Sýnir færslur með efnisorðinu simone de beauvoir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu simone de beauvoir. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 14. apríl 2021

Lestrarkompan: Simone de Beauvoir

Kápan af Force of Circumstance eftir Simone de Beauvoir, 3. bindi sjálfsævisögu hennar · Lísa Stefan


Ég er hálfnuð með Force of Circumstance, 3. bindið af sjálfsævisögu Simone de Beauvoir (№ 26). Hugmyndin var að klára það áður en ég deili nýjum bókalista. Lífshlaup Beauvoir er áhugavert en þetta bindi er ekki gallalaust: Stundum er hún of upptekin við að gera upp málin og oft er það sem Jean-Paul Sartre sé aðalpersónan. Augljóslega var líf þeirra samfléttað en ég hef áhuga á sögu hennar, á skrifum hennar, ekki fléttu í leikritum Sartre eða innihaldi pólitískra greina hans í Les Temps Modernes. Talandi um stjórnmál. Bókin er full af þeim, stundum á þeim mörkum að verða leiðinleg eða þreytandi. Fer eftir skapi mínu. Á jákvæðum nótum þá ferðast Beauvoir um heiminn og hefur skarpt auga fyrir fólki og landslagi. Þær frásagnir, bækur hennar og viðtökur þeirra gerir bindið lestursins virði, hingað til.

Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey
  The Radetzky March eftir Joseph Roth

... bætti á óskalistann:
  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick eftir Cathy Curtis

... bætti á langar-að-lesa listann:
  Hannah Arendt eftir Samantha Rose Hill
  This Little Art eftir Kate Briggs
  Endpapers: A Family Story of Books, War, Escape and Home eftir Alexander Wolff

... langar að lesa aftur:
  The Master and Margarita eftir Mikhail Bulgakov

Bókakæti:
  Nýlega var forvalslisti Alþjóðlegu Booker-verðlaunanna árið 2021 kynntur, en á honum eru höfundar og þýðendur 13 bóka sem eru gefnar út í Bretlandi eða Írlandi. Ég hef enga þeirra lesið en var glöð að sjá þeirra á meðal In Memory of Memory eftir rússnesku skáldkonuna Mariu Stepanova. Þýðandi hennar er Sasha Dugdale. Það vill svo til að í nýlegri bloggfærslu deildi ég amerísku bókarkápunni. Síðar í apríl kemur í ljós hvaða bækur komast á lokalistann og í júní hver hlýtur verðlaunin.

Hlaðvarpsþáttur sem ég mæli með:
  Þar síðasti þátturinn á Backlisted-hlaðvarpinu var frábær. Til umfjöllunar var Halldór Laxness og skáldsaga hans Brekkukotsannáll (enska þýðingin The Fish Can Sing) sem kom út 1957, tveimur árum eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin. Gestur þáttarins í þetta sinn var breski rithöfundurinn og ljóðskáldið Derek Owusu. Fyrir þá sem hafa áhuga á má hlusta á Laxness sjálfan lesa skáldsöguna á RÚV.



mánudagur, 15. mars 2021

№ 26 bókalisti: Beauvoir, Handke og Lowell

№ 26 bókalisti: Í bunkanum eru verk eftir m.a. Beauvoir, Handke og Lowell · Lísa Stefan


Byrjum á játningu bókaunnandans: Ég á það til að ganga í gegnum tímabil þar sem ég les of margar bækur í einu, sem líklega má flokka sem eins konar fíkn. Kannski eru svona tímabil bland af eirðarleysi og flótta. Kófið hefur náttúrlega verið hin fullkomna afsökun enda allt meira og minna lokað hér frá síðasta hausti. En nú er vorið að koma í Austurríki - vonandi bóluefnið líka - og tími til kominn að hreinsa til, að fækka bókabunkunum sem voru orðnir full háir. Það gengur vel. Ég hef þegar lesið flestar bækurnar á þessum nýja bókalista, sem til stóð að deila í febrúar. Í bunkanum er aðeins ein bók sem ég hef verið að spara: þriðja bindið af sjálfsævisögu Simone de Beauvoir. Ég setti það sem skilyrði að klára vissar bækur áður en ég mælti mér mót við hana aftur, í þetta sinn í Frakklandi eftirstríðsáranna. Bókin spannar tímabilið 1945 til 1963 og í henni má m.a. fylgjast með Beauvoir skrifa feminíska ritið Le Deuxième Sexe (Hitt kynið) og skáldsöguna Les Mandarins.

№ 26 bókalisti:

1  Suppose a Sentence  · Brian Dillon
2  Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-reader  · Vivian Gornick
3  Force of Circumstance  · Simone de Beauvoir
4  Wunschloses Unglück  · Peter Handke [þýsk]
5  Mutter Courage und ihre Kinder  · Bertolt Brecht [þýsk]
6  The Rings of Saturn  · W.G. Sebald
7  Three Rings: A Tale of Exile, Narrative, and Fate  · Daniel Mendelsohn
8  Life Studies  · Robert Lowell
9  Letters Summer 1926  · Boris Pasternak, Marina Tsvetayeva and Rainer
Maria Rilke

Ensk þýðing: 3) Force of Circumstance: Richard Howard

Á listanum er meistaraverkið Mutter Courage und ihre Kinder eftir þýska leikskáldið Bertolt Brecht, sem ég lofaði að setja á lista. Stundum á ég það til að gleyma mér á timarit.is, sem ég álít nauðsynlegan vettvang fyrir grúskara og bókaunnendur í útlöndum sem hafa ekki aðgang að íslenskum bókasöfnum. Þar fann ég m.a. gamla gagnrýni um Mutter Courage og börnin hennar sem birtist í Morgunblaðinu. Þessari jólasýningu Þjóðleikhússins árið 1965 gaf Sigurður A. Magnússon gagnrýnandi eins konar falleinkunn sem skrifa má á leikstjórann.

Það er óhugsandi að hafa austurríska rithöfundinn Peter Handke á lista án þess að segja um hann nokkur orð. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2019 sem þótti umdeild ákvörðun. Ferill hans hefst á sjöunda áratugnum en Handke verður skyndilega umdeildur á þeim tíunda þegar skrif hans um átökin í fyrrum Júgóslavíu fóru að birtast. Óhikandi deildi hann á umfjöllun fjölmiðla um stríðið á Balkanskaganum, á tungumálið sem þeir beittu. Útslagið gerði grein sem birtist í dagblaðinu Süddeutsche Zeitung árið 1996, ferðasaga Handke um Serbíu með „ögrandi fyrirsögn“ sem ritstjórn blaðsins samdi (sjá grein Jón Bjarna Atlasonar í Lesbókinni).

Það hjálpaði ekki málstað Handke þegar hann heimsótti forsetann Slobodan Milosevic í fangelsi þegar alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í Den Haag réttaði yfir honum, hvað þá þegar hann var viðstaddur útför hans í Serbíu árið 2006 og hélt þar tölu. En margir halda því fram að það sé ekkert í skrifum Handke sem réttlæti aðförina að rithöfundinum og því má álykta að jafnvel þeir sem hafa verið hvað háværastir hafi í raun ekki lesið verkin hans.

Nóbelsverðlaunahafinn, austurríkski rithöfundurinn Peter Handke · ljósmyndari: A. Mahmoud
Ljóðskáldið Robert Lowell

Austurríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Peter Handke (t.v.)
og bandaríska ljóðskáldið Robert Lowell (t.h.)

Bók Handke á listanum, Wunschloses Unglück, kom út árið 1972, en hana skrifaði hann stuttu eftir að móðir hans framdi sjálfsmorð. Þetta vel skrifaða verk kom út í íslenskri þýðingu, Óskabarn ógæfunnar, eftir Árni Óskarsson. Frá sama þýðanda er önnur bók eftir Handke væntanleg, sem hann í viðtali (sjá neðar) kallaði Hið stutta bréf og hin langa kveðja (Der kurze Brief zum langen Abschied). Hún mun rata á bókalista fljótlega þar sem ég hef þegar nælt mér í eintak á þýsku. Önnur bók fáanleg á íslensku er Ótti markmannsins við vítaspyrnu sem er gömul þýðing eftir Franz Gíslason.

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að kynna sér skrif Handke get ég eindregið mælt með þessum þremur umfjöllunum á RÚV:
1) Saga um aðferð við að skrifa ævisögu þar sem rætt er við Árna Óskarsson, þýðanda Óskabarns ógæfunnar
2) Deilur um Handke - gömul saga og ný þar sem rætt er við Kristján B. Jónasson, bókmenntafræðing og útgefanda
3) Skáldið og hinn svokallaði heimur þar sem fyrrnefndur Kristján fjallar ítarlega um skrif Handke

Þess er svo vert að geta að í samstarfi við þýska leikstjórann Wim Wenders skrifaði Handke handritið að kvikmyndinni Himinninn yfir Berlín (Der Himmel über Berlin) frá árinu 1987, m.a. ljóðið Lied vom Kindsein sem Bruno Ganz fer með í upphafi hennar.

Ljóð rata ekki oft á bókalistana mína en í jólapakka frá íslenskri vinkonu leyndist Faber & Faber útgáfa af ljóðasafninu Life Studies eftir Robert Lowell. Safnið kom fyrst út árið 1959 og geymir játningakennd ljóð, eins og Skunk Hour (tileinkað ljóðskáldinu Elizabeth Bishop) og Waking in the Blue, og æviminningaprósann 91 Revere Street. Þetta verðlaunaða tímamótaverk mun ég lesa aftur og aftur.

mynd af Peter Handke · A. Mahmoud af vefsíðu The Nobel Prize; Robert Lowell af Put This On



þriðjudagur, 9. júní 2020

Lestrarkompan: Beauvoir & Kafka

Bókarkápur, úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Ég vildi lauma inn einni lestrarkompufærslu áður en ég deili fleiri bókarkápum á blogginu. Bókarkápufærslurnar eru freistandi því ég þarf ekki að munda myndavélina og þær eru margar kápurnar sem mig langar að halda til haga. Bókaunnendur þurfa ekki að óttast það að kórónuveirufaraldur komi í veg fyrir útgáfu bóka. Því miður hef ég ekki aðgang að íslenskum bókum hér í Austurríki en er spennt fyrir Gamlar konur detta út um glugga eftir rússneska höfundinn Danííl Kharms, sem Bókaútgáfan Dimma gaf út nýverið. Ég hlustaði á umfjöllun um hana í Víðsjá og hló mikið.

Lestrarkompan, № 14 bókalisti, 2 af 7:

Letters to Friends, Family & Editors eftir Franz Kafka
(Schocken; ensk þýðing: Richard og Clara Winston)

Þetta er fyrsta bréfasafnið eftir Kafka sem ég les og eignast. Ég var ekkert að flýta mér að klára bókina og fannst best að komast aðeins inn í hana til að fá tilfinningu fyrir tóninum og lesa svo eitt og eitt bréf fyrir svefninn. Bréfin sýna lesandanum ólíkar hliðar á Kafka, frá námsárum hans í Prag í upphafi 20. aldar þar til berklar drógu hann til dauða á heilsuhæli í grennd við Vínarborg árið 1924. Í bréfum til vina er hann að sjálfsögðu persónulegri, einkum til Max Brod sem safnaði bréfunum saman eftir andlát hans, og það er í gegnum þau sem við sjáum heilsu hans hraka. Formlegri tónn einkennir bréfin til ritstjóranna þar sem hann ræðir handrit sín og jafnvel bókahönnun og letrugerð fyrir útgáfu. Kannski höfða þau bréf frekar til fræðimanna.

Konurnar í lífi hans, Felice Bauer, Milena Jesenská-Polak, Julie Wohryzek og Dora Dymant, eru á síðunum en bréfin til þeirra Felice og Milenu eru fáanleg í sér útgáfum: Letters to Felice (ég deildi nýlega bókarkápunni) og Letters to Milena. Eina atriðið sem truflaði mig við lesturinn tengist uppsetningu bókarinnar: Athugasemdir birtast aftast í stað þess að vera í neðanmálsgreinum, sem er þægilegra fyrir lesandann. Þetta var einkum þreytandi þegar ég las mikið í einu því þá fannst mér ég stöðugt vera að fletta þeim upp.

The Prime of Life eftir Simone de Beauvoir – sjálfsævisaga, 2. bindi
(Penguin; ensk þýðing: Peter Green)

Það er töluvert síðan ég las þessa, sem fjallar um líf Beauvoir frá 1929 til 1944, og hef aðeins verið að glugga í hana aftur, einkum til að renna yfir þá hluta sem ég merkti við á spássíu. Ég var hrifnari af þessu bindi heldur en því fyrsta en verð þó að segja að í fyrstu köflunum fannst mér hún full upptekin af smáatriðum. Mér leiddist stundum lesturinn þegar mér fannst sem hún nafngreindi og lýsti hverri einustu manneskju sem varð á vegi hennar, en það breyttist þegar leið á frásögnina og nær dró heimsstyrjöldinni.

Á þremur blaðsíðum (319-321) sem spanna tímabilið frá 1937 til 1938 er stríð í aðsigi og ástandið hefur augljóslega áhrif á sálarlífið:
Indeed, I now passed through one of the most depressing periods of my whole life. I refused to admit that war was even possible, let alone imminent. But it was no use my playing the ostrich; the growing perils all around crushed me beneath their weight.

If the Spanish tragedy dismayed us, events in Germany scared us stiff. In September, at Nuremberg, before an audience of 300,000 Nazis and something like a million visitors, Hitler delivered his most aggressive speech yet.

For my own part I was still trying to delude myself, and refusing to face the facts. But the future had begun to open up under my very feet, and produced in me a sick feeling akin to real anguish. No doubt that is why I retain only a misty recollection of this entire year. Nor can I remember anything of outstanding interest in my private life.
Bókarkápa eftir Matisse: Notað eintak af The Prime of Life eftir Simone de Beauvoir - sjálfsævisaga, 2. bindi · Lísa Stefan


Þegar Þjóðverjar ráðast inn í Pólland 1. september 1939 breytist frásögnin í dagbók sem lýkur 14. júlí 1940. Þann 14. september fór hún t.d. í bíó og las Portrait of a Lady eftir Henry James fyrir svefninn. Hún skrifar ekki daglega og tekur smá hlé frá skrifum eftir fall Parísar, 14. júní 1940. Þrátt fyrir stríð er enginn skortur á umræðu um bókmenntir og heimspeki, og þess ber að geta að bókina tileinkar hún Jean-Paul Sartre, sálufélaganum. Það var virkilega áhugavert að lesa um lífið í Frakklandi, um París stríðsáranna; um ferðir á Café de Flore, kaffihúsið á horni Boulevard Saint-Germain og Rue Saint-Benoît, en þar voru hún og Sartre fastagestir („It was our own special resort. We felt at home there; it sheltered us from the outside world.“). Í þessu bindi fær lesandinn að fylgjast með fæðingu rithöfundarins en árið 1943 kom út fyrsta skáldsaga Beauvoir, She Came to Stay (L’Invitée á frummálinu). Á stríðsárunum var hún einnig að skrifa önnur verk, heimspekilegu ritgerðina Pyrrhus et Cinéas og skáldsögurnar The Blood of Others (Le Sang des autres) og All Men Are Mortal (Tous les hommes sont mortels).

Mig langar benda áhugasömum á að eitt og annað sem fram kemur í bréfum Beauvoir, sem birt voru síðar, stangast á við frásögnina í sjálfsævisögunni. Nokkur orð að lokum um eintakið mitt sem mér þykir ákaflega vænt um. Það var keypt notað, útgefið 1976, og er núna svo úr sér gengið að það er farið að detta í sundur. Kápuna prýðir eitt af bláu klippuverkum listamannsins Matisse, Blue Nude with Flowing Hair, 1952.



föstudagur, 23. mars 2018

№ 14 bókalisti | Almenn rit og ævisögur

№ 14 bókalisti | Almenn rit og ævisögur · Lísa Stefan


Fýluferð á háskólabókasafnið er ástæða þess að ég deili № 14 bókalistanum seinna en ég ætlaði mér. Ég fór þangað til fá að láni bækurnar eftir Martin Amis og Joan Didion - ég vildi taka mynd af öllum bókastaflanum - en gleymdi skjali sem þarf að sýna til að fá bókasafnsskírteinið afhent. Ég hef ekki fundið tíma til fara aftur en fannst það best að deila listanum áður en ég klára að lesa hinar bækurnar á honum. Af og til fletti ég lestrarkompunni með titlunum á bókunum sem mig langar að lesa (er sífellt að færa inn í hana) og reyni að forgangsraða; The War Against Cliché eftir Amis er ein af þeim og The White Album eftir Didion langaði mig að endurlesa. Sumir kunna að spyrja af hverju að verja tíma í endurlestur þegar ólesnar bækur eru margar. Sumar bækur kalla einfaldlega á endurlestur. Ég hef ekki lesið allt eftir Didion en það ætla ég svo sannarlega að gera. Bókaútgáfan Diogenes sendi mér bók til að hafa á listanum og ég þakka þeim fyrir. Hún er skemmtileg aflestrar, full af sögum sem tengjast bókabúðum (sjá neðar).

№ 14 bókalisti:
1  The Prime of Life  · Simone de Beauvoir
2  Letters to Friends, Family & Editors  · Franz Kafka
3  The White Album  · Joan Didion
4  The War Against Cliché  · Martin Amis
5  Der schönste Ort der Welt: Von Menschen in Buchhandlungen  [þýsk]
6  Þúsund kossar  · Jón Gnarr
7  Orðið á götunni  · Margrét Bjarnadóttir


Til að næra minn innri bókaunnanda, og til að æfa ryðguðu þýskuna, gladdi það mig að fá senda bók frá Diogenes Verlag til að bæta á listann: Der schönste Ort der Welt: Von Menschen in Buchhandlungen. Á íslensku væri titillinn: „Fallegasti staður í heimi: Frá fólki í bókabúðum“. Hún geymir tuttugu sögur tengdar bókabúðum sem Martha Schoknecht safnaði saman. Sögumenn eru höfundarnir Mark Twain, Penelope Fitzgerald, Gustave Flaubert, Ingrid Noll og Patricia Highsmith, til að nefna nokkra. Fyrir ykkur sem hafið lesið 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff (sjá bloggfærslu), og vonandi notið, þá kætti það mig að finna í bókinni sum bréfanna sem hún skrifaði til og henni bárust frá bókabúðinni Marks & Co. í London. Hún er alveg jafn dásamleg og fyndin á þýsku.

Sem manneskja sem viðurkennir að dæma oft bækur af kápunni þá verð ég að minnast á bókarhönnunina. Í hvert sinn sem ég stíg inn í bókabúð hér í Þýskalandi kemst ég ekki hjá því að dást að hvítu kiljunum frá Diogenes. Kápa þessarar bókar er einstaklega falleg: líflegt og litríkt málverk, Union Square Bookstore, eftir listakonuna Patti Mollica.

Sögur úr bókabúðum frá Diogenes, Der schönste Ort der Welt · Lísa Stefan
Sögur úr bókabúðum frá Diogenes, Der schönste Ort der Welt

Í sömu færslu á ensku útgáfu bloggsins kynnti ég rétt aðeins íslensku bækurnar á listanum en með öðrum hætti en ég geri hér. Ég held að flestir íslenskir lesendur bloggsins viti að Þúsund kossar eftir Jón Gnarr er ævisaga Jógu, eiginkonu hans, sem slasaðist alvarlega í bílslysi í Bandaríkjunum þegar hún var ung. Ofan á glímuna við líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins bættist líka barátta fyrir dómstólum. Allt mótaði þetta líf hennar. Jóga hefur brallað ýmislegt um ævina og rak meðal annars tískuverslunina Skaparann í Reykjavík. Ein af mínum bestu vinkonum, sem þekkir Jógu vel, gaf mér bókina. Jóga áritaði ekki bara eintakið heldur skrifaði fallega kveðju til mín á titilsíðuna sem mér þótti afskaplega vænt um að lesa. Þar kemur hún meðal annars inn á að við erum afmælissystur. Ég er komin vel inn í frásögnina sem mér finnst einstaklega einlæg og lýsa tíðarandanum vel.

Hin íslenska bókin á listanum er mjög áhugaverð og er eftir Margréti Bjarnadóttur (það vill svo til að hún er „litla“ systir vinkonu minnar sem gaf mér bækurnar). Þetta er falleg og látlaus kilja sem geymir setningar sem hún heyrði á förnum vegi á tímabilinu maí 2009 til desember 2013. Hverja skráði hún orðrétt og setti sér þær reglur að hún yrði að skrásetja setninguna um leið og hún heyrði hana og að annar aðilinn í samræðunum þyrfti að vera á ferð. Hún hleraði sem sagt aldrei samtöl fólks. Á hverri síðu er ein færsla; yfirleitt er um að ræða eina stutta setningu eða spurningu. Þessi bók er dásamleg aflestrar og heimspekileg. Ég verð að deila með ykkur nokkrum uppáhaldssetningum (sem að vísu eru svo margar að ég gæti endurskrifað bókina hér):

· Ég er fjarsýnn - reyndar líka nærsýnn.
· Mér finnst rosa erfitt að galdra sko. Það er erfitt að galdra.
· Kisugríma ... er það eitthvað?
· I, like, actively resist ...
· Er enginn fullkominn, amma?


Og að lokum ein færsla sem fór alveg með okkur hérna við matarborðið í Þýskalandi þegar ég las hana upphátt. Okkur langar að vita allt um þessar sæmræður: „But German people are. That's why I like German people.“



föstudagur, 24. febrúar 2017

Ár af lestri - 1. hluti

Lestarkompan: ár af lestri - 1. hluti · Lísa Stefan


Hérna kemur hún, færslan sem ég velti fyrir mér hvort ég ætti að skrifa eða ekki, með athugasemdum um nokkrar bækur á bókalistunum mínum árið 2016. Fyrst ætlaði ég að setja þessa punkta í athugasemdakerfi umræddrar bókalistafærslu en svo fannst mér betra að halda þessu aðskildu. Ég sé enga ástæðu til að endurtaka það sem ég hef þegar sagt um ákveðnar bækur eða að minnast á þær sem ég endurlas; einu bækurnar sem ég les aftur eru þær sem mér líkar eða eiga sérstakan sess í hjartanu.

Talandi um endurlestur: Skoski rithöfundurinn Ali Smith var nýlega í By the Book dálki dagblaðsins NYT og ég fann samhljóm með einu sem hún sagði:
[A] rereading can feel like a first-time read in itself, which is another great thing about books and time; we think we know them, but as we change with time, so do they, with us. (Sunday Book Review, 12. feb. 2017)
Ég las þetta í fyrradag og tók eftir því að hún minntist á bókina Pale Fire eftir Vladimir Nabokov. Ef þið fylgið mér á Instagram þá sáuð þið kannski kápuna á mynd sem ég deildi á sunnudaginn. Það vill svo til að ég fékk bókina lánaða á bókasafninu síðasta laugardag og hún verður á næsta bókalista.


Hér að neðan eru nokkrar athugasemdir um bækur sem voru á № 1, 2 og 3 bókalistunum. Á þeim fyrsta voru líka hönnunarbækur en ég ákvað síðar að á þá rötuðu eingöngu skáldsögur sjálfs/ævisögur, ferðaskrif o.s.frv. Mig langar að bæta því við að það er ekki tilgangur minn að beina ykkur frá þeim bókum sem ég geri neikvæðar athugasemdir við eða þeim sem ég kláraði ekki. Bókmenntasmekkur okkar er ólíkur, eins menningarlegur og félagslegur bakgrunnur, og ég hef svo sannarlega ekki áhuga á því að gegna valdshlutverki og segja fólki hvað það eigi að lesa og hvað ekki. En málið er að ég á blogglesendur sem nota listana til að fá lestrarhugmyndir og því finnst mér eðlilegt að ég minnist á þær bækur sem kannski stóðust ekki væntingar mínar.

№ 1 bókalisti, 2 af 8:

The Shadow of the Sun eftir Ryszard Kapuscinski
Las nokkra kafla og setti svo til hliðar, einungis vegna þess að mig hefur lengi langað að lesa bókina Africa eftir John Reader og vildi gera það áður en ég læsi aðrar Afríku-tengdar bækur á langar-að-lesa listanum. Kapuscinski var pólskur fréttamaður sem skrifaði um Afríku í nokkra áratugi og ég held að einn daginn eigi ég eftir að klára þessa bók hans.

The Great Railway Bazaar eftir Paul Theroux
Mestu vonbrigði ársins 2016 í lestri. Bókin byrjar virkilega vel og Theroux er bæði eftirtektarsamur og fyndinn - ég gat varla lagt bókina frá mér. Á einhverjum punkti verður hann þreytandi, eins og hann geti ekki gert annað en að kvarta. Ég missti áhugann og þolinmæðina og hætti lestrinum. Þegar ferðaskrif fylla mig engri löngun til að ferðast þá fær sá höfundur ekki pláss í mínu bókahjarta.

№ 2 bókalisti, 1 af 6:

Off the Road eftir Carolyn Cassady
Missti þolinmæðina og gafst upp. Alltof opinberandi og ekki á góðan máta. Tímarnir voru öðruvísi en ég var gáttuð á því hvernig hún leyfði Neal að koma fram við sig strax í upphafi sambands þeirra. Fyrstu kaflarnir eru ágætis lexía í því hvernig ekki skuli velja eiginmannsefni.

[Önnur af listanum: Testament of Youth eftir Vera Brittain (sjá sér bloggfærslu).]
Lestarkompan: ár af lestri - 1. hluti · Lísa Stefan


№ 3 bókalisti, 2 af 6:

Memoirs of a Dutiful Daughter eftir Simone de Beauvoir – sjálfsævisaga, 1. bindi
(Penguin; ensk þýðing: James Kirkup)
Fyrsta bindi sjálfsævisögu hennar þar sem hún fjallar um uppvaxtarárin, barnæskuna í París og árin í Sorbonne-háskóla. Það eina sem ég fann að bókinni var alvarlegur frásagnarstíllinn; mér fannst hún nota of vitsmunalegan tón til að lýsa hugsunum barns, sem truflaði mig ekki eftir því sem hún varð eldri. Næstu bindi munu rata á bókalistana mína í framtíðinni.

Prayers for the Stolen eftir Jennifer Clement
Að mínu mati, ofmetin. Í byrjun er sögumaðurinn ung stelpa sem er vísun á auðveldan lestur með einföldum orðaforða, og það er nóg um kímni (móðirin er óborganleg!). Þegar ég var komin inn í þriðja eða fjórða hluta bókarinnar (þegar hún fer að heiman) þá fannst mér höfundurinn misstíga sig; það var sem hún hætti að vanda sig. Þessi bók var ein þeirra sem mig virkilega langaði að finnast góð til að geta mælt með henni en í lokin olli lesturinn vonbrigðum.

Bráðum birti ég 2. hluta þar sem ég tek fyrir nokkrar bækur á № 4, 5 og 6 bókalistunum.

[Uppfærsla: smellið hér fyrir 2. hluta.]



fimmtudagur, 28. júlí 2016

№ 3 bókalisti: síðsumar

№ 3 bókalisti: Patti Smith, Simone de Beauvoir, Gabriel García Márquez ... · Lísa Stefan


Mér fannst vera kominn tími á annan bókalista, einn síðsumars. Ég á að vísu eftir að klára bækur Virginiu Woolf á þeim síðasta; ég les ekki bréf hennar eða dagbókafærslur í einni lotu. Á nýja listanum mínum eru tvær bækur sem mig langaði að lesa aftur, Love in the Time of Cholera, sem ég hafði bara lesið í íslenskri þýðingu (Ástin á tímum kólerunnar) og The Sheltering Sky (fyrr í sumar sá ég kvikmynd Bertolucci aftur og varð því að lesa bókina aftur). Ævisöga Patti Smith, Just Kids er yndisleg. Það er hrein unun að lesa ritstíl hennar. Hér er síðsumars listinn:

1  Just Kids  · Patti Smith
2  Love in the Time of Cholera  · Gabriel García Márquez
3  My Life on the Road  · Gloria Steinem
4  Memoirs of a Dutiful Daughter  · Simone de Beauvoir
5  The Sheltering Sky  · Paul Bowles
6  Prayers for the Stolen  · Jennifer Clement

Ég var að klára að lesa æviminningar Gloriu Steinem, My Life on the Road, og æ, æ, þvílík vonbrigði. Ég hafði ekki lesið neina ritdóma og hélt að ég væri að fara að lesa meistaraverk sem vekti mann til umhugsunar, svona miðað við manneskju af hennar „kaliber“ og markaðssetningu bókarinnar, sem komst á metsölulista New York Times. Ekki misskilja mig, hún hefur margt fram að færa en stór hluti textans er kaótískur og illa skrifaður sem kom á óvart. Ég bjóst við meira frá eins reynslumiklum höfundi og ritstýru og Steinem. (Yfirlesturinn hefur farið verulega úrskeiðis; líklega of mikið af já-fólki komið þar að.)

Það er engin tímaröð (í góðu lagi mín vegna) en slíkar æviminningar kalla á vel uppsettan texta sem hjálpar manni að tengja. Stundum er bókin eins og ævisaga, stundum eins og blaðagrein og stundum eins og PowerPoint-skjal með áherslulistum. Örsögur eru fjölmargar, handahófskenndar minningar úr lífi hennar, sem eru illa skipulagðar. Mig langaði oft að hætta lestri en ég held að ég hafi haldið áfram í þeirri von að bókin batnaði. Fyrir ykkur sem hafið lesið hana þá verð ég að minnast á kaflann um leigubílstjórana: Fyrir utan það að kenna manni mikilvægi þess að virkilega hlusta á fólk þá var lestur hans hrein kvöl. Það eru lítil gullkorn inn á milli, t.d. virkilega fallegur texti um vinkonu sem hún missti úr krabbameini, en því miður get ég ekki mælt með þessari bók. Horfið frekar á viðtöl og fyrirlestra með Steinem á netinu ef þið viljið kynna ykkur mikilvægt hlutverk hennar. Það er af nógu er að taka og það efni mun veita ykkur meiri innblástur.

Persinn minn laumaði sér inn á myndina

Mér finnst dásamlegt að snúa mér aftur að Gabriel García Márquez, en bækur hans hef ég aldrei lesið á ensku áður. Ég ákvað að byrja á Love in the Time of Cholera og lesa svo næst One Hundred Years of Solitude (kom líka út í íslenskri þýðingu).

Og að lokum, áfram Hillary Clinton!