Sýnir færslur með efnisorðinu ritdómur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ritdómur. Sýna allar færslur

föstudagur, 24. ágúst 2018

Travels in a Dervish Cloak e. Isambard Wilkinson

Ritdómur: Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson · Lísa Stefan


Má ég freista ykkar með grípandi bókarkápu og frábæru innihaldi? Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson fjallar um ævintýraleg og hættuleg ferðalög hans í Pakistan á þeim tíma sem hann skrifaði fréttir fyrir The Daily Telegraph um Stríðið gegn hryðjuverkum. Wilkinson er frábær penni, hnyttinn og eftirtektarsamur, laus við þann sjálfhverfa stíl sem stundum einkennir ferðafrásagnir. Hann fer með lesandann um allt Pakistan, land sem hann skilur og þykir vænt um án þess að vera blindur gagnvart vandamálum þess („the mysterious world that I was so eager to capture before it disappeared“). Eftir stendur glögg frásögn höfundar um framandi menningu þess. Þetta var uppáhaldsbókin mín árið 2017. Hún er nú fáanleg í kiljubroti og ég hvet alla sem áhuga hafa á ferðaskrifum að næla sér í eintak.

Í bókinni sýnir Wilkinson okkur breidd pakistanskt þjóðfélags; fólk við hversdagslega iðju, heilaga menn, stríðsherra, þrjóta og aðrar furðuverur í landi sem er að breytast hratt. Nálgun hans er fræðandi, tilgerðarlaus og skemmtileg. Hér heimsækir hann gamalt virki í grennd við ættbálkasvæði:
Sitting in the courtyard, I could almost feel the modern age clamouring at its walls, wanting to bash down its gates and slay its lord, who I imagined would have gone without a murmur, accepting his fate as the natural order of things.
Hann er trúr viðfangsefni sínu og dæmir ekki hart. Athugasemdir hans um fólk og staði hljóma sannar. Í textanum eru tilvísanir í bókmenntir og ein kallaði fram hlátur: hann hittir herskáan stríðsmann sem neitar að „go gentle into that good night“. Aldrei grunaði mig að ég ætti eftir að tengja ljóðskáldið Dylan Thomas við stríðsmann í Baluchistan-héraði! Sá hinn sami lifir að vísu ekki af. Stundum er bókin líkari skáldsögu; ég fletti síðunum af miklum ákafa, allt að því haldandi niðri í mér andanum. Á einhverjum punkti þurfti ég að minna sjálfa mig á að það væri engin bók ef höfundurinn hefði ekki sloppið lifandi. Þetta er bók fyrir þá sem vilja sjá aðra hlið á Pakistan heldur en þá sem endurspeglast í Hollywood-framleiðslum. Þetta er alvöru stöff.

Ritdómur: Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson · Lísa Stefan
Úr bókinni: Kennari og nemendur hans í Kasmír, 2005 eftir Chev Wilkinson

Ef þið fylgist með heimsfréttum ættuð þið að vita að ný ríkisstjórn er tekin við í Pakistan, undir forystu Imran Khan sem virðist ætla að gera umbætur. (Ef við lítum á núverandi valdhafa Hvíta hússins þá held ég að fyrrverandi krikketspilari sem forsætisráðherra sé ekki versti kostur þjóðar.) Ég man enn eftir þeirri sjokkerandi frétt í desember 2007 þegar Benzir Bhutto var ráðin af dögum á kosningafundi í Rawalpindi. Mér fannst það alltaf lofa góðu að kona hefði verið forsætisráðherra íslamsks ríkis, og það tvisvar. Tveimur mánuðum áður var Wilkinson nálægt hryllingnum í Karachi þegar hún slapp lifandi frá sprengjuárás, en á Írlandi þegar örlög hennar réðust. Hann hafði verið rekinn úr landi fyrir ritstjórnargrein sem var þáverandi forseta, Pervez Musharraf, ekki að skapi. Í janúar þar á eftir var honum leyft að snúa til baka. Á flugvellinum beið skelfilegi bílstjórinn hans með „forljót appelsínugul blóm“.

Bílstjórinn Allah Ditta er einn af mörgum litríkum persónum í bókinni. Nafn hans merkir „Gjöf frá Guði“ og ég get bara sagt að Guð hlýtur að hafa furðulega kímnigáfu. Kokkurinn hans Basil er engu betri. Þessum tveimur kemur ekki saman og afleiðingin er kostulegur ófriður á heimili Wilkinson. Mín uppáhaldspersóna er bróðir hans Chev:
'You can't hang about here like a mixture of a wannabe Lord Byron and Lord Fauntleroy waiting for the next cup of tea or bout of diarrhoea. Pick a spot on the map and let's be off,' he said. ... His presence was reassuring. He's always stuck by me, whatever my failings. He doesn't mind sharing a bed with me, as long as there's a pillow between us lest I grow amorous in my sleep. And he's good at pointing out if I have food round my mouth before I interview people.
Chev, sem er ljósmyndari, er hinn upplagði ferðafélagi. Mikilvægara er að Wilkinson neyðist til að yfirgefa Pakistan vegna nýrnabilunar og þá fáum við að vita að það var Chev sem bjargaði lífi hans: Hann gaf honum nýra.

Ég vildi geta sagt ykkur að önnur ferðasaga væri væntanleg frá Wilkinson en hann hefur farið í tvær nýrnaskiptaaðgerðir og því ólíklegt að hann hætti sér til varhugaverðra staða. Ég virkilega naut þeirrar ríku frásagnargáfu sem finnst í Travels in a Dervish Cloak, bók sem er full af kímni og kryddum. Hún var tilnefnd til verðlauna sem kallast Stanford Dolman Travel Book of the Year Award. Ef þið dæmið bók af kápunni þá get ég lofað að þessi skilar sínu.


Travels in a Dervish Cloak
Höf. Isambard Wilkinson
Innbundin, 256 blaðsíður, myndskreytt
Eland


mynd úr bókinni eftir Chev Wilkinson | myndskreyting kápu: Dorry Spikes



miðvikudagur, 7. mars 2018

Ritdómur: Stay with Me eftir Ayobami Adebayo

Ritdómur: Stay with Me eftir Ayobami Adebayo · Lísa Stefan


Nú þegar bókin Stay with Me, frumraun skáldkonunnar Ayobami Adebayo, er komin út í kilju þá er kominn tími til að deila ritdómnum sem ég hafði lofað (útgefandi er Canongate; á № 12 bókalistanum). Í sannleika sagt er ég ekki mikill aðdáandi nútímaskáldverka, og fyrir utan þetta með tíu árin hneigist ég til að vera sammála rithöfundinum Karl Ove Knausgård, sem nýlega lét hafa eftir sér í viðtali: „I think contemporary fiction is extremely overrated, but I can’t start to name, because I’m also a part of the hype. I think there are maybe one or two great books every 10 years“ (Guardian, 11. feb. 2018). En fallega hönnuð bókarkápan (eftir Rafaela Romaya) laðaði mig að þessari skáldsögu frekar en viðfangsefnið: hjónaband sem ógnað er af ófrjósemi. Auk þess var ég á verði gagnvart góðu dómunum sem bókin hafði hlotið og hélt að kannski væri á ferðinni enn ein bólan. Megin ástæðan fyrir því að ég las bókina var höfundur að nafni Chimamanda Ngozi Adichie. Ég er hrifin af skrifum hennar og var forvitin að kynnast öðrum hæfileikaríkum rithöfundi frá Nígeríu.

Stay with Me er fallega skrifuð saga sem snertir djúpt. Því miður, vegna efniviðarins, eru í henni einum of margir harmleikir, sem truflaði mig ekki að lestri loknum, einungis á meðan á honum stóð. Vegna sögufléttunnar, hversu mikilvægt það er að forðast að upplýsa nokkuð um hana, er ekki auðvelt að gagnrýna verkið. En svona hljómar sögulýsingin á kápunni: „Yejide vonast eftir kraftaverki, eftir barni. Það er allt sem eiginmaður hennar þráir, allt sem tengdamóðir hennar þráir, og hún hefur reynt allt - erfiðar pílagrímsferðir, læknisráðgjöf, bænir til Guðs. En þegar ættingjarnir krefjast þess að eiginmaðurinn taki sér aðra konu reynist það Yejide um megn. Afleiðingarnar eru afbrýðisemi, svik og örvinglun.“ Örvinglun er lykilorðið. Það er harmþrungið að fylgjast með öfgafullum tilburðum Yejide að verða barnshafandi.

Sögusviðið er aðallega ólgandi Nígería níunda áratugarins. Sögumennirnir eru tveir, hin barnalega Yejide, sem er komin út á ystu brún í örvæntingu sinni að eignast barn, og eiginmaður hennar Akin. Aðrar mikilvægar persónur eru Dotun, bróðir Akins, og móðir þeirra Moomi (sem ýtti á alla takkana mína; hún minnti mig á tengdamóðurina í Half of a Yellow Sun eftir Adichie) og Funmi, eiginkona númer tvö. Það sem fékk mig til að fletta síðum skáldsögunnar af ákafa var að í hvert sinn sem ég hélt að söguþráðurinn væri orðinn fyrirsjáanlegur þá kom rithöfundurinn mér á óvart með óvæntum viðsnúningi, sem ég sá aldrei í aðsigi. Til að gera það svona meistaralega þá þurfti hún tvo sögumenn, Yejide og Akin.

Hjónaband þeirra byggist á lygi og hvort lesandinn trúi sögu þeirra ræðst af viljanum til að samþykkja þessa lygi þegar hún opinberast (að koma með vísbendingu um hana myndi eyðileggja lestarupplifunina). Þrátt fyrir allar raunirnar í verkinu fletti ég síðunum af spenningi, en verð að viðurkenna að ég staldraði við þessa lygi og efaðist. Svo las ég áfram og sannfærði mig um að Yejide væri einfaldlega svona auðtrúa því hún hefði verið alin upp móðurlaus („I had watched them arrive and evolve in my father's house, all those different mothers who were not mine“).

Þrátt fyrir erfiðleikana sem persónurnar standa frammi fyrir er heilmikil fegurð í skáldsögunni, og gamansamar aðstæður. Enn mikilvægara, nígerísk menning og þjóðsögur. Fornar sögur, trú og hjátrú sem fær augabrúnir Vesturlandabúa til að rísa. Eitt dæmi er sena þar sem Yejide klifrar upp „the Mountain of Jaw-Dropping Miracles“, sem á íslensku gæti kallast Kraftaverkafjallið sem fær mann til missa kjálkana, þar sem hún dansar við geit - og setur hana á brjóst! - í örvæntingarfullri von um kraftaverk („I needed a miracle fast. The only way I could save myself from polygamy was to get pregnant before Funmi“). Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvernig koma hefði mátt í veg fyrir óþarfa sársauka og þjáningar ef Yejide og Akin hefðu bara sest niður og rætt málin af alvöru.

Þegar uppi er staðið erum við öll mennsk og þurfum að glíma við þær væntingar sem samfélagið gerir til okkar. Við getum valið á milli þess að láta þær stjórna lífi okkar eða að finna okkar eigin leið. Þeir sem vilja uppgötva hvað Yejide ákveður að gera að lokum þurfa að lesa bókina. Á meðan mun ég bíða eftir tilkynningu um næstu skáldsögu Adebayo því ný, hæfileikarík skáldkona er stigin á bókmenntasviðið.

Stay with Me
Höf. Ayobami Adebayo
Innbundin, 304 blaðsíður
Canongate



sunnudagur, 9. júlí 2017

Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee

Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lísa Stefan


Fyrr á árinu kom út skáldsagan Pachinko eftir Min Jin Lee, bandaríska skáldkonu af kóreskum uppruna, frá bókaútgáfunni Head of Zeus (Apollo). Mér barst eintak til að ritdæma og birti bókina á № 8 bókalistanum mínum. Verkið er reynslusaga kóreskrar fjölskyldu, um baráttu hennar og seiglu sem innflytjendur í Japan, og spannar átta áratugi 20. aldar. Tilfinningar mínar til bókarinnar eru eilítið blendnar, aðallega vegna þess að höfundur fer hratt yfir sögu - 490 síður bókarinnar eru fljótlesnar - og stundum vantaði að þróa persónur betur. Engu að síður er boðskapur bókarinnar mikilvægur og hún hefur sögulegt mikilvægi því höfundurinn varpar ljósi á félagslegt vandamál sem ég var ómeðvituð um: þá meðferð og kúgun sem kóreskir innflytjendur hafa búið við í japönsku samfélagi áratugum saman.

Titill bókarinnar, orðið pachinko, krefst útskýringar. Það birtist fyrst þegar bókin er hálfnuð. Pachinko er spilakassi með stálkúlum og pachinko-salirnir mynda risastóran iðnað í Japan, með hærri tekjur en útflutningstekjur bílaiðnaðarins. Pachinko-salirnir voru einn fárra staða sem vildu ráða fólk frá Kóreu í vinnu. Auk þess voru kofahreisi í kóreskum gettóum eina húsnæðislausnin því enginn vildi leigja þeim húsnæði.

Í Pachinko er rakin saga fjögurra kynslóða, sem byrjar árið 1911 í sjávarþorpi á suðausturhluta Kóreuskagans, ári eftir að Japanir innlimuðu landið. Spólum aðeins fram: Hin fimmtán ára gamla Sunja verður barnshafandi eftir ástarsamband við kvæntan mann. Fjölskyldu hennar er forðað frá útskúfun þegar Ísak, kristinn prestur frá norðurhluta landsins, býðst til að kvænast henni og taka hana með sér til Osaka, í Japan, þangað sem þau koma í apríl 1933.
Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lísa Stefan


Við upphaf ferðalagsins, í kringum blaðsíðu 80, fer sagan á flug og verður nokkuð spennandi. Ritstíllinn er einfaldur og vegna samræðna er takturinn hraður, sem einnig er megin galli bókarinnar. Í stað þess að þróa persónurnar, gefa þeim meiri dýpt, og að leyfa lesandanum að staldra aðeins við með þeim til að öðlast betri innsýn þá virðist sem höfundurinn sé stöðugt að keyra söguna áfram, kannski til að halda í við sögulegt samhengi. Saga Min Jin Lee er sannarlega áhugaverð en frásögnina skortir fyllingu.

Hún skiptir bókinni í þrjá hluta: Fyrstu tveir eru aðallega um reynslu innflytjandans, um baráttu Sunja og fjölskyldu hennar í kóresku gettói, og á bóndabæ á meðan heimstyrjöldin geisar. Þriðji hlutinn hefst í apríl 1962 og fjallar aðallega um afkomendurna. Á þeim punkti er fjölskyldan fjárhagslega stöndugri og síðar uppskera yngri meðlimirnir vel vegna pachinko-iðnaðarins. Þarna fer höfundurinn út af sporinu; sá þriðji er veikasti hlekkur bókarinnar. Min Jin Lee kynnir nýjar persónur til sögunnar - fáar sem höfðuðu til mín - og skilur eftir tómarúm þegar hún allt að því yfirgefur eldri kynslóðina. Það virðist sem Sunja og eldri fjölskyldumeðlimirnir falli í bakgrunninn, eins og þau séu ekki lengur mikilvæg, þegar það einmitt blasir við að svo mikið er ósagt um sögu þeirra, einkum tilfinningar.

Sunja er persóna sem ég hændist að og vonaðist til að kynnast betur í þriðja hlutanum. Eftir um það bil hundrað síður mátti loksins gægjast inn í hugarheim hennar: „All her life, Sunja had heard this sentiment from other women, that they must suffer—suffer as a girl, suffer as a wife, suffer as a mother—die suffering. Go-saeng—the word made her sick. What else was there besides this? She had suffered to create a better life for Noa, and yet it was not enough“ (bls. 420). Þetta var skammvinnt, því miður. Höfundurinn leiddi okkur beint inn í samræður og hélt áfram með söguna.

Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lísa Stefan


Þó að Pachinko teljist seint til meistaraverka á bókmenntasviðinu ber að virða framlag höfundarins. Partur af mér vill standa með bókinni vegna þema hennar og mikilvægis fyrir okkar tíma: innflytjendur og sjálfsmynd, og hvernig við komum fram við innflytjendur og flóttafólk. Þarna tekst Min Jin Lee vel til. Þarna er að finna ádeilu á Japan en hún hvorki matar lesendur af skoðunum né fellur í þá gryfju að láta þá sjá hlutina í svörtu og hvítu. Ég treysti fullkomlega rannsóknarvinnu hennar fyrir ritun bókarinnar, reynslu fólks frá Kóreu í japönsku samfélagi, og hún lætur það í hendur lesandans að fella dóm.

Lesendur sem eru einungis í leit að sögu munu njóta lesturs bókarinnar, njóta þess hversu fljótlesin hún er. En lesendur sem snúa sér að bókmenntum fyrir ritstílinn, fyrir setningar sem þá langar að lesa aftur, og jafnvel skrifa niður, sitja uppi eilítið tómhentir.

Pachinko
Höf. Min Jin Lee
Innbundin, 490 blaðsíður
Head of Zeus / Apollo



Pachinko birtist á № 8 bókalistanum mínum



fimmtudagur, 2. febrúar 2017

Map Stories eftir Francisca Mattéoli

Ritdómur: Map Stories eftir Francisca Mattéoli · Lísa Stefan


Munið þið eftir ykkar fyrsta atlas, ykkar eigin? Fyrir utan myndir af hnettinum þá var forsíðan á mínum svört með hvítum stöfum. Ég var tíu eða ellefu ára og gleypti hann í mig. Landakort hafa undarlegt aðdráttarafl og virðast gefa von um stórkostleg ævintýri. Gömul landakort hafa alltaf heillað mig, sérstaklega þessi myndskreyttu sem eru landfræðilega kolröng. Myndir af sjávarskrímslum og seglskipum gera þau enn meira heillandi. Þið getið rétt ímyndað ykkur spenninginn þegar mér barst fyrir nokkrum mánuðum síðan eintak af nýrri bók, Map Stories: The Art of Discovery (Octopus (Ilex)). Höfundurinn Francisca Mattéoli sérhæfir sig í ferðaskrifum. Í bókinni notar hún tuttugu og þrjár sögur og frábært safn sögulegra landakorta til að halda með okkur á vit ævintýra um allan heiminn þar sem við hittum kortagerðarmenn, landfræðinga, könnuði og draumóramenn. Stundum fannst mér sem ég væri að stíga inn í vídd þar sem Bilbo Baggins hittir Indiana Jones.

Kort af Nílardal eftir Nicolas de Fer og gefið út 1720, bls. 44-45

Mattéoli er ekki fræðingur á sviði landafræði og bók hennar er ekki hugsuð sem fræðirit. Í formálanum skrifar hún: „Þetta er bók sem býður lesandanum í ferðalag frá landakorti til landakorts til að hleypa ímyndunaraflinu lausu“ (bls. 7). Það er einmitt þar sem gerir bókina heillandi.

Ferðalag Mattéoli byrjar með enduruppgötvun hinnar týndu borgar Petru og endar í Kína eftir för um Silkiveginn. Þar á milli erum við á slóð Inkanna, á hinum dularfulla stað Machu Picchu; í kappinu á Suðurpólinn; á Þjóðvegi 66; í leit að upptökum Nílar; um borð í Austurlandahraðlestinni; kannski að velta því fyrir okkur hvort skrímslið Nessie leynist einhvers staðar í Loch Ness. Þetta er bara brot af áfangastöðunum.

Heimskort feneyska munksins Fra Mauro, ca. 1449, bls. 100-101

Það veltur alfarið á áhugasviði ykkar og sögulegri þekkingu hvort sumar sögur Mattéoli hljómi kunnuglegri en aðrar og hvort þær kenni ykkur eitthvað nýtt. Sérstakan áhuga hjá mér vakti sú um leitina að upptökum Nílarárinnar - leiðangur Richard Burton og John Speke - sem minnir meira á ráðgátu með dramatískum endi. Eftirfarandi lýsing er fengin af ljósmynd af kortaherbergi í Hinu konunglega landfræðifélagi (Royal Geographical Society):
[It] is plunged in a dusty half-light and decorated with maps, as one might expect. An enormous terrestrial globe fills one corner. On the upper floor, dark wood shelves are stacked with carefully arranged documents and books. On the ground floor, two large display cabinets protect the most precious objects and on a long table standing in the center of the room, pages lie spread out as if waiting to be consulted by some very serious gentleman. This was the setting that would soon be at the heart of the scandal. It was here, or at least in a similar room of this distinguished institution founded in 1830 that, around a hundred years ago, a disagreement broke out regarding the source of this fabled river, which would soon turn into a downright controversy and then a brutal confrontation. (bls. 42)

Kort af Síle (Chile), 1884, bls. 157

Með aðstoð Mattéoli hittum við ævintýramenn eins og Thomas Edward Lawrence, eða sjálfan Arabíu-Lawrence, norska landkönnuðinn Roald Amundsen, sem fyrstur náði á suðurskautið, og Peter Fleming (bróðir Ian Fleming), sem árið 1932 tók þátt í Amazon-leiðangri eftir að hafa séð auglýsingu í The Times (bók hans Brazilian Adventure, sem kom út 1933, er enn í prentun).

Map Stories gerir okkur kleift að dást að verkum frægra kortagerðarmanna og má þar nefna: Fra Mauro (sjá mynd mína hér að ofan), Fernão (Fernando) Vaz Dourado, Nicolas de Fer (sjá kort að ofan af Nílardal), Willem Blaeu og son hans Joan, Martin Behaim, Pedro Reinel og Lopo Homem, Jodocus Hondius, Guillaume Le Testu og John Speed.

Í bókinni er eitthvað fyrir alla. Og ef þið standið sjálf ykkur að því að fletta upp gömlum ferðakoffortum á netinu, eða öðrum gömlum munum sem tengjast ferðalögum, þá skil ég ykkur fullkomlega.

Kort af Suðurpólnum, 1912, bls. 120-121

Einkum er ég hrifin af hönnun bókarinnar sem er falleg viðbót í safnið á kaffiborðinu. Kortið á forsíðunni er upphleypt og innri kápan er gamalt landakort með teikningum af helstu fjöllum og ám ásamt upptökum og ósum (sjá kort). Uppsetning textans er skýr og efst á vinstri blaðsíðum eru hnit þess staðar sem um ræðir. Landakortin eru ýmist á einni blaðsíðu eða á opnu. Mig langaði að klippa sum út og ramma inn sem því miður hefði skemmt bókina.

Rithöfundurinn Francisca Mattéoli
Francisca Mattéoli er höfundur margra ferðatengdra bóka sem hafa verið þýddar á mörg tungumál. Hún hefur einnig skrifað ferðagreinar fyrir tímarit eins og National Geographic, Condé Nast Traveller og Air France Magazine. Hún heldur einnig úti bloggi á frönsku og ensku. Hún býr í París en ólst að vísu upp í Suður-Ameríku með síleskt þjóðerni (móðir er skosk). Hún vinnur nú þegar að sinni næstu bók.


Map Stories: The Art of Discovery
Höf. Francisca Mattéoli
Innbundin, 176 blaðsíður, myndskreytt
Octopus


Brot af Evrópukorti, notað í kennslu á grunnskólastigi, frá árinu 1880, bls. 143

Landakortin úr bókinni eru birt með leyfi Octopus Publishing Group (nr. 5 í breyttu formi) | Landakort - heimildir: nr. 1 (forsíða) © akg-images/North Wind Picture Archives; nr. 2, 4-5, 7 © Bibliothèque Nationale de France; nr. 3 © akg-images/British Library



mánudagur, 19. desember 2016

Ritdómur: Avid Reader eftir Robert Gottlieb

Ritdómur:  Avid Reader: A Life - æviminningar Robert Gottlieb · Lísa Stefan


Það er ástæða fyrir því að Beloved eftir Toni Morrison var ekki fyrsti hluti langrar skáldsögu og að þið lásuð Catch-22 eftir Joseph Heller í stað Catch-18. Ástæðan er ritstjórinn Robert Gottlieb, sem nýlega gaf út æviminningar sínar Avid Reader: A Life (Farrar, Straus and Giroux). Ævisögur eru oft uppfullar af nöfnum frægra en í hans tilviki eru það bókatitlar. Hvort það sé of mikið er umdeilanlegt. Hann segir sögu sína í gegnum vinnuna, hjá Simon & Schuster, Alfred A. Knopf og The New Yorker, og vegna allra bókatitlanna kann stíll hans í fyrstu að virðast skorta dýpt. Eftir því sem líður á lesturinn gengur þetta upp og gefur innsýn í útgáfuheim hans. Aðrar fjaðrir í hatt hans eru til dæmis rithöfundarnir Doris Lessing, John le Carré, John Cheever, Chaim Potok, Charles Portis, og í flokki óskáldaðs efnis, Jessica Mitford, Nora Ephron, Robert Caro, Lauren Bacall og Bill Clinton. Jafnvel Svínka. Þetta er maður sem elskaði starf sitt; ritstjórn var ástríða hans. Fyrir bókaunnendur, með áhuga á útgáfustarfsemi, er þetta bókin.


Árið 1955, eftir nám við Columbia og Cambridge, byrjaði hinn gífurlega vellesni Gottlieb, þá 24 ára, að vinna hjá Simon & Schuster bókaforlaginu, þar sem starf hans var svo til óskilgreint. Hann var í öllu: yfirlestri handrita, hönnun bókarkápu, ritstjórnarlegum ábendingum. Yfirmaður hans lést tveimur árum síðar og lykilstjórnendur yfirgáfu fyrirtækið. Skyndilega voru Gottlieb, Nina Bourne (þekkt auglýsingastýra; árið 1968 fylgdi hún honum til Knopf) og nokkrir aðrir við stjórn. Gottlieb, núna 84 ára, varð þungaviktarmaður í útgáfuheiminum, aðallega vegna þess að hann var réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma og það vildi svo til að hann var góður ritstjóri. Í bókinni montar hann sig ekki, þó að hann hafi ríka ástæðu til.

Fyrir mig eru það hugsanir Gottliebs um samband ritstjóra og höfundar og hlutverk ritstjórans sem gera bókina góða. Doris Lessing var einn af S & S höfundunum sem hann átti í góðu sambandi við og hún fylgdi honum til Knopf. Þegar Gottlieb varð ritstjóri The New Yorker (árið 1987; því fylgdi drama þegar hann tók við af William Shawn) hélt Lessing áfram að sýna honum skrif sín. Hann varð „forviða“ þegar hún tjáði honum að hún væri „alltaf að leitast eftir viðurkenningu“ hans. Fyrr í textanum benti hann á að skáldsaga hennar The Golden Notebook „seldist innbundin í mjög fáum eintökum . . . [e]n þau voru réttu sexþúsund eintökin“ (bls. 136). Það sýnir að fyrir honum snerist starfið ekki um að gefa út metsölubækur heldur að ná til réttra lesenda. Síðan þá hefur bókinni auðvitað vegnað vel og Lessing hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2007. Hann minnir okkur á þegar hún fékk fregnirnar fyrir utan heimili sitt í London, „grumpily expressing her irritation at having her life interrupted this way“ (bls. 139). Ef þið hafið ekki séð stikluna flettið henni þá endilega upp á netinu. Hún hafði ekki hugmynd um út af hverju fréttamenn biðu hennar þegar hún kom heim eftir matarinnkaupin og viðbrögð hennar voru: „Oh Christ!“

Nokkrir bókatitlar sem Robert Gottlieb ritstýrði

Toni Morrison var enn annar rithöfundur hans sem hlaut Nóbelsverðlaunin, árið 1993, og þeirra faglega samband var gott. Innan um mikla velgengni voru að sjálfsögðu titlar sem gengu illa og ritstjórnarstarfið var ekki laust við slæma reynslu (honum líkaði illa við Roald Dahl (einnig starfsfólki Knopf) og fannst V.S. Naipaul, einnig Nóbelsskáld, vera „snobbaður“ en „frábær rithöfundur“). Sumir rithöfundar stukku frá borði (t.d. Salman Rushdie og Don DeLillo):
It's hard to convince a colleague (or oneself) that it's not personal—that a writer's chief concern is, and should be, protecting himself and his books as he thinks fit. If the editor and publisher don't provide that sense of security, they're not doing their job, which is first, last, and always a service job: What we're there for is to serve the writer and the book. That doesn't mean I haven't been stung when an author I valued moved on. (bls. 176)
Þegar Bill Clinton ákvað að skrifa æviminningar sínar valdi hann Gottlieb sem ritstjóra (hann var þá kominn aftur til Knopf eftir fimm ár hjá The New Yorker). Þið sem hafið lesið My Life  munið örugglega eftir öllum nafnaupptalningunum (tengdapabbi skilaði mér bókinni; gafst upp), en það dregur ekki úr þeirri staðreynd að bókin var vel skrifuð. Það lýsir ritstjórnarsambandi þeirra vel þegar Gottlieb skrifar út á spássíu: „This is the single most boring page I've ever read.“ Clinton sendir gögnin til baka og hefur bætt við: „No, page 511 is even more boring!“ (bls. 253 ).



Bók Gottlieb er ekki gallalaus. Talið um hann og fjölskyldu hans í fríum með, eða í náinni vináttu við, þennan höfundinn eða hinn samstarfsmanninn og fjölskyldur þeirra er of oft endurtekið, og nær þeim punkti að manni gæti ekki verið meira sama. Allavega mér. Það eru undantekningar; nokkrar kímnar sögur. Þegar Katherine Graham heitin var að skrifa sjálfsævisögu sína Personal History heimsótti hann hana til Washington til að lesa yfir og gisti á heimili hennar í Georgetown. „[O]ver the years we established an easygoing routine—breakfast, for instance, in slippers and dressing gowns at side-by-side tables in the library, with the Post waiting for her and the Times waiting for me“ (bls. 242). Bók hennar varð metsölubók og hlaut Pulitzer árið 1998.

Það er einnig kafli um dans sem ég hef mínar efasemdir um. Gottlieb, sem er mikill ballettunnandi, gerðist dansgagnrýnandi fyrir The New York Observer. Þeir sem fylgjast með dansheiminum í NY hafa örugglega gaman af þessum kafla en eina ástæðan fyrir því að ég tengdi við hann er sú að fyrir nokkrum árum síðan las ég báðar æviminningar ballerínunnar Gelsey Kirkland, Dancing on My Grave og The Shape of Love.


Gottlieb er ritstjóri sem sjálfur gerðist rithöfundur, en hann hafði engin plön um slíkt. Á meðal verka hans eru Collected Stories, sögusafn Rudyard Kipling (sem fékk Susan Sontag til að hrópa í bókabúð: „Bob, I didn't know you could write so well!“ (bls. 295)), Sarah: The Life of Sarah Bernhardt (fyrir Jewish Lives bókaseríu Yale University Press), George Balanchine: The Ballet Maker, Great Expectations: The Sons and Daughters of Charles Dickens og Reading Jazz.

Á meðan lestrinum stóð var ég stöðugt að spyrja sjálfa mig að því hvernig maðurinn hafði eiginlega tíma og orku fyrir allt sem honum varð úr hendi (stuðningur eiginkonu hans, leikkonunnar Maria Tucci, er án efa ein skýringin). Ég fann svarið í lokakaflanum:
Why, also, considering that my personality is so relentlessly ebullient, have I since childhood felt so melancholic, perhaps even depressive? I suspect that I've summoned up my hyper-energy to keep running fast enough to ward off that depressive tendency—the few times I brushed against the real thing were so distressing that it's no wonder I've done everything possible to avoid it. (bls. 311)
Hann var alinn upp á brotnu heimili - þau lásu við matarborðið í stað þess að tala saman - og virðist muna eftir barnæsku sinni í bókum. Snemma í bókinni viðurkennir hann að hann hafi verið í átta ár í sálgreiningu. Það var þá sem ég hugsaði, Ókei, hann hefur enga þörf fyrir að kafa djúpt í þessari bók. Hann er búinn. Ég er ekki að meina að bókin sé yfirborðskennd. Hann dvelur einfaldlega ekki við hlutina og fastheldni virðist ekki há honum. Það er líka ágætt að hafa í huga að hann hafði aldrei í hyggju að skrifa þessa bók. Hann gerði það bara fyrir dóttur sína (takk, Lizzie!) sem vildi að tvíburasynir sínir gætu kynnst ævistarfi afa gamla.

Það eru nokkrar vikur síðan ég lauk lestri Avid Reader: A Life og ég er enn með bókina í bunkanum sem ég tek með mér úr einu herbergi í annað. Ég er enn að fletta í gegnum hana og nóta hjá mér titla sem mig langar að lesa. Þetta er bók sem ég hafði virkilega gaman af. Ef ég á að gefa bókaunnendum ráð: hafið minnisbók við höndina því á meðan lestrinum stendur mun langar-að-lesa listinn ykkar verða enn lengri!

Avid Reader: A Life
Höf. Robert Gottlieb
Innbundin, 337 blaðsíður, myndskreytt
Farrar, Straus and Giroux



fimmtudagur, 15. september 2016

The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking

Ritdómur: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking · Lísa Stefan


Um helgina eignaðist ég bókina The Little Book of Hygge: The Danish Way to Live Well sem fjallar um danska hugtakið „hygge“. Höfundur er Meik Wiking hjá The Happiness Research Institute í Kaupmannahöfn, en hans starf felst í því að rannsaka hvað gerir fólk hamingjusamt. Penguin annaðist útgáfu bókarinnar sem er í þægilegu og ekki of stóru broti, sem gerir hana nokkuð þykka, 288 bls. Hún er auðlesanleg og ansi skemmtileg, og ekki spillir fyrir að hún er fallega hönnuð, rík af teikningum af skandinavískum mótífum og ljósmyndum. Wiking útskýrir vel hugmyndina um hygge og hvernig Danir, sem mælast hamingjusamastir allra þjóða, kunna þá list að skapa einstaklega notalegt andrúmsloft. Máli sínu til stuðnings vísar hann í kannanir og notast við gröf, en bókin verður aldrei þurr og fræðilegur lestur heldur er textinn á léttu nótunum og það er stutt í kímnina.

Mér fannst við hæfi að skapa hygge áður en ég settist niður til að segja ykkur nánar frá bókinni: ég gerði heitt súkkulaði með rjóma, smurði rúnstykki og kveikti upp í arninum.


Líklega er óþarft að útskýra hygge fyrir Íslendingum; ég held að við séum nokkuð vel að okkur um danska menningu og vitum hvað orðið stendur fyrir - ætli við myndum ekki flest tala um að gera kósí þó að það orð nái ekki alveg yfir hugtakið. En gefum samt Wiking orðið:
Hygge is about an atmosphere and an experience, rather than about things. It is about being with the people we love. A feeling of home. A feeling that we are safe, that we are shielded from the world and allow ourselves to let our guard down. (bls. 6)
Flestir Danir tengja hygge við haustið og veturinn en hugtakið nær líka yfir hlýrri mánuðina. Mér finnst athyglisvert að Wiking ber saman Dani og Hollendinga, sem eiga svipað hugtak sem þeir kalla „gezelligheid“. Munurinn er þó sá að meirihluti Dana tengir hygge við inniveru á meðan meirihluti Hollendinga tengir það við að fara út, á kaffihús, bari og slíkt.

Nú hef ég búið í Danmörku og á þaðan góðar minningar, auk þess rennur danskt blóð í æðum mínum; ég átti danska langömmu í einn ættlegg og danskan langalangafa í annan. Ég verð þó oft vör við að útlendingar líta á Danmörku sem einhvers konar útópíu og halda að landið sé laust við þau félagslegu vandamál sem ríkja annars staðar. Ég var ánægð að sjá að Wiking kemur inn á þennan punkt í bókinni. En það ríkir ákveðin samkennd í Danmörku sem ég kann ekki alveg að útskýra og velferð borgaranna skiptir máli.



En hvernig skapa Danir hygge og hvað gerir þá hamingjusama? Wiking tekur fyrir marga þætti eins og hugguleg heimili og samveru; að bjóða vinum heim til að eiga notalega stund með mat og drykk. Kertaljós og rétt lýsing skipta sköpum en 85% Dana tengja saman kerti og hygge. Jólamánuðurinn er einstaklega hyggelig. Eftir búsetu í mörgum löndum er ég þeirrar skoðunar að engin þjóð kann betur að skapa jólastemningu en Danir. Kaupmannahöfn er draumaborgin mín í desember og það jafnast fátt á við að rölta um steinlögð stræti borgarinnar, sjá öll kertin í gluggunum og upplifa jólaandann sem ríkir yfir öllu. Einn kaflinn í bók Wiking fjallar einmitt um jólin og matarhefðirnar og í því sambandi nefnir hann risalamande, sem er ein af okkar jólahefðum. Ég hef þegar deilt uppskrift að hinum danska möndlugraut með kirsuberjasósu.

Eitt atriði í bókinni vakti athygli mína því það er eitthvað sem ég hef hugsað út í sjálf. Wiking vísar í könnun sem sýnir að þakklæti hefur áhrif á lífshamingju. Niðurstöður sýna að það að vera þakklátur eykur ekki bara lífshamingjuna heldur leiðir til þess að við erum hjálpsamari, eigum auðveldara með að fyrirgefa og efnishyggja verður ekki allsráðandi (bls. 280). Um hygge og þakklæti hefur Wiking þetta að segja:
Hygge may help us to be grateful for the everyday because it is all about savouring simple pleasures. Hygge is making the most of the moment, but hygge is also a way of planning for and preserving happiness. Danes plan for hyggelige times and reminisce about them afterwards. (bls. 281)

Ritdómur: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking · Lísa Hjalt
„Hygge“ kaffistund

Við lestur bókarinnar sannfærðist ég um það að daglegt líf mitt er heldur betur fullt af hygge - sem er mér kannski í blóð borið - en ef ég á að minnast á eitthvað eitt sem ég geri á hverjum einasta degi þá er það gott kaffi og bóklestur. Það fer bara eftir skapi hverju sinni hvaða hygge-horn í húsinu verður fyrir valinu.

Ef ykkur finnst vanta hygge í lífið þá mæli ég eindregið með lestri bókarinnar. Hún er full af hugmyndum.

The Little Book of Hygge: The Danish Way to Live Well
Höf. Meik Wiking
Innbundin, 288 blaðsíður, myndskreytt
Penguin Life



miðvikudagur, 13. apríl 2016

Textiles of the Islamic World eftir John Gillow

Ritdómur: Textiles of the Islamic World eftir John Gillow · Lísa Stefan


Á jólunum fékk ég bókina Textiles of the Islamic World eftir John Gillow, sem er þekktur höfundur, fyrirlesari og safnari í textílheiminum. Fyrst fletti ég henni fram og til baka með helst til miklum ákafa, aðallega til þess að dást að myndum af glæsilegum mótífum og mynstrum, en smám saman hægði ég á mér og leyfði yfirgripsmiklu upplýsingunum að síast inn. Fyrir allt áhugafólk um textílhönnun er bókin fjársjóður, sérstaklega ef viðkomandi hefur áhuga á íslamskri menningu og dreifingu trúarinnar til ýmissa heimshorna. Textinn er ríkur af smáatriðum, til dæmis um útsaum og tækni í vefnaði, en Gillow kemst ágætlega frá of miklu upplýsingaflóði. Fyrir ólærða á sviði textílhönnunar, eins og mig, er bókin skemmtileg aflestrar og ég vona að mér takist að gefa henni sanngjarnan dóm í einni bloggfærslu. Myndirnar mínar sýna bara lítið brot þeirra efna og mynstra sem ég var sífellt að skoða á meðan lestrinum stóð. Bara lítið brot.

[Kápumynd: 17. aldar bróderaður textíll frá Ottóman-
tímabilinu. Úr einkasafni. New York]

Hægri: Brúðarteppi ofið af Fulani-fólkinu fyrir Tuareg-fólkið, Vestur-Afríka, bls. 302

Textiles of the Islamic World, gefin út af Thames & Hudson árið 2013, hefur að geyma 638 myndir og skiptist í 8 hluta, eða landsvæði: 1) Ottóman-veldið, 2) Íslam á Spáni og í Norður-Afríku, 3) Arabaheimurinn, 4) Persnesku svæðin, 5) Mið-Asía, 6) Mógúlsvæðin, 7) Austur og Suðaustur-Asía, og 8) Afríka sunnan Sahara. Löndin innan hvers mynda kafla sem Gillow byrjar með stuttri kynningu áður en hann ræðir landsvæði, búninga, tækni o.s.frv. sem lýkur með stöðu textílframleiðslunnar á okkar dögum. Það bæði vekur mann til umhugsunar og gerir sorgmæddan að lesa um þá verðmætu þekkingu í vissum löndum sem er að falla í gleymsku. Áhrifanna gætir einna helst á stríðshjáðum svæðum.

Bróderaður pottahanski úr leðri og bróderað rúmteppi, Kyrgyzstan, bls. 216-7

Fyrir utan söguleg atriði í bók Gillow hef ég mestan áhuga á því að skoða mótíf og fræðast um merkingu þeirra. Það er viðfangsefni sem heillar mig. Persónulega hefði mér fundist mega vera meira um slíkar upplýsingar í bókinni; um táknræna merkingu mótífa.

Í múslimaheiminum er póst-íslamskur textíll ríkulega skreyttur og hönnunin er gjarnan abstrakt. Mynstrin eru geómetrísk, blóm eða jurtir, og á sumum textíl má sjá skrautskrifaðar áletranir, einkum í Egyptalandi. Hinn póst-íslamski textíliðnaður forðaðist hvers kyns notkun á mannlegum og guðlegum formum. Einnig dýraformum, þó með undantekningum. Í Írak má til dæmis finna úlfalda-, hana- og ljónamótíf, þar sem úlfaldinn táknar auð og hamingju, ljónið styrk og haninn sigur og dýrð (bls. 120). Svo eru það klútar fyrir afganska veiðimenn í Herat sem voru skreyttir dýrum og veiðimönnum.

Tjaldbútur með ásaumi (e. appliqué) frá Khiyammiya - Götu tjaldgerðarmannanna -
í elsta hluta Kaíró í Egyptalandi, bls. 93

Í Sádi-Arabíu hafa hinar tvær heilögu borgir Mekka og Medína mikla þýðingu fyrir múslima. Mekka var fæðingarborg Múhameðs spámanns (ca. 570-622 e.Kr.), föður íslamstrúar, sem lést í Medína. Í bókinni bendir Gillow á mikilvægi klæða í tengslum við Ka'bah-steininn, heilagasta hlutann í Mekka:
Ka'bah, betur þekkt sem ,Bait Allah' („Hús Guðs“), kallast risastór kubbur af svörtu grjóti. Á sögulegum tímum hefur steinninn fengið nýja ábreiðu á hverju ári sem nefnist „Kiswa“ („sloppur“ í bókstaflegri merkingu), sem er úr ofnu efni prýddu skrautrituðum áletrunum á arabísku og með nafni guðs bróderuðu með silfurþráðum. Sú var venjan að hún væri gjöf frá kalífanum, og á tímum Ottóman-veldsins var hún gerð í Kaíró eða Damaskus og send með mikilli viðhöfn með hinni árlegu fylkingu úlfalda sem flutti hóp pílagríma frá þessum stöðum yfir eyðimörkina til Mekka og Medína. (bls. 122)

Blokkprentað sjal frá 19. öld, Deccan-sléttan, Indland, bls. 244

Fyrir manneskju eins og mig sem er heilluð af blokkprentun (útkoman verður svo fullkomlega ófullkomin) voru kaflarnir um Indland og Bangladesh mjög áhugaverðir. Að ofan minntist ég á stríðshjáð svæði. Sýrland er eitt þeirra og ég held að sú eyðilegging sem hefur átt sér stað í fornu borginni Palmýra hafi ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með fréttum þessa dagana. Það sem ég vissi ekki, og fannst merkilegt, er að notkun blokkprentaðra klæða í Sýrlandi megi rekja til tíma Rómaveldisins hins forna. Í Palmýra hafa fundist blokkprentuð klæði frá Indlandi sem eru frá tímum Zenóbíu drottningar. „Mynstrin á þessum forngripum eru nákvæmlega eins og mynstrin á samtíma blokkprentuðum klæðum frá Rajasthan-héraði“ (bls. 106). Hugsið ykkur, mynstrin sem notuð voru í rómversku nýlendunni Palmýra á 3. öld eru enn í notkun á Indlandi ca. 1750 árum síðar!

Vinstri: Gluggatjöld unnin úr ofnum silkiræmum, Djerba, Túnis, Norður-Afríka, bls. 73.
Hægri: Ábreiða ofin úr ræmum, Mende-fólkið, Sierra Leone og slá,
Hausa-fólkið, Nígería, bls. 295

Austur-Afríka hefur lengi verið á lista mínum yfir áfangastaði (Kenya, Tansanía, Rwanda og Úganda eru lönd sem mig langar að heimsækja) og augljóslega las ég þann kafla af miklum áhuga. Mér fannst líka gaman að bera saman textílinn í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar við hönnunina í löndum Norður-Afríku (myndirnar tvær hér að ofan ættu að gefa ykkur mynd af þeim samanburði). Óman, á suðausturströnd Arabíuskagans, er einnig á listanum mínum. Ómanar höfðu heilmikil áhrif á menningu og klæðaburð í Austur-Afríku. Kryddeyjan Zanzibar var „um aldir útvörður Óman-veldisins“ (bls. 299) og „þegar á 10. öld e.Kr. mikilvæg miðstöð múslima“ (bls. 296). Á sjóleið viðskiptaveldis Ómana voru einnig borgin Mombasa í Kenya og eyjan Pemba (Tansanía). (Ég tók ekki myndir af textílnum (aðallega fatnaður) í kaflanum um Austur-Afríku; mér fannst textíllinn í þeim um Vestur-Afríku höfða betur til mín.)

Suzani með endurteknu bróderuðu mynstri af blómum innan um
höfuð ungra hana, Urgut, Úsbekistan, bls. 185

Suzani, Lakhai-fólkið, snemma á 19. öld, suðurhluti Úsbekistan, Mið-Asía, bls. 191

Kafli Gillow um Úsbekistan í Mið-Asíu var annar sem höfðaði til mín, sérstaklega myndirnar af suzani-veggtjöldunum, sem eru bróderuð með blómum og vínviði. Ég hefði getað ljósmyndað allan kaflann! Ég verð að bæta því við að það getur verið kúnst að taka myndir af mynstrum; stundum er svo mikil hreyfing í mynstrinu að það reynist erfitt að finna punkt sem hægt er að fókusa á. Eitt mynstranna sem allt að því dáleiddi mig var suzani frá 19. öld eftir Lakhai-fólkið, sem sést á myndinni hér að ofan (það er líka á mynd sem ég deildi einu sinni á Instagram). Lakhai-fólkið býr í Surxondaryo-héraði (einnig ritað Surkhandarya), í suðausturhluta landsins, og það „segist vera komið af Karamysh, eina bróður Ghenghis Khan sem komst lífs af" (bls. 190). Lakhai var yngsti sonur Karamysh og þaðan kemur nafnið. (Þið getið séð annað dæmi um Lakhai-suzani á Tumblr-síðunni minni.)

Hægri: Bróderuð hvít kápa/slá (chyrpy) (bróderuð kápa/slá) fyrir gamla konu, Tekke-fólkið,
Túrkmenistan og málaður „veiðiklútur“, Herat, Afganistan, bls. 183

Ég hefði getað skrifað bloggfærslu um hvern hluta í bók Gillow en kaus að halda öllu í einni og hafa hana ekki of langa. Sjónræni hluti færslunnar gæti gefið ykkur ranga mynd af bókinni. Þar sem ég er hrifnari af mynstrum og mótífum í, til dæmis, mottum og veggtjöldum þá tók ég svo til engar myndir af flíkum. Í bókinni er að finna fjölmargar myndir af flíkum og aukahlutum, bæði fyrir menn og konur, sem ættu að fullnægja þeim sem hafa áhuga á íslamskri tísku og stíl.

Næstar á textílbókalistanum mínum eru tvær eftir Gillow, African Textiles: Colour and Creativity Across a Continent (hún er á vorbókalistanum mínum) og Indian Textiles (meðhöfundur Nicholas Barnard), einnig gefnar út af Thames and Hudson. Í ljósi þess hversu mikið ég naut þess að lesa þessa bók hef ég það á tilfinningunni að hinar komi til með að rata á bloggið síðar meir.

Brot af ásaumi, Molesalaam-fólkið, Kathiawar, Indland, bls. 242

myndir úr bókinni eru eftir Luke Gillow og Tamsin Beedle, fyrir utan: kápumynd · Clive Loveless, London | suzani bls. 191 · Longevity Studio , London | V-Afríka teppi bls. 302 · James Austin