þriðjudagur, 31. desember 2019

Gleðilegt ár

Traunsee, Gmunden, Austurríki - ljósmyndari Margret Asmund


Megi nýja árið færa ykkur gleði og frið, kæru blogglesendur!

mynd eftir dóttur okkar Margret Asmund
- tekin 29/12/2019 við Traunsee, Gmunden, Austurríkifimmtudagur, 19. desember 2019

№ 22 bókalisti: jólin 2019

№ 22 bókalisti: jólin 2019 · Lísa Hjalt


Hérna er hann, bókalistinn sem ég lofaði fyrir löngu. Þessi er næstum tveir-fyrir-einn því ég ætlaði að deila einum í október og öðrum fyrir jól, en það varð bara of mikið að gera. Á einhverjum tímapunkti á þessari önn þegar ég var að reyna að skapa jafnvægi á milli náms og fjölskyldulífs komu mér í hug línur úr bók Joan Didion, The Year of Magical Thinking, sem urðu mantran mín: „In time of trouble, I had been trained since childhood, read, learn, work it up, go to the literature. Information was control.“ Um leið og ég fletti þeim upp var ekkert annað í stöðunni en að endurlesa bókina, aftur. Ég notaði þessa bók Didion um sorg og allt sem lífið kastar í átt til þín sem verðlaun í lestrarpásum. Didion hélt mér á jörðinni. Hún hélt mér við námsefnið. Information was control. Ég þarf að þakka tveimur forlögum fyrir bækur á listanum: Eland Books fyrir So It Goes og Fitzcarraldo Editions fyrir I Remain in Darkness. Báðar eru enskar þýðingar sem ég mun skrifa ritdóma um á nýja árinu.

№ 22 bókalisti:
1  Year of the Monkey  eftir Patti Smith
2  So It Goes  eftir Nicolas Bouvier
3  I Remain in Darkness  eftir Annie Ernaux
4  Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read
5  Life with Picasso  eftir Françoise Gilot og Carlton Lake
6  Look Homeward, Angel  eftir Thomas Wolfe
7  Essays in Disguise  eftir Wilfrid Sheed
8  Literary Theory: A Very Short Introduction  eftir Jonathan Culler
9  The Year of Magical Thinking  eftir Joan Didion [endurlestur]

Enskar þýðingar: 2) So It Goes: Robyn Marsack; 3) I Remain in Darkness: Tanya Leslie

Þessa síðustu mánuði hef ég verið að lesa nokkrar bækur á listanum þegar stund leyfir og hef þegar klárað Life with Picasso og I Remain in Darkness. Það var kominn tími til að setja Wilfrid Sheed á bókalista. Fyrir löngu síðan keypti ég notað eintak af þessu ritgerðasafni hans eftir að hafa heyrt John Williams hjá New York Times Book Review hrósa því á hlaðvarpinu þeirra. Aðra hverja viku spjalla starfsmennirnir um bækur sem þau eru að lesa í sínum frítíma og mér finnst bókasmekkur Williams komast næst mínum eigin og ég er yfirleitt sammála gagnrýni hans.

Í ár ákvað ég að brjóta út af hefðinni og endurlesa ekki klassískt verk um jólin. En ég mun lesa Little Women eftir Louisu May Alcott inn í nýja árið, hefð sem skapaðist hjá mér í Skotlandi. Síðasta föstudag hlustaði ég á viðtal ritstjórans David Remnick við Gretu Gerwig á hlaðvarpinu The New Yorker Radio Hour og dauðlangar núna að sjá kvikmyndina sem hún gerði eftir bókinni.laugardagur, 14. desember 2019

Sleepless Nights · Elizabeth Hardwick

Sleepless Nights eftir Elizabeth Hardwick (Faber) · Lísa Hjalt


Ég kolféll fyrir Elizabeth Hardwick við lestur ritgerðasafns sem gefið var út 2017. Ég hafði þegar sett Sleepless Nights (1979) á langar-að-lesa listann þegar forlagið Faber & Faber sendi frá sér þessa nýju útgáfu síðasta sumar. Henni er lýst svona: „a kaleidoscopic scrapbook of one woman’s memories; a collage of fiction and memoir, letters and essays, portraits and dreams, and one of the greatest New York novels of all time.“

Kápumynd: © Daido Moriyama Photo Foundation
Bókahönnun: Faber

Á sama tíma kom út hjá Faber ritgerðasafnið Seduction and Betrayal (1974), sem ég ætla að birta á bókalista síðar. Önnur bók sem hefur ratað á óskalistann minn er nýútkomið bréfasafn, í BNA, The Dolphin Letters, 1970-1979: Elizabeth Hardwick, Robert Lowell, and Their Circle (FSG, ritstj. Saskia Hamilton).

Sleepless Nights
Höf. Elizabeth Hardwick
Kiljubrot, 144 blaðsíður
ISBN: 9780571346998
Faber & Faberfimmtudagur, 12. desember 2019

Lestrarkompan: Didion, Sontag, Hitchens ...

Punktar úr lestrarkompunni: Didion, Sontag, Hitchens ... · Lísa Hjalt


Lestrarkompa 2017 ... já, þið lásuð rétt. Satt best að segja veit ég ekki út af hverju ég hef dregið það svona lengi að birta athugasemdir við nokkrar bækur á bókalista sem ég birti í október 2017. Að vísu læt ég alltaf líða nokkuð langan tíma á milli birtingu lista og lestrarkompufærslu sem tengist honum, en líklega sló ég eitthvað met núna í frestunaráráttu. Þessa dagana nýt ég þess annars að lesa alls kyns bækur og hlusta á bókahlaðvörp. Í bunkanum eru engar íslenskar en ég hef fylgst með Kiljunni og veit að jólabókaflóðið í ár er ansi stórt.

Lestrarkompan, № 12 bókalisti, 4 af 9:

· South and West: From a Notebook eftir Joan Didion. Lykilorðið hér er minnisbók. Ég hljóp út í bókabúð til að kaupa eintak af þessari þegar nóg hefði verið að rölta. Þetta er þunnt bindi, um 130 síður með stóru letri, og sennilega beint að hörðustu aðdáendunum. Hún byrjar í New Orleans árið 1970, á ferðalagi um bandaríska suðrið, sem fær mestan sess. Didion er eftirtektarsöm og það sem sló mig var hvernig sumar athugasemdir hennar áttu enn við árið 2017.
The isolation of these people from the currents of American life in 1970 was startling and bewildering to behold. All their information was fifth-hand, and mythicized in the handing down.
Ég mæli ekki með þessari fyrir þá sem hafa aldrei lesið neitt eftir Didion. Til að fá rétta mynd af ritsmíðum hennar, veljið frekar The White Album, Slouching Towards Bethlehem eða The Year of Magical Thinking. Sem aðdáandi Didion kremur það næstum hjartað að segja að mér finnst sem útgáfan hafi verið leið til að græða á frægð hennar, að nýja bók hafi vantað sama ár og heimildarmyndin var sýnd, Joan Didion: The Center Will Not Hold (2017). Myndin er eftir leikarann Griffin Dunne sem er bróðursonur Johns Gregory Dunne heitins, eiginmanns Didion. Rithöfundar þurfa lifibrauð eins og aðrir en ég held að margir sem keyptu bókina hafi búist við einhverju efnismeira.

· Autumn eftir Ali Smith. Hér höfum við fallegan prósa. Þetta er ein af þessum hugleiðandi skáldsögum án sérstakrar fléttu. Hún fjallar um tengslin á milli Elisabethar og Daniels, vináttu sem byrjar þegar hún sem lítil stelpa tekur viðtal við hann, þá eldri mann og nágranna, vegna skólaverkefnis. Því miður hefur þessi skáldsaga verið tengd við Brexit; vísað er í hana sem fyrstu eftir-Brexit skáldsöguna og fólk virðist halda að hún sé pólitísk. Það er hún ekki. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er í bakgrunni en rekur söguna á engan hátt áfram, sem er full af lífi og list.

· Hitch-22: A Memoir eftir Christopher Hitchens. Með fullri virðingu fyrir minningu Hitchens þá verð ég að segja að þessi bók gerði mig afhuga öllum skrifum hans. Ég man að ég stóð með safn af gömlum greinum eftir hann í höndunum í Waterstones þegar ég spottaði ævisöguna, sem hafði alveg farið fram hjá mér, og var svo viss um að þetta yrði góður lestur. Það eina sem stóð upp úr var saga móður hans - hann kallar hana Yvonne, ekki mömmu - sem leyndi því að hún væri Gyðingur (hann var á fimmtugsaldri þegar hann heyrði sannleikann). Það er varla nokkuð í bókinni um konu hans og börn, sem myndar gjá í frásögnina og virkar sjálfhverft. Augljóslega er bókin stútfull af pólitík, og sögum af fólki sem kannski fáir hafa heyrt um en fær svo mikið pláss. Stundum þegar Hitchens æsti sig yfir fólki sem hann var ósammála þá allt að því ranghvolfdi ég augunum. Hann var greinilega ekki Bill Clinton aðdáandi og þegar lesandanum er það fullkomlega ljóst hversu mikið honum er í nöp við hann þá notar Hitchens hvert tækifæri til að koma því að, sem virkar barnalegt. Í sannleika sagt hugsaði ég oft um að hætta lestrinum en las áfram til að geta alla vega sagt skoðun mína. Þegar hann lýsti því að gerast bandarískur ríkisborgari og lýsti yfir stuðningi við stjórn Bush og Íraksstríðið þá hafði hann alveg tapað mér. Hitchens lifði greinilega merkilegu lífi sem leiddi hann víða um heim en að mínu mati var hann bara ekki rétti maðurinn til að skrifa þá sögu. Og í ljósi stöðu hans þá grunar mig að annað hvort hafi enginn ritstýrt bókinni eða ekki haft þor til að benda á galla hennar fyrir útgáfu. Hvernig þessi bók náði 5. sæti á listanum „50 bestu æviminningar síðustu 50 ára“ sem gagnrýnendur NYT settu saman er mér óskiljanlegt. (Ef þið hafið áhuga á ritdómi sem snýst um pólitíkina þá mæli ég með þeim sem David Runciman skrifaði fyrir London Review of Books). 

· Against Interpretation and Other Essays eftir Susan Sontag. Ég var ekki viss hvort ég ætti að segja eitthvað um þessa klassík, en þar sem hún bauð upp á tilvísun í lokin sem á vel við lét ég vaða. Þessar ritgerðir voru skrifaðar á sjöunda áratugnum, á milli 1961 og 1965, og margar þeirra eru úr takt við okkar tíma. Ég get ekki sagt að ég mæli með þessari bók nema þá kannski fyrir stúdenta og aðdáendur Sontag. Ég hef einungis lesið fyrsta hlutann aftur, fyrstu 36 síðurnar sem samanstanda af ritgerðunum „Against Interpretation“ og „On Style“. Í þeirri fyrri bendir hún á: „Það sem er mikilvægt núna er að endurheimta skynfæri okkar. Við þurfum að læra að sjá meira, heyra meira og finna meira.“

[Sjá sér færslur fyrir tvær bækur á listanum: Stay with Me eftir Ayobami Adebayo, Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson.]

mynd mín, birtist á Instagram 10/09/2017föstudagur, 6. desember 2019

Life with Picasso · Françoise Gilot

Bókahönnun: Life with Picasso eftir Françoise Gilot og Carlton Lake (NYRB)


Þessari skólaönn er lokið og ég er komin í jólafrí. Í morgun horfði ég á tvo þætti af Kiljunni, las fyrstu síðurnar í Year of the Monkey, nýju bókinni hennar Patti Smith, og hlustaði á nokkur bókahlaðvörp sem ég hef ekki haft tíma fyrir síðan um miðjan október. Á næstu vikum ætla ég að njóta svona daga til fullnustu.

Þegar ég skráði mig inn síðast hafði ég hugmyndir um hvernig ég ætti að halda blogginu lifandi á meðan ég væri í námi, til dæmis með nýjum flokki um fallegar bókarkápur, en ekkert gerðist. Þetta er kápan sem ég vildi deila fyrst, ný útgáfa æviminninganna Life with Picasso (1964) eftir Françoise Gilot og Carlton Lake sem var gefin út í sumar af New York Review Books.

Kápumynd: Françoise Gilot, Self-Portrait, 1953
Bókahönnun: Katy Homans

Listaverk: Françoise Gilot, So Far, So Near, 2016, olía á striga (The Elkon Gallery)
Françoise Gilot, So Far, So Near, 2016

Árið 1943 var Gilot rétt rúmlega tvítug þegar hún kynntist Picasso, þá 61 árs. Þau giftust aldrei en samband þeirra entist í tíu ár og þau eignuðust tvö börn. Bókin verður á næsta bókalista, sem ég ætlaði að vera búin að birta, og ég mæli með henni fyrir alla sem hafa áhuga á list. Hlutar bókarinnar sem innihalda samræður hennar og Picasso um listsköpun eru unaður að lesa.

Life with Picasso
Höf. Françoise Gilot and Carlton Lake
Kiljubrot, 384 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9781681373195
New York Review Books
Life with Picasso eftir Françoise Gilot (NYRB) · Lísa Hjalt


neðsta mynd mín, birtist á Instagram 03/07/2019 | Françoise Gilot listaverk af vefsíðu The Elkon Galleryfimmtudagur, 26. september 2019

Gæðastundir í Austurríki

Landslag við vatnið Traunsee, Austurríki · Lísa Hjalt


Ég hef ég ekki lagt það í vana minn að blogga myndum sem ég deili á Instagram, fyrir utan eina og eina, en síðustu mánuði hefur tíminn til að blogga verið takmarkaður og mikið hefur gerst: Við fluttum nýverið til Austurríkis, báðar dæturnar hófu háskólanám erlendis á þessari haustönn og ég sjálf ákvað að skipta um gír: ég byrjaði í meistaranámi í safnafræði sem Háskóli Íslands býður upp á í fjarnámi. Kennslubækur, fyrirlestrar og verkefni halda mér upptekinni en mér fannst bloggið þurfa á uppfærslu að halda og ákvað að nota myndir úr safninu, af Traunsee-svæðinu og bókabúð í Vín ásamt námstengdum kyrralífsmyndum.

Ég var að koma í fyrsta sinn til Traunsee-svæðisins og gleymi ekki augnablikinu þegar vatnið blasti við mér. Landslagið er svo fallegt að mann verkjar í hjartað. Við keyrðum í gegnum lítil þorp á sólríkum sunnudegi, snæddum hádegisverð við vatnið í Altmünster og þar á eftir fórum við til Gmunden. Eilítið síðar var okkur boðið í garðveislu í Gmunden þar sem við sátum í hlíð undir berum himni með vatnið í augnsýn, og Traunstein-fjallið svo nálægt að það var sem við gætum teygt út höndina og snert það.
Bókin „I Remain in Darkness“ eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo) · Lísa Hjalt


Ég elska að finna bækur frá útgefendum í póstkassanum. Starfsfólk Fitzcarraldo Editions var svo elskulegt að senda mér I Remain in Darkness eftir Annie Ernaux sem kom út í Bretlandi í síðustu viku (ensk þýðing úr frönsku eftir Tanya Leslie). Ég lýsti bókinni með þessum hætti á Instagram: „Þetta er frásögn höfundar um þá reynslu að missa móður sína úr Alzheimer. Þessi stutta bók er kröftug, full af hráum, sársaukafullum tilfinningum. Stundum þarf ég að taka mér hlé frá lestrinum til að meðtaka eina setningu, eða aðeins eitt orð.“ Bókin verður á næsta bókalista og ritdómur fylgir síðar.
Bókabúðin Shakespeare & Co., Sterngasse, Vín · Lísa Hjalt


Eftir að hafa fylgt elstu dótturinni á flugvöllinn í Vín einn morgun nýtti ég restina af deginum í borginni. Það var orðið ansi langt síðan ég kom til Vínar og mitt fyrsta verk var að skella mér í neðanjarðarlestina. Ég fór út á Schwedenplatz-stöðinni og rölti í áttina að Sterngasse, en við þá götu er að finna bókabúðina Shakespeare & Co. sem selur enskar bækur (ekki útibú frá þeirri í París). Búðin er gamaldags í útliti og lítil en úrval bókanna er merkilega gott.
Bókabúðin Shakespeare & Co., Sterngasse, Vín · Lísa Hjalt


Ég rölti aðeins um hverfi bókabúðarinnar og svo eftir götunum Fleischmarkt og Postgasse í austurátt. Allt iðaði af lífi, alls staðar sat fólk úti í sólinni á litlum kaffi- og veitingahúsum. Yndisleg stemning, einkar evrópsk, hvernig svo sem það kann að hljóma. Ég greip sushi og fann bekk í Stadtpark undir skugga trés þar sem ég fylgdist með mannlífinu. Ég tók svo stefnuna í suðurátt að Belvedere-höllinni, spókaði mig aðeins um og naut fegurðarinnar. Í þetta sinn fór ég ekki inn á safnið; ég hef komið þangað áður og hafði lofað eldri dótturinni að fara með henni einn daginn að kíkja á Kossinn eftir Gustav Klimt og fleiri verk.
Námsmannalíf · Lísa Hjalt


Þar sem námið mun halda mér upptekinni gefst minni tími fyrir annan lestur og bókamyndatökur. Bráðum ætla ég þó að deila nýjum bókalista. Ég er með nokkrar hugmyndir um hvernig ég get haldið blogginu meira lifandi á meðan ég er í námi og ein er að byrja með nýjan flokk með bókarkápum.

Þið hafið væntanlega tekið eftir að ég endurnýja og -raða bókarkápum í hliðardálki og síðufæti bloggsins. Þetta eru nýjar útgáfur sem ég hef sérstakan áhuga á, stundum eldri bækur sem eru að koma út í kiljuformi. Mig langar að gefa þessum kápum varanlegan sess á blogginu, einkum til að hrósa fallegri bókahönnun. Svo eru nokkrar færslur sem mér finnst ég skulda, þá aðallega lestrarkompufærslur. Ef ykkur finnst lítið gerast á blogginu þá getið þið alltaf kíkt á Instagram en þar deili ég aðallega bókamyndum af og til.

myndir mínar, birtust á Instagram í ágúst og september 2019þriðjudagur, 11. júní 2019

№ 21 bókalisti: ritgerðir eftir Zambra

№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Hjalt


Jæja, það er kominn tími á fyrsta bókalista sumarsins. Samkvæmt hefð er eitt ritgerðasafn á honum, Not to Read eftir chileska rithöfundinn Alejandro Zambra (No Leer á spænsku). Í þeirri fyrstu viðurkennir hann að hafa sem krakki horft á Madame Bovary (1949) fyrir próf í stað þess að klára að lesa bókina. Til hliðar við rautt F skrifaði kennarinn hans: „Vincente Minnelli!!“ Þessar stuttu ritgerðir eru konfekt fyrir bókaunnendur. Ég ætlaði að hafa á listanum skáldsögu sem ég var byrjuð að lesa, The Friend eftir Sigrid Nunez sem hlaut verðlaunin National Book Awards fyrir bókmenntir árið 2018, sem veitt eru í BNA. Mér fannst hún áhugaverð, einkum vegna bókmenntalegra tilvísana (sögumaðurinn er rithöfundur), en svo fór mér að leiðast ritstíllinn og ég kláraði hana ekki. Það er heilsusamlegt að endurlesa eitthvað gott eftir lestur sem veldur vonbrigðum; ég valdi Mávinn eftir rússneska leikskáldið Anton Chekhov.

№ 21 bókalisti:
1  Not to Read  · Alejandro Zambra
2  The Collected Stories of Grace Paley 
3  Milkman  · Anna Burns
4  Disgrace  · J. M. Coetzee
5  The Voyage Out  · Virginia Woolf
6  Journal of Katherine Mansfield  · ritstj. John Middleton Murry
7  The Seagull  · Anton Chekhov

Enskar þýðingar: 1) Not to Read: Megan McDowell; 7) The Seagull: Laurence Senelick

Þið sem fylgist með blogginu vitið að Virginia Woolf er í miklu uppáhaldi. Háskólabókasafnið í Bremen á gömul bindi af öllum verkum hennar frá Hogarth Press, útgáfunni sem hún og maðurinn hennar Leonard settu á fót. Þessar innbundnu útgáfur eru fagurgrænar að lit og fyrst fékk ég The Voyage Out, hennar fyrstu skáldsögu, að láni bara til að fletta henni. Bókin er ekki mín uppáhalds eftir Woolf en ég stóðst ekki freistinguna og ákvað að endurlesa hana.
№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Hjalt


Ég viðurkenni að stundum sakna ég gömlu bloggvenja minna, þegar ég safnaði myndum af innlitum í möppur og gat ekki beðið eftir að deila þeim. Þið kunnið að hafa tekið eftir að stundum nota ég myndir af málverkum í bloggfærslur, en núna ákvað ég að sýna ykkur tvö rými á heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London, sem birtist í tímaritinu House & Garden UK. Þessi listrænu horn - þar sem kaffiborðinu bregður fyrir og bókahillunni við gluggann - höfða til áhugakonunnar um innanhússhönnun innra með mér. Fágað og smekklegt.

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte
Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London. House & Garden UK

myndir mínar | heimild: House & Garden UK · Greg Funnellföstudagur, 26. apríl 2019

№ 20 bókalisti | Lee Krasner sýning í London

№ 20 bókalisti | Sýningin Lee Krasner: Living Colour · Lísa Hjalt


Ég sit undir markísu á veröndinni og anda að mér vorinu, ilmi fjólublárra og hvítra sýrena úr horni garðsins. Bókahlaðvörp spilast eitt af öðru í tölvunni. Eigum við að kíkja á verkin á bókalistanum? Í fyrra kom út í nýrri þýðingu, eftir ljóðskáldið Michael Hofmann, klassíkin Berlin Alexanderplatz eftir Alfred Döblin, gefin út af New York Review Books. Ég er hrifin af bókahönnun þeirra og margir titlar hafa ratað á óskalistann. Ég las aldrei gömlu þýðinguna þannig að ég hef engan samanburð. Undirheimar Berlínar eru sögusviðið, Weimar-lýðveldið upp úr 1920, og í upphafi bókar er hinn skrautlegi Franz Biberkopf að koma úr fangelsi, staðráðinn í að snúa blaðinu við. Hin bókin sem ég keypti til að setja á listann er The Years eftir Annie Ernaux, sem ég minntist á síðustu færslu. Aðrar koma úr hillum bókasafnsins.

№ 20 bókalisti:
1  The Years  · Annie Ernaux
2  Berlin Alexanderplatz  · Alfred Döblin
3  The Wife  · Meg Wolitzer
4  The Mexican Night  · Lawrence Ferlinghetti
5  The Garden Party  · Katherine Mansfield
6  It All Adds Up  · Saul Bellow
7  The Diary of Anaïs Nin 1931-1934 

Enskar þýðingar: 1) The Years: Alison L. Strayer; 2) Berlin Alexanderplatz:
Michael Hofmann

Það eru ár síðan ég las bindi af dagbókum Anaïs Nin og mér fannst eitthvað notalegt við að grípa ofan í það sem er á listanum, sem byrjar árið 1931. Ég hef lengi ætlað mér að lesa sögur eftir Katherine Mansfield en henni kynntist ég í gegnum dagbækur og bréfaskrif Virginiu Woolf. Smásögusafnið The Garden Party byrjar vel og mér líkar strax ritstíllinn. Mansfield var ekki nema 34 ára þegar hún lést og maður getur rétt ímyndað sér hverju hún hefði getað áorkað sem rithöfundur.


Listaverk: Lee Krasner, Desert Moon, 1955. LACMA. © The Pollock-Krasner Foundation
Lee Krasner, Desert Moon, 1955

Mig langar í menningarferð til London í sumar, til að sjá sýninguna Lee Krasner: Living Colour í listagalleríi Barbican Centre, sem opnar 30. maí. Lee Krasner (1908–1984) var amerísk listakona, fædd í Brooklyn, og var brautryðjandi abstrakt expressjónisma. Í kynningarskrá segir að í „kraftmiklum verkum hennar endurspeglist andi tækifæranna í New York eftirstríðsáranna“ og að sýningin „segi sögu stórkostlegs listamanns, hvers mikilvægi hefur of oft fallið í skugga hjónabands hennar og Jackson Pollock.“

Þetta er fyrsta stórsýningin á verkum Lee Krasner í Evrópu í meira en 50 ár, skipulögð af Barbican Centre í samvinnu við listasöfnin Schirn Kunsthalle Frankfurt, Zentrum Paul Klee í Bern og Guggenheim Bilbao. Samhliða sýningunni kemur út bókin Lee Krasner: Living Colour eftir Eleanor Nairne, í útgáfu Thames & Hudson.

Í október verður hægt að njóta verka Lee Krasner hér í Þýskalandi, á safninu Schirn Kunsthalle Frankfurt.

Listakonan Lee Krasner í vinnustofu sinni. Kasmin Gallery, NY. © 2017 The Pollock-Krasner Foundation
Listakonan Lee Krasner í vinnustofu sinni

Listaverk: Lee Krasner, Palingenesis, 1971. Kasmin Gallery, NY. © The Pollock-Krasner Foundation
Lee Krasner, Palingenesis, 1971

efsta mynd mín | Lee Krasner listaverk af vefsíðu Barbican Centre: 1) LACMA (Los Angeles County Museum of Art) 2) Kasmin Gallery, NY | Krasner í vinnustofu sinni: Kasmin Gallery af síðunni Artsy. © The Pollock-Krasner Foundationlaugardagur, 13. apríl 2019

Vorstemningin

Vorstemning, textíll · Lísa Hjalt


Í fullkomnum heimi. Nei, við skulum segja betri, fullkomnun er leiðinleg. Í betri heimi sit ég í baststól á veröndinni og finn varma sólarinnar í gegnum markísuna. Á borðinu hvílir bókastafli, við hlið kaffibollans og pressukönnunnar eru minnisbækur. Stuðningurinn við bakið er þykkur, mjúkur púði með ábreiðu gerðri úr einum af mynstraða textílnum sem sést á myndinni hér að ofan, sem ég kalla: Vorstemningin mín með Annie Ernaux og Schuyler Samperton Textiles.

Raunveruleikinn er sá að ég sit innandyra. Sú harða birta sem einkennir byrjun vorsins er enn til staðar og þó að brum hafi blómgast hafa sólríku dagarnir, sem lofuðu almennilegu vori, orðið kaldari (í dag kom haglél). Að bíða eftir vorinu er ekki mín sterkasta hlið. Góðu fréttirnar eru þær að ein af bókunum sem ég er að lesa hefur verið tilnefnd til Alþjóðlegu Man Booker verðlaunanna: æviminningar Annie Ernaux, The Years, sem þýdd er úr frönsku af Alison L. Strayer. Fyrir utan að vera skotin í eintakinu mínu, sem er gefið út af Fitzcarraldo Editions, verð ég að segja að frásögnin, skrifuð í þriðju persónu, heillar mig. Ég man ekki eftir að hafa lesið æviminningar í þriðju persónu. Bókin spannar árin 1941 til 2006 og stuðst er við „minni, minningarbrot úr fortíð og nútíð, ljósmyndir, bækur, lög, útvarp, sjónvarp, auglýsingar og fréttafyrirsagnir.“ Ég er ekki búin að lesa bókina en get hiklaust mælt með henni. Það er gefandi þegar bók sem mann hefur langað að lesa stenst ekki aðeins væntingar manns heldur fer fram úr þeim.

Magnólíutré í blóma, Antwerpen, vorið 2011 · Lísa Hjalt
Magnólía í blóma, Antwerpen 2011

Við bjuggum í Antwerpen þegar ég tók þessa mynd af magnólíu í blóma. Mér þykir vænt um hana - þetta var fyrsta vorið mitt í Belgíu og ég man enn eftir þessu götuhorni - en hún birtist því miður ekki lengur á gömlu útgáfu enska bloggsins. Albúm sem tengist því virðist hafa gufað upp og því ákvað ég í vor að setja upp nýjan tengil fyrir það og gera örlitla útlitsbreytingu, án þess þó að breyta nafninu. Ég gerði sömu breytingar hér á íslensku útgáfu bloggsins en á eftir að fínpússa einhver smáatriði.

Aftur að textílnum: Schuyler Samperton Textiles er bandarískt merki sem lesendur bloggsins ættu að þekkja. Textílhönnuðurinn Schuyler er ein af mínum uppáhalds. Á blogginu hef ég deilt mörgum mynstrum úr vaxandi textíllínu hennar. Ég var að bíða eftir vorkomunni til að deila tveimur mynstrum sem sjást á efstu myndinni minni. Efnið Eden er efst: Í fölbleika litnum kallast það Eden/Sweet Pea, í fölgræna Eden/Meadow. Shalimar er blómamynstrið með hvíta bakgrunninum. Prufan með miðanum er Shalimar/Mist, með bláu og grænu mynstri. Shalimar/Cielo kallast það bláa. Öll þessi efni eru úr 100% líni.

Listaverk: Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921, Tate
Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921

Græna palettan sem listakonan Dora Carringon notar í verkinu Farm at Watendlath höfðar til mín þetta vor. Árið 1921 eyddi hún sumarleyfi sínu í Lake District. Það litla sem ég veit um líf hennar er fengið úr kvikmyndinni Carrington (1995), sem fjallar um samband hennar og rithöfundarins Lytton Strachey, og lýsingum í bindunum sem ég hef lesið af dagbókum Virginiu Woolf. Fyrstu kynni Woolf af Carrington voru henni ekki beint í hag, en í ágúst 1920 kveðjur við annan tón: „Carrington is ardent, robust, scatterbrained, appreciative, a very humble disciple, but with enough character to prevent insipidity“ (2. Bindi). Á íslensku má orða það að hún sé áköf, hraust, utan við sig, þakklát, mjög auðmjúkur nemandi, en með nógu mikinn karakter til að fyrirbyggja andleysi.

Ég verð hérna bráðum aftur með nýjan bókalista.

myndir mínar | Dora Carrington listaverk af vefsíðu Tate