Sýnir færslur með efnisorðinu robert lowell. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu robert lowell. Sýna allar færslur

mánudagur, 26. september 2022

№ 32 bókalisti: Woolf, Hardwick & nýjar bækur

№ 32 bókalisti: Kápan af The Element of Lavishness, bréf Sylviu Townsend Warner og Williams Maxwell, 1938-1978 · Lísa Stefan


Hér er bókalistinn sem ég lofaði nýverið. Ég hefði kannski átt að tvinna saman tvo lista því ég er byrjuð að lesa bækur sem verða á þeim næsta. Ég get svo játað að nú þegar horfi ég löngunaraugum á bækur sem munu rata á þarnæsta. Ein þeirra er bréfasafn Leonards Woolf. Já, ég er að tala um eiginmann Virginiu, en það er honum að þakka að við höfum aðgang að persónulegu efni hennar, bréfum, dagbókum o.fl. Ég hef gaman af lestri bréfa, einkum þeim sem tengjast bókmenntum. Bréfasafn rithöfundanna Warner og Maxwells á nýja listanum, bókin á myndinni hér að ofan, er gullmoli. Hvert bréf er vel skrifað og sú gagnkvæma virðing sem einkenndi vináttu þeirra skín í gegn.

№ 32 bókalisti:

1  The Years · Virginia Woolf
2  Virginia Woolf · Hermione Lee
3  A Room of One's Own · Virginia Woolf [endurlestur]
4  The Uncollected Essays of Elizabeth Hardwick · ritstj. Alex Andriesse
5  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick  · Cathy Curtis
6  De Profundis and Other Prison Writings · Oscar Wilde
7  The Element of Lavishness: Letters of Sylvia Townsend Warner and
William Maxwell 1938-1978  · ritstj. Michael Steinman

Á listanum er ævisaga Hermione Lee um Virginiu Woolf sem ég er að klára og mæli með fyrir Woolf-aðdáendur. Því miður get ég ekki mælt með skáldsögu Woolf, The Years. Nánar um þau vonbrigði síðar, kannski. Þeir sem lesa bloggið vita að Elizabeth Hardwick er í miklu uppáhaldi og á listanum finnið þið nýtt safn ritgerða og einu bókina um ævi hennar sem gefin hefur verið út. Og þá að öðrum lista, óskalistanum mínum.

Kápa bókarinnar Memoirs, sjálfsævisöguskrif Roberts Lowell
Kápa bókarinnar Come Back in September eftir Darryl Pinckney

Sjálfsævisöguleg skrif ljóðskáldsins Roberts Lowell komu út í ágúst (t.v.); Elizabeth Hardwick
prýðir kápu nýrrar bókar eftir Darryl Pinckney (t.h.)

Óskalistinn lengist stöðugt og mig langar að nefna tvær nýjar viðbætur á honum. Í október kemur út bókin Come Back in September eftir Darryl Pinckney. Hún fjallar um vináttu hans við Hardwick og ritstjórann Barböru Epstein. Báðar tóku þátt í því að koma bókmenntaritinu The New York Review of Books á laggirnar, þær voru bestu vinkonur og nágrannar á 67. stræti í New York. Hin, Memoirs, kom út í ágúst og er safn sjálfsævisögulegra skrifa eftir ljóðskáldið Robert Lowell (fyrrverandi eiginmaður Hardwick). Gagnrýnendur hafa lofað bókina.

Kaffiborðið mitt og bækur sem verða á næsta bókalista · Lísa Stefan
Nikkað til næsta bókalista



þriðjudagur, 26. apríl 2022

№ 31 bókalisti: bréfaskrif Bishop & Lowell

Á № 31 bókalistanum mínum: bréfaskrif þeirra Bishop og Lowell · Lísa Stefan


Það var afbragðshugmynd að setja Swann's Way á síðasta bókalista (№ 30). Ég er enn að lesa Proust og botna ekkert í mér að hafa ekki lesið hann fyrr. Ríkur prósinn kallar á hæga yfirferð og því finnst mér best að lesa 8-10 síður í einu, einkum í kyrrð og ró að morgni. Daginn byrja ég á lestri; vakna eldsnemma með syninum sem þarf að þvera Linz og úthverfi með sporvagni til að fara í skólann. Þegar hann leggur af stað - flest fólk er þá enn sofandi - sest ég niður með fyrsta kaffibolla dagsins, ristað brauð og bækur. Þessa dagana byrja ég á nokkrum bréfum sem ljóðskáldin Elizabeth Bishop og Robert Lowell sendu sín á milli áður en ég sný mér að Proust og öðrum höfundum. Þessari rútínu lýkur svo með þýska skáldverkinu sem ég er að lesa þá stundina.

№ 31 bókalisti:

1  Words in Air: The Complete Correspondence Between Elizabeth Bishop
and Robert Lowell  · ritstj. Thomas Travisano & Saskia Hamilton
2  Upstream: Selected Essays  · Mary Oliver
3  Speak, Memory  · Vladimir Nabokov
4  Personal History  · Katharine Graham
5  Ein ganzes Leben  · Robert Seethaler [þýsk]

Ég er enn að lesa Der Untergeher (plebbinn á ísl., № 30), mína þriðju bók eftir hinn austurríska Thomas Bernhard. Hann er einstaklega hnyttinn sögumaður. Mig langar að lesa allt eftir hann sem ég kemst yfir á frummálinu. Ég held að verk hans hafi ekki verið gefin út á Íslandi en skáldsögur hans og leikrit eru til í enskri þýðingu. Ég hef aldrei lesið neitt eftir landa hans Robert Seethaler og nú er kominn tími á Ein ganzes Leben sem ég keypti í fyrrasumar. Mannsævi heitir hún í íslenskri þýðingu og kom út fyrir nokkrum árum.

Kirstuberjatré í blóma, Antwerpen, vor 2011 · Lísa Stefan
Kirsuberjatré í blóma, Antwerpen 2011

Fyrir svefninn undanfarið hef ég verið að lesa Personal History, ævisögu Katharinu Graham heitinnar, útgefanda The Washington Post. Bókin hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 1998. Ég byrjaði á henni fyrir töluvert löngu síðan en hinkraði með það að setja hana á bókalista þar til núna. Ég vissi að hún skrifaði marga kafla um fjölskyldu sína og uppvaxtarár (sá hluti ævisagna sem mér leiðist hvað mest) og því vildi ég gefa mér tíma til að komast í gegnum þá. Þegar frásögn hennar komst loks á flug var stundum erfitt að leggja bókina frá sér.
Á № 31 bókalistanum: sjálfsævisaga Vladimirs Nabokov · Lísa Stefan




mánudagur, 15. mars 2021

№ 26 bókalisti: Beauvoir, Handke og Lowell

№ 26 bókalisti: Í bunkanum eru verk eftir m.a. Beauvoir, Handke og Lowell · Lísa Stefan


Byrjum á játningu bókaunnandans: Ég á það til að ganga í gegnum tímabil þar sem ég les of margar bækur í einu, sem líklega má flokka sem eins konar fíkn. Kannski eru svona tímabil bland af eirðarleysi og flótta. Kófið hefur náttúrlega verið hin fullkomna afsökun enda allt meira og minna lokað hér frá síðasta hausti. En nú er vorið að koma í Austurríki - vonandi bóluefnið líka - og tími til kominn að hreinsa til, að fækka bókabunkunum sem voru orðnir full háir. Það gengur vel. Ég hef þegar lesið flestar bækurnar á þessum nýja bókalista, sem til stóð að deila í febrúar. Í bunkanum er aðeins ein bók sem ég hef verið að spara: þriðja bindið af sjálfsævisögu Simone de Beauvoir. Ég setti það sem skilyrði að klára vissar bækur áður en ég mælti mér mót við hana aftur, í þetta sinn í Frakklandi eftirstríðsáranna. Bókin spannar tímabilið 1945 til 1963 og í henni má m.a. fylgjast með Beauvoir skrifa feminíska ritið Le Deuxième Sexe (Hitt kynið) og skáldsöguna Les Mandarins.

№ 26 bókalisti:

1  Suppose a Sentence  · Brian Dillon
2  Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-reader  · Vivian Gornick
3  Force of Circumstance  · Simone de Beauvoir
4  Wunschloses Unglück  · Peter Handke [þýsk]
5  Mutter Courage und ihre Kinder  · Bertolt Brecht [þýsk]
6  The Rings of Saturn  · W.G. Sebald
7  Three Rings: A Tale of Exile, Narrative, and Fate  · Daniel Mendelsohn
8  Life Studies  · Robert Lowell
9  Letters Summer 1926  · Boris Pasternak, Marina Tsvetayeva and Rainer
Maria Rilke

Ensk þýðing: 3) Force of Circumstance: Richard Howard

Á listanum er meistaraverkið Mutter Courage und ihre Kinder eftir þýska leikskáldið Bertolt Brecht, sem ég lofaði að setja á lista. Stundum á ég það til að gleyma mér á timarit.is, sem ég álít nauðsynlegan vettvang fyrir grúskara og bókaunnendur í útlöndum sem hafa ekki aðgang að íslenskum bókasöfnum. Þar fann ég m.a. gamla gagnrýni um Mutter Courage og börnin hennar sem birtist í Morgunblaðinu. Þessari jólasýningu Þjóðleikhússins árið 1965 gaf Sigurður A. Magnússon gagnrýnandi eins konar falleinkunn sem skrifa má á leikstjórann.

Það er óhugsandi að hafa austurríska rithöfundinn Peter Handke á lista án þess að segja um hann nokkur orð. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2019 sem þótti umdeild ákvörðun. Ferill hans hefst á sjöunda áratugnum en Handke verður skyndilega umdeildur á þeim tíunda þegar skrif hans um átökin í fyrrum Júgóslavíu fóru að birtast. Óhikandi deildi hann á umfjöllun fjölmiðla um stríðið á Balkanskaganum, á tungumálið sem þeir beittu. Útslagið gerði grein sem birtist í dagblaðinu Süddeutsche Zeitung árið 1996, ferðasaga Handke um Serbíu með „ögrandi fyrirsögn“ sem ritstjórn blaðsins samdi (sjá grein Jón Bjarna Atlasonar í Lesbókinni).

Það hjálpaði ekki málstað Handke þegar hann heimsótti forsetann Slobodan Milosevic í fangelsi þegar alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í Den Haag réttaði yfir honum, hvað þá þegar hann var viðstaddur útför hans í Serbíu árið 2006 og hélt þar tölu. En margir halda því fram að það sé ekkert í skrifum Handke sem réttlæti aðförina að rithöfundinum og því má álykta að jafnvel þeir sem hafa verið hvað háværastir hafi í raun ekki lesið verkin hans.

Nóbelsverðlaunahafinn, austurríkski rithöfundurinn Peter Handke · ljósmyndari: A. Mahmoud
Ljóðskáldið Robert Lowell

Austurríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Peter Handke (t.v.)
og bandaríska ljóðskáldið Robert Lowell (t.h.)

Bók Handke á listanum, Wunschloses Unglück, kom út árið 1972, en hana skrifaði hann stuttu eftir að móðir hans framdi sjálfsmorð. Þetta vel skrifaða verk kom út í íslenskri þýðingu, Óskabarn ógæfunnar, eftir Árni Óskarsson. Frá sama þýðanda er önnur bók eftir Handke væntanleg, sem hann í viðtali (sjá neðar) kallaði Hið stutta bréf og hin langa kveðja (Der kurze Brief zum langen Abschied). Hún mun rata á bókalista fljótlega þar sem ég hef þegar nælt mér í eintak á þýsku. Önnur bók fáanleg á íslensku er Ótti markmannsins við vítaspyrnu sem er gömul þýðing eftir Franz Gíslason.

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að kynna sér skrif Handke get ég eindregið mælt með þessum þremur umfjöllunum á RÚV:
1) Saga um aðferð við að skrifa ævisögu þar sem rætt er við Árna Óskarsson, þýðanda Óskabarns ógæfunnar
2) Deilur um Handke - gömul saga og ný þar sem rætt er við Kristján B. Jónasson, bókmenntafræðing og útgefanda
3) Skáldið og hinn svokallaði heimur þar sem fyrrnefndur Kristján fjallar ítarlega um skrif Handke

Þess er svo vert að geta að í samstarfi við þýska leikstjórann Wim Wenders skrifaði Handke handritið að kvikmyndinni Himinninn yfir Berlín (Der Himmel über Berlin) frá árinu 1987, m.a. ljóðið Lied vom Kindsein sem Bruno Ganz fer með í upphafi hennar.

Ljóð rata ekki oft á bókalistana mína en í jólapakka frá íslenskri vinkonu leyndist Faber & Faber útgáfa af ljóðasafninu Life Studies eftir Robert Lowell. Safnið kom fyrst út árið 1959 og geymir játningakennd ljóð, eins og Skunk Hour (tileinkað ljóðskáldinu Elizabeth Bishop) og Waking in the Blue, og æviminningaprósann 91 Revere Street. Þetta verðlaunaða tímamótaverk mun ég lesa aftur og aftur.

mynd af Peter Handke · A. Mahmoud af vefsíðu The Nobel Prize; Robert Lowell af Put This On



föstudagur, 19. júní 2020

№ 23 bókalisti: Dolphin-bréfin

Bókastafli: № 23 bókalistinn · Lísa Stefan


Ég man ekki hvenær ég fyrst heyrði minnst á Elizabeth Hardwick – hlýtur að hafa verið í tengslum við ritgerðasafn hennar Seduction and Betrayal (1974) – en það var ekki fyrr en 2018 sem ég fyrst las verk eftir hana. Á síðasta ári var ég spennt fyrir útgáfu The Dolphin Letters, 1970-1979, safn bréfaskrifa á milli Hardwick og hennar fyrrverandi, ljóðskáldsins Robert Lowell (d. 1977), og vina þeirra. Til að gefa ykkur smá bakgrunn: Titillinn er vísun í ljóðasafn eftir Lowell sem færðu honum Pulitzer-verðlaunin árið 1974 í annað sinn. Það sem gerði safnið umdeilt var að Lowell notaði ekki einungis bréf Hardwick, skrifuð til hans í tilfinningalegu uppnámi, heldur breytti orðalaginu þannig að það félli að ljóðafrásögninni. Ég hélt að það tæki mig nokkrar vikur að lesa 500 blaðsíður af bréfaskrifum en gat ekki lagt bókina frá mér og kláraði hana á nokkrum dögum. Að lestri loknum var það eina í stöðunni að fara aftur á síðu 1 og byrja upp á nýtt. Í þetta sinn les ég eitt eða tvö bréf fyrir svefninn.

№ 23 bókalisti:

1  Sleepless Nights · Elizabeth Hardwick
2  The Dolphin Letters, 1970-1979: Elizabeth Hardwick, Robert Lowell,
Robert Lowell, and Their Circle · ritstj. Saskia Hamilton
3  How to Write an Autobiographical Novel · Alexander Chee
4  A Tale of Love and Darkness · Amos Oz
5  Mislæg gatnamót · Þórdís Gísladóttir
6  To Kill a Mockingbird · Harper Lee [endurlestur]
7  Museums as Cultures of Copies · ritstj. Brita Brenna, Hans Dam
Christensen og Olav Hamran

Ensk þýðing: 4) A Tale of Love and Darkness: Nicholas de Lange

Ég vil þakka bókaútgáfunni Routledge fyrir safnafræðibókina á listanum, sem inniheldur 17 kafla eftir sérfræðinga í fremstu röð á því sviði. Hún mun gera mér kleift að huga að námi mínu í sumar án verkefnaskila.

Aftur að The Dolphin Letters, 1970-1979: Ef þið þekkið forsöguna nú þegar og eruð forvitin að vita meira þá vil ég benda á upptöku af samræðum rithöfundarins og gagnrýnandans Hilton Als og Saskiu Hamilton, sem ritstýrði safninu og bætti við gagnlegum neðanmálsgreinum. Það sem gerði þennan atburð eftirminnilegri er upplestur leikkonunnar Kathleen Chalfant á þremur bréfum eftir Hardwick. Ég hef merkt við marga hluta í bókinni, einn þar sem Hardwick lýsir ákveðinni stemningu í bréfi til Lowell þann 13. janúar, 1976, þegar samband þeirra var aftur á vinalegum nótum:
... and strangely enough I do feel like writing just now and have fallen into a mood of reading books, thinking, idling about–all that puts one into the frame that makes writing possible and the life of literature beautiful and thrilling.
Á bókalistanum er líka Sleepless Nights (1979) eftir Hardwick, stutt skáldsaga, að hluta til sjálfsævisöguleg, sem ég hef einnig klárað. Ég held að ég hafi grætt á því að lesa hana eftir að hafa lesið persónuleg bréf hennar en í þeim fær lesandinn innsýn í það ritferli.

Vegna búsetu erlendis gerist það ekki oft að nýjar íslenskar bækur rati á bókalistana. En í vor barst pakki frá kærri vinkonu og í honum leyndist nýjasta ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, Mislæg gatnamót. Bókin er gullmoli.
Bókastafli og kafli: № 23 bókalistinn · Lísa Stefan