föstudagur, 17. júní 2016

№ 2 bókalisti: flottar bókahillur

№ 2 bókalisti: bókahillur · Lísa Hjalt


Ég er ástfangin af bókahillum. Ekki í fyrsta sinn. Með kaffibollanum hef ég verið að fletta fram og til baka innliti í hús í LA sem er með svo mörg smáatriði á hreinu (júlítölublað Elle Decoration UK, „House on the Hills“, ljósmyndari Stephanie Bjelkstam). Í opnum hillum í stofunni er bókum og skrautmunum raðað smekklega án þess að hillurnar virki yfirhlaðnar; bókum er raðað lóðrétt og lárétt sem gerir stíliseringuna enn áhugaverðari. Það er sem hillurnar andi og þær kallast á við gólfmottuna. Virkilega vel gert. Þessa dagana er ég að lesa nokkrar bækur og fljótlega mun ég gagnrýna eina hér á blogginu: Decorative Textiles from Arab and Islamic Cultures. Egypska bómullarábreiðan með ásauminum út til vinstri er smá sýnishorn.

Bókalisti sumarsins er tilbúinn (kannski ætti ég að segja sá fyrri þessa sumars) og samanstendur af leikritum og ævisögulegu efni. Nýverið skilaði ég á bókasafnið æviminningum Arthurs Millers Timebends (virkilega vel skrifuð bók sem ég mæli með) og fékk að láni tvö leikrit eftir hann. Á sama degi var ég að fletta uppi verkum eftir Virginiu Woolf á netinu og var svo heppin að finna tvær notaðar bækur (3. bindi dagbókar hennar er komið í hús og lítur út eins og nýtt - elska svoleiðis fund). Hér er listinn minn:

1  All My Sons  · Arthur Miller
2  Death of a Salesman  · Arthur Miller
3  Off the Road: Twenty Years with Cassady, Kerouac and Ginsberg  ·
Carolyn Cassady
4  The Diary of Virginia Woolf - Volume 3: 1925-1930  ritstj. Anne
Olivier Bell
5  The Letters of Virginia Woolf - Volume II: 1912-1922  ritstj. Nigel
Nicolson og Joanne Trautmann
6  Testament of Youth: An Autobiographical Study of the Years 1900-1925  ·
Vera Brittain

Sumir myndu kalla þetta frekar þungan sumarlestur en ég er bara ekki sú tegund lesanda sem nælir sér í stafla af léttefni í næstu bókabúð. Börnin voru að gera grín af mér um daginn og sögðu að ég læsi skrýtnar bækur. Ég er að reyna að muna rétt orðalag sem eitt þeirra notaði, „enskar yfirstéttarsnobbbókmenntir“ (English upper-class snob literature) eða eitthvað í þá áttina. Ég skellti upp úr.


Á aðeins persónulegri nótum: Ég óska ykkur gleðilegs þjóðhátíðardags en í dag eigum við hjónin 18 ára brúðkaupsafmæli. Í dag er einnig föstudagspizzudagur en eiginmaðurinn er staddur erlendis vegna vinnu. Við börnin ætlum bara að fá okkur franska osta, snittubrauð og vínber . . . og súkkulaði. Eigið góða helgi!

myndir mínar | bókahillumynd: Elle Decoration UK, júlí 2016, bls. 116 · Stephanie Bjelkstam



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.