Sýnir færslur með efnisorðinu ritgerðir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ritgerðir. Sýna allar færslur

föstudagur, 21. febrúar 2025

Vitlaus leshraði

Leskrókurinn minn; bækur og kaffi á sunnudagsmorgni · Lísa Stefan


Endurminningar Sigurðar Pálssonar heitins eru bækur sem ég les reglulega, allar þrjár: Minnisbók, Bernskubók og Táningabók. Þegar ég ferðast með lest hef ég alltaf eina þessara bóka með í för, hefð sem ég skapaði í Skotlandi árið 2017. Æviskrif rithöfunda og ljóðskálda fjalla vitanlega um tungumálið, það að skrifa prósa eða ljóð, og bókmenntaleg tengsl því ríkuleg. Ég fæ ekki nóg af slíku, af lestri bóka um bækur. Siggi Páls, eins og ég kalla hann án þess að hafa þekkt hann persónulega, var ljóðskáld og því er prósi hans knappur. Hann á það til að vera einstaklega hnyttinn þannig að ég skelli upp úr. Ég tengi sérstaklega við hugmyndir hans um það að vera Íslendingur í útlöndum, að horfa á fæðingarland sitt úr fjarlægð.

Í kaflanum Miðja og jaðar í Bernskubók skrifar hann um „mótun þeirrar vitundar að vera ekki fastur í fæðingarstað né fæðingarlandi“; um hina „víðari mynd, það að tilheyra veröldinni, mannkyninu“ og bætir við:
Þannig hef ég lengi reynt að upplifa sjálfan mig. Númer eitt tilheyri ég mannkyninu, númer tvö Evrópu, síðan Íslandi.
Svona er ég nú svakalega fortapaður orðinn.
Með árunum hef ég fengið sífellt sterkari tilfinningu fyrir þessu. Svo sterka að mér verður óglatt að hlusta á hvers kyns rembu, þjóðrembu, karlrembu. Allt jafn ömurlegt.
Það sem ég tengi við þessi orð.

Bernskubók Sigga Páls með í för í lest til München · Lisa Stefan
Bernskubók Sigga Páls með í för til München síðasta haust

Þegar fólk spyr mig hvaðan ég komi svara ég gjarnan að ríkisfangið tilheyri heiminum en að vegabréfið sé íslenskt. Fólk frá Íslandi spyr mig oft hvort ég ætli ekki að fara að koma heim. Nei, ég er ekki á leiðinni „heim“. Það er langt síðan Ísland glataði þeirri merkingu. Þýskan á frábært orð, heimat, sem þarf ekki endilega að merkja fæðingarstað heldur þann stað þar sem þér líður heima. Eftir að hafa búið hér í bráðum 6 ár er Austurríki jafnvel ekki mitt heimat. Fyrir mér er heimat visst svæði á meginlandi Evrópu og tengist frekar menningu heldur en tilteknum stað eða borg.

En hvað hefur þetta með vitlausan leshraða að gera eins og segir í titli? Ég endurlas Táningabókina með morgunkaffinu í janúar og í kaflanum þar sem Siggi Páls víkur að birtingu ljóða sinna í fyrsta sinn leggur hann ríka áherslu á hægan lestur ljóðtexta. Hann líkir þessu saman við spil á hljómplötum, segir að ljóð kalli á 33 snúninga en ekki 45 til að sjá „merkingu,tilfinningu“ og bætir við
að mikið af misskilningi fólks gagnvart ljóðtextum sé í raun innstillingaratriði, móttökutækin eru vitlaust stillt. Leshraðinn er vitlaus.

Olíumálverk eftir Zao Wou-Ki, 1969 (Þjóðlistasafns Taiwan)
Zao Wou-Ki, 1969

Leshraðinn er vitlaus. Þessi orð Sigga eiga við prósa líka því sumar bækur kalla á hægari lestur. Þau voru góð áminning þegar ég byrjaði á ritgerðasafninu Serious Noticing: Selected Essays eftir gagnrýnandann James Wood. Það var jólagjöf frá kærri vinkonu og geymir greinar sem Wood skrifaði á árunum 1997 til 2019 fyrir tímaritin New Republic, The New Yorker og London Review of Books.

Að lokum vil ég segja að ég hef saknað þess að blogga, saknað þess að fjalla um bækur á íslensku. Þó að Ísland sé ekki mitt heimat þá á íslenskan alltaf sinn hjartastað.

Zao Wou-Ki listaverk af vefsíðu Foundation Zao Wou-Ki (verkið er í safni Þjóðlistasafns Taiwan)



mánudagur, 9. janúar 2023

№ 34 bókalisti: Annie Ernaux og Guðrún Eva

Á № 34 bókalistanum: A Man's Place (Staðurinn) eftir Annie Ernaux · Lísa Hjalt


Gleðilegt ár! Ég ákvað að byrja bloggárið á nýjum bókalista sem verður líka sá síðasti í þessu formi. Ég er að hugsa um að hvíla listana alveg eða breyta þeim síðar í samantektarlista þannig að ég geti gert meira af því að mæla með bókum sem ég hef lesið. Hluti af mér mun sakna þessa forms því mér finnst það agandi að hafa hugmynd um hvað ég ætla mér að lesa nokkrar vikur fram í tímann. En stundum gerist það að ég eignast nýja bók sem mig langar að lesa strax en finnst sem ég þurfi að klára fyrst þær sem eru á bókalista hverju sinni - lúxusvandamál, ég veit. Önnur ástæða fyrir breytingunni er sú að mig langar að lesa meira á þýsku til að ná betri tökum á málinu.

№ 34 bókalisti:

1  A Man's Place  · Annie Ernaux
2  Útsýni  · Guðrún Eva Mínervudóttir
3  Of Time and the River  · Thomas Wolfe
4  Letters of Leonard Woolf  · ritstj. Frederic Spotts
5  Dichter im Café  · Hermann Kesten [þýsk]

Ensk þýðing: 1) A Man's Place: Tanya Leslie

Franski rithöfundurinn Annie Ernaux hlaut Nóbelsverðlaunin í fyrra. Bók hennar á listanum, La Place á frönsku, fjallar um samband hennar við lítt menntaðan föður sinn og um þá fjarlægð sem smám saman myndast milli þeirra því meira sem hún fetar menntaveginn og verður hluti af millistétt. Áherslan sem hann lagði á tungumálið kemur mikið við sögu: Hún lýsir m.a. atviki þar sem hann þarf að fá lögfræðing til að votta undirskrift sína á pappíra. Þegar hann áttar sig á því hann hefur misritað eitt smávægilegt orðalag við undirritunina þá upplifir hann gríðarlega mikla skömm, sem er ekkert í takt við tilefnið. Í þessari stuttu bók, rétt um 100 síður, staldrar Ernaux stundum við til að segja nokkur orð um skrifin sjálf eða deila hugsunum sínum í tengslum við ákveðna minningu. Staðurinn, í þýðingu Rutar Ingólfsdóttir, kom út hjá Uglu í fyrra. Þetta er fyrsta bók Ernaux sem gefin hefur verið út á Íslandi sem mun án efa breytast eftir Nóbelinn. Fyrir óþreyjufulla þá hefur breska útgáfan Fitzcarraldo Editions sent frá sér 8 verk hennar á ensku nú þegar.

Kaffistund og bókalestur (№ 34 bókalisti) · Lísa Hjalt
Kaffistund og bókalestur í desember

Ég féll fyrir Annie Ernaux þegar ég las The Years (№ 20) í fyrsta sinn, eins konar æviminningar sem fanga tíðarandann einstaklega vel og eru merkilegar vegna þess að hún notar aldrei persónufornafnið ég. Ég keypti í haust þýsku þýðinguna, Die Jahre, til að lesa verkið enn og aftur með þá ensku til hliðsjónar. Ég hef einnig lesið I Remain in Darkness sem fjallar um móður hennar og Alzheimer-sjúkdóminn. Að lesa þá bók var stundum eins og að vera kýldur í magann - hrá og afhjúpandi skrif.

Ef þið viljið kynna ykkur Ernaux þá má finna fínar umfjallanir á RÚV. Ég man einkum eftir að hafa hlustað á Lestina í október þar sem Torfi Tuliníus prófessor benti á aðdáun hennar á franska félagsfræðingnum Pierre Bourdieu. Kenningum Bourdieu kynntist ég fyrst í safnafræðináminu og hef hann núna á bak við eyrað þegar ég les texta hennar. Eftir tilkynninguna um Nóbelsverðlaunin var mjög áhugaverð umfjöllun um skrif Ernaux í TLS-bókahlaðvarpsþætti (mín. 27:40) þar sem rithöfundurinn Lauren Elkin var gestur. Þar kom Bourdieu einnig við sögu.

Á № 34 bókalistanum: Útsýni eftir Guðrúnu Eva Mínervudóttur · Lísa Hjalt
Lestarstund í janúar: Útsýni, nýjasta skáldsaga Guðrún Evu Mínervudóttur

Á þessum síðasta lista er ánægjulegt að geta haft nýtt íslenskt verk. Það gerist ekki oft. Kær vinkona sendir mér af og til bækur frá Íslandi og hún valdi Útsýni Guðrúnar Evu Mínervudóttur handa mér í jólagjöf. Ég hafði séð Kolbrúnu og Þorgeir hrósa bókinni Kiljunni og hugsaði með mér að hún gæti höfðað til mín. Ég er rúmlega hálfnuð og verð að viðurkenna að ég tengi ekki enn við 4-stjörnu límmiðann á eintakinu mínu sem segir syngur í eyrum lesanda. Þegar ég er komin þetta langt inn í bók án þess að finna nokkra tengingu við persónur þá veit það ekki á gott. Ég hef annars sagt það áður að ég og samtímaverk eigum yfirleitt litla samleið; ég er mjög vandlát þannig að það er ekkert að marka mína skoðun á þessu verki. Guðrún Eva gerir margt vel en svo er annað í stílnum sem höfðar ekki til mín.

Kannski segir það eitthvað um mig sem lesanda að geta endurlesið æviminningar Sigga Páls út í hið óendanlega en að hafa látið það nægja að lesa skáldsögu hans Parísarhjólið einu sinni. Ég get svo bætt því við til frekari útskýringar að svo til allar bækur á óskalistanum mínum eru rit almenns eðlis, bréf, esseyjur og æviminningar, ekki skáldsögur.



mánudagur, 26. september 2022

№ 32 bókalisti: Woolf, Hardwick & nýjar bækur

№ 32 bókalisti: Kápan af The Element of Lavishness, bréf Sylviu Townsend Warner og Williams Maxwell, 1938-1978 · Lísa Stefan


Hér er bókalistinn sem ég lofaði nýverið. Ég hefði kannski átt að tvinna saman tvo lista því ég er byrjuð að lesa bækur sem verða á þeim næsta. Ég get svo játað að nú þegar horfi ég löngunaraugum á bækur sem munu rata á þarnæsta. Ein þeirra er bréfasafn Leonards Woolf. Já, ég er að tala um eiginmann Virginiu, en það er honum að þakka að við höfum aðgang að persónulegu efni hennar, bréfum, dagbókum o.fl. Ég hef gaman af lestri bréfa, einkum þeim sem tengjast bókmenntum. Bréfasafn rithöfundanna Warner og Maxwells á nýja listanum, bókin á myndinni hér að ofan, er gullmoli. Hvert bréf er vel skrifað og sú gagnkvæma virðing sem einkenndi vináttu þeirra skín í gegn.

№ 32 bókalisti:

1  The Years · Virginia Woolf
2  Virginia Woolf · Hermione Lee
3  A Room of One's Own · Virginia Woolf [endurlestur]
4  The Uncollected Essays of Elizabeth Hardwick · ritstj. Alex Andriesse
5  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick  · Cathy Curtis
6  De Profundis and Other Prison Writings · Oscar Wilde
7  The Element of Lavishness: Letters of Sylvia Townsend Warner and
William Maxwell 1938-1978  · ritstj. Michael Steinman

Á listanum er ævisaga Hermione Lee um Virginiu Woolf sem ég er að klára og mæli með fyrir Woolf-aðdáendur. Því miður get ég ekki mælt með skáldsögu Woolf, The Years. Nánar um þau vonbrigði síðar, kannski. Þeir sem lesa bloggið vita að Elizabeth Hardwick er í miklu uppáhaldi og á listanum finnið þið nýtt safn ritgerða og einu bókina um ævi hennar sem gefin hefur verið út. Og þá að öðrum lista, óskalistanum mínum.

Kápa bókarinnar Memoirs, sjálfsævisöguskrif Roberts Lowell
Kápa bókarinnar Come Back in September eftir Darryl Pinckney

Sjálfsævisöguleg skrif ljóðskáldsins Roberts Lowell komu út í ágúst (t.v.); Elizabeth Hardwick
prýðir kápu nýrrar bókar eftir Darryl Pinckney (t.h.)

Óskalistinn lengist stöðugt og mig langar að nefna tvær nýjar viðbætur á honum. Í október kemur út bókin Come Back in September eftir Darryl Pinckney. Hún fjallar um vináttu hans við Hardwick og ritstjórann Barböru Epstein. Báðar tóku þátt í því að koma bókmenntaritinu The New York Review of Books á laggirnar, þær voru bestu vinkonur og nágrannar á 67. stræti í New York. Hin, Memoirs, kom út í ágúst og er safn sjálfsævisögulegra skrifa eftir ljóðskáldið Robert Lowell (fyrrverandi eiginmaður Hardwick). Gagnrýnendur hafa lofað bókina.

Kaffiborðið mitt og bækur sem verða á næsta bókalista · Lísa Stefan
Nikkað til næsta bókalista



mánudagur, 29. ágúst 2022

Töfrar í bókabúð

Kápan af Dichter im Café eftir Hermann Kesten (ars vivendi) · Lísa Stefan


Nýverið var ég stödd í bókabúð til að kaupa tvær bækur á óskalistanum og gaf mér tíma til að skoða. Eins og maður gerir. Skyndilega fangaði eitthvað athygli mína á lágri hillu í leikrita- og ljóðahorninu, þessi svarthvíta ljósmynd á bókarkápunni sem þið sjáið á myndinni að ofan. Ég sá þýska titilinn, Dichter im Café (Ljóðskáld á kaffihúsinu) og í eitt sekúndubrot las ég nafn höfundarins sem Hermann Hesse áður en ég áttaði mig á því að það var Hermann Kesten. Ég hafði aldrei heyrt um Kesten áður, eða ekki svo ég mundi. Ég tók bókina upp, sneri henni við og las:
Das Kaffeehaus - legendärer Treffpunkt
des literarischen Austauschs, Umschlagplatz
revolutionärer Ideen, Bühne des Lebens.

Þessi orð aftan á kápunni mætti þýða beint: Kaffihúsið - goðsagnakenndur fundarstaður fyrir bókmenntaumræður, miðstöð byltingarkenndra hugmynda, leiksvið lífsins.

Ég tók bókina með mér að næsta setkrók, þar sem töfrarnir gerðust. Þeir höfðu eiginlega byrjað um leið og ég sá bókina en mögnuðust þar sem ég sat og las formálann. Ég skildi allt; ef ég skildi ekki eintaka orð þá var merkingin ávallt skýr. Setning tvö hljóðaði svona: „Das Kaffeehaus is ein Wartesaal der Poesie“ (Kaffihúsið er biðsalur ljóðlistarinnar) og þegar ég las áfram varð það mér ljóst að þessa bók yrði ég að kaupa, síðasta eintakið í bókabúðinni.
Stofuborðið mitt og bækurnar · Lísa Stefan


Þögn mín hér á blogginu á sér skýringu. Ég flutti í hjarta Linz fyrr í sumar, sem þið hafði kannski séð á Instagram, og hef verið upptekin við alls kyns verkefni. Dásemdin við þennan nýja stað er bókabúðin sem er innan göngufæris - að skoða úrvalið áður en ég versla í matinn gefur lífinu nýja merkingu. Ég verð hérna aftur innan skamms með nýjan og löngu tímabæran bókalista.

mynd á bókarkápu Dichter im Café · Horst Friedrichs



þriðjudagur, 26. apríl 2022

№ 31 bókalisti: bréfaskrif Bishop & Lowell

Á № 31 bókalistanum mínum: bréfaskrif þeirra Bishop og Lowell · Lísa Stefan


Það var afbragðshugmynd að setja Swann's Way á síðasta bókalista (№ 30). Ég er enn að lesa Proust og botna ekkert í mér að hafa ekki lesið hann fyrr. Ríkur prósinn kallar á hæga yfirferð og því finnst mér best að lesa 8-10 síður í einu, einkum í kyrrð og ró að morgni. Daginn byrja ég á lestri; vakna eldsnemma með syninum sem þarf að þvera Linz og úthverfi með sporvagni til að fara í skólann. Þegar hann leggur af stað - flest fólk er þá enn sofandi - sest ég niður með fyrsta kaffibolla dagsins, ristað brauð og bækur. Þessa dagana byrja ég á nokkrum bréfum sem ljóðskáldin Elizabeth Bishop og Robert Lowell sendu sín á milli áður en ég sný mér að Proust og öðrum höfundum. Þessari rútínu lýkur svo með þýska skáldverkinu sem ég er að lesa þá stundina.

№ 31 bókalisti:

1  Words in Air: The Complete Correspondence Between Elizabeth Bishop
and Robert Lowell  · ritstj. Thomas Travisano & Saskia Hamilton
2  Upstream: Selected Essays  · Mary Oliver
3  Speak, Memory  · Vladimir Nabokov
4  Personal History  · Katharine Graham
5  Ein ganzes Leben  · Robert Seethaler [þýsk]

Ég er enn að lesa Der Untergeher (plebbinn á ísl., № 30), mína þriðju bók eftir hinn austurríska Thomas Bernhard. Hann er einstaklega hnyttinn sögumaður. Mig langar að lesa allt eftir hann sem ég kemst yfir á frummálinu. Ég held að verk hans hafi ekki verið gefin út á Íslandi en skáldsögur hans og leikrit eru til í enskri þýðingu. Ég hef aldrei lesið neitt eftir landa hans Robert Seethaler og nú er kominn tími á Ein ganzes Leben sem ég keypti í fyrrasumar. Mannsævi heitir hún í íslenskri þýðingu og kom út fyrir nokkrum árum.

Kirstuberjatré í blóma, Antwerpen, vor 2011 · Lísa Stefan
Kirsuberjatré í blóma, Antwerpen 2011

Fyrir svefninn undanfarið hef ég verið að lesa Personal History, ævisögu Katharinu Graham heitinnar, útgefanda The Washington Post. Bókin hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 1998. Ég byrjaði á henni fyrir töluvert löngu síðan en hinkraði með það að setja hana á bókalista þar til núna. Ég vissi að hún skrifaði marga kafla um fjölskyldu sína og uppvaxtarár (sá hluti ævisagna sem mér leiðist hvað mest) og því vildi ég gefa mér tíma til að komast í gegnum þá. Þegar frásögn hennar komst loks á flug var stundum erfitt að leggja bókina frá sér.
Á № 31 bókalistanum: sjálfsævisaga Vladimirs Nabokov · Lísa Stefan




þriðjudagur, 22. mars 2022

№ 30 bókalisti: Proust að vori

№ 30 bókalisti: bókabunki; Marcel Proust, Lydia Davis, Siri Hustvedt · Lísa Stefan


Vorið er komið og því löngu tímabært að uppfæra bloggið með nýjum bókalista. Ég deildi þeim síðasta í janúar en mér til varnar þá er ég virkari á Instagramsíðunni minni sem snýst um bækur. Í góðan áratug hef ég ætlað að lesa hinn franska Marcel Proust, meistaraverkið À la recherche du temps perdu (Í leit að týndum tíma; In Search of Lost Time), og lét verða af því nýverið að kaupa enska þýðingu, fyrsta bindið af fjórum frá bókaútgáfunni Everyman’s Library. Skáldverkið samanstendur af sjö bókum og bindið inniheldur Swann’s Way (fr. Du côté de chez Swann), sem flestir þekkja, og fyrri partinn af Within a Budding Grove (fr. À l'ombre des jeunes filles en fleurs). Eftir að hafa lesið nokkrar síður finn ég strax að sögumaðurinn heillar mig og ríkur prósinn líka. Proust að vori verður ánægjuleg afþreying.

№ 30 bókalisti:

1  Essays Two  · Lydia Davis
2  Swann's Way  · Marcel Proust
3  What I Loved  · Siri Hustvedt
4  Der Untergeher  · Thomas Bernhard [þýsk]
5  The Makioka Sisters  · Jun'ichirō Tanizaki [endurlestur]

Ensk þýðing: 1) Swann's Way: C. K. Scott Moncrieff and Terence Kilmartin;
5) The Makioka Sisters: Edward G. Seidensticker

Það má segja að Essays Two eftir Lydiu Davis hafi ýtt við mér að lesa Proust því hún er höfundur nýjustu ensku þýðingarinnar á Swann's Way og fjallar um það verkefni í nokkrum esseyjum. (Þýðingin sem ég er að lesa er mun eldri en hefur verið uppfærð.) Þetta safn ritgerða er það fyrsta sem ég les eftir Davis og einnig er ég að lesa skáldverk eftir Siri Hustvedt í fyrsta sinn. Það vill svo skemmtilega til að Hustvedt hefur verið gift rithöfundinum Paul Auster (4 3 2 1, New York þríleikurinn) í fjörutíu ár, en Davis er fyrrverandi eiginkona hans.

Ég hef minnst á það áður að í hvert sinn sem bók veldur mér það miklum vonbrigðum að ég klára hana ekki að þá endurles ég einhverja uppáhaldsbók. Á síðasta lista var My Brilliant Friend eftir Elenu Ferrante, fyrsta bókin í Napólí-fjórleik hennar, í enskri þýðingu. Ég virkilega reyndi en gafst endanlega upp á 20. kafla. Hvorki söguþráðurinn né persónurnar höfðuðu til mín og mér fannst stíllinn einkennast af endurtekningum. Til að bæta mér þetta upp ákvað ég að endurlesa The Makioka Sisters, klassískt verk eftir hinn japanska Tanizaki. Það er notalegt að verja tíma með Systrunum fyrir svefninn.

Listaverk: Richard Diebenkorn, Untitled, 1981
Richard Diebenkorn, Untitled, 1981

Richard Diebenkorn listaverk af @diebenkornfoundation



föstudagur, 17. desember 2021

Mothers, Fathers, and Others: Essays · Siri Hustvedt

Bókarkápan af Mothers, Fathers, and Others: Essays eftir Siri Hustvedt (Simon & Schuster)


Nýtt safn ritgerða, Mothers, Fathers and Others, eftir Siri Hustvedt kom nýlega út hjá Simon & Schuster. Á vefsíðu Hustvedt er bókinni svo lýst: „Femínísk heimspeki og fjölskylduminningar mætast í þessu nýja ritgerðasafni, sem kannar hinn breytilega jaðar sem skilgreinir mannlega reynslu, þar á meðal mörk sem við tökum venjulega sem sjálfsögðum hlut en sem reynast mun minna stöðug en við ímyndum okkur.“

Í morgun hlustaði ég á ritstjórann Sam Leith, sem sér um The Spectator Book Club hlaðvarpið, í áhugaverðum samræðum við Hustvedt um bókina.

Kápumynd: Louise Bourgeois, Self Portrait, 1994
Ljósmynd: Christopher Burke

Mothers, Fathers, and Others: Essays
Höf. Siri Hustvedt
Innbundin, 304 blaðsíður
ISBN: 9781982176396
Simon & Schuster



þriðjudagur, 20. júlí 2021

Lestrarkompan: Janet Malcolm

Kápan af Unquiet eftir Linn Ullmann (Hamish Hamilton) · Lísa Stefan


Afmælið mitt er í júlí og það ætti ekki að koma á óvart að fólk gefur mér gjarnan bækur. Sumir vilja sjá óskalista og ég sendi hlekk á forgangsraðaðan lista, ekki lista yfir allar bækurnar sem mig langar í. Ef ég sýndi fólki mína sönnu bókasál þá fengi það líklega ranghugmyndir um geðheilsu mína. Auðvitað skilja margir svona bókaklikkun en það er ástæðulaust að flagga henni að óþörfu. Hlekkirnir í þessari lestrarkompu voru niðurnegldir þegar tvær gjafir bárust í hús, bækur eftir Janet Malcolm og Linn Ullmann, þannig að ég breytti þeim og uppfærði einnig næsta bókalista sem var tilbúinn. Að setja þessar bækur upp í hillu og lesa síðar var óhugsandi.

Elsta dóttirin gaf mér Forty-one False Starts: Essays on Artists and Writers eftir rithöfundinn og blaðakonuna Janet Malcolm, sem aðallega skrifaði fyrir The New Yorker. Malcolm lést fyrr í sumar, 86 ára að aldri. Hún fæddist í Prag árið 1934 en fjölskyldan flúði til Bandaríkjanna fimm árum síðar þegar ofsóknir nasista gegn gyðingum voru hafnar. Greinar hennar birtust í ýmsum ritum og einnig skrifaði hún bækur, m.a. þessar þrjár sem mig langar að lesa: The Silent Woman: Sylvia Plath and Ted Hughes, Reading Chekhov: A Critical Journey og Two Lives: Gertrude and Alice.
Kápan af Forty-one False Starts eftir Janet Malcolm (FSG) · Lisa Stefan


Kær vinkona gaf mér skáldsöguna Unquiet eftir hina norsku Linn Ullmann, sem þið sjáið á fyrstu myndinni (upprunalegur titill er De Urolige; Thilo Reinhard þýddi á ensku). Sagan er sjálfsævisöguleg en foreldrar hennar voru norska leikkonan Liv Ullmann og sænski leikstjórinn Ingmar Bergman. Í fyrra var hún gestur alþjóðlegu bókmenntahátíðarinnar Edinburgh International Book Festival, sem var streymt á netinu vegna heimsfaraldursins. Ég hafði þegar sett bókina á langar-að-lesa listann en þegar ég heyrði Ullmann tala um hana þá var ekki aftur snúið. Bókina skyldi ég eignast og lesa.

Ég gaf sjálfri mér nokkrar bækur í afmælisgjöf (m.a. tvær fyrstu hér að neðan) sem höfðu þegar ratað í lestrarkompufærslu. Má þar nefna This Little Art eftir Kate Briggs og ævisöguna um Elizabeth Hardwick sem kemur út í nóvember.

Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Essayism · Brian Dillon
  The Lost: A Search for Six of Six Million · Daniel Mendelsohn

... bætti á óskalistann:
  Damned to Fame: The Life of Samuel Beckett · James Knowlson
  Words in Air: The Complete Correspondence Between Elizabeth Bishop og
Robert Lowell · ritstj. Saskia Hamilton

... bætti á langar-að-lesa listann:
  Edge of Irony · Marjorie Perloff
  Letters to Camondo · Edmund de Waal

... forgangsraðaði á langar-að-lesa listanum:
  Snow Lepard · Peter Matthiessen

Liv Ullmann á íslensku:
  Bjartur gaf út bókina Hin órólegu í þýðingu Ingibjargar Eyþórsdóttur, sem hlaut tilnefningu til íslensku þýðingaverðlaunanna árið 2019. Í fyrrasumar var hún bók vikunnar á RÚV.

Janet Malcolm hlekkir:
  Í skemmtilegum samræðum við Ian Frazier á New Yorker Festival 2011.
  The Art of Nonfiction No. 4, viðtal í bókmenntaritinu The Paris Review vorið 2011.
  A life in writing: Janet Malcolm, viðtal í The Guardian, júní 2011.
  Útdráttur úr bókinni Forty-one False Starts, titilritgerðin eða prófíll hennar um málarann David Salle fyrir The New Yorker, tbl. 11. júlí 1994.
  Tveir atburðir: Brönsj og samræður við Janet Malcolm í mars 2013 á vegum Kelly Writers House við Háskólann í Pennsylvaníu. Kvöldið áður var hún með upplestur.
  Hún var einnig listakona og þekktust voru collage-verkin hennar, innblásin af ljóðum Emily Dickinson.
  Að lokum, minningarorðin um hana í The Guardian.



þriðjudagur, 5. janúar 2021

№ 25 bókalisti: kvennalistinn

№ 25 bókalisti: stafli af bókum eftir konur eingöngu · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég vil byrja árið með nýjum bókalista, sönnum kvennalista. Eins og þið líklega vitið þá er Elizabeth Hardwick í miklu uppáhaldi en ritgerðasafnið Seduction and Betrayal fjallar um kvenkyns rithöfunda og konur í bókmenntum. Svo skemmtilega vill til að Joan Didion, sem á bók á listanum, skrifar innganginn að þessu safni og í því er ritgerð um Bloomsbury-hópinn og Virginu Woolf, sem er einnig á listanum.

№ 25 bókalisti:

1  Seduction and Betrayal  · Elizabeth Hardwick
2  Ninth Street Women  · Mary Gabriel
3  Approaching Eye Level  · Vivian Gornick
4  Intimations: Six Essays  · Zadie Smith
5  On Beauty  · Zadie Smith
6  The Waves  · Virginia Woolf [endurlestur]
7  Slouching Towards Bethlehem  · Joan Didion [endurlestur]

Ég verð að játa að listinn hefur verið það lengi í drögum á blogginu að ég hef þegar lesið fimm af bókunum sjö. Ég er ekki komin langt í bók Mary Gabriel - lipur titill í fullri lengd er Ninth Street Women: Lee Krasner, Elaine de Kooning, Grace Hartigan, Joan Mitchell, and Helen Frankenthaler: Five Painters and the Movement That Changed Modern Art - en get þegar mælt með henni. Ævisaga Lee Krasner eftir Gail Levin var á síðasta bókalista, № 24. Ég get einnig mælt með henni en ef ég ætti að gera upp á milli þessara tveggja þá veldi ég Ninth Street Women. Þrátt fyrir að Gabriel fjalli ekki um uppvaxtarár listakvennanna fimm þá finnst mér bók hennar skemmtilegri aflestrar. Hönnunin bókarinnar er vandaðri og myndir af listaverkum í lit. Levin vann augljóslega heimavinnuna sína um ævi Krasner en textinn verður stundum full akademískur fyrir minn smekk og flæðir þá illa. Í mínu eintaki, kilja frá William Morrow, virkar pappírinn ódýr og í því eru bara svarthvítar myndir af verkum Krasner.

Málverk eftir Lee Krasner, The Seasons, 1957, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art
Lee Krasner, The Seasons, 1957

Lee Krasner listaverk, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art af vefsíðu Haus der Kunst