum þétt upp að hjartanu í nokkrar sekúndur. Svo heitt elskaði ég þær!


Mín útgáfa af 84 Charing Cross Road inniheldur framhaldið, The Duchess of Bloomsbury Street, sem fjallar um ferð Hanff til London (kápuna myndskreytti Sarah McMenemy). Ég myndi ekki hugsa um að lesa þá fyrri án þess að vera með þá síðari innan seilingar. Eftir lesturinn vildi ég lesa meira eftir Hanff og pantaði bókina Letter from New York. Ég fékk notað eintak sem ætti að berast fljólega. Ég fann líka hljóðbókarútgáfu af 84 Charing Cross Road á YouTube, sem ég hef hlustað á tvisvar á meðan ég sinni húsverkum. Svo er til kvikmynd frá árinu 1987, sem skartar Anne Bancroft og Anthony Hopkins í aðalhlutverkum, en hana á ég eftir að sjá.

Ef það rignir (eða snjóar) úti þá er þetta hin fullkomna bók til að lesa undir teppi með kaffi- eða tebolla í hönd og gleyma sér í dásemdinni. Ég mæli með að hafa bréfsefni við höndina því eftir lesturinn er ekki ólíklegt að ykkur langi að skrifa bréf, ekki tölvupóst.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.