laugardagur, 24. september 2016

№ 4 bókalisti: haust 2016

№ 4 bókalisti · Lísa Hjalt


Laugardagsmorgun, kaffi og bækur. Í bakgrunni í endurspilun, Cat Power að flytja sína útgáfu af Troubled Waters; ég fæ ekki leið á þessu lagi. Það er kominn tími til að deila fyrri bókalista þessa hausts - já, ég mun birta annan síðar, ég er þegar með nokkur verk í huga. Mig langaði að hafa Wonder Boys eftir Michael Chabon á þessum en hún var ekki fáanleg á bókasafninu og sú sem ég pantaði hefur enn ekki borist. Mér fannst Michael Douglas frábær í kvikmyndinni (2000) sem Curtis Hanson leikstýrði, en sá féll frá síðasta þriðjudag. Ég hef þegar lesið tvær bækur á listanum og ein þeirra er The Little Book of Hygge sem ég fjallaði nýverið um á blogginu. Í augnablikinu er ég að lesa fimm bækur í einu. Sumar eru smásögusöfn þannig að ég vel bara þá sem ég er í skapi fyrir. Hér er listinn:

1   Siddhartha  · Hermann Hesse
2   The Outsider  · Albert Camus
3   The Summer Book  · Tove Jansson
4   A Winter Book: Selected Stories  · Tove Jansson
5   Anecdotes of Destiny  · Isak Dinesen (Karen Blixen)
6   In Other Rooms, Other Wonders  · Daniyal Mueenuddin
7   Kitchen  · Banana Yoshimoto
8   The American  · Henry James
9   Casino Royale  · Ian Fleming
10  The Little Book of Hygge: The Danish Way to Live Well  · Meik Wiking

Á bókasafninu rakst ég á Kitchen, fyrstu bók Yoshimoto og varð að fá hana lánaða og lesa aftur (útgáfan Bjartur gaf hana út á Íslandi undir heitinu Eldhús). Japanskir höfundar eru svo skemmtilega öðruvísi. Fyrir mörgum árum vann ég í bókabúð með skólanum og tók þá áhættu að mæla með henni fyrir kúnna, sem virkaði á mig sem lesandi tilbúinn fyrir eitthvað óvenjulegt. Stundum gat verið erfitt að mæla með bókum, það hafa ekki allir sama smekk (sem betur fer) og mér fannst leiðinlegt að sjá fólk eyða fjármunum í bækur sem því líkaði ekki. Þessi kúnni kom sem betur fer aftur í búðina til að segja mér að hún hafi elskað bókina, sem reyndist „óvenjuleg“, og hún fór heim með bunka af mínum uppáhaldsbókum.

Stéphane Audran sem Babette í Gestaboði Babettu (1987)

Tveir norrænir höfundar eru á listanum mínum. Þið vitið nú þegar um ást mína á Karen Blixen. Fyrir mörgum árum síðan las ég Babette's Feast (Gestaboð Babettu á íslensku), sögu sem mér þykir vænt um. Hana er að finna í sögusafninu og ég hlakka til að lesa hana aftur. Hafið þið séð kvikmyndina (1987, upprunalegur danskur titill Babettes gæstebud)? Hún er ein af mínum uppáhalds. Hún hlaut Óskarinn fyrir bestu erlendu myndina. Hinn norræni höfundurinn á listanum er Tove Jansson, sem varð fræg fyrir bækur sínar um Múmínálfana (sjá nýlega færslu mína um Múmín-búðina í London). Hún skrifaði líka skáldsögur fyrir fullorðna og ég skil ekki út af hverju ég hafði ekki þegar lesið þær. Þessar tvær á listanum eru yndislegar. The Summer Book, fyrst gefin út 1972, er fallega skrifuð saga um 6 ára stelpu og ömmu hennar sem eyða sumri á agnarsmárri eyju í Finnlandsflóa (Jansson átti sjálf kofa á smárri, afskekktri eyju í Flóanum). Bókin hefur enga sögufléttu, hún fjallar um lífið og náttúruna. Ákaflega hljóður og róandi lestur.

Finnski rithöfundurinn Tove Jansson · Lísa Hjalt
Tove Jansson í kofa sínum á finnsku eyjunni Klovharun

Hin bókin á listanum sem ég hef þegar klárað er Casino Royale, fyrsta bók Ian Fleming um James Bond. Ég var ekki hrifin, sem er ástæðan fyrir því að hún fékk ekki að vera með á myndinni minni! Kannski hafði ég of miklar væntingar því mér fannst kvikmyndin svo góð. Sögufléttan er áhugaverð en mér hreinlega leiddist við lesturinn. Það voru líka setningar sem ég þurfti að lesa aftur til að trúa því sem ég var að lesa („the sweet tang of rape“ (bls. 201); hún var gefin út árið 1953 þegar tímarnir voru aðrir, en sæll, full kvenhaturslegt, ekki satt?). Einn daginn gef ég sennilega Fleming annað tækifæri og les From Russia with Love, sem margir telja hans bestu. En ekki alveg strax.

1: mynd mín | 2: stilla af vefsíðu BFI · Panorama Film A/S, Det Danske Filminstitut, Nordisk Film + Rungstedlundfonden · leikstjórn + handrit Gabriel Axel | 3: af síðu Tove Jansson



þriðjudagur, 20. september 2016

Haustkoman

Haustkoman · Lísa Hjalt


Snemma í gærmorgun skrapp ég rétt aðeins út í garð og skynjaði þá haustkomuna í eitt augnablik þegar ég tók eftir því hvað litir hortensíanna höfðu fölnað. Án þess að vilja hljóma dramatísk fékk ég allt að því örlítinn sting í hjartað því veðrið undanfarið hefur verið svo dásamlegt - heldur betur indjánasumar, eins og ég hafði óskað mér - og ég er ekki alveg tilbúin fyrir kaldari tíð. Það er munaður að geta enn farið með kaffibolla út á verönd og notið sólar, en mér sýnist á öllu að frá og með þessum degi drekki ég kaffið inni og horfi út um gluggann.

Haustkoman var talsvert ólík þegar við bjuggum á Íslandi en þar haustar jú fyrr og hraðar. Berjatínsla var ómissandi þáttur og bíltúr til Þingvalla til að sjá náttúruna í sínum fegursta haustbúningi. Hér koma stór og safarík pólsk bláber í búðir, epla- og plómutré gefa ávöxt og hortensíurunnar missa lit sinn löngu áður en laufin skipta litum.

Annar haustboði hjá mér er Virginia Woolf. Ég byrjaði að lesa dagbækur hennar í ágúst í fyrra og eftir að hafa bara aðeins gluggað í þær, og í bréfaskrif hennar í sumar, þá er aftur komin sú þörf að lesa alltaf nokkrar færslur fyrir svefninn. Það er sem hún sé alltaf að skrifa við arineld sem er einstaklega notalegt. Talandi um Woolf. Um helgina sá ég umfjöllun um nýjar útgáfur af bókum hennar í kiljuformi frá Vintage Classics. Finnska listakonan Aino-Maija Metsola hannaði kápumyndirnar (hún hefur hannað fyrir Marimekko í nokkur ár) og það var held ég ást við fyrstu sýn þegar ég sá kápuna á Mrs Dalloway. Aðrar bækur í sömu útgáfu eru The Waves, The Years, Orlando, To the Lighthouse og A Room of One's Own, sem innheldur líka framhaldið Three Guineas.

fimmtudagur, 15. september 2016

The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking

Ritdómur: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking · Lísa Hjalt


Um helgina eignaðist ég bókina The Little Book of Hygge: The Danish Way to Live Well sem fjallar um danska hugtakið „hygge“. Höfundur er Meik Wiking hjá The Happiness Research Institute í Kaupmannahöfn, en hans starf felst í því að rannsaka hvað gerir fólk hamingjusamt. Penguin annaðist útgáfu bókarinnar sem er í þægilegu og ekki of stóru broti, sem gerir hana nokkuð þykka, 288 bls. Hún er auðlesanleg og ansi skemmtileg, og ekki spillir fyrir að hún er fallega hönnuð, rík af teikningum af skandinavískum mótífum og ljósmyndum. Wiking útskýrir vel hugmyndina um hygge og hvernig Danir, sem mælast hamingjusamastir allra þjóða, kunna þá list að skapa einstaklega notalegt andrúmsloft. Máli sínu til stuðnings vísar hann í kannanir og notast við gröf, en bókin verður aldrei þurr og fræðilegur lestur heldur er textinn á léttu nótunum og það er stutt í kímnina.

Mér fannst við hæfi að skapa hygge áður en ég settist niður til að segja ykkur nánar frá bókinni: ég gerði heitt súkkulaði með rjóma, smurði rúnstykki og kveikti upp í arninum.


Líklega er óþarft að útskýra hygge fyrir Íslendingum; ég held að við séum nokkuð vel að okkur um danska menningu og vitum hvað orðið stendur fyrir - ætli við myndum ekki flest tala um að gera kósí þó að það orð nái ekki alveg yfir hugtakið. En gefum samt Wiking orðið:
Hygge is about an atmosphere and an experience, rather than about things. It is about being with the people we love. A feeling of home. A feeling that we are safe, that we are shielded from the world and allow ourselves to let our guard down. (bls. 6)
Flestir Danir tengja hygge við haustið og veturinn en hugtakið nær líka yfir hlýrri mánuðina. Mér finnst athyglisvert að Wiking ber saman Dani og Hollendinga, sem eiga svipað hugtak sem þeir kalla „gezelligheid“. Munurinn er þó sá að meirihluti Dana tengir hygge við inniveru á meðan meirihluti Hollendinga tengir það við að fara út, á kaffihús, bari og slíkt.

Nú hef ég búið í Danmörku og á þaðan góðar minningar, auk þess rennur danskt blóð í æðum mínum; ég átti danska langömmu í einn ættlegg og danskan langalangafa í annan. Ég verð þó oft vör við að útlendingar líta á Danmörku sem einhvers konar útópíu og halda að landið sé laust við þau félagslegu vandamál sem ríkja annars staðar. Ég var ánægð að sjá að Wiking kemur inn á þennan punkt í bókinni. En það ríkir ákveðin samkennd í Danmörku sem ég kann ekki alveg að útskýra og velferð borgaranna skiptir máli.



En hvernig skapa Danir hygge og hvað gerir þá hamingjusama? Wiking tekur fyrir marga þætti eins og hugguleg heimili og samveru; að bjóða vinum heim til að eiga notalega stund með mat og drykk. Kertaljós og rétt lýsing skipta sköpum en 85% Dana tengja saman kerti og hygge. Jólamánuðurinn er einstaklega hyggelig. Eftir búsetu í mörgum löndum er ég þeirrar skoðunar að engin þjóð kann betur að skapa jólastemningu en Danir. Kaupmannahöfn er draumaborgin mín í desember og það jafnast fátt á við að rölta um steinlögð stræti borgarinnar, sjá öll kertin í gluggunum og upplifa jólaandann sem ríkir yfir öllu. Einn kaflinn í bók Wiking fjallar einmitt um jólin og matarhefðirnar og í því sambandi nefnir hann risalamande, sem er ein af okkar jólahefðum. Ég hef þegar deilt uppskrift að hinum danska möndlugraut með kirsuberjasósu.

Eitt atriði í bókinni vakti athygli mína því það er eitthvað sem ég hef hugsað út í sjálf. Wiking vísar í könnun sem sýnir að þakklæti hefur áhrif á lífshamingju. Niðurstöður sýna að það að vera þakklátur eykur ekki bara lífshamingjuna heldur leiðir til þess að við erum hjálpsamari, eigum auðveldara með að fyrirgefa og efnishyggja verður ekki allsráðandi (bls. 280). Um hygge og þakklæti hefur Wiking þetta að segja:
Hygge may help us to be grateful for the everyday because it is all about savouring simple pleasures. Hygge is making the most of the moment, but hygge is also a way of planning for and preserving happiness. Danes plan for hyggelige times and reminisce about them afterwards. (bls. 281)
Ritdómur: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking · Lísa Hjalt


Við lestur bókarinnar sannfærðist ég um það að daglegt líf mitt er heldur betur fullt af hygge - sem er mér kannski í blóð borið - en ef ég á að minnast á eitthvað eitt sem ég geri á hverjum einasta degi þá er það gott kaffi og bóklestur. Það fer bara eftir skapi hverju sinni hvaða hygge-horn í húsinu verður fyrir valinu.

Ef ykkur finnst vanta hygge í lífið þá mæli ég eindregið með lestri bókarinnar. Hún er full af hugmyndum.

The Little Book of Hygge: The Danish Way to Live Well
Höf. Meik Wiking
Penguin Life
Innbundin, 288 blaðsíður, myndskreytt
Kaupa



föstudagur, 9. september 2016

Nýjar kaffiborðsbækur

Nýjar kaffiborðsbækur · Lísa Hjalt


Það er nú ekki haustlegt um að litast hér við vesturströnd Skotlands en samt er ég komin í örlítinn haustgír. Ég er byrjuð að kveikja á kertum á morgnana og einstaka sinnum kveiki ég upp í arninum, bara í stutta stund. Bráðum gef ég sumarskyrtunum frí og dreg fram hlýjar peysur og sjöl í dekkri tónum. Ég er líka farin að huga að nýjum kaffiborðsbókum en útgáfa slíkra bóka er ávallt blómleg að hausti. Mig langar að deila með ykkur listanum yfir þær sem ég hef í sjónmáli.


· Nomad Deluxe: Wandering with a Purpose eftir Herbert Ypma. Þessi var að vísu gefin út fyrr á árinu en fangaði athygli mína nýverið. Þær ljósmyndir Ypma sem eru aðgengilegar á vefsíðu Assouline-útgáfunnar eru glæsilegar.
· Neisha Crosland: Life of a Pattern eftir Neisha Crosland. Bók eftir textílhönnuð full af mynstrum ... orð eru óþörf.
· Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli. Þessi bók er áreiðanlega gersemi fyrir þá sem hrífast af gömlum landakortum. Hún var gefin út á frönsku í fyrra en er loksins að koma út í enskri útgáfu. Ef þið þekkið ekki til verka Mattéoli þá getið þið kíkt á bloggið hennar, sem hún skrifar á bæði frönsku og ensku.
· Cecil Beaton at Home: An Interior Life eftir Andrew Ginger. Ég get ekki beðið að fletta í gegnum þessa. Ég held að hún eigi eftir að enda á kaffiborðinu mínu einn daginn.
· François Catroux eftir David Netto. Ég held að bók um hönnun Catroux hafi verið tímabær. Ég deildi einu sinni á ensku útgáfu bloggsins innliti á heimili Lauren Santo Domingo í París sem Catroux hannaði. Eitt af mínum uppáhaldsinnlitum er í íbúð hans í París.
· Urban Jungle: Living and Styling with Plants eftir Igor Josifovic + Judith de Graaff. Igor er kær bloggvinur minn og það er virkilega spennandi að sjá bókina hans loks koma út. Á bloggi sínu Happy Interior Blog deildi hann nokkrum myndum þar sem skyggnast má á bakvið tjöldin þegar vinnan við bókina stóð yfir.
· Wanderlust: Interiors That Bring the World Home eftir Michelle Nussbaumer. Textílhjartað mitt er þegar byrjað að slá hraðar. Sjá meira hér að neðan.
· Ottolenghi: The Cookbook eftir Yotam Ottolenghi + Sami Tamimi. Þetta er ný útgáfa af bókinni sem kom fyrst út árið 2008. Ekki beint kaffiborðsbók en bók þeirra Jerusalem er ein af þeim sem endar reglulega á mínu því hún er meira en bara uppskriftabók.

Það er ekki tilgangur minn að gera upp á milli bókanna á listanum en þegar ég sá textílinn og litapalettuna í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer, á heimili hennar í Sviss, þá varð ég að deila henni hér. (Ég held að þessa mynd sé að finna í bókinni en í henni er m.a. skyggst inn á heimili hennar í Sviss og Texas.) Það er kúnst að raða mismunandi mynstrum saman þannig að útkoman verði smekkleg og það er óhætt að segja að Nussbaumer fari létt með það. Þær myndir sem ég hef séð af hönnun hennar eiga það sameiginlegt að vera ríkar af antíkmunum, mynstruðum textíl og munum frá framandi löndum. Hún rekur gríðarlega vinsæla hönnunarbúð í Dallas, Ceylon et Cie.

Mynstraður textíll í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer

1: mynd mín | 2: mynd af svefnherbergi · Melanie Acevedo af vefsíðu WSJ



mánudagur, 5. september 2016

Múmín-búðin, Covent Garden, London



Í dag tek ég ykkur með til London, í þetta sinn til að dást að ytra útliti Múmín-búðarinnar, sem er staðsett hjá markaðsbásunum í Jubilee Market Hall í Covent Garden (beint á móti St Paul's-kirkjunni). Búðin var einn áfangastaðurinn sem við lofuðum börnunum. Þetta er sæt, lítil búð, eins konar mekka fyrir aðdáendur persónanna í Múmíndal. Það er nú ólíklegt að íslenskir lesendur þekki ekki til Múmínálfanna, en ef þið eruð að heyra um þá í fyrsta sinn þá eru þeir sköpun finnsku listakonunnar og rithöfundarins Tove Jansson (1914-2001). Bækur hennar voru þýddar á fjölda erlendra mála og sögur hennar eru klassískar.



Ég man ekki eftir tíma þar sem Múmínálfarnir voru ekki hluti af tilverunni; við eigum alla mynddiskana. Á þessum síðustu árum með tíðum búferlaflutningum hafa þeir verið eins konar festa. Við skírðum meira að segja persnesku læðuna okkar eftir einni persónunni, Míu litlu. Kannski hefur þetta eitthvað með norrænu ræturnar að gera, eða að þetta er bara okkar leið til að halda í sakleysi barnæskunnar. Ég er ekki stressuð manneskja - held að ég hafi fengið heilbrigðan skammt af kæruleysi í vöggugjöf - en þegar sú stund rennur upp að börnin vilja ekki horfa á Múmínálfanna, þá fyrst hrynur mín veröld. Viss um það.

Ég held að það sé kyrrðin í Múmíndal sem höfðar til mín. Ég er ekki beint hrifin af teiknimyndum og mér finnst þær oft svo yfirdrifnar. Að horfa á Múmínálfana er allt önnur upplifun. Það er ævintýraheimur án hávaðans. Ég held að ég myndi lýsa þessu svona.



Á meðan börnin voru að skoða og versla endaði ég í einu horni búðarinnar þar sem bækurnr eru geymdar. Dásamlegt horn!

Ég er ekki með það á hreinu hvaða bækur eru fáanlegar á íslensku en fyrsta bókin um Múmínálfana var The Moomins and the Great Flood, sem kom út árið 1945. Þessi fallega harðspjaldabók hér út til hægri er myndskreytt af Tove Jansson sjálfri, hvað annað. Svo eru það Penguin-kiljurnar, í tímaröð:





Eftir að önnur kiljan kom út, Finn Family Moomintroll, opnuðust Tove allar dyr, sem varð til þess að hún gerði teiknimyndasögurnar (sjá t.d. Moomin: Bk. 1 : The Complete Tove Jansson Comic Strip) sem birtust fyrst árið 1954 í The Evening News, kvöldblaði sem kom út á London-svæðinu. Þið getið flett upp heimildarmynd um Tove og hennar störf á YouTube ef þið hafið áhuga á að vita meira um hana. Með kaldari tíð handan hornsins þá ætla ég að enda þetta á einni af mínum uppáhaldstilvísunum úr Finn Family Moomintroll (Múmínálfarnir leggjast í vetrardvala):
Don't worry we shall have wonderful dreams, and when we wake up it'll be spring.
- Snufkin (ísl. Snúður)


myndir mínar | heimild: bókarkápa The Moomins and the Great Flood af vefsíðu Sort of Books | kiljukápur af vefsíðu Penguin