fimmtudagur, 31. júlí 2014

augnablikið 16Bloggvinkona mín Ada, sem heldur úti afar fallegu tískubloggi, Classiq, deildi þessari mynd í gær og ég hreinlega fæ ekki nóg af henni. Myndin birtist í Vogue árið 1985, fyrir þann tíma sem öllum myndum var umbreytt í tölvu. Þvílíkur munur að sjá fyrirsætu á mynd sem er bara förðuð, að sjá eðlilega húð undir farðanum. Hvað ég myndi óska að svona tímabil kæmi aftur í tískuljósmyndun!

mynd:
Hans Feurer fyrir Vogue US, 1985 • fyrirsæta Linda Spearing • stílisering Françoise Havan af blogginu Classiq

miðvikudagur, 30. júlí 2014

Hönnuðurinn Urte Tylaite hjá Still House í spjalli


Ef þið eruð búsett í eða á leiðinni til New York þá gæti það verið góð hugmynd að rölta um East Village hverfið og kíkja í hönnunarbúðina Still House, sem er í eigu skartgripahönnuðarins Urte Tylaite. Hún fæddist í Litháen en flutti til New York þegar hún var 18 ára og lærði í Pratt. Í búðinni er að finna fallega handgerða muni frá hinum og þessum hönnuðum og listafólki - til dæmis keramik, glervörur, skartgripi og bréfsefni - og hennar eigin skartgripalínu. Urte var svo væn að samþykkja stutt viðtal fyrir náttúruleg efni bloggseríuna mína og að sjálfsögðu spurði ég hana hvað væri að finna í kaffibollanum hennar!


Hvað varð til þess að stelpa fædd í Litháen endaði sem hönnuður í New York?
Fjölskylda mín flutti til Bandaríkjanna þegar ég var á síðasta ári í menntaskóla. Þó svo ég talaði varla ensku þá var ég staðráðin í að fara beinustu leið í háskóla. Upprunalega, þegar ég bjó enn í Litháen, ætlaði ég að verða lögfræðingur, jafnvel pólitíkus, en með enga ensku virtist það vera tímasóun. Í staðinn valdi ég listaskóla. Í mörg ár hafði ég sótt listanámskeið og hafði sett saman möppu þrátt fyrir að hafa aldrei hugsað mér að starfa við list. Þannig endaði ég í Pratt þar sem ég nam listmálun. Foreldrar mínir voru ekki sáttir við þessa ákvörðun.

Að námi loknu reyndi ég að fá vinnu í listaheiminum en það virtist ekki henta mér. Til að ná endum saman starfaði ég fyrir nokkra skartgripahönnuði í Brooklyn og féll fyrir iðninni. Ég vann eins mikið og ég gat til þess að læra allt um geirann og heildsöluna og á kvöldin sótti ég tíma í skartgripahönnun. Það kom að því að vinnan var ekki að kenna mér neitt nýtt. Ég var tilbúin fyrir nýjar áskoranir. Ég sá tvær leiðir, annaðhvort að fá vinnu hjá mun stærra fyrirtæki eða að fara út í minn eigin rekstur. Það síðarnefnda átti betur við mig.


Hvað var þér efst í huga, hverjir voru draumar þínir, þegar þú útskrifaðist frá Pratt?
Það er skrýtið að viðurkenna það, en ég hafði ekki skýra sýn á það sem ég vildi gera. Hugmyndir mínar voru meira almenns eðlis. Ég vissi að ég var tilbúinn að leggja hart að mér. Ég vildi líka finna fyrir ástríðu gagnvart vinnunni og virklega njóta hennar, og starfa með fólki sem mér líkaði við og dáði. Ég var bara í leit að spennu og gleðilegum augnablikum því í slíkum aðstæðum fékk ég alltaf nýjar hugmyndir. Ein hugmynd leiddi til annarrar og hér er ég í dag - eigandi búðar og skartgripahönnuður.

Hvaða 3 lykilorð myndirðu nota til að lýsa hönnun þinni?
Lítt áberandi, einföld, tímalaus.


Af hverju að opna búð, Still House, í East Village?
Ég var alltaf svo hrifin af East Village. Ég endaði í þessu hverfi á mínum fyrstu dögum í New York og það togaði strax í mig. Þetta er frábært hverfi til að fara út á kvöldin, en ég naut þess alltaf að koma aftur að degi til og rölta um. Og ég hafði alltaf ástæðu til að koma aftur. Ég þjónaði til borðs á veitingastað hér rétt hjá þegar ég var í skóla, ég var að hitta strák sem bjó í hverfinu, og nokkrir af mínum bestu vinum bjuggu hér. Þegar ég byrjaði að leita að húsnæði fyrir búð þá sjálfkrafa spurðist ég fyrir um rými í East Village því það var hverfið sem ég þekkti best.Hvað er eiginlega með þig og grjót og steina?
Undarlega er það ástríða sem ég þróaði með mér á fullorðinsárum. Ég vann fyrir skartgripulínu Swallow í Brooklyn. Þau eru með úrval af fallegum hálsmenum með gimsteinum. Ég lagði nöfnin á minnið til þess að vita hvað ég væri að selja. Þegar ég byrjaði að hanna mína eigin skartgripi þá sótti ég sölusýningar með steinum og perlum, og uppgötvaði söluaðila sem buðu einnig upp á náttúrulega steina og grjót og ég féll kylliflöt fyrir þessu. Fyrir mér er þetta áminning um hversu heillandi, fallegur og dularfullur þessi heimur er. Ég elska litina, sem geta komið á óvart, og formin. Grjót og steinar eru munir sem vekja eftirtekt og viðskiptavinir mínir eru einstaklega hrifnir af því að skreyta heimili sín með þeim.

Geturðu nefnt hönnuði sem hafa haft áhrif á verk þín og af hverju?
Ég verð að segja að það er aðallega fólk sem veitir mér innblástur, ekki endilega verk þess. Þetta er ástæða þess að ég elska New York svo mikið. Við erum stöðugt umkringd ástríðufullu og sterku fólki sem elskar lífið.


Hvert ferðu til að sækja innblástur?
Ég tek frídag og slaka á. Nýju munirnir í Still House skartgripalínunni urðu til þar sem ég lá á ströndinni á Long Island fyrir nokkrum helgum síðan. Flestar hugmyndirnar að megin vörulínu minni urðu til í göngutúrum norðar í New York-fylki. Hönnun mín er ekki innblásin af náttúrunni, en ég er það. Þegar ég er úti í náttúrunni fyllist hugurinn af nýjum og ferskum hugmyndum. Strax eftir frídaga reyni ég alltaf að eyða nokkrum dögum á vinnustofunni til þess að vinna úr þessum hugmyndum.

Urte, drekkurðu kaffi, og ef já, hvað er í kaffibollanum þínum?
Ó já! Ég byrja hvern morgun á sterku uppáhelltu kaffi með smá mjólk út í. Og ég fæ mér meira kaffi þegar ég nálgast búðina mína. Við erum svo heppin að það er fullt af kaffihúsum í East Village. Abraco er langbesta kaffihúsið. Ég mæli með að þið kíkið þangað næst þegar þið eruð í grenndinni.


Still House búðin er staðsett á 117 East 7th street. Ef þið komist ekki til New York til að kíkja í búðina þá er engin ástæða að örvænta því það er líka netverslun.


myndir:
Urte Tylaite + Still House

þriðjudagur, 29. júlí 2014

Rýmið 69- forstofa í sveitasetri á Long Island
- hönnuður og eigandi Thomas O'Brien

Thomas O'Brien, eigandi Aero Studios, er einn af mínum uppáhaldshönnuðum. Ég sæki reglulega innblástur í hönnun hans, sérstaklega þegar ég finn back-to-the-basics þörf hjá mér (afsakið enskuslettuna); þegar ég er komin með leið á hönnuðum sem missa sig í litagleði eða eru mjög yfirdrifnir. Það er eitthvað jarðbundið við O'Brien án þess að verða leiðinlegt. Ég er sérstaklega hrifin af því hvernig hann blandar gömlu og nýju og hvernig hann stíliserar smáhluti. Ég hef sýnt ykkur vinnustofu hans í risi hans á 57 Street í New York og í dag, á ensku útgáfunni, deildi ég mynd úr svefnherberginu, en þar hefur hann raðað myndarömmum á smekklegan máta.

Ég er að fara í gegnum eitt O'Brien-tímabilið núna því ég er að lesa bókina hans, American Modern, sem ég fékk í afmælisgjöf nú í júlí, en hún hafði verið lengi á óskalistanum. Risíbúð hans í New York og sveitasetrið, sem kallast Academy því það var einu sinni gömul skólabygging, birtast í bókinni. Ég mæli sérstaklega með þessari bók fyrir þá sem hafa áhuga á innanhússhönnun og eru að leita eftir fallegri bók á stofuborðið sem inniheldur ekki bara myndir heldur ríkan texta líka.

mynd:
Laura Resen, úr bókinni American Modern eftir Thomas O'Brien af vefsíðu Aero Studios

mánudagur, 28. júlí 2014

Skreppitúr til Luxembourg

Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Hjalt


Sæl að nýju! Ég vona að þið hafið haft það gott síðustu tvær vikurnar. Í fríinu skruppum við til Luxembourg með stuttu stoppi í London. Þegar við keyrðum inn í London áttaði ég mig á því hvað ég hafði saknað borgarinnar. Við Marble Arch barðist hjartað hraðar og við Hyde Park Corner var ég orðin yfir mig spennt (svæðið er hluti af London-þægindarammanum mínum). Mér fannst stoppið í London alltof stutt en um kvöldið þegar ég stóð á dekki ferjunnar sem flutti okkur yfir til Frakklands, andaði að mér fersku sjávarlofti og dáðist að Hvítu klettunum í Dover, þá var ég heldur betur sátt.


Af hverju London-inngangur að pósti um Luxembourg? Miðað við spennuna sem ég upplifði að koma aftur til London þá komu viðbrögð mín við Luxembourg mér svolítið á óvart. Flestir sem rata inn á þetta blogg mitt vita að við bjuggum í Luxembourg í meira en eitt ár og flutningarnir til Englands í nóvember í fyrra gerðust frekar hratt. Ég náði eiginlega ekki að kveðja borgina. Án þess að vera sérstaklega upptekin af slíkum hugsunum þá velti ég því stundum fyrir mér hvort ég ætti kannski einhverju ólokið í Luxembourg, en þegar ég gekk um stræti borgarinnar að nýju - hefði getað gert svo með bundið fyrir augun og samt ratað - þá uppgötvaði ég að ég átti akkúrat engu ólokið. Ef það var einhver örlagahnútur á milli mín og Luxembourg þá hafði hann verið leystur.
Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég vona að tónn minn hljómi ekki neikvæður. Gamla borgin mín er svo sannarlega þess virði að heimsækja og ég mæli sérstaklega með henni fyrir þá sem eru ekki hrifnir af stórum og hávaðasömum borgum og eru frekar í leit að rólegheitum (fyrir þá sem vilja næturlíf er Luxembourg sennilega hundleiðinleg). Borgin er lítil og kyrrlát og í henni eru ekki bara þröng hellulögð stræti heldur stórbrotin náttúra í henni miðri. Það er hægt að ganga niður í Pétrusse-dalinn og á sumum stöðum þarf maður að minna sig á að maður er staddur í borg.
Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég fór með syni mínum í göngu um dalinn og við enduðum í gamla hlutanum, Grund, þar sem ég tók þessar myndir áður en við settumst niður utandyra á kaffihúsi. (Sjá fleiri myndir frá Luxembourg.) Fyrir mér er þessi hluti borgarinnar alltaf meira eins og sögusvið ævintýris heldur en staður þar sem fólk býr. Ég hef heyrt að gamli hlutinn sé rándýr og að þar búi aðallega útlendingar, sem mér finnst frekar dapurleg staðreynd. En málið er að í Luxembourg er einn dýrasti húsnæðismarkaður Evrópu. Sumir útlendingar sem vinna þar, og sumir innfæddir líka, kjósa að búa frekar hinum megin við landamærin, í Þýskalandi, Frakklandi eða Belgíu. Þegar maðurinn minn var að vinna þarna þá var það einn möguleiki, að búa í suðurhluta Belgíu. Við sem sagt hugsuðum um það að flytja frá Antwerpen í borg eða bæ í suðurhlutanum, en ég er ánægð að við gerðum það ekki og upplifðum að búa í Luxembourg.
Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Hjalt


Grund-hverfið, Luxembourg, júlí 2014

laugardagur, 12. júlí 2014

Góða helgiÉg er einum degi of sein með þennan póst. Ég átti afmæli í gær og hélt mig að mestu fjarri tölvunni til að njóta sólarinnar og nýju bókanna minna. Ég verð í bloggfríi næstu tvær vikurnar. Ég er að vonast til að kynnast svæðinu hér í kring betur og að komast út að strönd því það er orðið langt síðan ég dýfði tánum í sjóinn.

Ég óska ykkur góðrar helgar!

mynd:
El Mueble

fimmtudagur, 10. júlí 2014

Innlit: hönnuðurinn Naja Munthe í FrederiksbergÞegar innlit hafa birst á mörgum bloggum þá reyni ég helst að forðast að birta þau á mínu, en sum eru bara þannig að þau láta mig ekki í friði og ég stend sjálfa mig að því að skoða myndirnar reglulega. Þessi lúxusíbúð danska tískuhönnuðarins Naja Munthe í Frederiksberg er eitt þeirra. Innlitið er óhefðbundið því myndirnar birtust upphaflega í bók hennar Fashionable Living. Eins og sjá má er heimili hennar allt hið smekklegasta. Ég er sérstaklega hrifin af svörtu gluggarömmunum og ljósakrónunum, og sem yfirlýst bókakona þá finnst mér alltaf heillandi að sjá stafla af bókum innan um skrautmuni.


myndir:
Morten Koldby úr bókinni Fashionable Living eftir Naja Munthe, af Agua Marina Blog

miðvikudagur, 9. júlí 2014

Eftirminnilegt sumarÉg ætlaði að birta innlit á blogginu í gær en allt í einu var klukkan orðin ellefu um kvöld og augnlokin byrjuð að síga. Svona er þetta bara stundum, en eins og ég hef þegar bent á þá læt ég ensku útgáfu bloggsins ganga fyrir. Um daginn var ég ég að hugsa um síðasta sumar (svo margt hefur breyst síðan þá) og hversu upptekin ég var af lavender. Í minningunni verður það bara lavender-sumarið mikla. Þetta sumar er öðruvísi því nú sé ég ekki neitt nema rendur án þess að ég sé að leita eitthvað sérstaklega að þeim. Þetta safn af ljósmyndum lýsir ástandinu mjög vel.Ég vona að sumarið leiki við ykkur!


myndir:
1: Justin Sullival fyrir Style Me Pretty Living • stílisering: Aaron Hartselle | 2: Olivia Kanaley - A Field Journal af Pinterest | 3: Nour El Nil ferðir af blogginu My Paradissi | 4: Howell Conant • Grace Kelly á Jamaica, 1955 af blogginu Classiq | 5: Ikea af Tumblr | 6: Scott Frances fyrir Architectural Digest, júlí 2013 | 7: Sarah - A Beach Cottage af blogginu The Style Files | 8: Ragnar Ómarsson fyrir Ikea Livet Hemma | 9: J.Crew júní 2014 bæklingur • fyrirsæta Cameron Russell

fimmtudagur, 3. júlí 2014

Rýmið 68
Í apríl á ensku útgáfunni birti ég gamalt innlit á heimili hönnuðarins og bloggarans Mark D. Sikes í Hollywood Hills í Kaliforníu. Ég hélt að svo til allir í bloggheimum hefðu séð þetta innlit á sínum tíma og átti því ekki von á hversu vinsæll pósturinn varð. Hvað um það, Sikes og sambýlismaður hans eru búnir að gera breytingar á heimili sínu og þessi tiltekna mynd úr nýjasta hefti Veranda sýnir hluta stofunnar séð frá veröndinni. Mér finnst gluggarnir svo fallegir og ég er alltaf hrifin af stórum vösum með blómstrandi greinum.

mynd:
Roger Davies fyrir Veranda af bloggi Mark D. Sikes

miðvikudagur, 2. júlí 2014

Eftirminnilegt sumarÞessi færsla er líkari þeim sem ég birti í seríunni tískuþátturinn en það var eitthvað við sumarstemninguna í þessum tískuþætti tímaritsins Marie Claire Australia sem passaði vel við hluta af herrafatalínu Berluti vorið 2014.Ég vona að sumarið leiki við ykkur!

myndir:
1, 4, 7: Nicole Bentley fyrir Marie Claire Australia, apríl 2013 • Denisa Dvorakova í ,Into Temptation' • stílisering Jana Pokorny af síðunni Fashion Industry Archive | 2-3, 5-6: Berluti herrafatalína vor 2014 af vefsíðu Style.com

þriðjudagur, 1. júlí 2014

Innlit: sveitasæla á Martha's VineyardÞetta fallega heimili á eyjunni Martha's Vineyard er í eigu amerískra hjóna sem fengu nóg af borgarlífinu í London og ákváðu að breyta um lífsstíl þegar þau fluttu aftur til Bandaríkjanna. Þau fengu arkitektinn Mark Hutker til að hanna fyrir sig hús og hlöðu og sneru sér að lífrænum búskap. Eins og sjá má þá er heimilið hlýlegt, prýtt hlutlausum tónum og stíllinn einfaldur. Hráir viðarbitar í loftum eru skemmtilegt mótvægi við nútímalegar innréttingar og stórir gluggar hleypa inn náttúrulegri birtu.

Mér finnst alltaf svolítið skemmtileg útfærsla að vera með skrifborð fyrir aftan sófa í stofum, ef nægilegt rými er fyrir hendi. Mér finnst líka eldhúsbekkurinn upp við gluggann, sem einnig er nýttur sem geymslurými, ákaflega skemmtileg lausn. Það sést ekki mjög vel á myndinni en mér sýnist glugginn í svefnherberginu vera notaður sem leskrókur.


myndir:
Nikolas Koenig fyrir Architectural Digest