mánudagur, 19. desember 2016

Ritdómur: Avid Reader eftir Robert Gottlieb

Ritdómur:  Avid Reader: A Life - æviminningar Robert Gottlieb · Lísa Hjalt


Það er ástæða fyrir því að Beloved eftir Toni Morrison var ekki fyrsti hluti langrar skáldsögu og að þið lásuð kannski Catch-22 eftir Joseph Heller í stað Catch-18. Ástæðan er ritstjórinn Robert Gottlieb, sem nýlega gaf út æviminningar sínar Avid Reader: A Life (Farrar, Straus and Giroux). Ævisögur eru oft uppfullar af nöfnum frægra en í hans tilviki eru það bókatitlar. Hvort það sé of mikið er umdeilanlegt. Hann segir sögu sína í gegnum vinnuna, hjá Simon & Schuster, Alfred A. Knopf og The New Yorker, og vegna allra bókatitlanna kann stíll hans í fyrstu að virðast skorta dýpt. Eftir því sem líður á lesturinn gengur þetta upp og gefur innsýn í útgáfuheim hans. Fyrir utan Heller og Morrison eru aðrar fjaðrir í hatt hans til dæmis Doris Lessing, John le Carré, John Cheever, Chaim Potok, Charles Portis, og í flokki almennra rita, Jessica Mitford, Nora Ephron, Robert Caro, Lauren Bacall og Bill Clinton. Jafnvel Svínka. Þetta er maður sem elskaði starf sitt; ritstjórn var ástríða hans. Fyrir bókaunnendur, með áhuga á útgáfustarfsemi, er þetta bókin.


Árið 1955, eftir nám við Columbia og Cambridge, byrjaði hinn gífurlega vellesni Gottlieb, þá 24 ára, að vinna hjá Simon & Schuster bókaforlaginu, þar sem starf hans var svo til óskilgreint. Hann var í öllu: yfirlestri handrita, hönnun bókarkápu, ritstjórnarlegum ábendingum. Yfirmaður hans lést tveimur árum síðar og lykilstjórnendur yfirgáfu fyrirtækið. Skyndilega voru Gottlieb, Nina Bourne (þekkt auglýsingastýra; árið 1968 fylgdi hún honum til Knopf) og nokkrir aðrir við stjórn. Gottlieb, núna 84 ára, varð þungaviktarmaður í útgáfuheiminum, aðallega vegna þess að hann var réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma og það vildi svo til að hann var góður ritstjóri. Í bókinni montar hann sig ekki, þó að hann hafi ríka ástæðu til.

Fyrir mig eru það hugsanir Gottliebs um samband ritstjóra og höfundar og hlutverk ritstjórans sem gera bókina góða. Doris Lessing var einn af S & S höfundunum sem hann átti í góðu sambandi við og hún fylgdi honum til Knopf. Þegar Gottlieb varð ritstjóri The New Yorker (árið 1987; því fylgdi drama þegar hann tók við af William Shawn) hélt Lessing áfram að sýna honum skrif sín. Hann varð „forviða“ þegar hún tjáði honum að hún væri „alltaf að leitast eftir viðurkenningu“ hans. Fyrr í textanum benti hann á að skáldsaga hennar The Golden Notebook „seldist innbundin í mjög fáum eintökum . . . [e]n þau voru réttu sexþúsund eintökin“ (bls. 136). Það sýnir að fyrir honum snerist starfið ekki um að gefa út metsölubækur heldur að ná til réttra lesenda. Síðan þá hefur bókinni auðvitað vegnað vel og Lessing hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2007. Hann minnir okkur á þegar hún fékk fregnirnar fyrir utan heimili sitt í London, „grumpily expressing her irritation at having her life interrupted this way“ (bls. 139). Ef þið hafið ekki séð stikluna flettið henni þá endilega upp á netinu. Hún hafði ekki hugmynd um út af hverju fréttamenn biðu hennar þegar hún kom heim eftir matarinnkaupin og viðbrögð hennar voru: „Oh Christ!“

Nokkrir bókatitlar í ritstjórn Robert Gottlieb

Toni Morrison var enn annar rithöfundur hans sem hlaut Nóbelsverðlaunin, árið 1993, og þeirra faglega samband var gott. Innan um mikla velgengni voru að sjálfsögðu titlar sem gengu illa og ritstjórnarstarfið var ekki laust við slæma reynslu (honum líkaði illa við Roald Dahl (einnig starfsfólki Knopf) og fannst V.S. Naipaul, einnig Nóbelsskáld, vera „snobbaður“ en „frábær rithöfundur“). Sumir rithöfundar stukku frá borði (t.d. Salman Rushdie og Don DeLillo):
It's hard to convince a colleague (or oneself) that it's not personal—that a writer's chief concern is, and should be, protecting himself and his books as he thinks fit. If the editor and publisher don't provide that sense of security, they're not doing their job, which is first, last, and always a service job: What we're there for is to serve the writer and the book. That doesn't mean I haven't been stung when an author I valued moved on. (bls. 176)
Þegar Bill Clinton ákvað að skrifa æviminningar sínar valdi hann Gottlieb sem ritstjóra (hann var þá kominn aftur til Knopf eftir fimm ár hjá The New Yorker). Þið sem hafið lesið My Life  munið örugglega eftir öllum nafnaupptalningunum (tengdapabbi skilaði mér bókinni; gafst upp), en það dregur ekki úr þeirri staðreynd að bókin var vel skrifuð. Það lýsir ritstjórnarsambandi þeirra vel þegar Gottlieb skrifar út á spássíu: „This is the single most boring page I've ever read.“ Clinton sendir gögnin til baka og hefur bætt við: „No, page 511 is even more boring!“ (bls. 253 ).



Bók Gottlieb er ekki gallalaus. Talið um hann og fjölskyldu hans í fríum með, eða í náinni vináttu við, þennan höfundinn eða hinn samstarfsmanninn og fjölskyldur þeirra er of oft endurtekið, og nær þeim punkti að manni gæti ekki verið meira sama. Alla vega mér. Það eru undantekningar; nokkrar kímnar sögur. Þegar Katherine Graham heitin var að skrifa sjálfsævisögu sína Personal History heimsótti hann hana til Washington til að lesa yfir og gisti á heimili hennar í Georgetown. „[O]ver the years we established an easygoing routine—breakfast, for instance, in slippers and dressing gowns at side-by-side tables in the library, with the Post waiting for her and the Times waiting for me“ (bls. 242). Bók hennar varð metsölubók og hlaut Pulitzer árið 1998.

Það er einnig kafli um dans sem ég hef mínar efasemdir um. Gottlieb, sem er mikill ballettunnandi, gerðist dansgagnrýnandi fyrir The New York Observer. Þeir sem fylgjast með dansheiminum í NY hafa örugglega gaman af þessum kafla en eina ástæðan fyrir því að ég tengdi við hann er sú að fyrir nokkrum árum síðan las ég báðar æviminningar fyrrum ballerínunnar Gelsey Kirkland, Dancing on My Grave og The Shape of Love.


Gottlieb er ritstjóri sem sjálfur gerðist rithöfundur, en hann hafði engin plön um slíkt. Á meðal verka hans eru Collected Stories, sögusafn Rudyard Kipling (sem fékk Susan Sontag til að hrópa í bókabúð: „Bob, I didn't know you could write so well!“ (bls. 295)), Sarah: The Life of Sarah Bernhardt (fyrir Jewish Lives bókaseríu Yale University Press), George Balanchine: The Ballet Maker, Great Expectations: The Sons and Daughters of Charles Dickens og Reading Jazz.

Á meðan lestrinum stóð var ég stöðugt að spyrja sjálfa mig að því hvernig maðurinn hafði eiginlega tíma og orku fyrir allt sem honum varð úr hendi (stuðningur eiginkonu hans, leikkonunnar Maria Tucci, er án efa ein skýringin). Ég fann svarið í lokakaflanum:
Why, also, considering that my personality is so relentlessly ebullient, have I since childhood felt so melancholic, perhaps even depressive? I suspect that I've summoned up my hyper-energy to keep running fast enough to ward off that depressive tendency—the few times I brushed against the real thing were so distressing that it's no wonder I've done everything possible to avoid it. (bls. 311)
Hann var alinn upp á brotnu heimili - þau lásu við matarborðið í stað þess að tala saman - og virðist muna eftir barnæsku sinni í bókum. Snemma í bókinni viðurkennir hann að hann hafi verið í átta ár í sálgreiningu. Það var þá sem ég hugsaði, Ókei, hann hefur enga þörf fyrir að kafa djúpt í þessari bók. Hann er búinn. Ég er ekki að meina að bókin sé yfirborðskennd. Hann dvelur einfaldlega ekki við hlutina og fastheldni virðist ekki há honum. Það er líka ágætt að hafa í huga að hann hafði aldrei í hyggju að skrifa þessa bók. Hann gerði það bara fyrir dóttur sína (takk, Lizzie!) sem vildi að tvíburasynir sínir gætu kynnst ævistarfi afa gamla.

Það eru nokkrar vikur síðan ég lauk lestri Avid Reader: A Life og ég er enn með bókina í bunkanum sem ég tek með mér úr einu herbergi í annað. Ég er enn að fletta í gegnum hana og nóta hjá mér titla sem mig langar að lesa. Þetta er bók sem ég hafði virkilega gaman af. Ef ég á að gefa bókaunnendum ráð: hafið minnisbók við höndina því á meðan lestrinum stendur mun langar-að-lesa listinn ykkar verða enn lengri!

Avid Reader: A Life
Höf. Robert Gottlieb
Farrar, Straus and Giroux
Innbundin, 337 blaðsíður, myndskreytt
Kaupa



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.