Sýnir færslur með efnisorðinu textíll. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu textíll. Sýna allar færslur

sunnudagur, 19. apríl 2020

Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection · The Met Museum

Bókarkápa: Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection - The Met Museum


Ég var innblásin af náminu mínu í safnafræði þegar ég valdi bókarkápu Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection (2018) fyrir þessa fyrstu bloggfærslu eftir margra vikna hlé. Á önninni sat ég í kúrsi sem kallast „Safn og samfélag: Sirkus dauðans?“ þar sem við lásum meðal annars um safnastarf í samfélögum Hopi- og Zuni-frumbyggja í Norður-Ameríku. Fyrir utan að lesa námsbækur og fræðigreinar skoðaði ég efni um varðveislu á vefsíðum safna og í þeirri leit fann ég þessa fallegu útgáfu frá Metropolitan Museum of Art. Í safneign Charles og Valerie Diker eru gripir frá meira en fimmtíu menningarheimum N-Ameríku, sem spanna tímabilið frá því áður en hvíti maðurinn nam land til fyrri hluta 20. aldar. Bókin veitir innsýn í list, menningu og daglegt líf í frumbyggjasamfélögum.

Kápumynd, smáatriði: mussa/kyrtill og legghlífar eftir Tlingit-listamann.


Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection
Höf. Gaylord Torrence, Ned Blackhawk og Sylvia Yount
Innbundin, 232 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9781588396624
Metropolitan Museum of Art



Hluti af yfirhöfn karlmanns, ca 1820, Innu (Naskapi), frumbyggjar N-Ameríku/The Met
Hluti af yfirhöfn karlmanns, ca. 1820, Innu (Naskapi), frumbyggjar N-Ameríku/The Met

Í desember þegar ég deildi fyrstu bókarkápufærslunni hélt ég í alvörunni að ég gæti notað þessar færslur til að halda blogginu lifandi á meðan ég væri í námi. En ég hef áttað mig á því að það er ómögulegt þegar lífið einkennist af skiladögum verkefna ofan á lestur fyrir hvern fyrirlestur. Það koma tímabil þar sem tilfinningin er sú að maður komi varla upp til að anda.

Bókarkápa: Museum as Process eftir Raymond A. Silverman · Lísa Stefan

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur þessi önn verið skrýtin. Hún er næstum búin og hér í Austurríki hefur aðeins verið slakað á reglum um samkomubann. Því miður eru öll söfn enn lokuð þannig að ég hef hætt að gera mér vonir um að starfa sem nemi á safni í sumar. En góðu fréttirnar eru þær að enginn náinn mér hefur smitast og ég vona að blogglesendur mínir geti sagt hið sama. Farið vel með ykkur!

Mynd af yfirhöfn karlmanns af vefsíðu The Met



miðvikudagur, 11. apríl 2018

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar · Lísa Stefan


Þegar ég er ekki með andlitið grafið ofan í bók þá má líklega sjá mig dásama mynstraðan textíl með heillandi mótífum (ég óska þess oft að hafa stundað nám í skreytilist). Í vikunni komst ég að því að bráðum bætist ný hönnun í línu Schuyler Samperton Textiles, sem kom á markað í fyrra. Ég bíð spennt. Á blogginu hef ég nú þegar kynnt nokkur af mynstrum hennar og í dag eru það blá og rauð efni sem ég lék mér að því að raða saman, með áherslu á mynstrin Overlea, Cordoba og Nellcote. Einnig langaði mig að sýna ykkur lítið brot úr innliti í Lamb's House í Leith, sem er í eigu íslensks arkitekts og birtist í House & Garden UK árið 2016.

En fyrst er það textíllinn. Bláa og rauða blómamynstrið er Overlea og þessi litur kallast Vermillion. Ég ætla að nota hann til að skreyta einn krók á heimilinu þegar ég er búin að kaupa nokkrar nauðsynjar. Ég held að efnið í þessum sama lit sómdi sér vel sem borðdúkur. Mynstrið í bláum tón kallast Marine, sem sést við hliðina á myndinni af herberginu. Hitt samanbrotna, bláa efnið er Cordoba í Indigo; hönnunin er með paisley-mótífi. Röndótta efnið er Pendleton í litnum Brighton.

Mynstrið Nellcote er hönnun sem ég hef þegar deilt og fæ ekki nóg af. Efnaprufan með spjaldinu sýnir það í bláum tón sem kallast Montego. Efst í hægra horninu sést glitta í það í litnum Apricot, sem er minn uppáhalds í fáanlegum litum þessa mynsturs (bláa efnið undir því er Firefly í litnum Deep End). Í eldri bloggfærslum þar sem textílhönnun Samperton hefur verið til umfjöllunar hef ég alltaf sýnt mynstrið Doshi; það sést undir lattebollanum í bláa tóninum Lake. Vinsamlegast fylgið hlekkjunum á mynstrin til að skoða fáanlega liti á vefsíðu Schuyler Samperton Textiles.

Lamb's House stofa, House & Garden UK · Davide Lovatti
Úr tímaritinu House & Garden UK: stofan í Lamb's House/Davide Lovatti

Svefnherbergið á myndinni minni tilheyrir Lamb's House í Leith (Edinborg), sem var byggt árið 1610 og hefur verið uppgert. Eigendurnir eru arkitektar sem sérhæfa sig í húsfriðun og það vill svo til að eiginkonan er íslensk, Kristín Hannesdóttir. Ég man eftir því að hafa kolfallið fyrir þessu rými, textílnum og viðarbitunum í loftinu, þegar ég sá innlitið í fyrsta sinn í tímaritinu House & Garden UK (desember 2016, ljósmyndari Davide Lovatti). Hér má einnig sjá stofuna og vinnustofu Kristínar, en tunnulaga loftið í henni er unnið úr lerki frá Síberíu. Smellið á hlekkinn ef þið hafið áhuga á því að lesa um endurbæturnar á húsinu og til að sjá fleiri myndir.

Lamb's House vinnustofa, House & Garden UK · Davide Lovatti
Vinnustofa Kristínar Hannesdóttur arkitekts í Lamb's House/Davide Lovatti



þriðjudagur, 12. september 2017

Schuyler Samperton Textiles - ný hönnun

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Stefan


Heimur textílhönnunar auðgaðist á árinu þegar Schuyler Samperton, innanhússhönnuður með aðsetur í Los Angeles, tók af skarið og kynnti sína eigin línu undir nafninu Schuyler Samperton Textiles. Með framleiðslu efnanna rættist langþráður draumur Samperton, sem hefur safnað textíl frá unglingsaldri. Orðið glæsilegt var það fyrsta sem kom upp í hugann þegar ég sá úrvalið í fyrsta sinn, en það samanstendur af átta efnum úr 100% líni, fáanlegum í mörgum litum. Í tvo mánuði hef ég dáðst að smáatriðum í mynstrunum og spurt sjálfa mig að því, Hvar byrja ég eiginlega að deila þessari fegurð?

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote
Nellcote/Petunia frá Schuyler Samperton Textiles

Þið kunnið að hafa tekið eftir efnum frá Schuyler Samperton Textiles á Instagram-síðunni minni í sumar, en fyrir fyrstu bloggfærsluna valdi ég Nellcote/Apricot í aðalhlutverk, bóhemískt mynstur sem fyrir mér virðist á einhvern hátt bregða á leik. (Smáatriðið að ofan sýnir efnið í litnum Petunia.)

Nellcote/Apricot er efni og litur sem mig langar að nota á einn púða eða tvo í nýju stofunni minni, þegar við höfum keypt nýjan sófa - ég er að flytja, fer bráðum að pakka í kassa! Ég hef verið að leika mér með hugmyndir og í hvert sinn er þetta mynstrið sem kallar á mig, auk þess sem litirnir í því passa vel við þann textíl sem ég á nú þegar og þann sem ég hef augastað á.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Doshi
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Caledonia, Celandine · Lísa Stefan

Til vinstri: Efnið Doshi/Persimmon. Til hægri: Nellcote/Apricot í forgrunni;
Caledonia/Mandarin efst; Celandine/Sunset neðst til vinstri

Af efnunum átta er það Doshi sem er með dauflega prentuðu mynstri, einföldu blómamótífi. Það er fáanlegt í fimm litum sem má auðveldlega nota til að draga fram einhvern annan lit og skapa þannig fallega hannað rými. Fyrir þessa færslu valdi ég Doshi í litnum Persimmon en ég er líka skotin í bláu afbrigði, Doshi/Lake. Blómamynstrið sem sést í mynd minni hér að ofan kallast Celandine/Sunset.

Síðar á blogginu langar mig að fjalla um efnið Caledonia í sér færslu. Það er blómamynstrið með fiðrildinu sem einnig sést á myndinni hér að ofan, í litnum Mandarin. Efnið er einnig með fuglamótífi.
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Stefan


Önnur textílhönnun frá Schuyler Samperton sem ég er líka hrifin af og langar á nota á nýja heimilinu er Cordoba, efni með paisley-mótífi, sem sést brotið saman í litnum Spice í mynd minni hér að ofan - sjá einnig nærmynd hér að neðan (það glittir í efnið í bláa litnum Indigo undir keramikvasanum). Ég á enn eftir að velja á milli Cordoba/Spice og Cordoba/Dahlia.

Ég ætla að fjalla nánar um fleiri efni síðar en á heimasíðu Schuyler Samperton Textiles má skoða línuna í heild sinni og þar er einnig að finna lista yfir sýningarsali.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Cordoba
Mynstrið Cordoba/Spice frá Schuyler Samperton Textiles

Schuyler Samperton nam listasögu og skreytilist við Trinity College, NYU og Parsons School of Design, og í fjögur ár vann hún fyrir ameríska innanhússhönnuðinn Michael S. Smith. Verkefni hennar á því sviði eru aðgengileg á netinu.


Textíl- og innanhússhönnuðurinn Schuyler Samperton.
© Schuyler Samperton Textiles/Alexandre Jaras



föstudagur, 9. september 2016

Nýjar kaffiborðsbækur

Nýjar kaffiborðsbækur · Lísa Stefan


Það er nú ekki haustlegt um að litast hér við vesturströnd Skotlands en samt er ég komin í örlítinn haustgír. Ég er byrjuð að kveikja á kertum á morgnana og einstaka sinnum kveiki ég upp í arninum, bara í stutta stund. Bráðum gef ég sumarskyrtunum frí og dreg fram hlýjar peysur og sjöl í dekkri tónum. Ég er líka farin að huga að nýjum kaffiborðsbókum en útgáfa slíkra bóka er ávallt blómleg að hausti. Mig langar að deila með ykkur listanum yfir þær sem ég hef í sjónmáli.


· Nomad Deluxe: Wandering with a Purpose eftir Herbert Ypma. Þessi var að vísu gefin út fyrr á árinu en fangaði athygli mína nýverið. Þær ljósmyndir Ypma sem eru aðgengilegar á vefsíðu Assouline-útgáfunnar eru glæsilegar.
· Neisha Crosland: Life of a Pattern eftir Neisha Crosland. Bók eftir textílhönnuð full af mynstrum ... orð eru óþörf.
· Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli. Þessi bók er áreiðanlega gersemi fyrir þá sem hrífast af gömlum landakortum. Hún var gefin út á frönsku í fyrra en er loksins að koma út í enskri útgáfu. Ef þið þekkið ekki til verka Mattéoli þá getið þið kíkt á bloggið hennar, sem hún skrifar á bæði frönsku og ensku.
· Cecil Beaton at Home: An Interior Life eftir Andrew Ginger. Ég get ekki beðið að fletta í gegnum þessa. Ég held að hún eigi eftir að enda á kaffiborðinu mínu einn daginn.
· François Catroux eftir David Netto. Ég held að bók um hönnun Catroux hafi verið tímabær. Ég deildi einu sinni á ensku útgáfu bloggsins innliti á heimili Lauren Santo Domingo í París sem Catroux hannaði. Eitt af mínum uppáhaldsinnlitum er í íbúð hans í París.
· Urban Jungle: Living and Styling with Plants eftir Igor Josifovic + Judith de Graaff. Igor er kær bloggvinur minn og það er virkilega spennandi að sjá bókina hans loks koma út. Á bloggi sínu Happy Interior Blog deildi hann nokkrum myndum þar sem skyggnast má á bakvið tjöldin þegar vinnan við bókina stóð yfir.
· Wanderlust: Interiors That Bring the World Home eftir Michelle Nussbaumer. Textílhjartað mitt er þegar byrjað að slá hraðar. Sjá meira hér að neðan.
· Ottolenghi: The Cookbook eftir Yotam Ottolenghi + Sami Tamimi. Þetta er ný útgáfa af bókinni sem kom fyrst út árið 2008. Ekki beint kaffiborðsbók en bók þeirra Jerusalem er ein af þeim sem endar reglulega á mínu því hún er meira en bara uppskriftabók.

Það er ekki tilgangur minn að gera upp á milli bókanna á listanum en þegar ég sá textílinn og litapalettuna í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer, á heimili hennar í Sviss, þá varð ég að deila henni hér. (Ég held að þessa mynd sé að finna í bókinni en í henni er m.a. skyggst inn á heimili hennar í Sviss og Texas.) Það er kúnst að raða mismunandi mynstrum saman þannig að útkoman verði smekkleg og það er óhætt að segja að Nussbaumer fari létt með það. Þær myndir sem ég hef séð af hönnun hennar eiga það sameiginlegt að vera ríkar af antíkmunum, mynstruðum textíl og munum frá framandi löndum. Hún rekur gríðarlega vinsæla hönnunarbúð í Dallas, Ceylon et Cie.

Mynstraður textíll í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer

mynd af svefnherbergi · Melanie Acevedo af vefsíðu WSJ



miðvikudagur, 24. ágúst 2016

Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures

Bók: Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures · Lísa Hjalt


Fyrr í sumar fékk ég senda bókina Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures: Selections from the Al Lulwa Collection til umfjöllunar á ensku útgáfu bloggsins. Bókin er virkilega falleg og ég naut lestursins; mæli með henni fyrir alla sem hafa áhuga á framandi textíl og íslamskri menningu. Jennifer Wearden er höfundur texta og Jennifer Scarce skrifar inngang. Það var Altaf S. Al Sabah sem kom safninu upp til minningar um ömmu sína. Á undan formála sínum segir hún í stuttu máli að al lulwa þýði perla, sem var nafn ömmu hennar heitinnar. Forlagið Paul Holberton publishing annaðist útgáfu bókarinnar. Í fréttatilkynningu er komið inn á mikilvægi safnseignarinnar og arfleifðar hennar, en þar segir: „The Al Lulwa Collection has a heritage that reaches back well over a thousand years, and is significant both for its quality and as an illustration of the survival and adaptation of a major industry.“


Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures er í kiljubroti, 200 blaðsíður með 140 litmyndum. Hún skiptist í fjóra kafla: 1) Blómamynstur, 2) Geómetrísk mynstur, 3) Hið skrifaða orð, og 4) Ásaumað skraut. Textíllinn kemur frá Miðausturlöndum, Arabíuskaganum, Íran, Indlandi og Norður-Afríku. Wearden hefur skrifað flæðandi og skemmtilegar lýsingar við alla munina í bókinni. Textinn er fræðandi án þess að verða of fræðilegur og er auðgaður með sögulegum og menningarlegum smáatriðum.

Öllum lýsingum á textíl í bókinni fylgir mynd og stundum eru myndir af smáatriðum á sér síðu. Fyrir ólærða í textílhönnun, eins og mig, er það mjög áhugavert að geta skoðað nánar mótífin og mynstrin með texta Wearden til hliðsjónar. Stundum gerir hún samanburð á textílnum í bókinni og bendir á það sem er líkt og ólíkt, sem mér finnst ómetanlegt. Einstaka sinnum bendur hún á mistök í mynstrum, sem gera þau enn áhugaverðari að skoða. Bókin inniheldur einnig orðalista með teikningum af ýmsum saumum.

Smáatriði: Hluti af ábreiðu á gröf, Íran, snemma á 18. öld, bls. 140-3

Þar sem bókin barst mér til umfjöllunar á ensku útgáfu bloggsins hef ég ritdóminn ekki lengri hér. Í texta mínum í ensku bloggfærslunni er nokkuð um arabísk heiti og tilvísanir í bókina sem ég hefði hvort eð er ekki þýtt yfir á íslensku. Fyrir ykkur sem viljið lesa ritdóminn í heild sinni og sjá fleiri myndir bendi ég á færsluna á Lunch & Latte.


Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures:
Selections from the Al Lulwa Collection
Höf. Jennifer Wearden
Kilja, 200 blaðsíður, myndskreytt
Paul Holberton publishing


Khayamiya, veggteppi, Egyptaland, seint á 19. öld, bls. 174

Allar ljósmyndir í bókinni þa mínum myndum eru eftir Stephanie McGehee



miðvikudagur, 13. apríl 2016

Textiles of the Islamic World eftir John Gillow

Ritdómur: Textiles of the Islamic World eftir John Gillow · Lísa Stefan


Á jólunum fékk ég bókina Textiles of the Islamic World eftir John Gillow, sem er þekktur höfundur, fyrirlesari og safnari í textílheiminum. Fyrst fletti ég henni fram og til baka með helst til miklum ákafa, aðallega til þess að dást að myndum af glæsilegum mótífum og mynstrum, en smám saman hægði ég á mér og leyfði yfirgripsmiklu upplýsingunum að síast inn. Fyrir allt áhugafólk um textílhönnun er bókin fjársjóður, sérstaklega ef viðkomandi hefur áhuga á íslamskri menningu og dreifingu trúarinnar til ýmissa heimshorna. Textinn er ríkur af smáatriðum, til dæmis um útsaum og tækni í vefnaði, en Gillow kemst ágætlega frá of miklu upplýsingaflóði. Fyrir ólærða á sviði textílhönnunar, eins og mig, er bókin skemmtileg aflestrar og ég vona að mér takist að gefa henni sanngjarnan dóm í einni bloggfærslu. Myndirnar mínar sýna bara lítið brot þeirra efna og mynstra sem ég var sífellt að skoða á meðan lestrinum stóð. Bara lítið brot.

[Kápumynd: 17. aldar bróderaður textíll frá Ottóman-
tímabilinu. Úr einkasafni. New York]

Hægri: Brúðarteppi ofið af Fulani-fólkinu fyrir Tuareg-fólkið, Vestur-Afríka, bls. 302

Textiles of the Islamic World, gefin út af Thames & Hudson árið 2013, hefur að geyma 638 myndir og skiptist í 8 hluta, eða landsvæði: 1) Ottóman-veldið, 2) Íslam á Spáni og í Norður-Afríku, 3) Arabaheimurinn, 4) Persnesku svæðin, 5) Mið-Asía, 6) Mógúlsvæðin, 7) Austur og Suðaustur-Asía, og 8) Afríka sunnan Sahara. Löndin innan hvers mynda kafla sem Gillow byrjar með stuttri kynningu áður en hann ræðir landsvæði, búninga, tækni o.s.frv. sem lýkur með stöðu textílframleiðslunnar á okkar dögum. Það bæði vekur mann til umhugsunar og gerir sorgmæddan að lesa um þá verðmætu þekkingu í vissum löndum sem er að falla í gleymsku. Áhrifanna gætir einna helst á stríðshjáðum svæðum.

Bróderaður pottahanski úr leðri og bróderað rúmteppi, Kyrgyzstan, bls. 216-7

Fyrir utan söguleg atriði í bók Gillow hef ég mestan áhuga á því að skoða mótíf og fræðast um merkingu þeirra. Það er viðfangsefni sem heillar mig. Persónulega hefði mér fundist mega vera meira um slíkar upplýsingar í bókinni; um táknræna merkingu mótífa.

Í múslimaheiminum er póst-íslamskur textíll ríkulega skreyttur og hönnunin er gjarnan abstrakt. Mynstrin eru geómetrísk, blóm eða jurtir, og á sumum textíl má sjá skrautskrifaðar áletranir, einkum í Egyptalandi. Hinn póst-íslamski textíliðnaður forðaðist hvers kyns notkun á mannlegum og guðlegum formum. Einnig dýraformum, þó með undantekningum. Í Írak má til dæmis finna úlfalda-, hana- og ljónamótíf, þar sem úlfaldinn táknar auð og hamingju, ljónið styrk og haninn sigur og dýrð (bls. 120). Svo eru það klútar fyrir afganska veiðimenn í Herat sem voru skreyttir dýrum og veiðimönnum.

Tjaldbútur með ásaumi (e. appliqué) frá Khiyammiya - Götu tjaldgerðarmannanna -
í elsta hluta Kaíró í Egyptalandi, bls. 93

Í Sádi-Arabíu hafa hinar tvær heilögu borgir Mekka og Medína mikla þýðingu fyrir múslima. Mekka var fæðingarborg Múhameðs spámanns (ca. 570-622 e.Kr.), föður íslamstrúar, sem lést í Medína. Í bókinni bendir Gillow á mikilvægi klæða í tengslum við Ka'bah-steininn, heilagasta hlutann í Mekka:
Ka'bah, betur þekkt sem ,Bait Allah' („Hús Guðs“), kallast risastór kubbur af svörtu grjóti. Á sögulegum tímum hefur steinninn fengið nýja ábreiðu á hverju ári sem nefnist „Kiswa“ („sloppur“ í bókstaflegri merkingu), sem er úr ofnu efni prýddu skrautrituðum áletrunum á arabísku og með nafni guðs bróderuðu með silfurþráðum. Sú var venjan að hún væri gjöf frá kalífanum, og á tímum Ottóman-veldsins var hún gerð í Kaíró eða Damaskus og send með mikilli viðhöfn með hinni árlegu fylkingu úlfalda sem flutti hóp pílagríma frá þessum stöðum yfir eyðimörkina til Mekka og Medína. (bls. 122)

Blokkprentað sjal frá 19. öld, Deccan-sléttan, Indland, bls. 244

Fyrir manneskju eins og mig sem er heilluð af blokkprentun (útkoman verður svo fullkomlega ófullkomin) voru kaflarnir um Indland og Bangladesh mjög áhugaverðir. Að ofan minntist ég á stríðshjáð svæði. Sýrland er eitt þeirra og ég held að sú eyðilegging sem hefur átt sér stað í fornu borginni Palmýra hafi ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með fréttum þessa dagana. Það sem ég vissi ekki, og fannst merkilegt, er að notkun blokkprentaðra klæða í Sýrlandi megi rekja til tíma Rómaveldisins hins forna. Í Palmýra hafa fundist blokkprentuð klæði frá Indlandi sem eru frá tímum Zenóbíu drottningar. „Mynstrin á þessum forngripum eru nákvæmlega eins og mynstrin á samtíma blokkprentuðum klæðum frá Rajasthan-héraði“ (bls. 106). Hugsið ykkur, mynstrin sem notuð voru í rómversku nýlendunni Palmýra á 3. öld eru enn í notkun á Indlandi ca. 1750 árum síðar!

Vinstri: Gluggatjöld unnin úr ofnum silkiræmum, Djerba, Túnis, Norður-Afríka, bls. 73.
Hægri: Ábreiða ofin úr ræmum, Mende-fólkið, Sierra Leone og slá,
Hausa-fólkið, Nígería, bls. 295

Austur-Afríka hefur lengi verið á lista mínum yfir áfangastaði (Kenya, Tansanía, Rwanda og Úganda eru lönd sem mig langar að heimsækja) og augljóslega las ég þann kafla af miklum áhuga. Mér fannst líka gaman að bera saman textílinn í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar við hönnunina í löndum Norður-Afríku (myndirnar tvær hér að ofan ættu að gefa ykkur mynd af þeim samanburði). Óman, á suðausturströnd Arabíuskagans, er einnig á listanum mínum. Ómanar höfðu heilmikil áhrif á menningu og klæðaburð í Austur-Afríku. Kryddeyjan Zanzibar var „um aldir útvörður Óman-veldisins“ (bls. 299) og „þegar á 10. öld e.Kr. mikilvæg miðstöð múslima“ (bls. 296). Á sjóleið viðskiptaveldis Ómana voru einnig borgin Mombasa í Kenya og eyjan Pemba (Tansanía). (Ég tók ekki myndir af textílnum (aðallega fatnaður) í kaflanum um Austur-Afríku; mér fannst textíllinn í þeim um Vestur-Afríku höfða betur til mín.)

Suzani með endurteknu bróderuðu mynstri af blómum innan um
höfuð ungra hana, Urgut, Úsbekistan, bls. 185

Suzani, Lakhai-fólkið, snemma á 19. öld, suðurhluti Úsbekistan, Mið-Asía, bls. 191

Kafli Gillow um Úsbekistan í Mið-Asíu var annar sem höfðaði til mín, sérstaklega myndirnar af suzani-veggtjöldunum, sem eru bróderuð með blómum og vínviði. Ég hefði getað ljósmyndað allan kaflann! Ég verð að bæta því við að það getur verið kúnst að taka myndir af mynstrum; stundum er svo mikil hreyfing í mynstrinu að það reynist erfitt að finna punkt sem hægt er að fókusa á. Eitt mynstranna sem allt að því dáleiddi mig var suzani frá 19. öld eftir Lakhai-fólkið, sem sést á myndinni hér að ofan (það er líka á mynd sem ég deildi einu sinni á Instagram). Lakhai-fólkið býr í Surxondaryo-héraði (einnig ritað Surkhandarya), í suðausturhluta landsins, og það „segist vera komið af Karamysh, eina bróður Ghenghis Khan sem komst lífs af" (bls. 190). Lakhai var yngsti sonur Karamysh og þaðan kemur nafnið. (Þið getið séð annað dæmi um Lakhai-suzani á Tumblr-síðunni minni.)

Hægri: Bróderuð hvít kápa/slá (chyrpy) (bróderuð kápa/slá) fyrir gamla konu, Tekke-fólkið,
Túrkmenistan og málaður „veiðiklútur“, Herat, Afganistan, bls. 183

Ég hefði getað skrifað bloggfærslu um hvern hluta í bók Gillow en kaus að halda öllu í einni og hafa hana ekki of langa. Sjónræni hluti færslunnar gæti gefið ykkur ranga mynd af bókinni. Þar sem ég er hrifnari af mynstrum og mótífum í, til dæmis, mottum og veggtjöldum þá tók ég svo til engar myndir af flíkum. Í bókinni er að finna fjölmargar myndir af flíkum og aukahlutum, bæði fyrir menn og konur, sem ættu að fullnægja þeim sem hafa áhuga á íslamskri tísku og stíl.

Næstar á textílbókalistanum mínum eru tvær eftir Gillow, African Textiles: Colour and Creativity Across a Continent (hún er á vorbókalistanum mínum) og Indian Textiles (meðhöfundur Nicholas Barnard), einnig gefnar út af Thames and Hudson. Í ljósi þess hversu mikið ég naut þess að lesa þessa bók hef ég það á tilfinningunni að hinar komi til með að rata á bloggið síðar meir.

Brot af ásaumi, Molesalaam-fólkið, Kathiawar, Indland, bls. 242

myndir úr bókinni eru eftir Luke Gillow og Tamsin Beedle, fyrir utan: kápumynd · Clive Loveless, London | suzani bls. 191 · Longevity Studio , London | V-Afríka teppi bls. 302 · James Austin