föstudagur, 28. október 2016

Lestrarstund með persanum mínum

Lestrarstund með persanum mínum · Lísa Hjalt


Ég hef komið mér upp föstudagsrútínu sem mér er farið að þykja vænt um. Á ákveðnum tíma skelli ég mér í þægileg föt og snyrti heimilið fyrir helgina og tek svo kaffipásu. Á þessum punkti birtist yfirleitt persakötturinn okkar, hoppar upp á borðið, treður sér á milli bókanna og tekur sér góðan tíma að finna rétta staðinn. Hann liggur og fylgist með mér á meðan ég les og drekk kaffi og við „spjöllum“ saman. Hann byrjar að mala og ég strýk honum, svo rís hann upp, snýst í hringi þar til hann finnur rétta staðinn aftur og sofnar; sefur í nokkrar klukkustundir á sama stað. Ég tók myndina af honum um hádegisbilið í dag og klukkan er um hálftíu um kvöld og hann sefur þarna enn! Eftir að börnin komu heim úr skólanum voru þau að horfa á Netflix í stofunni og það hafði engin áhrif á hann, hann lætur ekkert trufla sig. Dásamlegur.

Í dag var ég að lesa tvær bækur: Pósturinn kom loksins með Avid Reader: A Life, æviminningar ritstjórans Robert Gottlieb sem ég setti á nýjasta bókalistann. Síðasta föstudag, klukkutíma eða svo eftir að ég deildi listanum á blogginu, hringdi bjallan og póstmaðurinn færði mér pakka: gjöf frá höfundinum Francisca Mattéoli, eintak af nýjustu bók hennar: Map Stories: The Art of Discovery - svo falleg bók með gömlum landakortum og skemmtilegum sögum. Það er virkilega gaman að lesa hana; ég ætla að fjalla um hana á blogginu síðar.

Góða helgi!Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.