föstudagur, 19. júní 2020

№ 23 bókalisti: Dolphin-bréfin

Bókastafli: № 23 bókalistinn · Lísa Hjalt


Ég man ekki hvenær ég fyrst heyrði minnst á Elizabeth Hardwick – hlýtur að hafa verið í tengslum við ritgerðasafn hennar Seduction and Betrayal (1974) – en það var ekki fyrr en 2018 sem ég fyrst las verk eftir hana. Á síðasta ári var ég spennt fyrir útgáfu The Dolphin Letters, 1970-1979, safn bréfaskrifa á milli Hardwick og hennar fyrrverandi, ljóðskáldsins Robert Lowell (d. 1977), og vina þeirra. Til að gefa ykkur smá bakgrunn: Titillinn er vísun í ljóðasafn eftir Lowell sem færðu honum Pulitzer-verðlaunin árið 1974 í annað sinn. Það sem gerði safnið umdeilt var að Lowell notaði ekki einungis bréf Hardwick, skrifuð til hans í tilfinningalegu uppnámi, heldur breytti orðalaginu þannig að það félli að ljóðafrásögninni. Ég hélt að það tæki mig nokkrar vikur að lesa 500 blaðsíður af bréfaskrifum en gat ekki lagt bókina frá mér og kláraði hana á nokkrum dögum. Að lestri loknum var það eina í stöðunni að fara aftur á síðu 1 og byrja upp á nýtt. Í þetta sinn les ég eitt eða tvö bréf fyrir svefninn.

№ 23 bókalisti:

1  Sleepless Nights · Elizabeth Hardwick
2  The Dolphin Letters, 1970-1979: Elizabeth Hardwick, Robert Lowell,
Robert Lowell, and Their Circle · ritstj. Saskia Hamilton
3  How to Write an Autobiographical Novel · Alexander Chee
4  A Tale of Love and Darkness · Amos Oz
5  Mislæg gatnamót · Þórdís Gísladóttir
6  To Kill a Mockingbird · Harper Lee [endurlestur]
7  Museums as Cultures of Copies · ritstj. Brita Brenna, Hans Dam
Christensen og Olav Hamran

Ensk þýðing: 4) A Tale of Love and Darkness: Nicholas de Lange

Ég vil þakka bókaútgáfunni Routledge fyrir safnafræðibókina á listanum, sem inniheldur 17 kafla eftir sérfræðinga í fremstu röð á því sviði. Hún mun gera mér kleift að huga að námi mínu í sumar án verkefnaskila.

Aftur að The Dolphin Letters, 1970-1979: Ef þið þekkið forsöguna nú þegar og eruð forvitin að vita meira þá vil ég benda á upptöku af samræðum rithöfundarins og gagnrýnandans Hilton Als og Saskiu Hamilton, sem ritstýrði safninu og bætti við gagnlegum neðanmálsgreinum. Það sem gerði þennan atburð eftirminnilegri er upplestur leikkonunnar Kathleen Chalfant á þremur bréfum eftir Hardwick. Ég hef merkt við marga hluta í bókinni, einn þar sem Hardwick lýsir ákveðinni stemningu í bréfi til Lowell þann 13. janúar, 1976, þegar samband þeirra var aftur á vinalegum nótum:
... and strangely enough I do feel like writing just now and have fallen into a mood of reading books, thinking, idling about–all that puts one into the frame that makes writing possible and the life of literature beautiful and thrilling.
Á bókalistanum er líka Sleepless Nights (1979) eftir Hardwick, stutt skáldsaga, að hluta til sjálfsævisöguleg, sem ég hef einnig klárað. Ég held að ég hafi grætt á því að lesa hana eftir að hafa lesið persónuleg bréf hennar en í þeim fær lesandinn innsýn í það ritferli.

Vegna búsetu erlendis gerist það ekki oft að nýjar íslenskar bækur rati á bókalistana. En í vor barst pakki frá kærri vinkonu og í honum leyndist nýjasta ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, Mislæg gatnamót. Bókin er gullmoli.
Bókastafli og kafli: № 23 bókalistinn · Lísa Hjalt




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.