fimmtudagur, 30. ágúst 2012

rýmið 04


- baðherbergi á hótel Bordeaux de L'Hôtel Particulier í Arles, Frakklandi
- arkitekt Paul Anouilh

mynd: 
Marie Claire Maison

þriðjudagur, 28. ágúst 2012

sumar: lautarferð


Ég veit að skólarnir eru þegar byrjaðir og margir komnir í haustgírinn en samkvæmt almanakinu er enn þá sumar. Hvernig væri að fara í eins og eina lautarferð áður en laufin falla af trjánum? Það er gaman að keyra út í sveit og njóta náttúrunnar en það er í raun óþarfi að fara langt, það má þess vegna bara fara út í garð með teppi, púða og nesti í körfu og gera sér glaðan dag. En ég er alveg á því að sleppa öllu plasti, ég bið um alvöru glös og diska og sætar tauservíettur.

mynd:
Martin von Brömssen fyrir Sköna hem

mánudagur, 27. ágúst 2012

innlit: heimili í london


Þetta fallega heimili í London hannað af og í eigu Rose Uniacke er búið að vera lengi í möppunni minni. Ég hreinlega fæ ekki nóg af þessum glæsilegu stofum. Það þarf ekki að segja mörg orð um þetta heimili því myndirnar segja allt sem segja þarf. En mig langar að koma því að hvað þessi gamldags gólfborð eru skemmtileg og þau gera allt saman mun heimilislegra.


Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar ég sá myndina af svefnherberginu. Stórt, ljóst og fallegt og svo arinn líka. Já takk, ég er alveg til í að eiga eitt svona.


myndir:
Rose Uniacke af blogginu La Petite Fleur de Londres

fimmtudagur, 23. ágúst 2012

Rýmið 03Því miður veit ég engin nánari deili á uppruna þessarar myndar en þessi smekklega og heimilislega stofa hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Innbyggðar bókahillur sem ná frá gólfi og upp í loft eru svo sannarlega mér að skapi.

Hvað er heimili án bóka?

mynd:
Sydney Morning Herald af blogginu Brabourne Farm

miðvikudagur, 22. ágúst 2012

sumar: blóm og rendur


Ég ætla að birta reglulega myndir á blogginu sem fanga stemningu árstíðanna. Ég hef svo gaman af fallegum ljósmyndum sem ekki bara næra andann heldur gefa manni líka hugmyndir að hvers kyns skreytingum, hvort sem það eru borðskreytingar, uppröðun á smáhlutum eða hvað sem er.

Sumarstemningin í þessari mynd finnst mér hreint út sagt dásamleg. Öll þessi blóm, röndóttu renningarnir og gömlu stólarnir hafa rómantískan sjarma. Það væri nú ekki leiðinlegt að gera svona fínt hjá sér og hóa svo í nokkrar vinkonur og eiga notalega stund.

mynd:
Apryl Ann af blogginu 100 Layer Cake

mánudagur, 20. ágúst 2012

rýmið 02


- nágrenni Washington D.C.
- hönnuður Darryl Carter
- arkitekt Donald Lococo

mynd: 
William Waldron fyrir Architectural Digest

fimmtudagur, 16. ágúst 2012

listakonan kathe fraga


Á vafri mínu um netið fyrir ekki svo löngu rakst ég á verk listakonunnar Kathe Fraga og heillaðist af litunum í verkum hennar og chinoiserie stílnum, sem á íslensku er best að kalla bara skreytingar í kínverskum stíl. Kathe býr og málar í eldgömlu steinhúsi við sjóinn á eyjunni Bainbridge Island í Washington á vesturströnd Bandaríkjanna. Hún vinnur á striga og notast við akrýl, blek, grafít og gifs og lýkur hverju verki með lakkáferð.

Um verk sín segist Kathe vera "innblásin af fegurð og rómantík þess gamla" og nefnir í því samhengi "gamla kimono silkisloppa, útsaum, lítil box með lakkáferð, gamalt veggfóður og panil, sem eru farin að láta á sjá en hafa samt ekki misst sjarmann." Hún hefur búið á ýmsum stöðum í Suður-Ameríku, Danmörku, Englandi og Frakklandi og segir að áhrif þess megi finna í verkum sínum.

Á vefsíðu hennar má skoða nýjustu verkin og þau sem þegar hafa verið seld. Hún heldur einnig úti bloggi sem hún kallar The Art of Kathe Fraga.

Hægt er að kaupa gjafakort með áprentuðum myndum eftir listakonuna sem eru prentuð á mattan pappír og eru án texta. Þau eru seld stök og í settum. Það gæti verið skemmtileg hugmynd að ramma þau inn.

myndir: 
Remembering I og Remembering II eftir Kathe Fraga (birt með leyfi)

miðvikudagur, 15. ágúst 2012

rýmið 01


- West Village, New York
- hönnuður Steven Gambrel

Rýmið er sería á blogginu þar sem ég einungis birti eina mynd og tilgreini hönnuð og staðsetningu,
ef hún er gefin upp. Orð eru óþörf og fókusinn er á fallega hönnun, samspil lita, birtu eða hvað sem er.

mynd: 
S.R. Gambrel


þriðjudagur, 14. ágúst 2012

vörumerki verður til


Mér finnst vinnurými þar sem hvers kyns sköpun fer fram ákaflega heillandi og ég safna mörgum slíkum myndum í möppurnar mínar. Flestir hljóta að kannast við það að kaupa vöru sem kemur í fallegum umbúðum eða að fá í hendurnar vel hannað prentverk með flottu vörumerki. Hafið þið einhvern tíma velt því fyrir ykkur hvernig þetta verður til?

Oneighty er breskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun vörumerkja. Starfsfólkið var vant viðskiptavinum sem virtust ekki gera sér neina hugmynd um þá vinnu sem fólst í því að hanna vörumerki og einn daginn fékk það nóg. Nú skyldi gefa öðrum innsýn í heim vörumerkjahönnunar og ljósmyndari var fenginn til þess að festa ferlið á filmu. Á myndunum tveimur að neðan má sjá „persónur“ í aðalhlutverkum en á efstu myndinni er búið að skeyta saman myndum af sjálfu hönnunarferlinu.

Þetta finnst mér smart.


myndir: 
Adrian Ray fyrir Oneighty af vefsíðu Behance

mánudagur, 13. ágúst 2012

innlit: sveitasetur í suður-frakklandi


Í Languedoc-Roussillon héraði í Suður-Frakklandi hefur innanhússhönnuðurinn Maire-Laure Helmkampf gert upp mylluhús frá nítjándu öld sem var í niðurníðslu. Í húsinu er hátt til lofts, loftbitar eru sýnilegir og stórir gluggar hleypa birtunni inn. Hlutlausir tónar skapa hlýju og smekklegt að sjá hvernig steinhlaðnir og ljósmálaðir veggir mætast. Myndin að ofan er í miklu uppáhaldi hjá mér, það er eitthvað virkilega sjarmerandi við þetta eldhús þar sem blandað er saman gömlu og nýju. Ég verð líka alltaf pínulítið veik í hnjánum þegar ég sé eldhús með innréttingu úr eikarvið og hvítri borðplötu, eða öfugt.


Sófinn í stofunni er frá tímum Frakklandskeisarans Napoleon III og hefur verið bólstraður að nýju. Breiður skorsteinninn er alveg nýr, hannaður af Marie-Laure sjálfri. Ég rak augun í lampann með trjábolnum í stofunni en það var John Gross sem hannaði hann. Vinnuherbergið hér að neðan er mér að skapi, nóg pláss og opnar hillur. Tulip borðið eftir Eero Saarinen sómir sér vel í rýminu.


Svefnherbergin eru í sama stíl og önnur rými hússins, en þar eru veggir einnig dökkmálaðir. Þess má geta að forna baðkarið í neðstu myndaröðinni var fengið á uppboði í nágrenninu. Myndaseríunni lýkur með útisundlaug en þarna hlýtur að vera hreint út sagt dásamlegt að sitja úti á góðum sumardegi með svalandi drykk í hendi.


Smellið á tengilinn að neðan ef þið viljið sjá fleiri myndir.

myndir: 
Nuevo Estilo

Follow my blog with Bloglovin

velkomin á íslenska útgáfu bloggsins


Það hefur togað í mig að blogga á íslensku í sama anda og ég geri á LatteLisa, bloggi sem ég hef haldið úti síðan sumarið 2010 og er mín fagurfræðilega útrás. (Nánar um það undir um LatteLísa.) Kannski má segja að tölvupóstar frá Íslandi hafi smám saman ýtt undir þessa hugmynd. Það er alltaf notalegt að fá kveðjur að heiman frá fólki sem maður þekkir ekki neitt, sem segir að það skoði bloggið í kaffipásunni til þess að fegra tilveruna og næra andann.

Ég blogga um svo til allt sem veitir mér innblástur, hvort sem það er falleg hönnun og heimili, bækur, ferðalög, tískuþættir, fagrir munir eða hvað sem gleður augað. Íslenska útgáfa bloggsins verður í þessum sama anda en ég mun ekki endilega birta það sama á báðum bloggunum í einu. Það mun gerast öðru hverju en helst vil ég brjóta þetta aðeins upp.

Fyrir ykkur sem hafið ekki fylgst með ensku útgáfunni þá er óhætt að segja að myndin að ofan lýsi mér vel, það vantar í raun bara lattebollann og kannski fersk blóm í vasa. Þar sem ég sit má ávallt finna bækur, tímarit og minnisbækur. Ég er mikil bókakona og les yfirleitt nokkrar í einu. Þessa dagana er ég að lesa bókina Paris: The Collected Traveler: An Inspired Companion Guide, ritstýrð af Barrie Kerper. Ég er að skipuleggja ferð til Parísar með vinkonu minni og ef ég tek saman allt sem mig langaði að skoða áður en ég fékk þessa bók og bæti svo við þeim hugmyndum sem fæðst hafa við lesturinn þá held ég að það væri jafnvel bara best að flytja þangað í kannski þrjú ár eða svo!

Ég er búin að setja upp síðu á Facebook fyrir bloggið og þar birtast uppfærslur sjálfkrafa. Ég deili svo einhverju skemmtilegu á þeirri síðu inn á milli án þess að drekkja fylgjendum í uppfærslum. Ég er einnig búin að skrá bloggið á Bloglovin' en það er þægilegt svæði þar sem má halda bloggsíðum til haga, flokka þær eftir efni og fylgjast með uppfærslum. Fyrir ykkur sem notið Pinterest þá er ég búin að vera þar lengi og er komin með ansi gott myndasafn.

Í dag birti ég tvær færslur svo þetta verði ekki tómlegt svona fyrst um sinn. Eigið góðan dag og verið velkomin á íslenska útgáfu bloggsins!

mynd: 
Lísa Hjalt

Follow my blog with Bloglovin