sunnudagur, 5. apríl 2015

Bréf Mitford-systra | Gleðilega páska

Gleðilega páska | The Mitfords · Lísa Hjalt


Ég vona að þessi páskasunnudagur leiki við ykkur. Ég var að vonast til að fá sól í fríinu en þar sem skýin voru í aðalhlutverki þá skellti ég mér á bókasafnið í gær til að ná mér í lesefni. Ég var nýbúin að lesa bókina The Mitfords: Letters Between Six Sisters, í ritstjórn Charlotte Mosley (tengdadóttir einnar Mitford-systranna, Diana Mosley), og mig langaði að lesa meira um þessar áhugaverðu systur. Því miður reyndist bókasafnið lokað og ég varð bara að sætta mig við tímarit og súkkulaði!Í raun stóð það aldrei til að lesa fyrrnefnda bók. Ég fór á bókasafnið fyrir einhverjum vikum síðan til að fá að láni The Letters of Nancy Mitford and Evelyn Waugh (Nancy var elsta Mitford-systirin og varð þekktur rithöfundur), en því miður var bókin ekki fáanleg. Ég var að skoða í hillunum þegar bókasafnsvörðurinn kom til mín með bókina með bréfum þeirra systra og sagðist hafa fundið hana inni í geymslu; kannski að ég hefði áhuga á henni? Kápan heillaði mig strax en þar sem bókin var upp á 830 blaðsíður þá hélt ég að ég myndi kannski bara rétt blaða í henni. Það fór auðvitað svo að ég las hana frá upphafi til enda og gat stundum ekki lagt hana frá mér.

Ég ætla ekki þreyta ykkur með löngum sögum af Mitford-systrum en það má segja að þær hafi verið áberandi í bresku samfélagi á 20. öldinni. „Dýnamíkin“ í sambandi þeirra var sérstök, eins og kemur fram í bréfunum, og nokkrar þeirra lifðu nokkuð skrautlegu lífi. Ég vissi afskaplega lítið um þær þegar ég byrjaði að lesa bókina en þið hefðuð átt að sjá mig þegar ég kom að þeim punkti í bókinni þar sem ein systirin, Unity, sat á veitingastað með sjálfum Adolf Hitler í München. Ég átti ekki von á lýsingum á persónutöfrum Hitlers en þær er svo sannarlega að finna þarna. Þessi tiltekna systir var gjörsamlega heilluð af manninum og hún reyndi að taka líf sitt þegar stríðið braust út árið 1939, en það er önnur (sorgleg) saga. Það er óhætt að segja að þessi bók fari með mann á undarlegar slóðir. Ef þið flettið upp á Mitford-systrum á netinu þá er af nógu að taka en ég fann stuttar greinar með ljósmyndum á vefsíðum BBC og The Guardian.

Gleðilega páska!


Ummerki eftir persneskan köttEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.