föstudagur, 26. mars 2021

Leikskáldið Thomas Bernhard og hvíta Austurríki

Kápan af „Heldenplatz“ eftir leikskáldið Thomas Bernhard · Lísa Hjalt


Þið sem fylgist með bókauppfærslum mínum á Instagram vitið að í flestum tilfellum skrifa ég ekki langan texta, auk þess sem ég hvorki afrita hann né deili á bloggunum. Stundum nota ég sömu myndir og búið. En í gær skrifaði ég smá hugleiðingar um upplifun mína af Austurríki sem mig langar að halda til haga hér. Um leið fáið þið að kíkja á næsta bókalista en á honum verður leikritið Heldenplatz eftir austurríska rithöfundinn Thomas Bernhard, sem ég mun líklega fjalla um í Lestrarkompufærslu síðar meir. (Ég nefni heimsfaraldurinn og til útskýringar vil ég benda á að reglurnar hér hafa verið strangari en á Íslandi. Í langan tíma ríkti hér útgöngubann og varla nokkuð opið nema matvörubúðir og apótek.) Þar sem ég nota ensku á Instagram þá snaraði ég þessu yfir á íslensku og bætti einnig við nokkrum hornklofum og tenglum:

Thomas Bernhard (1931-1989) er austurrískt leikskáld og rithöfundur sem ég hef enn ekki lesið. Ég keypti leikrit hans Heldenplatz (1988), eintak frá Suhrkamp, fyrir næsta bókalista en það skrifaði hann þegar fimmtíu ár voru liðin frá því að Austurríki var innlimað í Þýskaland Hitlers [á þýsku kallað Anschluss og átti sér stað 12. mars 1938]. Meginþema verksins er gyðingahatur.

Ég hef valið að setjast að í Austurríki og er þeirrar skoðunar að bókmenntir séu ein besta leiðin til að læra um sögu og menningu þjóðar. Þá á ég við það sem ekki finnst í sögubókum. Sá tími sem ég hef búið í Austurríki hefur einkennst af heimsfaraldri sem takmarkað hefur þann möguleika að vera á ferðinni og innan um fólk.

Þeir Austurríkismenn sem ég hef hitt eru mjög vinalegir [íslenskan á bara þetta karllæga orð yfir þjóðina, þetta á að sjálfsögðu við konur líka]. En það sem hefur ekki farið fram hjá mér er að í tímaritum birtist Hvít þjóð [með stórum staf til áherslu]. Hvort það er með ráðum gert get ég ekki sagt til um. Ég er hvít á hörund og hef enga reynslu af kynþáttafordómum, en hef setið á biðstofum og flett austurrískum tímaritum sem sýna hina fullkomnu mynd af ríkri þjóð, fallegu landslagi og hvítu fólki. Mikið af hvítu fólki. Ég hef leitað og talið: Í einu tímariti fann ég hópmynd með einni asískri konu og litla mynd af svörtum manni í öðru. Ég velti því fyrir mér hvort fólk af austurrískum uppruna taki yfir höfuð eftir þessu.

Hvað um það, leikrit Bernhards, sem margir Austurríkismenn áttu erfitt með að kyngja, er ein leið fyrir mig að æfa þýskuna í heimsfaraldrinum. (Bloomsbury gaf það út í enskri þýðingu eftir Meredith Oakes.)

Til að bæta við hugrenningar gærdagsins þá geri ég mér grein fyrir því að Austurríkismenn eru í meirihluta, um 80%, en ég hefði haldið að vitundarvakning hefði átt sér stað í ljósi sögunnar og með aukningu innflytjenda. Nú hef ég búið í nokkrum Evrópulöndum og kannski fór þessi hvíta ímynd fram hjá mér í tímaritum þar. Ég held samt ekki. Ég man ekki til þess að svona hvítur veruleiki hafi blasað við mér. Ég fann annars áhugaverða grein á vefsíðu The Irish Times frá árinu 2018 sem kallast Vienna is ranked world’s ‘most liveable city’, but for whom? (með undirfyrirsögninni: For some of my immigrant friends here, the welcome has been far from warm). Ástandið í Vínarborg er í brennidepli og greinarhöfundur dregur upp allt aðra mynd en hvíta, af fjölþjóðasamfélagi sem tímaritin sem ég hef flett virðast ekki reyna að höfða til.

Vorið er annars komið með sól og sautján gráðum þannig að ekki skal kvarta yfir austurrísku veðurfari.

mynd mín, birtist á Instagram 25/03/21



mánudagur, 15. mars 2021

№ 26 bókalisti: Beauvoir, Handke og Lowell

№ 26 bókalisti: Í bunkanum eru verk eftir m.a. Beauvoir, Handke og Lowell · Lísa Hjalt


Byrjum á játningu bókaunnandans: Ég á það til að ganga í gegnum tímabil þar sem ég les of margar bækur í einu, sem líklega má flokka sem eins konar fíkn. Kannski eru svona tímabil bland af eirðarleysi og flótta. Kófið hefur náttúrlega verið hin fullkomna afsökun enda allt meira og minna lokað hér frá síðasta hausti. En nú er vorið að koma í Austurríki - vonandi bóluefnið líka - og tími til kominn að hreinsa til, að fækka bókabunkunum sem voru orðnir full háir. Það gengur vel. Ég hef þegar lesið flestar bækurnar á þessum nýja bókalista, sem til stóð að deila í febrúar. Í bunkanum er aðeins ein bók sem ég hef verið að spara: þriðja bindið af sjálfsævisögu Simone de Beauvoir. Ég setti það sem skilyrði að klára vissar bækur áður en ég mælti mér mót við hana aftur, í þetta sinn í Frakklandi eftirstríðsáranna. Bókin spannar tímabilið 1945 til 1963 og í henni má m.a. fylgjast með Beauvoir skrifa feminíska ritið Le Deuxième Sexe (Hitt kynið) og skáldsöguna Les Mandarins.

№ 26 bókalisti:

1  Suppose a Sentence  · Brian Dillon
2  Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-reader  · Vivian Gornick
3  Force of Circumstance  · Simone de Beauvoir
4  Wunschloses Unglück  · Peter Handke [þýsk]
5  Mutter Courage und ihre Kinder  · Bertolt Brecht [þýsk]
6  The Rings of Saturn  · W.G. Sebald
7  Three Rings: A Tale of Exile, Narrative, and Fate  · Daniel Mendelsohn
8  Life Studies  · Robert Lowell
9  Letters Summer 1926  · Boris Pasternak, Marina Tsvetayeva and Rainer
Maria Rilke

Ensk þýðing: 3) Force of Circumstance: Richard Howard

Á listanum er meistaraverkið Mutter Courage und ihre Kinder eftir þýska leikskáldið Bertolt Brecht, sem ég lofaði að setja á lista. Stundum á ég það til að gleyma mér á timarit.is, sem ég álít nauðsynlegan vettvang fyrir grúskara og bókaunnendur í útlöndum sem hafa ekki aðgang að íslenskum bókasöfnum. Þar fann ég m.a. gamla gagnrýni um Mutter Courage og börnin hennar sem birtist í Morgunblaðinu. Þessari jólasýningu Þjóðleikhússins árið 1965 gaf Sigurður A. Magnússon gagnrýnandi eins konar falleinkunn sem skrifa má á leikstjórann.

Það er óhugsandi að hafa austurríska rithöfundinn Peter Handke á lista án þess að segja um hann nokkur orð. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2019 sem þótti umdeild ákvörðun. Ferill hans hefst á sjöunda áratugnum en Handke verður skyndilega umdeildur á þeim tíunda þegar skrif hans um átökin í fyrrum Júgóslavíu fóru að birtast. Óhikandi deildi hann á umfjöllun fjölmiðla um stríðið á Balkanskaganum, á tungumálið sem þeir beittu. Útslagið gerði grein sem birtist í dagblaðinu Süddeutsche Zeitung árið 1996, ferðasaga Handke um Serbíu með „ögrandi fyrirsögn“ sem ritstjórn blaðsins samdi (sjá grein Jón Bjarna Atlasonar í Lesbókinni).

Það hjálpaði ekki málstað Handke þegar hann heimsótti forsetann Slobodan Milosevic í fangelsi þegar alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í Den Haag réttaði yfir honum, hvað þá þegar hann var viðstaddur útför hans í Serbíu árið 2006 og hélt þar tölu. En margir halda því fram að það sé ekkert í skrifum Handke sem réttlæti aðförina að rithöfundinum og því má álykta að jafnvel þeir sem hafa verið hvað háværastir hafi í raun ekki lesið verkin hans.

Nóbelsverðlaunahafinn, austurríkski rithöfundurinn Peter Handke · ljósmyndari: A. Mahmoud
Ljóðskáldið Robert Lowell

Austurríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Peter Handke (t.v.)
og bandaríska ljóðskáldið Robert Lowell (t.h.)

Bók Handke á listanum, Wunschloses Unglück, kom út árið 1972, en hana skrifaði hann stuttu eftir að móðir hans framdi sjálfsmorð. Þetta vel skrifaða verk kom út í íslenskri þýðingu, Óskabarn ógæfunnar, eftir Árni Óskarsson. Frá sama þýðanda er önnur bók eftir Handke væntanleg, sem hann í viðtali (sjá neðar) kallaði Hið stutta bréf og hin langa kveðja (Der kurze Brief zum langen Abschied). Hún mun rata á bókalista fljótlega þar sem ég hef þegar nælt mér í eintak á þýsku. Önnur bók fáanleg á íslensku er Ótti markmannsins við vítaspyrnu sem er gömul þýðing eftir Franz Gíslason.

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að kynna sér skrif Handke get ég eindregið mælt með þessum þremur umfjöllunum á RÚV:
1) Saga um aðferð við að skrifa ævisögu þar sem rætt er við Árna Óskarsson, þýðanda Óskabarns ógæfunnar
2) Deilur um Handke - gömul saga og ný þar sem rætt er við Kristján B. Jónasson, bókmenntafræðing og útgefanda
3) Skáldið og hinn svokallaði heimur þar sem fyrrnefndur Kristján fjallar ítarlega um skrif Handke

Þess er svo vert að geta að í samstarfi við þýska leikstjórann Wim Wenders skrifaði Handke handritið að kvikmyndinni Himinninn yfir Berlín (Der Himmel über Berlin) frá árinu 1987, m.a. ljóðið Lied vom Kindsein sem Bruno Ganz fer með í upphafi hennar.

Ljóð rata ekki oft á bókalistana mína en í jólapakka frá íslenskri vinkonu leyndist Faber & Faber útgáfa af ljóðasafninu Life Studies eftir Robert Lowell. Safnið kom fyrst út árið 1959 og geymir játningakennd ljóð, eins og Skunk Hour (tileinkað ljóðskáldinu Elizabeth Bishop) og Waking in the Blue, og æviminningaprósann 91 Revere Street. Þetta verðlaunaða tímamótaverk mun ég lesa aftur og aftur.

efsta mynd mín | rithöfundar: 01: Peter Handke · A. Mahmoud af vefsíðu The Nobel Prize | 02: Robert Lowell af Put This On



föstudagur, 5. mars 2021

Fierce Poise: Helen Frankenthaler and 1950s New York · Alexander Nemerov

Kápa ævisögunnar Fierce Poise: Helen Frankenthaler and 1950s New York eftir Alexander Nemerov (Penguin)


Síðar í mars sendir Penguin frá sér bókina Fierce Poise: Helen Frankenthaler and 1950s New York eftir listfræðinginn Alexander Nemerov. Þetta er ævisaga í styttri kantinum um afmarkað tímabil í lífi listakonunnar. Áhugafólk um abstrakt expressjónisma gæti kannast við kápumyndina, sem tekin var fyrir tímaritið Life og sýnir Frankenthaler sitjandi á máluðum striga í vinnustofu sinni á West End Avenue í New York. Frankenthaler, sem á 6. áratugnum skapaði sér nafn í amerískum listheimi eftirstríðsáranna, var ein merkasta listakona Bandaríkjanna á 20. öld og hafði mikil áhrif á samtímalist.

Það vill svo til að ég er enn að lesa Ninth Street Women (sjá № 25 bókalista) sem fjallar um feril Frankenthaler og stallsystra hennar Lee Krasner, Elaine de Kooning, Grace Hartigan og Joan Mitchell. Höfundur þeirrar bókar, Mary Gabriel, lætur hafa eftir sér jákvæð orð um þessa nýju bók Nemerovs og segir að ljóðrænar lýsingar hans megi lesa „eins og málverk eftir Helen“.

Kápumynd: Gordon Parks, 1957

Fierce Poise: Helen Frankenthaler and 1950s New York
Höf. Alexander Nemerov
Innbundin, 288 blaðsíður
ISBN: 9780525560203
Penguin Press