miðvikudagur, 22. júní 2016

Bækur um hönnun | Að ganga úr eða vera áfram?

Bækur um hönnun · Lísa Hjalt


Já, ég er að vísa til „Brexit“ í titlinum. Á morgun gengur breskur almenningur til þjóðaratkvæðagreislu um veruna í ESB og loksins lýkur þá þessari umræðu! Það er ekki hægt að kveikja á fréttum eða fara eitt né neitt án þess að á manni dynji „ganga úr eða vera áfram“, og þannig hefur þetta verið í margar vikur. Ég efast um að ég höndlaði einn dag til viðbótar af þessu (það hefur rignt í nokkra daga sem gæti líka skýrt takmarkaða þolinmæði mína). Einn tiltekinn pólitíkus kvartaði í ræðu yfir evrópskum vegabréfum og að „við værum að drekka franskt vín“. Ég hugsaði með mér, Já, þarna er komin góð og gild ástæða til að segja sig úr, þá loks fara Bretar að velja breskt vín með fisknum & frönskunum og Yorkshire-búðingnum! Ég er annars í áfram-liðinu (hér í Skotlandi er fólk yfirleitt Evrópusinnað) en tek ekki þátt í þessari umræðu þar sem ég hef ekki kosningarétt. Ég hef aftur á móti rétt á því að vera kaldhæðin.

Eigum við ekki bara að tala um bækur?
Bækur um hönnun · Lísa Hjalt


Mig langaði að deila með ykkur nokkrum hönnunarbókum sem ég hafa vakið eftirtekt mína; annaðhvort nýkomnar út eða koma út síðar á árinu. Ég bætti athugasemdum við hverja.


· Casa Mexico: At Home in Merida and the Yuctan eftir Annie Kelly. Þessi guðdómlega bók er næst á innkaupalistanum; á vefsíðu Rizzoli má fletta nokkrum síðum í bókinni.
· Past Perfect: Richard Shapiro Houses and Gardens eftir Richard Shapiro og Mayer Rus. Ég hef deilt hönnun Shapiro á Tumblr-síðunni og verönd hans á enska blogginu.
· Beautiful: All-American Decorating and Timeless Style eftir Mark D. Sikes. Við höfum kíkt inn í stofuna hans og á ensku síðunni deildi ég innliti á heimili hans í Hollywood Hills.
· Would You Like to See the House: Unapologetic Interiors eftir Lorraine Kirke. Bóheminn hið innra vill eignast þessa.
· Alberto Pinto: Signature Interiors eftir Anne Bony. Á ensku síðunni sáum við málverk eftir Valdés í vinnustofu Pinto.
· Decorative Textiles from Arab and Islamic Cultures: Selections from the Al Lulwa Collection. Fylgist með hér á blogginu því ég mun birta ritdóm minn um þessa bók innan tíðar.

Bækur um hönnun · Lísa Hjalt


Ég hef takmarkaðan áhuga á fótbolta og fylgist aðeins með Heimsmeistaramótinu á fjögurra ára fresti og búið. En ég get nú ekki annað en glaðst yfir fréttum dagsins, að íslenska liðið sé komið áfram í 16-liða úrslit á Evrópumótinu. Hver hefði trúað þessu?!



föstudagur, 17. júní 2016

№ 2 bókalisti: flottar bókahillur

№ 2 bókalisti: bókahillur · Lísa Hjalt


Ég er ástfangin af bókahillum. Ekki í fyrsta sinn. Með kaffibollanum hef ég verið að fletta fram og til baka innliti í hús í LA sem er með svo mörg smáatriði á hreinu (júlítölublað Elle Decoration UK, „House on the Hills“, ljósmyndari Stephanie Bjelkstam). Í opnum hillum í stofunni er bókum og skrautmunum raðað smekklega án þess að hillurnar virki yfirhlaðnar; bókum er raðað lóðrétt og lárétt sem gerir stíliseringuna enn áhugaverðari. Það er sem hillurnar andi og þær kallast á við gólfmottuna. Virkilega vel gert. Þessa dagana er ég að lesa nokkrar bækur og fljótlega mun ég gagnrýna eina hér á blogginu: Decorative Textiles from Arab and Islamic Cultures. Egypska bómullarábreiðan með ásauminum út til vinstri er smá sýnishorn.

Bókalisti sumarsins er tilbúinn (kannski ætti ég að segja sá fyrri þessa sumars) og samanstendur af leikritum og ævisögulegu efni. Nýverið skilaði ég á bókasafnið æviminningum Arthurs Millers Timebends (virkilega vel skrifuð bók sem ég mæli með) og fékk að láni tvö leikrit eftir hann. Á sama degi var ég að fletta uppi verkum eftir Virginiu Woolf á netinu og var svo heppin að finna tvær notaðar bækur (3. bindi dagbókar hennar er komið í hús og lítur út eins og nýtt - elska svoleiðis fund). Hér er listinn minn:

1  All My Sons  · Arthur Miller
2  Death of a Salesman  · Arthur Miller
3  Off the Road: Twenty Years with Cassady, Kerouac and Ginsberg  ·
Carolyn Cassady
4  The Diary of Virginia Woolf - Volume 3: 1925-1930  ritstj. Anne
Olivier Bell
5  The Letters of Virginia Woolf - Volume II: 1912-1922  ritstj. Nigel
Nicolson og Joanne Trautmann
6  Testament of Youth: An Autobiographical Study of the Years 1900-1925  ·
Vera Brittain

Sumir myndu kalla þetta frekar þungan sumarlestur en ég er bara ekki sú tegund lesanda sem nælir sér í stafla af léttefni í næstu bókabúð. Börnin voru að gera grín af mér um daginn og sögðu að ég læsi skrýtnar bækur. Ég er að reyna að muna rétt orðalag sem eitt þeirra notaði, „enskar yfirstéttarsnobbbókmenntir“ (English upper-class snob literature) eða eitthvað í þá áttina. Ég skellti upp úr.


Á aðeins persónulegri nótum: Ég óska ykkur gleðilegs þjóðhátíðardags en í dag eigum við hjónin 18 ára brúðkaupsafmæli. Í dag er einnig föstudagspizzudagur en eiginmaðurinn er staddur erlendis vegna vinnu. Við börnin ætlum bara að fá okkur franska osta, snittubrauð og vínber . . . og súkkulaði. Eigið góða helgi!

myndir mínar | bókahillumynd: Elle Decoration UK, júlí 2016, bls. 116 · Stephanie Bjelkstam



mánudagur, 6. júní 2016

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum (óbökuð) · Lísa Hjalt


Það var heitt sumar árið 2010 og við vorum nýflutt til Antwerpen þar sem við bjuggum í tvö ár. Sonurinn átti bráðum afmæli og bað mig um að gera þessa mjúku valhnetusúkkulaðiköku með hindberjum sem ekki þarf að baka. Hann sá hana í bókinni Ani's Raw Food Desserts eftir Ani Phyo og gerði strax upp hug sinn. Mjúk kaka og Playmo og sá fimm ára var hamingjusamur. Upprunalega uppskriftin (raspberry ganache fudge cake, bls. 49) var tveggja laga með kremi og hindberjum á milli. Ég gerði hana, okkur fannst hún svakalega góð, en eftir einungis eina sneið vorum við pakksödd. Fyrir okkur var þetta bara of mikið magn. Ég minnkaði stærð kökunnar og mín útgáfa er bara einfaldur botn með kremi og berjum ofan á. Það dásamlega við gerð kökunnar er einfaldleikinn: Það þarf ekki leggja hnetur og döðlur í bleyti; öllu er bara blandað saman í matvinnsluvél. Kakan er svo mótuð og borin fram. Frábært á góðum sumardögum þegar mann langar í súkkulaðiköku en það er hreinlega of hlýtt fyrir ofnbakstur.

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum · Lísa Hjalt


Ein ástæða þess að ég elska þessa köku er að í henni er að finna tvennt sem er í miklu uppáhaldi: valhnetur og hindber. Valhnetur eru ríkar af ómega-3-fitusýrum (úr plöntum). Þær eru taldar vera góðar fyrir hjartað og þær hafa bólgueyðandi eiginleika. Ég las í bókinni minni Larousse Culinary Encyclopedia að forn-Grikkir og -Rómverjar hafi trúað því að valhnetur læknuðu hausverk vegna lögunar kjarnans, sem lítur út eins og tvö heilahvel (bls. 1143). Í sömu matarbiblíu las ég um „gyðjuna Ídu sem stakk sig á fingri þegar hún var að tína ber fyrir hinn unga Júpíter og þannig urðu hindberin rauð, sem hingað til höfðu verið hvít“ (bls. 861). Við skulum segja skilið við goðafræðina og skella í köku.
Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum · Lísa Hjalt


Uppskriftin að þessari mjúku valhnetusúkkulaðiköku er aðlöguð úr fyrrnefndri bók eftir Ani Phyo, sem er stútfull af kræsingum sem ekki þarf að ofnbaka. Ég hef minnkað stærð kökunnar þar sem við kjósum að hafa bara einn botn með kremi og hindberjum ofan á. Uppskrift Phyo kallar á þurrkaðar valhnetur (fyrst lagðar í bleyti, svo þurrkaðar í sól eða þurrkofni) en ég nota bara valhnetur án þess gera nokkuð við þær áður. Sumir geta verið viðkvæmir fyrir koffeini og í þeim tilfellum er ágætt að nota malað karob í botninn í staðinn fyrir kakó. Upprunalega uppskriftin kallar á steinlausar Medjool-döðlur, sem eru mjúkar og þarf ekki að leggja í bleyti. Að sjálfsögðu má nota þurrkaðar döðlur í staðinn en þá þarf fyrst að leggja þær í bleyti. Upprunalega uppskriftin að kreminu inniheldur agavesíróp en ég nota hreint hlynsíróp í mitt. Kökuna má geyma í kæli í 3 daga.

MJÚK VALHNETUSÚKKULAÐIKAKA MEÐ HINDBERJUM

mjúkur kökubotn
220 g valhnetur
50 g kakó
tæp ¼ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
175 g steinlausar Medjool-döðlur

kökukrem
60 g steinlausar Medjool-döðlur
40 ml hreint hlynsíróp
70 g þroskað avókadó
30 g kakó

70-100 g hindber

Botninn: Setjið valhnetur, kakó og salt í matvinnsluvél og haldið pulse-hnappnum niðri uns þetta er gróflega maukað. Passið að ofmauka ekki á þessu stigi. Bætið Medjool-döðlunum saman við og notið pulse-hnappinn þar til allt hefur blandast vel saman. Finnið áferð blöndunnar með fingurgómunum og ef hún virkar þurr aukið þá Medjool-döðlurnar um eina eða tvær. Notið hendurnar til að móta kökubotn á diski (ég kýs að hafa minn 18-19 cm).

Kökukremið: Setjið Medjool-döðlur og hlynsíróp í matvinnsluvél og vinnið vel þar til blandan er eins mjúk og hún getur orðið. Skerið þroskað avókadó í tvennt, fjarlægið steininn og skafið innan úr því magnið sem þarf, setjið því næst í vélina og vinnið vel þar til blandan er mjúk. Að lokum bætið þið kakóinu út í og vinnið vel uns kremið er silkimjúkt.

Dreifið kökukreminu jafnt yfir kökubotninn og skreytið með hindberjum áður en þið berið kökuna fram.

Recipe in English.

Ef notaðar eru steinlausar þurrkaðar döðlur í stað Medjool-daðla: Saxið þær fyrst og leggið í bleyti í alla vega 30 mínútur. Ekki hella döðluvatninu í vaskinn því þið gætuð þurft örlítið af vatninu til að ná fram réttri áferð, bæði fyrir kökubotninn og kremið (veltur á gæðum matvinnsluvélarinnar). Í stað þess að nota eingöngu valhnetur í botninn má nota helminginn af þeim og nota svo blöndu af pekanhnetum, möndlum og cashewhnetum á móti.