fimmtudagur, 28. júlí 2016

№ 3 bókalisti: síðsumar



Mér fannst vera kominn tími á annan bókalista, einn síðsumars. Ég á að vísu eftir að klára bækur Virginiu Woolf á þeim síðasta; ég les ekki bréf hennar eða dagbókafærslur í einni lotu. Á nýja listanum mínum eru tvær bækur sem mig langaði að lesa aftur, Love in the Time of Cholera, sem ég hafði bara lesið í íslenskri þýðingu (Ástin á tímum kólerunnar) og The Sheltering Sky (fyrr í sumar sá ég kvikmynd Bertolucci aftur og varð því að lesa bókina aftur). Ævisöga Patti Smith, Just Kids er yndisleg. Það er hrein unun að lesa ritstíl hennar. Hér er síðsumars listinn:

1  Just Kids  · Patti Smith
2  Love in the Time of Cholera  · Gabriel García Márquez
3  My Life on the Road  · Gloria Steinem
4  Memoirs of a Dutiful Daughter  · Simone de Beauvoir
5  The Sheltering Sky  · Paul Bowles
6  Prayers for the Stolen  · Jennifer Clement

Ég var að klára að lesa æviminningar Gloriu Steinem, My Life on the Road, og æ, æ, þvílík vonbrigði. Ég hafði ekki lesið neina ritdóma og hélt að ég væri að fara að lesa meistaraverk sem vekti mann til umhugsunar, svona miðað við manneskju af hennar „kaliber“ og markaðssetningu bókarinnar, sem komst á metsölulista New York Times. Ekki misskilja mig, hún hefur heilmikið fram að færa en stór hluti textans er kaótískur og illa skrifaður sem kemur verulega á óvart. Ég bjóst við meira frá eins reynslumiklum höfundi og ritstýru og Steinem. (Yfirlesturinn hefur farið verulega úrskeiðis. Líklega hefur of mikið af já-fólki komið að honum.)

Það er engin tímaröð (í góðu lagi mín vegna) en slíkar æviminningar kalla á vel uppsettan texta sem hjálpar manni að tengja. Stundum er bókin eins og ævisaga, stundum eins og blaðagrein og stundum eins og PowerPoint-skjal með áherslulistum. Örsögur eru fjölmargar, handahófskenndar minningar úr lífi hennar, sem eru illa skipulagðar. Mig langaði oft að hætta lestrinum en ég held að ég hafi haldið honum áfram í þeirri von að bókin batnaði. Fyrir ykkur sem hafið lesið hana þá verð ég að minnast á kaflann um leigubílstjórana: Fyrir utan það að kenna manni mikilvægi þess að virkilega hlusta á fólk þá var lestur hans hrein kvöl. Það eru lítil gullkorn inn á milli, t.d. virkilega fallegur texti um vinkonu sem hún missti úr krabbameini, en því miður get ég ekki mælt með þessari bók. Horfið bara á viðtöl og fyrirlestra með Steinem á netinu ef þið viljið kynna ykkur mikilvægt hlutverk hennar. Af nógu er að taka og það efni mun veita ykkur meiri innblástur.


Mér finnst dásamlegt að snúa mér aftur að Gabriel García Márquez, en bækur hans hef ég aldrei lesið á ensku áður. Ég ákvað að byrja á Love in the Time of Cholera og lesa svo næst One Hundred Years of Solitude (kom líka út í íslenskri þýðingu). Ég fékk þá fyrri á bókasafninu en er að hugsa um að eignast þessa fallegu innbundnu útgáfu af hinni síðari.

Og að lokum, áfram Hillary Clinton!



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.