fimmtudagur, 14. júlí 2016

Testament of Youth eftir Vera Brittain

Æviminningar: Testament of Youth eftir Vera Brittain · Lísa Hjalt


Þann 1. júlí þegar þess var minnst að hundrað ár voru liðin frá orrustunni við Somme vildi það svo til að ég var að lesa síðustu síðurnar í Testament of Youth, sjálfsævisögu frá tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar eftir skáldkonuna, femínistann og friðarsinnann Veru Brittain (1893-1970). Draumur hennar um að nema við Oxford rætist þegar styrjöldin brýst út og eftir eitt ár í Sommerville College gerir hún hlé á námi sínu til þess að gerast sjálfboðaliði í hjúkrun. Með aðstoð dagbókarfærslna og bréfa lýsir bókin hryllingi stríðsins og eftirmálum - hún missti unnusta, bróður og vini. Bókin var fyrst gefin út árið 1933 og hefur allar götur síðan náð til nýrrar kynslóðar lesenda.

Kvikmyndin Testament of Youth (2014) er byggð á bókinni og skartar leikkonunni Aliciu Vikander í aðalhlutverki, sem tekst vel að koma alvarlegum tón Brittain til skila. Ég verð að minnast á myndina og um leið beygja þá reglu að nota bara mínar eigin myndir á blogginu með því að deila hluta af fallegri leikmyndinni: Leikmyndahönnuðurinn Robert Wischhusen-Hayes á heiðurinn af svefnherberginu og dásamlegum munum bókaormsins í húsi foreldra hennar í Buxton, Derbyshire.


Saga Brittain flokkast ekki undir skemmtilestur. Hún er alvarleg og tilfinningaþrungin, fjallar um ást og vináttur á stríðstímum, og hvernig stríð stelur æskunni og þvingar ungt fólk til þess að þroskast hraðar en það ætti að gera. Stundum skildi ég ekki hvernig Vera hélt út sem sjálfboðaliði. Vinnutíminn, álagið, aðstæðurnar; þetta fór langt út fyrir þreytumörk - hún starfaði í Englandi, á Möltu og í Frakklandi. Ofan á þetta hvíldi svo stöðugur ótti um að missa einhvern náinn:
Even when the letters came they were four days old, and the writer since sending them had had time to die over and over again. (bls. 121)
Oftar en einu sinni bugaðist hún eða veiktist en alltaf reis hún upp að nýju og hélt áfram. Það gerði hún fyrir þá sem hún hafði misst og þá sem enn voru að berjast.


Án þess að dvelja mikið við smáatrði þá kynnist hún Roland Leighton í gegnum bróður sinn Edward áður en hún fer til Oxford. Með hann í fremstu víglínu þróast samband þeirra í gegnum bréfaskrif. Ríkjandi er óttinn um að hann falli í bardaga eða að stríðið gerbreyti honum:
To this constant anxiety for Roland's life was added . . . a new fear that the War would become between us - as indeed, with time, the War always did, putting a barrier of indescribable experience between men and the women whom they loved, thrusting horror deeper and deeper inward, linking the dread of spiritual death to the apprehension of physical disaster. (bls. 122)
Þeir sem hafa séð kvikmyndina muna líklega eftir senu á strönd þar sem Roland verður ofbeldisfullur. Það gerðist ekki í alvörunni heldur var notað til að auka dramatíkina. Í raun átti parið í stuttri rimmu í gegnum bréfaskrif, en mér varð hugsað til þessarar senu þegar ég las þessa tilteknu lýsingu á bróður hennar:
[H]e was an unfamiliar, frightening Edward, who never smiled nor spoke except about trivial things, who seemed to have nothing to say to me and indeed hardly appeared to notice my return. (bls. 324)
Samband systkinanna var fallegt og þarna var Edward mjög ólíkur sjálfum sér. Hann var einn þeirra hermanna sem særðist í orrustunni við Somme og var sæmdur orðu fyrir hugrekki sitt í henni. Hann féll í stríðinu árið 1918. Þegar ég var komin á þennan stað í bókinni fannst mér handritshöfundinum Juliette Towhidi hafa tekist vel til. Þessi sena á ströndinni er ansi mögnuð.


Aftur að bókinni. Þrátt fyrir hrylling stríðsins eru nokkur ánægjuleg stolin augnablik. Í mínu uppáhaldi er það einn daginn þegar Vera hættir fyrr í vinnunni, fer í leikhús og skrifar svo í bréfi til Roland:
Do you ever like to picture the people who write to you as they looked when they wrote? I do. At the present moment I am alone in the hostel common-room, sitting in an easy chair in front of the fire, clad precisely in blue and white striped pyjamas, a dark blue dressing-gown and a pair of black velvet bedroom slippers. (bls. 199)
Frá skotgröfunum svarar hann ástúðlega:
I should so like to see you in blue and white pyjamas. You are always correctly dressed when I find you, and usually somewhere near a railway station, n'est-ce pas? . . . It all seems such a waste of Youth, such a desiccation of all that is born for Poetry and Beauty. (bls. 200)
Þetta var árið 1915 og þau voru trúlofuð. Aðeins nokkrum blaðsíðum síðar er Roland allur. Þýsk leyniskytta varð honum að bana rétt fyrir jólafríið hans þetta sama ár.


Í annarri þáttaröð Downton Abbey er sena í fyrri heimsstyrjöldinni þar sem Lady Sybil [Findlay] segir við Isobel Crawley [Wilton]: „Stundum finnst mér sem allir þeir menn sem ég hef dansað við séu látnir“ („Sometimes, it feels as if all the men I ever danced with are dead“ - 1. þáttur, á ca 10 mín.). Þessi setning festist í huga mér. Ég held að það sé vegna þess að Ísland er herlaust og það er ekki hluti af þjóðarminni okkar að senda unga menn í stríð. Þessi gríðarlegi missir og mannlegu fórnir í stríði eru fjarri okkur (ungir menn af íslenskum uppruna í Vesturheimi börðust og létust í stríðinu en það er önnur saga). Við vitum af vopnahlésdeginum en hann er ekki partur af sögu okkar og enginn ber deplasól (rauðan valmúa) í barmi til minningar um fallna hermenn eins og gert er hér í Bretlandi. Síðan ég fluttist hingað finnst mér ég smám saman vera að ná utan um Stríðið mikla, eins og það er kallað, og áhrif þess á breska þjóð. Bók Brittain hjálpaði svo sannarlega að auka skilning minn.

Eftir stríðið fór Vera Brittain aftur til Oxford. Á einum tímapunkti þegar taugarnar og martraðirnar tóku sinn toll voru þetta hugsanir hennar:
Why couldn't I have died in the War with the others? . . . I'm nothing but a piece of wartime wreckage, living on ingloriously in a world that doesn't want me! (bls. 448)
Með tímanum dofnuðu tilfinningaleg ör stríðsins. Hún komst í gegnum þessa reynslu með hjálp Winifred Holtby, vinkonu sem hún kynntist í Oxford (báðar urðu rithöfundar; Holtby lést árið 1935). Vera útskrifaðist, flutti ræður opinberlega fyrir Þjóðabandalagið (League of Nations), gifti sig og gerðist talsmaður friðar.

Kit Harington og Alicia Vikander sem Roland og Vera í Testament of Youth (2014)

1: mynd mín | mynd í bakgrunni af deplasólum er eftir Andrew Montgomery, úr bókinni Country eftir Jasper Conran | 2-5: skjáskot mín (stillur af svefnherbergi ófáanlegar) | 6: stilla af vefsíðunni Alicia Vikander.com | heimild: BBC Films, Heyday Films, Screen Yorkshire + BFI | leikstjórn James Kent · handrit Juliette Towhidi · búningar Consolata Boyle



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.