Sýnir færslur með efnisorðinu ferðalög. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ferðalög. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 26. september 2019

Gæðastundir í Austurríki

Landslag við vatnið Traunsee, Austurríki · Lísa Stefan


Ég hef ég ekki lagt það í vana minn að blogga myndum sem ég deili á Instagram, fyrir utan eina og eina, en síðustu mánuði hefur tíminn til að blogga verið takmarkaður og mikið hefur gerst: Við fluttum nýverið til Austurríkis, báðar dæturnar hófu háskólanám erlendis á þessari haustönn og ég sjálf ákvað að skipta um gír: ég byrjaði í meistaranámi í safnafræði sem Háskóli Íslands býður upp á í fjarnámi. Kennslubækur, fyrirlestrar og verkefni halda mér upptekinni en mér fannst bloggið þurfa á uppfærslu að halda og ákvað að nota myndir úr safninu, af Traunsee-svæðinu og bókabúð í Vín ásamt námstengdum kyrralífsmyndum.

Ég var að koma í fyrsta sinn til Traunsee-svæðisins og gleymi ekki augnablikinu þegar vatnið blasti við mér. Landslagið er svo fallegt að mann verkjar í hjartað. Við keyrðum í gegnum lítil þorp á sólríkum sunnudegi, snæddum hádegisverð við vatnið í Altmünster og þar á eftir fórum við til Gmunden. Eilítið síðar var okkur boðið í garðveislu í Gmunden þar sem við sátum í hlíð undir berum himni með vatnið í augnsýn, og Traunstein-fjallið svo nálægt að það var sem við gætum teygt út höndina og snert það.
Bókin „I Remain in Darkness“ eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo) · Lísa Stefan


Ég elska að finna bækur frá útgefendum í póstkassanum. Starfsfólk Fitzcarraldo Editions var svo elskulegt að senda mér I Remain in Darkness eftir Annie Ernaux sem kom út í Bretlandi í síðustu viku (ensk þýðing úr frönsku eftir Tanya Leslie). Ég lýsti bókinni með þessum hætti á Instagram: „Þetta er frásögn höfundar um þá reynslu að missa móður sína úr Alzheimer. Þessi stutta bók er kröftug, full af hráum, sársaukafullum tilfinningum. Stundum þarf ég að taka mér hlé frá lestrinum til að meðtaka eina setningu, eða aðeins eitt orð.“ Bókin verður á næsta bókalista.
Bókabúðin Shakespeare & Co., Sterngasse, Vín · Lísa Stefan


Eftir að hafa fylgt elstu dótturinni á flugvöllinn í Vín einn morgun nýtti ég restina af deginum í borginni. Það var orðið ansi langt síðan ég kom til Vínar og mitt fyrsta verk var að skella mér í neðanjarðarlestina. Ég fór út á Schwedenplatz og rölti í áttina að Sterngasse í Gyðingahverfinu, þar sem má finna bókabúð sem selur enskar bækur, Shakespeare & Co. (ekki útibú frá þeirri í París). Búðin er gamaldags í útliti og lítil en úrval bóka er merkilega gott.

Bókabúðin Shakespeare & Co., Sterngasse, Vín · Lísa Stefan
Ensk bókabúðin Shakespeare & Co. á Sterngasse í Vín

Ég rölti aðeins um hverfið, síðar eftir götunum Fleischmarkt og Postgasse í austurátt. Allt iðaði af lífi, alls staðar sat fólk úti í sólinni á litlum kaffi- og veitingahúsum. Yndisleg stemning, einkar evrópsk, hvernig svo sem það kann að hljóma. Ég greip sushi og settist á bekk í Stadtpark undir skugga trés og fylgdist með mannlífinu. Ég tók svo stefnuna í suðurátt að Belvedere-höllinni, spókaði mig aðeins um og naut fegurðarinnar. Í þetta sinn fór ég ekki á Belvedere-safnið; ég hef komið þangað áður og hafði lofað eldri dótturinni að fara með henni einn daginn að kíkja á Kossinn eftir Gustav Klimt og fleiri verk.
Námsmannalíf · Lísa Stefan


Þar sem námið mun halda mér upptekinni gefst minni tími fyrir annan lestur og bókamyndatökur. Bráðum ætla ég þó að deila nýjum bókalista. Ég er með nokkrar hugmyndir um hvernig ég get haldið blogginu meira lifandi á meðan ég er í námi og ein er að byrja með nýjan flokk með bókarkápum. Mig langar að gefa sumum kápum varanlegan sess á blogginu, einkum til að hrósa fallegri bókahönnun. Svo eru nokkrar færslur sem mér finnst ég skulda, þá aðallega lestrarkompufærslur. Ef ykkur finnst lítið gerast á blogginu þá getið þið alltaf kíkt á @lisastefanat en þar deili ég aðallega bókamyndum af og til.



þriðjudagur, 30. janúar 2018

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan


Eftir að hafa skellt okkur nokkrum sinnum til Edinburgh síðasta sumar þá finnst mér ég þegar geta tengt við upplifun Alan Rickman heitins af skosku höfuðborginni: „I always feel that when I come to Edinburgh in many ways I am coming home“ (heimild). Við vorum í Edinburgh á meðan Fringe-listahátíðin stóð yfir, þegar borgin iðar af lífi og menningu, og sköpuðum ógleymanlegar minningar. Waterstones á Prince Street, West End-útibúið þeirra, rataði á lista okkar yfir heimili að heiman: Bókabúðin, sem er á fjórum hæðum, er Fyrirheitna land bókaunnandans með frábært úrval bóka og afslappandi andrúmsloft, svo ekki sé minnst á kaffihúsið, W Café, með stórkostlegu útsýni yfir til Kastalahæðarinnar.

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan
Kastalahæðin séð frá W Café

Til að forðast mannmergðina á götunum gengum við í gegnum Princes Street-garðana á leið okkar frá Waverley-stöðinni út í Waterstones, nutum veitinga og dvöldum lengur en við ætluðum okkur - við gáfum okkur tíma fyrir Waterstones í hverri ferð. Á bak við bygginguna, samhliða Princes St og George St, liggur hin heillandi Rose Street, sem er þröng gata, laus við umferð, þar sem má finna allt að því óteljandi veitingahús og krár.
Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan
W Café, bókakaffi Waterstones

Victoria Street í Old Town, gamla borgarhlutanum

Í Edinburgh gengum við út um alla miðborgina: upp að Kastalanum og niður á Grassmarket, upp hina frægu götu Victoria Street, meðfram Royal Mile (High St), þar sem við skoðuðum ýmsa króka hennar og kima, og þaðan í áttina að Calton Hill. Upp þrepin að hæðinni fórum við til að njóta glæsilegs útsýnis yfir borgina. Við lögðum það meira að segja á okkur að labba upp þrepin í Nelson Monument. Það var þess virði.

Princes Street séð frá Calton Hill

Edinburgh: Calton Hill · Lísa Stefan
Kastalinn frá Calton Hill, og til hægri, Scott Monument, minnisvarði í gotneskum stíl




mánudagur, 5. september 2016

Múmín-búðin, Covent Garden, London



Í dag tek ég ykkur með til London, í þetta sinn til að dást að ytra útliti Múmín-búðarinnar, sem er staðsett hjá markaðsbásunum í Jubilee Market Hall í Covent Garden (beint á móti St Paul's-kirkjunni). Búðin var einn áfangastaðurinn sem við lofuðum börnunum. Þetta er sæt, lítil búð, eins konar mekka fyrir aðdáendur persónanna í Múmíndal. Það er nú ólíklegt að íslenskir lesendur þekki ekki til Múmínálfanna, en ef þið eruð að heyra um þá í fyrsta sinn þá eru þeir sköpun finnsku listakonunnar og rithöfundarins Tove Jansson (1914-2001). Bækur hennar voru þýddar á fjölda erlendra mála og sögur hennar eru klassískar.



Ég man ekki eftir tíma þar sem Múmínálfarnir voru ekki hluti af tilverunni; við eigum alla mynddiskana. Á þessum síðustu árum með tíðum búferlaflutningum hafa þeir verið eins konar festa. Við skírðum meira að segja persnesku læðuna okkar eftir einni persónunni, Míu litlu. Kannski hefur þetta eitthvað með norrænu ræturnar að gera, eða að þetta er bara okkar leið til að halda í sakleysi barnæskunnar. Ég er ekki stressuð manneskja - held að ég hafi fengið heilbrigðan skammt af kæruleysi í vöggugjöf - en þegar sú stund rennur upp að börnin vilja ekki horfa á Múmínálfanna, þá fyrst hrynur mín veröld. Viss um það.

Ég held að það sé kyrrðin í Múmíndal sem höfðar til mín. Ég er ekki beint hrifin af teiknimyndum og mér finnst þær oft svo yfirdrifnar. Að horfa á Múmínálfana er allt önnur upplifun. Það er ævintýraheimur án hávaðans. Ég held að ég myndi lýsa þessu svona.



Á meðan börnin voru að skoða og versla endaði ég í einu horni búðarinnar þar sem bækurnr eru geymdar. Dásamlegt horn!

Ég er ekki með það á hreinu hvaða bækur eru fáanlegar á íslensku en fyrsta bókin um Múmínálfana var The Moomins and the Great Flood, sem kom út árið 1945. Þessi fallega innbundna útgáfa til hægri er myndskreytt af Tove Jansson sjálfri, hvað annað. Svo eru það Penguin-kiljurnar, í tímaröð:

· Comet in Moominland
· Finn Family Moomintroll
· The Exploits of Moominpappa
· Moominsummer Madness
· Moominland Midwinter
· Tales from Moominvalley
· Moominpappa at Sea
· Moominvalley in November




Eftir að önnur kiljan kom út, Finn Family Moomintroll, opnuðust Tove allar dyr, sem varð til þess að hún gerði teiknimyndasögurnar (t.d. Moomin: Bk. 1 : The Complete Tove Jansson Comic Strip) sem birtust fyrst árið 1954 í The Evening News, kvöldblaði sem kom út á London-svæðinu. Þið getið flett upp heimildarmynd um Tove og hennar störf á YouTube ef þið hafið áhuga á að vita meira um hana. Með kaldari tíð handan hornsins þá ætla ég að enda þetta á einni af mínum uppáhaldstilvísunum úr Finn Family Moomintroll (Múmínálfarnir leggjast í vetrardvala):
Don't worry we shall have wonderful dreams, and when we wake up it'll be spring.
- Snufkin (ísl. Snúður)


bókarkápa The Moomins and the Great Flood af vefsíðu Sort of Books | kiljukápur af vefsíðu Penguin

miðvikudagur, 17. ágúst 2016

Store Street Espresso, Bloomsbury, London

Kaffihúsið Store Street Espresso í Bloomsbury-hverfinu, London · Lísa Hjalt


Í síðustu viku brugðum við okkur til London og ég komst á sýninguna á verkum listakonunnar Georgia O'Keeffe í Tate Modern-safninu - ekki að ræða það að ég ætlaði að missa af henni! Ég þurfti á borgarferð að halda fyrir haustið. Við borðuðum á Wild Food Cafe í Neal's Yard, gengum um Covent Garden, Westminster og St. James's Park, og fórum í Whole Foods Market á Kensington High Street, sem má kalla matarheimilið okkar í London. Börnin spurðu meira að segja áður en við lögðum í hann, Við förum í WFM, er það ekki? Og við drukkum kaffi. Í hjarta Bloomsbury fékk ég besta lattebollann. Ég hafði lofað einum kaffinörd að fara á Store Street Espresso á 40 Store St (í raun í Fitzrovia-hverfinu). Þetta var loforð sem ég uppfyllti með glöðu geði á rölti okkar um Bloomsbury/Fitzrovia og kaffihúsið stóð undir væntingum mínum.



Ég var undir áhrifum Bloomsbury-hópsins þegar ég steig inn í Store St Espresso. Við höfðum gengið frá Bloomsbury St inn í Gower St og á húsi nr. 10 sá ég bláa plattann hennar lafði Ottoline Morrell. Ég vissi af honum þarna en samt tók hjartað kipp. Hún var ekki beint hluti af hópnum en hún studdi við listamenn og ef þið hafið t.d. lesið dagbækur og bréf Virginiu Woolf þekkið þið nafn Ottoline. Þetta var hugarástandið þegar ég pantaði mér latte.

Þetta var mjög hlýr og sólríkur dagur í borginni og við höfðum labbað ansi mikið þegar ég settist niður og tók fyrsta sopann, sem var himneskur. Store St Espresso er kaffihús mér að skapi. Stíllinn er mínimalískur, hrár og örlítið iðnaðarlegur. Andrúmsloftið er gott; afslappað. Gestirnir virðast vera í sínum heimi, í tölvunni, símanum eða lesandi. Sumir myndu örugglega kalla þetta stað fyrir hipstera en á meðan ég sat þarna sá ég allar týpur af fólki sem áttu það eitt sameiginlegt að njóta góðs kaffis.


Staðsetning Store St Espresso er frábær. Gatan er róleg, nálægt görðum og The British Museum. Ég hvet ykkur til að grípa kaffibolla ef þið eruð í hverfinu. Enn betra ef þið setjist niður. Það er notalegur gluggakrókur fyrir þá sem vilja fylgjast með götulífinu og í góðu veðri má sitja utandyra.
Kaffihúsið Store Street Espresso í Bloomsbury-hverfinu, London · Lísa Hjalt


Ég er ekki alveg búin með ferðina hér á blogginu en ég fékk svo sannarlega London-skammtinn minn. Hugurinn ráfar enn um götur Bloomsbury og mér er hugsað til Virginiu Woolf og vinahóps hennar. Hann ráfar líka um Tate, að dást að málverkum O'Keeffe. Til allrar lukku fór skoska sumarið í sparifötin þegar við komum heim þannig að ég gat byrjað að skrifa þetta á veröndinni með kaffibolla og klárað fyrir framan húsið, við hliðina á hortensíunum þar sem ég naut sólsetursins.

Það sem ég elska svona ágústdaga!


mánudagur, 13. júlí 2015

Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna

Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan


Á laugardaginn fagnaði ég afmælinu mínu í Whitby, sögulegum og fallegum bæ við sjávarsíðu North Yorkshire. Höfnin skiptir bænum í tvennt og er gamli hlutinn á austurbakkanum. Í Whitby má finna gömul hús, þröngar hellulagðar götur frá miðöldum, fallegar búðir, litríkar hurðir, krár, kaffihús, sandstrendur, kletta, svo við gleymum ekki frægum rústum Whitby Abbey, gotnesku kirkjunnar sem stendur á East Cliff-klettinum.
Höfnin í Whitby · Lísa Stefan


Whitby hljómar örugglega kunnuglega í eyrum þeirra sem hafa lesið klassísku, gotnesku hryllingssöguna Drakúla eftir Bram Stoker. Rússneskt skip sem Drakúla greifi ferðast með til Englands strandar við Whitby. Hann kemur í land í dulargervi svarts hunds og hefst þá „fjörið“! Eftir að hafa komið til Whitby þá verð ég að segja að sögusviðið er fullkomið.
Smábátahöfnin í Whitby með North York Moors-þjóðgarðinn í bakgrunni

Útsýnið í allar áttir frá tröppunum 199 er stórkostlegt. Þegar maður horfir yfir gömlu, rauðu húsþökin þá er eins og maður ferðist aftur í tímann eða að maður sé staddur í ævintýri. Ég mæli með því að labba inn í bæinn niður þessar tröppur sem eru með aðliggjandi hellulagðri brekku (það eru bílastæði á East Cliff-klettinum við rústir Whitby Abbey). Þegar farið er niður tröppurnar gengur maður beint inn í Church Street-götuna (sjá myndirnar hér að neðan), sem er sjarmerandi, þröng, hellulögð gata þar sem finnast alls kyns búðir, krár og kaffihús.
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan


Hvert sem litið er má finna eitthvað sem vert er að festa á filmu en á laugardaginn var bærinn pakkaður af fólki, sem gerði myndatöku erfiða. Við keyrðum til Whitby og til að aka inn í bæinn þarf að aka í gegnum North York Moors-þjóðgarðinn, sem er með fallegu landslagi.
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan
Marie Antoinette's Patisserie-bakaríið við götuna Church Street

Ég kom auga á eitt í Whitby sem pirraði mig (ekki í fyrsta sinn). Þegar við vorum að labba í Church Street-götunni þá sá ég skilti bakarísins Marie Antoinette's Patisserie með orðunum 'let them eat cake' (látum þau borða kökur). Franska drottningin er gjarnan ranglega tengd við þessi orð, sem hún átti að hafa mælt þegar henni var tjáð að lýðurinn hefði ekki efni á brauði. Staðreyndin er sú að hún sagði þetta aldrei, heldur var þetta bara hluti af áróðri Frönsku byltingarinnar. Það vill svo til að í töskunni minni var ég með eintak af Must You Go?: My Life with Harold Pinter eftir Antonia Fraser (snemmbúin afmælisgjöf frá eiginmanninum). Fyrir nokkrum árum síðan las ég ævisöguna Marie Antoinette: The Journey eftir Fraser þar sem hún leiðréttir látum-þau-borða-kökur lygasöguna og mér finnst það beinlínis vera skylda mín að gera svo hér, ef þið rækjuð augun í orðalagið á skilti bakarísins sem ég tók mynd af.



Ég tók nokkrar myndir af rústum Whitby Abbey-kirkjunnar, sem ég deili kannski síðar. Eins og ég sagði fyrr þá var svo mikið af fólki í Whitby sem torveldaði myndatöku. Þessi ferð var auk þess til skemmtunar fyrir fjölskylduna og ég vildi helst hlífa fólkinu mínu við því að þurfa stöðugt að stoppa á meðan ég mundaði linsuna. Hugmyndin er annars sú að fara aftur til Whitby á virkum degi og ég get þá skellt mér í göngutúr með myndavélina á meðan liðið flatmagar á ströndinni.