mánudagur, 30. október 2017

№ 12 bókalisti ... frá Landi hugmyndanna

№ 12 bókalisti | Ayobami Adebayo, Peter Hedges, Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Ég er mánuði seinna á ferðinni með № 12 bókalistann - þessi bókastafli lítur vel út, ekki satt? - því skyndilega varð ég upptekin við pökkun. Þá meina ég eins og að flytja, til Þýskalands. Ich bin ein Bremer! Þessi yfirlýsing mín vegur ekki alveg jafn þungt og sú frá Kennedy, Ich bin ein Berliner ... nema fyrir okkur fjölskylduna. Við erum að koma okkur fyrir á nýju heimili og að kanna umhverfið okkar. Mitt fyrsta verk var að ganga frá bókunum og útbúa notalegan lestrarkrók, og svo, til að finnast ég virkilega vera komin heim, að setja upp eldhús og gera fyrstu föstudagspizzurnar. Í Bremen er fjöldinn allur af kaffi- og veitingahúsum og þangað sem ég hef komið hefur mér líkað stemningin, afslöppuð og tilgerðarlaus. Ég hef þegar kíkt í tvær bókabúðir í miðbænum en á eftir að fara á bókasafn. Vegna flutninganna hefur tími til lesturs verið af skornum skammti en ég er búin með fyrstu tvö verkin á listanum og komin vel áleiðis með nokkur önnur. Þrír útgefendur útveguðu bækur fyrir listann og fyrir það ber að þakka: Canongate [1]  , Eland Books [2] og Fox, Finch & Tepper [3]. Ég kem til með að gagnrýna þessar þrjár á blogginu síðar meir.

№ 12 reading list:
1  South and West: From a Notebook  · Joan Didion
2  Stay with Me  · Ayobami Adebayo [1]
3  Travels in a Dervish Cloak  · Isambard Wilkinson [2]
4  What's Eating Gilbert Grape  · Peter Hedges [3]
5  The Unwomanly Face of War  · Svetlana Alexievich
6  Autumn  · Ali Smith
7  Hitch-22: A Memoir  · Christopher Hitchens
8  How Fiction Works  · James Wood
9  Against Interpretation and Other Essays  · Susan Sontag


Yfirleitt eru nokkrar bókasafnsbækur á listunum mínum en í þetta sinn eru bækurnar mínar eigin. Íslensk vinkona mín var svo sniðug að gefa mér í afmælisgjöf veglegt gjafakort í Waterstones, sem ég notaði til að kaupa verkin eftir Didion, Sontag, Wood og Alexievich (ef þið fylgist með á Instagram hafið þið kannski tekið eftir því). Síðar var ég að skoða verk eftir Christopher Hitchens heitinn í bókabúð þegar ég rak augun í æviminningar hans, sem höfðu farið fram hjá mér - svo glöð að ég keypti bókina. Að lesa Autumn eftir Smith þetta haust var upplagt og eitthvað segir mér að ég eigi eftir að lesa hennar nýjustu, Winter, á komandi vetri. Ég hef einnig augastað á nokkrum íslenskum titlum sem ég væri til í að fjalla um á blogginu. Og ekki má gleyma nýrri útgáfu þetta haust sem ég er mjög spennt fyrir: nýjustu bók Patti Smith, Devotion. Skrif hennar eru yndisleg.
№ 12 bókalisti | Ayobami Adebayo, Peter Hedges, Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Þessi þrjú verk kem ég til með að gagnrýna síðar:

Bókaútgáfan Canongate sendi frá sér Stay with Me, fyrstu skáldsögu Ayobami Adebayo, sem er ungur rithöfundur frá Nígeríu. Ég ætla rétt að vona að hún sé nú þegar að skrifa aðra bók. Án þess að gefa upp fléttuna langar mig að deila sögulýsingunni: „Yejide vonast eftir kraftaverki, eftir barni. Það er allt sem eiginmaður hennar þráir, allt sem tengdamóðir hennar þráir, og hún hefur reynt allt - erfiðar pílagrímsferðir, læknisráðgjöf, bænir til Guðs. En þegar ættingjarnir krefjast þess að eiginmaðurinn eignist aðra konu reynist það Yejide um megn. Afleiðingarnar eru afbrýðisemi, svik og örvinglun.“

Fox, Finch & Tepper er bókaútgáfa sem sérhæfir sig í útgáfu skáldverka sem þegar hafa fest sig í sessi og eiga það skilið að vera gefin út að nýju. What's Eating Gilbert Grape eftir Peter Hedges er fullkomið dæmi. Ég hafði bara séð kvikmyndina, sem skartar þeim Johnny Depp, Leonardo DiCaprio og Juliette Lewis, og mér finnst bókin frábær. Ritstíll Hedges er dásamlegur.

Frá útgáfunni Eland Books, sem sérhæfir sig í útgáfu ferðarita, kom nýverið bókin Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson. Hann var á unglingsaldri þegar hann kom fyrst til Pakistan og á meðan Stríðið gegn hryðjuverkum (the War on Terror) stóð yfir starfaði hann þar sem fréttaritari. Ég byrjaði ekki á bókinni fyrr en almennilegt netsamband var komið í nýja húsið því ég vildi geta flett upp stöðum og ýmsum atriðum. Góð ferðaskrif stuðla einmitt að slíku. Ég held að Wilkinson eigi eftir að kenna mér heilmikið um Pakistan og menningu landsins.

Bis bald!