fimmtudagur, 30. apríl 2015

Gul efni frá Fermoie

Textíll: Gul efni frá Fermoie · Lísa Hjalt


Ég er að ganga í gegnum enn eitt gulur-textíll tímabilið; ég sé gul mynstur alls staðar. Samband mitt við þennan grunnlit er stundum flókið því ég laðast að ákveðnum gulum tónum eins og býfluga að hunangi á meðan aðrir gera lítið fyrir mína fagurfræðilegu hlið. Gulu litirnir sem heilla mig eru gylltir og sinnepsgulir litir; gulir litir sem hafa vott af rauðu í sér, eins og túrmerik og saffran. Það sem kom af stað þessu nýjasta æði mínu voru prufur af efnum sem ég fékk frá enska vefnaðarvörufyrirtækinu Fermoie.

Prufan með breiðu röndunum kallast Cotton York Stripe (L-039) og hitt mynstrið kallast Cotton Rabanna (L-190), sem virðist bræða hjarta mitt í hvert sinn sem ég horfi á það. Bæði efnin eru 100% bómull í hæsta gæðaflokki. Ég fékk fleiri liti og mynstur sem ég legg á borðið mitt síðar og sýni ykkur ... þegar ég er komin yfir gula æðið. (Mynd mín hér að ofan sýnir hluta af ljósmynd eftir Chris Court í bókinni Gypsy: A World of Colour & Interiors eftir Sibella Court.)


Fermoie var stofnað af Martin Ephson og Tom Helme, herramönnunum sem einnig stofnuðu Farrow & Ball (og seldu síðar). Mér líkar einfaldleikinn í palettu þeirra sem samanstandur af fimm litum - rauðum, gulum, grænum, bláum og hlutlausum - sem eru fáanlegir í ljósum og dökkum tónum. Helme segir þetta um fyrirtækið:
Fermoie's aim is to capture the life, light and enjoyment of old woven textiles. We print traditionally with a light touch using pigments creating a subtle impression but with the depth of a woven fabric. (Um Fermoie)
Hönnunin er handteiknuð á vinnustofum þeirra og prentuð á náttúruleg efni í verksmiðju þeirra í Marlborough (efnin eru ofin í Lancashire). Ef svo vill til að þið eruð stödd í Chelsea-hverfinu í London þá er Fermoie með sýningarsal á Pond Place númer 2.

föstudagur, 24. apríl 2015

Kyrrlátur reitur í þorpinu

Kyrrlátur reitur í þorpinu · Lísa Hjalt


Í fyrra þegar ég flutti til South Yorkshire þá stóð ég í þeirri meiningu að ég væri að flytja í lítinn bæ. Það var ekki fyrr en fólk fór að spyrja mig hvernig mér liði í þorpinu að ég áttaði mig á því að ég byggi í einu slíku. Þegar ég hugsa um þorp þá sé ég fyrir mér örfá múrsteinshús, þröngar steinlagðar götur og gamalt pósthús með gömlu og kannski eilítið ryðguðu reiðhjóli við innganginn.


Þessi fallegi reitur við kirkjuna er líklega einn fárra sem minna á þorp, ef umferðarniðurinn frá megingötunni er ekki talinn með. Kirkjan kallast St. Saviour og þar sem ég fer ekki í messu þá hef ég aldrei stigið inn í hana. Ég tók ekki eftir bekknum fyrr en ég var í göngutúr með syni mínum á sólríkum vordegi og sá að tréð hafði blómgast. Þessi reitur var eins og segull sem dró okkur yfir götuna; hann virkaði svo friðsæll. Þegar við tókum eftir áletruðu plötunni undir trénu þá einhvern veginn jókst sérstaða þessa reitar.Stundum líður mér eins og ég sé áttræð þegar ég tala um veðrið á blogginu en þessa dagana er hreinlega eins og sumarið sé komið! Við vorum í London á þriðjudaginn og borgin iðaði af lífi; fólk í stuttbuxum eða pilsum í sólinni; kaffihús og veitingastaðir þéttsetnir utandyra og allir glaðir. Við enduðum daginn í Chelsea-hverfinu og nutum góðs matar og kaffis á Startisans, sem er „pop-up“ kaffihús með götumat á the Duke of York Square-torginu. Ég hefði getað setið þar fram eftir kvöldi og notið þess að fylgjast með umhverfinu og fólkinu.

Góða helgi!

fimmtudagur, 23. apríl 2015

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar - kirsuberjatré · Lísa Hjalt


Gleðilegt sumar kæru landar! Það verður að viðurkennast að því lengur sem maður býr erlendis, og upplifir það sem ég kalla eðlilegt vor í mars, apríl og maí, þá verður sumardagurinn fyrsti á landinu ylhýra alltaf meira og meira kómískari og svo ég segi það bara hreint út: tímaskekkja.
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt


Svona hljómaði nokkurn veginn hluti úr samræðum sem ég átti í dag (og hef átt svipaðar undanfarin ár):

Ég: Það er sumardagurinn fyrsti á Íslandi, lögboðinn frídagur.
Viðmælandi: Já er það, kemur sumarið svona snemma þar?

Viðkomandi hafði ekki sleppt setningunni þegar hann áttaði sig á því hvað hún hljómaði fáránlega, sérstaklega þegar umræðuefnið var eyja í norðri.

Ég: Nei, þetta er gömul hefð, samkvæmt gömlu tímatali eða bændaklukkunni.

Við stöndum undir kirsuberjatré í fullum blóma í sól og alla vega 18 gráðum.

Viðmælandi: Og hvernig er annars veðrið á Íslandi í dag?
Ég: Það eru 2 gráður og þegar ég opnaði vefmyndavél þá var að snjóa.

Þögn.
Lengri þögn.
Svo hláturkast en með vott af samúð.
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt


miðvikudagur, 15. apríl 2015

Pestó með basilíku

Uppskrift: klassískt pestó með basilíku · Lísa Hjalt


Matarbiblían mín, Larousse Culinary Encyclopedia, fullyrðir að pestó komi frá Genúa og ekki rífst ég við hana. Það vill svo til að ég var þar fyrir mörgum árum síðan. Hið klassíska, ítalska pestó með basilíku, parmesanosti og furuhnetum er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hef loksins eignast nýja og betri matvinnsluvél og geri því oft pestó í hádeginu. Líka má skrifa pestóneysluna á uppskriftabókina hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu því hún kvaldi mig með mörgum pestómyndum þegar við unnum í handritinu. Í bók Sigrúnar er klassísk pestóuppskrift (önnur hlutföll en mín; það eru til svo margar útgáfur) og graskersfræjapestó sem fékk mig til að kalla hátt yum ... yum! Muniði eftir senunni í Julie and Julia þegar ritstjórinn var að prófa uppskrift Child að boeuf bourguignon og lygndi aftur augunum í hamingjukasti? Það er það sem ég á við þegar ég segi yum ... yum! Ég lofa að deila uppskriftinni þegar bókin kemur út í haust.

Aftur til Genúa. Ég tók lest þangað frá Zürich í gegnum Mílanó og tók leigubíl á tiltekna ferðaskrifstofu til að kaupa ferjumiða yfir til Sardiníu, eins og sagði í ferðahandbókinni (ekkert net í þá daga). Afgreiðslukonan horfði á mig með vorkunn og sagði að handbókin færi með rangt mál; ég ætti að kaupa miðann á ferjuhöfninni. (Heimska ferðahandbók!) Ég tók annan leigubíl út að höfn og rétt missti af ferju - klassískt. Sem betur fer var þetta fallegur sumardagur og ég man að seinnipartinn sat ég á tröppum á höfninni með bók og safaríkar ferskjur sem ég hafði keypt á markaði. Við hlið mér voru háskólastúdentar frá Mílanó (ég var yngri, bara 18) og einhvern veginn varð ég hluti af þeirra hóp án þess að vera hluti af honum. Ég talaði ekki ítölsku en það var eins og þau væru að líta eftir þessum einsama íslenska ferðalangi sem sat þarna við hliðina á þeim. Eftir öll þessi ár man ég enn eftir tveimur andlitum úr hópnum, þeim sem töluðu ensku. Ég get ekki sagt að ég hafi verið óörugg að ferðast ein en það var notalegt að sitja þarna með þeim þar sem biðin eftir ferjunni reyndist löng.
Pestó, klassískt · Lísa Hjalt


Með góða matvinnsluvél í eldhúsinu þarf aldrei að kaupa pestó í krukku. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hversu auðvelt það er að útbúa pestó heima og það besta er að það má nota hvaða hlutföll sem er. Viltu meiri ólíuolíu? Notaðu þá meira! Viltu meiri parmesanost? Láttu vaða! Ástæðan fyrir því að ég nota 60 grömm af basilíku er að ég fæ blöðin í 30-gramma pokum og næ akkúrat áferðinni sem mér líkar. Ef pestóið klárast ekki þá bæti ég örlitlu af ólífuolíu saman við og geymi í glerkrukku í kæli. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél þá má alltaf nota mortél.

PESTÓ MEÐ BASILÍKU

50 g furuhnetur
60 g fersk græn basilíkublöð
35 g parmesanostur
½-1 hvítlauksrif
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
klípa nýmalaður svartur pipar
50 ml lífræn jómfrúarólífuolía

Brúnið furuhneturnar létt án olíu á pönnu til að kalla fram meira bragð.

Áður en þið setjið hráefnin í matvinnsluvélina er ágætt að skera parmesanostinn í þunnar sneiðar, og afhýða og grófsaxa hvítlaukinn. Látið matvinnsluvélina vinna á meðan þið hellið ólífuolíunni rólega ofan í skálina þar til pestóið þykknar. (Það veltur á gæðum vélarinnar en kannski þurfið þið að skafa hliðar skálarinnar einu sinni eða tvisvar.)

Berið pestóið fram með nýbökuðu snittu/brauði og eða pasta, laxi eða öðrum fiski, kjöti eða grænmeti.

Hugmynd mín að einföldum hádegisverði: Ég sýð tagliatelle- eða linguine-pasta á meðan ég útbý pestóið (ég stilli klukkuna á al dente-suðutíma fyrir pastað). Ég læt vatnið renna af soðnu pastanu á meðan ég steiki sveppi í léttri ólífuolíu á pönnu og strái smá salti yfir. Pastað læt ég í skál með sveppum ofan á og ber fram með pestóinu.


Recipe in English.
mánudagur, 13. apríl 2015

Indverskt te (chai latte) og textílhönnun

Uppskrift: Indverskt te (chai latte) · Lísa Hjalt


Í morgun fann ég fyrir slappleika og það var bara eitt sem líkaminn kallaði á: indverskt te eða chai latte. Ég smellti mynd af skálinni minni en ég naut tesins með bunka af The World of Interiors mér við hlið. Í nýjasta tölublaðinu, maí 2015, er umfjöllun um fallegt sveitabýli í Wales sem er í eigu garðhönnuðarins Arne Maynard. Ég hef þegar deilt myndum af landareigninni á blogginu og ég veit ekki hversu oft ég hef pinnað myndum af sama býli. Ef þið eigið þess kost þá skuluð þið endilega næla ykkur í eintak!

Fyrir þá sem hafa áhuga á textílhönnun: Á myndinni hér að ofan hvílir skálin mín á síðu í októberhefti ársins 2014 með umfjöllun um vatnslitamáluð mynstur eftir textílhönnuðinn William Kilburn (1745–1818). Þessi verk hans eru fáanleg í bók sem kallast Mr. Kilburn's Calicos: William Kilburn's Fabric Printing Patterns from the Year 1800 eftir Gabriel Sempill og Simon Lawrence. Bókin er dýr en örugglega hverrar krónu virði.

The World of Interiors, október 2014, bls. 112-113

Uppkriftinni að indverska teinu hafði ég þegar deilt á gamla matarblogginu en það er ætlun mín að smám saman endurbirta þær uppskriftir hér til halda öllu á einum stað. Ég hef gert þetta te í mörg ár og þessi hlutföll af kryddum eru alls ekki heilög heldur ætlað að vera leiðbeinandi; þið getið aukið hlutföll krydds eða sleppt því ef þið viljið. Passið bara að nota ekki of mikinn sykur því það eru miklu skemmtilegra að leyfa kryddbragðinu að njóta sín.

INDVERSKT TE (CHAI LATTE)

500 ml vatn
500 ml mjólk
4 pokar lífrænt svart te
2-2½ matskeið lífrænn hrásykur
1-3 kanilstangir eða 1 teskeið kanill
½ teskeið negulnaglar
¼ teskeið anísfræ eða 1 anísstjarna
nokkur svört piparkorn eða nýmalaður svartur pipar
örlítið engifer
örlítið múskat
örlítil kardamoma (má líka notar heilar kardamomur)

Setjið öll hráefnin í pott og sjóðið á meðal-hæsta hita. Fjarlægið pottinn af hellunni um leið og suðan kemur upp.

Berið teið fram í bollum eða skálum og njótið.

Önnur aðferð: Ef þið hafið tíma þá má byrja á því að sjóða vatnið með kryddunum eingöngu til að fá sterkara kryddbragð (ein kanilstöng ætti að vera nóg) og bæta svo hinum hráefnunum út í síðar. Það má líka flóa mjólkina sér og gera froðu til þess að láta þetta líta út eins og alvöru latte.

Recipe in English
fimmtudagur, 9. apríl 2015

Letter from New York

Bókin Letter from New York eftir Helene Hanff · Lísa Hjalt


Nei, ég skrifa þetta ekki frá New York (væri samt ekkert á móti því) heldur var bara að klára að lesa þessa dásamlegu bók eftir Helene Hanff, Letter from New York, sem var gefin út árið 1992. Ég hef þegar sagt að ég pantaði notað eintak og mitt reyndist vera fyrsta útgáfa; eintak frá bókasafni með plastaðri kápu sem brakar í þegar síðu er flett - elska tilfinninguna!

Ég bloggaði nýverið um aðra bók eftir Hanff, 84 Charing Cross Road (sjá hér), og sagði ykkur að ég hefði fallið fyrir hnyttnum stíl hennar. Hún er alveg jafn fyndin í Letter from New York en bókin geymir sögur sem hún skrifaði í 6 ár fyrir Woman's Hour í útvarpi BBC eftir að 84 Charing Cross Road sló í gegn. Sögurnar eru um líf hennar í New York, um nágrannana (fólk og hunda - hún bjó við 305 East 72nd Street), vini, göngur um Central Park o.fl.Líf Hanff er ekki fyllt glamúr en hún skrifar af ástríðu um daglegt líf í nágrenni sínu og um lífið á götum borgarinnar. Hún hefur næmt auga fyrir umhverfi sínu og fær mig oft til að hlæja upphátt. Hafi lesandinn ekki þegar ferðast til New York þá er líklegt að hann langi þangað eftir lesturinn, þrátt fyrir að Hanff sé að lýsa New York á síðari hluta áttunda áratugarins og á fyrrihluta þess níunda. Það sem mér finnst einstaklega skemmtilegt við Hanff er hversu auðvelt hún á með að gera grín að sjálfri sér. Ég vildi óska þess að hún væri enn á lífi því við þurfum á fólki eins og Hanff að halda í þessum heimi.

Ég þarf sennilega ekki að taka það fram en ég hef þegar pantað mína þriðju bók eftir Hanff og á von á notuðu eintaki af Q's Legacy í póstinum fljótlega
þriðjudagur, 7. apríl 2015

Vorblómin 2015

Magnólíur · Lísa Hjalt


Ég er bókstaflega ástfangin upp fyrir haus af þessu vori! Með hverju árinu sem líður verð ég meiri og meiri vormanneskja. Á Íslandi var haustið árstíðin mín en hérna megin við Atlantshafið á vorið hug minn og sál. Það eru aðallega blóm kirsuberja- og magnólíutrjánna sem hafa þessi áhrif. Ég tók myndavélina með í gær þegar við skelltum okkur í Walkers Nurseries gróðurstöðina sem er hérna rétt hjá. Það þarf annars ekki að fara þangað til að njóta þessara blóma; þessi tré eru hérna út um allt í allri sinni dýrð. Stundum vildi ég að það væri hægt að fá vor-lím þannig að hægt væri að njóta þessarar árstíðar aðeins lengur. En góðu fréttirnar eru þær að á eftir þessari árstíð kemur árstíð bóndarósanna!
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt


sunnudagur, 5. apríl 2015

Bréf Mitford-systra | Gleðilega páska

Gleðilega páska | The Mitfords · Lísa Hjalt


Ég vona að þessi páskasunnudagur leiki við ykkur. Ég var að vonast til að fá sól í fríinu en þar sem skýin voru í aðalhlutverki þá skellti ég mér á bókasafnið í gær til að ná mér í lesefni. Ég var nýbúin að lesa bókina The Mitfords: Letters Between Six Sisters, í ritstjórn Charlotte Mosley (tengdadóttir einnar Mitford-systranna, Diana Mosley), og mig langaði að lesa meira um þessar áhugaverðu systur. Því miður reyndist bókasafnið lokað og ég varð bara að sætta mig við tímarit og súkkulaði!Í raun stóð það aldrei til að lesa fyrrnefnda bók. Ég fór á bókasafnið fyrir einhverjum vikum síðan til að fá að láni The Letters of Nancy Mitford and Evelyn Waugh (Nancy var elsta Mitford-systirin og varð þekktur rithöfundur), en því miður var bókin ekki fáanleg. Ég var að skoða í hillunum þegar bókasafnsvörðurinn kom til mín með bókina með bréfum þeirra systra og sagðist hafa fundið hana inni í geymslu; kannski að ég hefði áhuga á henni? Kápan heillaði mig strax en þar sem bókin var upp á 830 blaðsíður þá hélt ég að ég myndi kannski bara rétt blaða í henni. Það fór auðvitað svo að ég las hana frá upphafi til enda og gat stundum ekki lagt hana frá mér.

Ég ætla ekki þreyta ykkur með löngum sögum af Mitford-systrum en það má segja að þær hafi verið áberandi í bresku samfélagi á 20. öldinni. „Dýnamíkin“ í sambandi þeirra var sérstök, eins og kemur fram í bréfunum, og nokkrar þeirra lifðu nokkuð skrautlegu lífi. Ég vissi afskaplega lítið um þær þegar ég byrjaði að lesa bókina en þið hefðuð átt að sjá mig þegar ég kom að þeim punkti í bókinni þar sem ein systirin, Unity, sat á veitingastað með sjálfum Adolf Hitler í München. Ég átti ekki von á lýsingum á persónutöfrum Hitlers en þær er svo sannarlega að finna þarna. Þessi tiltekna systir var gjörsamlega heilluð af manninum og hún reyndi að taka líf sitt þegar stríðið braust út árið 1939, en það er önnur (sorgleg) saga. Það er óhætt að segja að þessi bók fari með mann á undarlegar slóðir. Ef þið flettið upp á Mitford-systrum á netinu þá er af nógu að taka en ég fann stuttar greinar með ljósmyndum á vefsíðum BBC og The Guardian.

Gleðilega páska!


Ummerki eftir persneskan kött