miðvikudagur, 4. maí 2016

Textílhönnuðurinn Lisa Fine

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Hjalt


Í heimildarmynd eftir Albert heitinn Maysles um hönnuðinn og tískufrömuðinn Iris Apfel, sem ber hið einfalda heiti Iris (2014), á hún samræður við ljósmyndarann Bruce Weber. Þegar talið berst að tískuhönnuðum sem kunna ekki að sauma - hún kallar þá fjölmiðlafrík - nefnir hún unga hönnuði sem hafa „engan skilning á sögu“ („no sense of history“ - á ca. 46. mínútu). Kannski finnst ykkur þetta furðulegur inngangur að textílhönnuðinum Lisa Fine, konunni á bak við Lisa Fine Textiles, en ég held að það sé einmitt þessi skilningur á sögu sem dró mig að verkum Fine. Hönnun hennar hefur dýpt og mynstruðu efnin hennar eru bæði framandi og dulræn.
Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Hjalt


Með því bara að skoða nöfnin á þeim fallegu efnum sem Lisa Fine hefur hannað gæti hugurinn reikað á framandi slóðir, og ekki ólíklegt að þið teygðuð ykkur í söguatlasinn (tenglarnir fara með ykkur á mynstrið á vefsíðunni hennar): Þarna er Aswan, borg á austurbakka Nílar í Egyptalandi; Luxor, önnur egypsk borg þar sem þið finnið rústir fornu borgarinnar Þebu; Lahore, borg í Punjab-héraði í Pakistan; Kashgar, hin sögulega vinjarborg í vestasta hluta Kína, áfangastaður á Silkileiðinni; Bagan, forn borg í Myanmar (Búrma); Baroda, gamla nafnið yfir Vadodara í indverska héraðinu Gujarat; Malabar, hérað á vesturströnd Indlands, alveg syðst á milli Arabíuhafsins og Western Ghats fjallanna.

Ég gæti haldið áfram.

Zoraya-mynstrið í litunum rose og monsoon

Það eru ár síðan textílhönnun Lisa Fine töfraði mig en ég hafði aldrei meðhöndlað efnin (100% lín) þar til ég fékk safn af prufum í póstinum. Þau stóðust miklar væntingar mínar. Eitt efnið kallast Zoraya (sjá mynd að ofan). Ég var forvitin um uppruna orðsins þannig að í gær, áður en ég deildi bloggfærslunni, ákvað ég að senda fyrirspurn á skrifstofuna, sem var svarað fljótt með útskýringum Fine á því hvernig nafnið á mynstrinu varð til. Soraya var ein eiginkvenna síðasta Íranskeisarans, sem ríkti frá 1941 til 1979. Fine var stödd í Andalúsíu á Spáni og var að lesa sögu Norður-Afríkubúa og Persa á Spáni þegar hún kom auga á nafnið ritað með Z, Zoraya. „Mér fannst mynstrið hafa mjög geómetrískan blæ, allt að því fornpersneskan, og mér líkað nafnið Zoraya.“

Hönnuður með skilning á sögu fyrir víst.

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Hjalt
Í forgrunni: Malabar Reverse mynstrið í litnum Nordic blue

Í heimi textíls og innanhússhönnunar er ólíklegt að þið hafið ekki rekist á nafn Lisa Fine. Frekar nýlega í amerísku útgáfu House Beautiful var til umfjöllunar íbúð móður hennar í Dallas, hönnuð af dótturinni, hvað annað. (Það er bók sem kallast Iznik á stofuborði móðurinnar sem mig langar í!) Móðirin gaf dóttur sinni frjálsar hendur til að hanna rýmið og ánægði kúnninn „kvartaði“ bara yfir einu: „Eina vandamálið er að þegar ég fæ gesti þá vilja þeir ekki fara.“

Lisa Fine á litríka íbúð í París sem hefur birst með innliti í útgáfum eins og Lonny (sjá hér pdf-skjal með innlitinu sjálfu og stærri myndum) og The New York Times (sjá fleiri myndir úr NYT á Apartment Therapy). Samstarf hennar og hönnuðarins Richard Keith Langham hefur skilað af sér glæsilegum indverskum gólfmottum (dhurries). Svo er það samstarf hennar og textílhönnuðarins Carolina Irving, Irving & Fine, þar sem má versla mynstraða og bróderaða kyrtla þeirra og kaftana (framandi blússur og kjólar).

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Hjalt

Vinstri: Samode í litnum indigo/natural (einnig glittir í desert sand); Lahore í apricot.
Hægri (í ramma): Baroda II í pomegranate (mynstur með fugli); Zoraya í monsoon;
Luxor í pompeii on ivory (þetta appelsínugula)

Í hvert sinn sem ég rekst á umfjöllun um Lisa Fine tengi ég auðveldlega við bækurnar sem hún les, því eins og ég hefur hún áhuga á ævisögum og ferðaskrifum. Hún hefur ferðast mjög mikið, t.d. víðsvegar um Indland, og hönnun hennar er innblásin af ferðalögunum. Ég man alltaf eftir einni tiltekinni umfjöllun, með nokkrum litlum myndum þar sem hún var spurð stuttra spurninga. Sú síðasta snerist um hvert hana langaði að fara og hún svaraði Isfahan í Íran, en bætti við að hún héldi að það væri ekki mögulegt (þegar ég var að sækja efnivið í þessa færslu fann ég umfjöllunina á heimasíðu hennar: Material Connection, Ultra Travel, sumar 2012). Núna þegar alþjóðlegu viðskiptabanni á Íran hefur verið aflétt, og samskipti Bandaríkjanna og Írans eru að batna, þá virðist Isfahan (Eṣfahān) vera möguleiki í framtíðinni. Ég get rétt ímyndað mér þann innblástur sem hún gæti sótt í hinn sögulega íslamska arkitektúr, mikilfengleika hans og glæsilegra veggflísa. Sérstaklega með skilningi hennar á sögu.

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Hjalt
Í forgrunni: Kashgar-mynstrið í spice. Í bakgrunni: Chiara í sky blue/oyster.
Einnig glittir í: Bagan í indigoEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.