fimmtudagur, 27. september 2012

augnablikið


Ég var á leið heim eftir ferð á bókasafnið um daginn og smellti af þessari mynd þegar ég gekk yfir Adólfsbrúna. Það er rétt aðeins farið að glitta í haustlitina en veðrið er enn þá milt, aðallega skýjað og smá rigning inn á milli.

mynd:
Lísa Hjalt

þriðjudagur, 25. september 2012

rýmið 08


- South Kent, Connecticut
- í eigu Robert Couturier
- úr bók Thomas Jayne The Finest Rooms in America

mynd:
Nathan Kirkman af síðu Elle Decor

mánudagur, 24. september 2012

haustið heilsar



Þessar myndir tók ég í fyrra í litlum hollenskum bæ á mörkum Hollands og Belgíu, vestan megin við ána Schelde. Þið sem hafið fylgst með ensku útgáfu bloggsins kannist kannski við þær því ég þær eru hluti af færslu sem ég birti í fyrra. Mig langaði til þess að fagna komu haustsins í dag og hvað er meira við hæfi en litrík haustuppskera, einkum grasker. Mér finnst alltaf svo vænt um þessar myndir og þær minna mig á hvað koma haustsins hér á meginlandi Evrópu er ólík komu þess á Íslandi.


myndir:
Lísa Hjalt

miðvikudagur, 19. september 2012

austurlandahraðlestin


Fyrr í dag var ég að pinna þegar ég rakst á efstu myndina sem er tekin um borð í einhverri
„Austurlandahraðlestinni.“ Flökkukindin innra með mér veðraðist öll upp og ég sá mig svo fyrir
mér rölta eftir brautarpallinum með glæsilegar Louis Vuitton töskur á leið í einhverja dásamlega
ferð - með fulla vasa af gulli, hvað annað! Það vill svo til að fyrr á þessu ári las ég aftur
Austurlandahraðlestina eftir Agatha Christie þannig að ég var auðvitað byrjuð að sjá fyrir mér
allar sögupersónurnar um borð og hinn belgíska Hercule Poirot rannsaka morð til þess að gera
þessa ferð enn þá meira spennandi.

Þessi saklausa mynd var sem sagt það eina sem þurfti til þess að koma dagdraumunum yfir
á næsta stig!

myndir:
af vefsíðu Orient-Express Hotels Ltd.

þriðjudagur, 18. september 2012

rýmið 07


Það er eitthvað svo dásamlega rómantískt við þetta rými, mig langar að koma mér þægilega fyrir á þessum legubekk og lesa.

mynd:
Sharyn Cairns fyrir Homelife / stílisering Glen Proebstel / af blogginu My Design File

miðvikudagur, 12. september 2012

tískuvikan í new york með augum the sartorialist


Tískuvikan í New York með vor- og sumarlínum 2013 er búin að vera í fullum gangi en henni lýkur á morgun. Myndirnar hér að ofan eru nokkrar af mínum uppáhalds sem Scott Schuman/The Sartorialist hefur tekið af því sem er að gerast á pöllunum. Það eru ekki endilega fötin á myndnum sem heilla mig heldur meira hans listræna auga. Hann er einn vinsælasti tískubloggarinn í dag og hefur verið það lengi, brautryðjandi í þeirri list að mynda fólk og stíl þess á götum úti. Hann tekur myndir af öllum sem á einhvern hátt fanga athygli hans, hvort sem þeir eru frægir eða algjörlega óþekktir, með fallegan stíl eða jafnvel mjög furðulegan. Hann setur sig ekki í dómarasæti heldur einfaldlega fangar augnablikið og leyfir lesendum sínum að njóta.

Eftir hann liggja tvær bækur með götustílsmyndum. Sú fyrsta heitir því einfalda nafni The Sartorialist og sú seinni var að koma út og heitir The Sartorialist: Closer.

myndir:
Scott Schuman/The Sartorialist á sýngingu 1 Alexander Wang / 2 Derek Lam / 3 Marc by Marc Jacobs / 4 Marc Jacobs / 5 Boy. by Band of Outsiders

þriðjudagur, 11. september 2012

innlit: heimili í mill valley norður af san francisco


Ég kolféll fyrir þessu bjarta og fallega heimili þegar ég sá það fyrst. Það er í Mill Valley, rétt norðan við San Francisco og er í eigu Allison Bloom, sem er innanhússhönnuður og rekur Dehn Bloom Design (það er eitthvað ólag á heimasíðunni þannig að ég tengi á síðu þeirra á Facebook í staðinn). Ég er búin að geyma þessar myndir í dágóðan tíma í möppunni minni og var hreinlega búin að steingleyma þeim þar til ég sá nokkrar þeirra á bloggi í gær sem kallast Anya Adores. Ég man að ég tók strax eftir listaverkunum á stofuveggjunum en þau eru eftir listakonuna April Dawn Parker. Mér finnst þau passa svo vel við smekklegt innbúið. Staðsetning á skrifborðinu finnst mér algjör draumur - öll þessi birta!


Þið getið lesið meira um hönnuna á húsinu og séð fleiri myndir með því að smella á fyrsta tengilinn hér að neðan. Ef þið opnið hann takið þá eftir tilvísununum á veggjunum í baðherbergi barnanna.

myndir:
John Merkl fyrir California Home + Design og Dehn Bloom Design af blogginu Design Flutter

fimmtudagur, 6. september 2012

sumar: kökuboð og kjólar


Almanakið segir að það sé enn sumar og þó að hitinn hafi farið niður á við þá fer að verða síðasti sjens að nota stuttu eða hnésíðu sumarkjólana. Hvernig væri nú að draga fram kristalinn eða fínu glösin, kaupa falleg blóm, helst hvít eða bleik eða bæði, hóa svo í bestu vinkonurnar og segja þeim að mæta á svæðið með eina heimabakaða köku og í kjól? Ef þið viljið hafa makana með þá mæta karlmenn í stuttbuxum og í stuttermaskyrtu með bindi eða slaufu.

Er ekki málið að nota tækifærið áður en það kólnar enn frekar og skellur á með skammdegi? Þetta þarf ekki að vera neitt flókið, það er óþarfi að mála alla veggi og skipta um eldhúsinnréttingu áður en gestirnir láta sjá sig. Ef þannig stendur á er ég viss um að þið eigið frænku eða frænda á unglingsaldri sem væri til í að koma og hjálpa ykkur að gera heimilið hreint og fínt og fá smá aur fyrir.

Er kakan höfuðverkur? Ég luma á franskri súkkulaðiköku sem klikkar aldrei.

mynd:
Nicky Ryan fyrir Home Beautiful af blogginu Dustjacket attic

mánudagur, 3. september 2012

Tískutal og hönnuðir að störfum

Tískuhönnuður að störfum: Jonathan Saunders · ljósmyndari: Toby Knott · Lestur & Latte



Stundum finnst mér svolítið fyndið hvernig fólk talar um tísku og hvaða hugmyndir það hefur um tísku. Sú hugsun virðist vera algeng að ef þú fylgist með því sem birtist á tískupöllunum þá ertu ofurseldur tísku og að ekkert annað en föt og fylgihlutir komast að hjá þér. Mér finnst þessi umræða oft og tíðum stórfurðuleg og barnaleg; alveg merkilegt hvernig allir eru settir undir sama hatt.

Sumir virðast álíta að ef þú ert ekki eins og módel til fara dags daglega að þá hreinlega megir þú ekki hafa skoðun á tísku, að það sé bara fyrir einhverja útvalda sem líta svona út og hinsegin. Ég fylgist með og ég kaupi tískutímarit svo til í hverjum mánuði en minn áhugi er ekki bara á því sem birtist á pöllunum því tíska er eitthvað sem kemur og fer og ég elti svo sannarlega ekki þá strauma. (Auk þess finnst mér margt af lesefni þessara blaða hreinn og beinn brandari, grunnhyggið og arfavitlaust. Mér gæti auk þess ekki staðið meira á sama hvaða módel sýnir þessa línu eða hina, hvort hún er mjó eða of mjó, ég er að horfa á hönnunina.) En persónulegur stíll er allt annað og það má nota það sem birtist á pöllunum og í blöðunum til þess að móta og þróa sinn eigin stíl, átta sig á því hvað manni líkar og hvað alls ekki. Persónulegur stíll getur tekið breytingum eins og allt annað og breytist líka smám saman með aldrinum. Þið eigið örugglega flík í fataskápnum sem þið getið horft á og velt því fyrir ykkur út af hverju í ósköpunum keypti ég þetta? Þetta er ein ástæða þess að ég fylgist með því ég vil helst koma í veg fyrir að svona flíkur endi í skápnum hjá mér. Ég kaupi mér sjaldan föt og í seinni tíð hef ég mun skýrari mynd af því í kollinum hverju ég er að leita eftir þegar ég fer að versla. Sniðið er aðalatriðið og ég hef hugsað hvernig ég geti notað flíkina með því sem ég á fyrir.
Tískuhönnuður að störfum: Christopher Kane · ljósmyndari: Toby Knott · Lestur &  Latte


Í raun hef ég miklu meiri áhuga á sköpunarhliðinni sjálfri, hvernig haust- eða vorlína verður til, hvert tískuhönnuðurinn sækir innblástur, hvaða liti og efni hann kýs að nota og hvernig hann sýnir línuna. Ég hef jafnvel enn meiri áhuga á þessu þegar kemur að hátísku, haute couture, enda getur slík hönnun verið eins og hvert annað listaverk, lifandi listaverk. Saga gömlu og þekktu tískuhúsanna finnst mér líka heillandi og gaman að sjá hvernig hönnuðir þeirra sækja innblástur í eldri línur forvera þeirra. Stundum tekst það vel og hönnunin hefur yfir sér ferskan blæ en stundum er hún flöt, eins og hver önnur endurtekning sem bætir engu nýju við. Það er líka alltaf gaman að sjá nýja hönnuði koma fram á sjónarsviðið með eitthvað virkilega ferskt og má þar nefna hina grísku Mary Katrantzou sem starfar í London, en hún sló í gegn á tískuvikunni í London snemma á þessu ári.
Tískuhönnuður að störfum: Victoria Beckham · ljósmyndari: Toby Knott · Lestur & Latte


Tíska er nátengd sögu og listasögu því hönnuðir fara mikið aftur í tímann, fá hugmyndir frá ákveðnum tímabilum í sögunni eða leita til framtíðar og staðsetja þessar hugmyndir í nútímanum. Það getur verið hrein unun að lesa eða hlusta á viðtöl við þá því þau eru fræðandi og eru um svo miklu meira heldur en fötin. Hér get ég nefnt belgíska tískuhönnuðinn Dries Van Noten. Hann fangar mig í hvert sinn því hann hefur alltaf eitthvað mikilvægt fram að færa, það er alltaf einhver hugmynd á bak við það sem hann sendir frá sér og hann er svo áhugasamur að það er stundum eins og hann sé hreinlega að springa af innblæstri. Auk þess er tískuhús hans fjárhagslega sjálfstætt og hann þarf því ekki að uppfylla hagnaðarkröfur einhverra fjárfesta. (Það spillir ekki fyrir að hann er með höfuðstöðvar í Antwerpen, í borginni sem var heimili mitt síðustu tvö árin og mér þykir svo vænt um.) Flestir hönnuðir hafa ákveðna sýn á lífið og tilveruna og eru að reyna að koma henni á framfæri í gegnum hönnunina. Stundum er söguleg mynd væntanleg í kvikmyndahús og þá er eins og margir hönnuðir leiti í það tímabil. Vinsælir sjónvarpsþættir geta haft mikil áhrif og þar má til dæmis nefna Downton Abbey og áhrifin sem þátturinn hafði á haust- og vetrarlínu Ralph Lauren. Stundum eru stórir viðburðir í gangi, eins og Ólympíuleikarnir nú í ár, og þá má sjá línur sem hafa íþróttaleg snið. Í því sambandi má nefna vor- og sumarlínu Victoria Beckham sem hún sýndi á tískuvikunni í New York síðasta haust.
Tískuhönnuður að störfum: Erdem Moralioglu · ljósmyndari: Toby Knott · Lestur & Latte
Tískuhönnuður að störfum: Paul Smith · ljósmyndari: Toby Knott · Lestur & Latte


Ég hef áhuga á tísku en að ég rjúki út í búð og kaupi þessi dress og fylgihluti um leið og þetta er fáanlegt er fjarstæða enda hef ég ekki efni á að ganga í fötum frá rándýrum tískumerkjum. Þess má einnig geta að oft má fá meiri gæði hjá minna þekktari merkjum. Við getum nefnt í því sambandi leðurtösku. Taska frá lítt þekktum hönnuði getur til dæmis kostað það sama og taska frá þekktu tískuhúsi þó svo að tískuhúsið noti leður sem er lélegra að gæðum. Þekkt tískumerki er engin trygging fyrir gæðum og neytandinn er jú alltaf að borga x mikið fyrir merkið (og auglýsingar). Sumir eru trúir ákveðnum merkjum, hjá sumum er þetta bara eitthvað saklaust sem kitlar egóið og svo eru jú aðrir sem eru einfaldlega snobbaðir og álíta sig merkilegri bara vegna þess að þeir ganga í fatnaði eftir þekkta hönnuði. Eins og svo margir aðrir almennir neytendur nota ég aðallega búðir eins og Zara sem eru ódýrari og ef maður fylgist vel með þá getur maður séð hvaðan þeir fá hönnunina lánaða. Stundum er það mjög augljóst og er í raun eins og hreinn og beinn stuldur á hönnun. En stundum hefur eitthvað eitt atriði frá tilteknum hönnuði læðst inn í þeirra línu þannig að þessi mun ódýrari flík á sér smá sögu sem maður er meðvitaður um ef maður fylgist með því sem gerist á tískupöllunum.
Tískuhönnuður að störfum: Christopher Bailey · ljósmyndari: Toby Knott · Lestur & Latte


Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá hafa tískuhönnuðir áhrif á líf okkar allra. Við þurfum öll að ganga í fötum og skóm og flest okkar ganga með seðlaveski eða handtösku og einhverja fylgihluti eins og húfur, trefla, úr og skartgripi. Þessir hlutir verða ekki til af sjálfu sér. Þeir sem argast út í tísku ættu kannski að hafa það í huga næst þegar þeir fara að versla. Það kann að vera að þeir kaupi merkjalausa vöru en það er mjög líklegt að sá sem hannaði þá flík eða fylgihlut hafi verið undir áhrifum þekktari tískuhönnuða. Hér er stutt atriði úr myndinni The Devil Wears Prada (2006) sem mér finnst alltaf nokkuð gott. Þó að myndin sé ýkt lýsing á ritstjóra og starfsfólki tískublaðs þá lýsir Meryl Streep því mjög vel í senunni hvernig tískuiðnaðurinn hefur áhrif á okkur öll, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki.
Tískuhönnuður að störfum: Vivienne Westwood · ljósmyndari: Toby Knott · Lestur & Latte


Hugmyndin að þessari færslu varð til þegar ég fyrst sá þessar myndir af nokkrum af þeim bresku hönnuðum sem tóku þátt í tískusýningunni á lokaathöfn Ólympíuleikanna í London í ágúst. Þeir voru myndaðir fyrir septemberútgáfu breska Vogue. Mér finnst svo gaman að fá að kíkja á bak við tjöldin, að sjá hönnuði að störfum, hvort sem það er á myndum eða í myndskeiðum. Það er þessi sköpun sem mér finnst svo heillandi, hvernig allt saman byrjar í kollinum á einhverjum, er teiknað á blað og svo hefst ferli á vinnustofu í samstarfi við annað hæfileikaríkt fólk sem kemur að hönnuninni. Endanleg framleiðsla birtist svo í einhvers konar sýningu eða tískuþætti sem við áhorfendur/neytendur fáum að njóta.
Tískuhönnuður að störfum: Stephen Jones · ljósmyndari: Toby Knott · Lestur & Latte


Eftirtaldir tískuhönnuðir birtast á myndunum í þessari röð: Jonathan Saunders, Christopher Kane, Victoria Beckham, Erdem Moralioglu, Paul Smith, Christopher Bailey, Vivienne Westwood og Stephen Jones.

myndir:
Toby Knott fyrir Vogue UK, september 2012