mánudagur, 28. júlí 2014

Skreppitúr til Luxembourg

Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Hjalt


Sæl að nýju! Ég vona að þið hafið haft það gott síðustu tvær vikurnar. Í fríinu skruppum við til Luxembourg með stuttu stoppi í London. Þegar við keyrðum inn í London áttaði ég mig á því hvað ég hafði saknað borgarinnar. Við Marble Arch barðist hjartað hraðar og við Hyde Park Corner var ég orðin yfir mig spennt (svæðið er hluti af London-þægindarammanum mínum). Mér fannst stoppið í London alltof stutt en um kvöldið þegar ég stóð á dekki ferjunnar sem flutti okkur yfir til Frakklands, andaði að mér fersku sjávarlofti og dáðist að Hvítu klettunum í Dover, þá var ég heldur betur sátt.


Af hverju London-inngangur að pósti um Luxembourg? Miðað við spennuna sem ég upplifði að koma aftur til London þá komu viðbrögð mín við Luxembourg mér svolítið á óvart. Flestir sem rata inn á þetta blogg mitt vita að við bjuggum í Luxembourg í meira en eitt ár og flutningarnir til Englands í nóvember í fyrra gerðust frekar hratt. Ég náði eiginlega ekki að kveðja borgina. Án þess að vera sérstaklega upptekin af slíkum hugsunum þá velti ég því stundum fyrir mér hvort ég ætti kannski einhverju ólokið í Luxembourg, en þegar ég gekk um stræti borgarinnar að nýju - hefði getað gert svo með bundið fyrir augun og samt ratað - þá uppgötvaði ég að ég átti akkúrat engu ólokið. Ef það var einhver örlagahnútur á milli mín og Luxembourg þá hafði hann verið leystur.
Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég vona að tónn minn hljómi ekki neikvæður. Gamla borgin mín er svo sannarlega þess virði að heimsækja og ég mæli sérstaklega með henni fyrir þá sem eru ekki hrifnir af stórum og hávaðasömum borgum og eru frekar í leit að rólegheitum (fyrir þá sem vilja næturlíf er Luxembourg sennilega hundleiðinleg). Borgin er lítil og kyrrlát og í henni eru ekki bara þröng hellulögð stræti heldur stórbrotin náttúra í henni miðri. Það er hægt að ganga niður í Pétrusse-dalinn og á sumum stöðum þarf maður að minna sig á að maður er staddur í borg.
Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég fór með syni mínum í göngu um dalinn og við enduðum í gamla hlutanum, Grund, þar sem ég tók þessar myndir áður en við settumst niður utandyra á kaffihúsi. (Sjá fleiri myndir frá Luxembourg.) Fyrir mér er þessi hluti borgarinnar alltaf meira eins og sögusvið ævintýris heldur en staður þar sem fólk býr. Ég hef heyrt að gamli hlutinn sé rándýr og að þar búi aðallega útlendingar, sem mér finnst frekar dapurleg staðreynd. En málið er að í Luxembourg er einn dýrasti húsnæðismarkaður Evrópu. Sumir útlendingar sem vinna þar, og sumir innfæddir líka, kjósa að búa frekar hinum megin við landamærin, í Þýskalandi, Frakklandi eða Belgíu. Þegar maðurinn minn var að vinna þarna þá var það einn möguleiki, að búa í suðurhluta Belgíu. Við sem sagt hugsuðum um það að flytja frá Antwerpen í borg eða bæ í suðurhlutanum, en ég er ánægð að við gerðum það ekki og upplifðum að búa í Luxembourg.
Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Hjalt


Grund-hverfið, Luxembourg, júlí 2014

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.