Sýnir færslur með efnisorðinu bækur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bækur. Sýna allar færslur

sunnudagur, 6. apríl 2025

Vorstemmning í Linz

Magnólía í blóma í Linz · Lísa Stefan


Ég fór í göngutúr í dag, andaði að mér vorinu og horfði hugfangin á magnólíutré í blóma. Settist svo út á svalir með smá bókabunka, grillað pítubrauð og hummus og las síðustu síðurnar í After Henry eftir Joan Didion. Ég teygði mig svo í nýja og áhugaverða bók um þýðingar, The Philosophy of Translation eftir Damion Searls, sem ég hef verið að lesa undanfarið með kaffinu. Hann er afkastamikill þýðandi og þýddi m.a. á ensku Septology I-VII eftir norska Nóbelsskáldið Jon Fosse sem ég naut að lesa á sínum tíma.
Magnólía í blóma · Lísa Stefan
Magnólía í blóma; vor í Linz · Lísa Stefan




mánudagur, 29. ágúst 2022

Töfrar í bókabúð

Kápan af Dichter im Café eftir Hermann Kesten (ars vivendi) · Lísa Stefan


Nýverið var ég stödd í bókabúð til að kaupa tvær bækur á óskalistanum og gaf mér tíma til að skoða. Eins og maður gerir. Skyndilega fangaði eitthvað athygli mína á lágri hillu í leikrita- og ljóðahorninu, þessi svarthvíta ljósmynd á bókarkápunni sem þið sjáið á myndinni að ofan. Ég sá þýska titilinn, Dichter im Café (Ljóðskáld á kaffihúsinu) og í eitt sekúndubrot las ég nafn höfundarins sem Hermann Hesse áður en ég áttaði mig á því að það var Hermann Kesten. Ég hafði aldrei heyrt um Kesten áður, eða ekki svo ég mundi. Ég tók bókina upp, sneri henni við og las:
Das Kaffeehaus - legendärer Treffpunkt
des literarischen Austauschs, Umschlagplatz
revolutionärer Ideen, Bühne des Lebens.

Þessi orð aftan á kápunni mætti þýða beint: Kaffihúsið - goðsagnakenndur fundarstaður fyrir bókmenntaumræður, miðstöð byltingarkenndra hugmynda, leiksvið lífsins.

Ég tók bókina með mér að næsta setkrók, þar sem töfrarnir gerðust. Þeir höfðu eiginlega byrjað um leið og ég sá bókina en mögnuðust þar sem ég sat og las formálann. Ég skildi allt; ef ég skildi ekki eintaka orð þá var merkingin ávallt skýr. Setning tvö hljóðaði svona: „Das Kaffeehaus is ein Wartesaal der Poesie“ (Kaffihúsið er biðsalur ljóðlistarinnar) og þegar ég las áfram varð það mér ljóst að þessa bók yrði ég að kaupa, síðasta eintakið í bókabúðinni.
Stofuborðið mitt og bækurnar · Lísa Stefan


Þögn mín hér á blogginu á sér skýringu. Ég flutti í hjarta Linz fyrr í sumar, sem þið hafði kannski séð á Instagram, og hef verið upptekin við alls kyns verkefni. Dásemdin við þennan nýja stað er bókabúðin sem er innan göngufæris - að skoða úrvalið áður en ég versla í matinn gefur lífinu nýja merkingu. Ég verð hérna aftur innan skamms með nýjan og löngu tímabæran bókalista.

mynd á bókarkápu Dichter im Café · Horst Friedrichs



fimmtudagur, 14. apríl 2022

Lestrarkompan: Virginia Woolf um bækur

Lestrarkompan: Latte og dagbók Virginiu Woolf · Lísa Stefan


Virginia Woolf deilir mínum eigin hugsunum um bækur:
What a vast fertility of pleasure books hold for me! I went in & found the table laden with books. I looked in & sniffed them all. I could not resist carrying this one* off & broaching it. I think I could happily live here & read forever.
Þessar dásamlegu línur skrifar hún í dagbók sína í Monk's House, fimmtudaginn 24. ágúst 1933 (4. bindi, sjá № 29).
*The Confessions of Arsene Houssaye



föstudagur, 17. desember 2021

Mothers, Fathers, and Others: Essays · Siri Hustvedt

Bókarkápan af Mothers, Fathers, and Others: Essays eftir Siri Hustvedt (Simon & Schuster)


Nýtt safn ritgerða, Mothers, Fathers and Others, eftir Siri Hustvedt kom nýlega út hjá Simon & Schuster. Á vefsíðu Hustvedt er bókinni svo lýst: „Femínísk heimspeki og fjölskylduminningar mætast í þessu nýja ritgerðasafni, sem kannar hinn breytilega jaðar sem skilgreinir mannlega reynslu, þar á meðal mörk sem við tökum venjulega sem sjálfsögðum hlut en sem reynast mun minna stöðug en við ímyndum okkur.“

Í morgun hlustaði ég á ritstjórann Sam Leith, sem sér um The Spectator Book Club hlaðvarpið, í áhugaverðum samræðum við Hustvedt um bókina.

Kápumynd: Louise Bourgeois, Self Portrait, 1994
Ljósmynd: Christopher Burke

Mothers, Fathers, and Others: Essays
Höf. Siri Hustvedt
Innbundin, 304 blaðsíður
ISBN: 9781982176396
Simon & Schuster



miðvikudagur, 14. apríl 2021

Lestrarkompan: Simone de Beauvoir

Kápan af Force of Circumstance eftir Simone de Beauvoir, 3. bindi sjálfsævisögu hennar · Lísa Stefan


Ég er hálfnuð með Force of Circumstance, 3. bindið af sjálfsævisögu Simone de Beauvoir (№ 26). Hugmyndin var að klára það áður en ég deili nýjum bókalista. Lífshlaup Beauvoir er áhugavert en þetta bindi er ekki gallalaust: Stundum er hún of upptekin við að gera upp málin og oft er það sem Jean-Paul Sartre sé aðalpersónan. Augljóslega var líf þeirra samfléttað en ég hef áhuga á sögu hennar, á skrifum hennar, ekki fléttu í leikritum Sartre eða innihaldi pólitískra greina hans í Les Temps Modernes. Talandi um stjórnmál. Bókin er full af þeim, stundum á þeim mörkum að verða leiðinleg eða þreytandi. Fer eftir skapi mínu. Á jákvæðum nótum þá ferðast Beauvoir um heiminn og hefur skarpt auga fyrir fólki og landslagi. Þær frásagnir, bækur hennar og viðtökur þeirra gerir bindið lestursins virði, hingað til.

Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey
  The Radetzky March eftir Joseph Roth

... bætti á óskalistann:
  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick eftir Cathy Curtis

... bætti á langar-að-lesa listann:
  Hannah Arendt eftir Samantha Rose Hill
  This Little Art eftir Kate Briggs
  Endpapers: A Family Story of Books, War, Escape and Home eftir Alexander Wolff

... langar að lesa aftur:
  The Master and Margarita eftir Mikhail Bulgakov

Bókakæti:
  Nýlega var forvalslisti Alþjóðlegu Booker-verðlaunanna árið 2021 kynntur, en á honum eru höfundar og þýðendur 13 bóka sem eru gefnar út í Bretlandi eða Írlandi. Ég hef enga þeirra lesið en var glöð að sjá þeirra á meðal In Memory of Memory eftir rússnesku skáldkonuna Mariu Stepanova. Þýðandi hennar er Sasha Dugdale. Það vill svo til að í nýlegri bloggfærslu deildi ég amerísku bókarkápunni. Síðar í apríl kemur í ljós hvaða bækur komast á lokalistann og í júní hver hlýtur verðlaunin.

Hlaðvarpsþáttur sem ég mæli með:
  Þar síðasti þátturinn á Backlisted-hlaðvarpinu var frábær. Til umfjöllunar var Halldór Laxness og skáldsaga hans Brekkukotsannáll (enska þýðingin The Fish Can Sing) sem kom út 1957, tveimur árum eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin. Gestur þáttarins í þetta sinn var breski rithöfundurinn og ljóðskáldið Derek Owusu. Fyrir þá sem hafa áhuga á má hlusta á Laxness sjálfan lesa skáldsöguna á RÚV.



fimmtudagur, 17. desember 2020

Lestrarkompan: Mendelsohn og Gornick

Three Rings eftir Daniel Mendelsohn, úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Ég er komin í jólafrí og þessa dagana fylgir mér vænn bunki af bókum. Ekki að ég þurfi að bera þær langar leiðir því hér í Austurríki er allt lokað vegna kófsins. Sumar voru á síðasta bókalista, sem ég á eftir að klára, aðrar eru nýjar sem munu rata á næstu tvo lista. Á mánudaginn barst í hús Three Rings: A Tale of Exile, Narrative, and Fate eftir Daniel Mendelsohn, sem er rithöfundur, gagnrýnandi og prófessor í klassískum fræðum. Bókin átti að fara undir tréð í ár, jólagjöf frá mér til mín, en ég gat ekki lagt hana frá mér þegar ég byrjaði að lesa hana í kaffipásu. Hún er stutt og inniheldur þrjár ritgerðir sem eru áhugaverð blanda af ævisögulegum skrifum, sögu og bókmenntarýni, sem tengjast höfundunum Erich Auerbach, François Fénelon og W. G. Sebald. Ef þið hafið gaman af bókum um bækur þá gæti þessi höfðað til ykkar.

Önnur bók í bunkanum er ritgerðasafn eftir Vivian Gornick, Approaching Eye Level. Mín fyrsta bók eftir hana og ekki sú síðasta. Hún rennur vel niður með kaffi og biscotti eins og ég spáði fyrir í síðustu bloggfærslu.
Vivian Gornick & kaffi; úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Í Lestrarkompunni hef ég fjallað um bækur af tilteknum bókalista en fann fyrir einhverju síðan að mig langaði að breyta til, að hafa hana tilviljanakenndari og í takt við líðandi stund. Mig vantaði líka færsluflokk til að halda til haga bókatengdum krækjum. Ég nefndi það einu sinni að það hefði aldrei verið hugmyndin að tjá mig um allar bækurnar á bókalistunum. Ég er vandlát á bækur og verð sjaldan fyrir vonbrigðum með þær sem rata á þá. Stundum þegar ég er mjög ánægð með bók þá langar mig bara að skrifa, Þetta er frábær bók, og ekkert meir. En það kallar varla á færslu; þá henta Instagram eða Twitter betur.
Bækur & kaffi; úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Suppose a Sentence eftir Brian Dillon
  The Rings of Saturn eftir W. G. Sebald

... bætti á óskalistann:
  The Krull House eftir Georges Simenon

... forgangsraðaði á langar-að-lesa listunum:
  skáldskapur: Oresteia: Agamemnon. Libation-Bearers. Eumenides eftir Æskílos
  óskáldað efni: Trieste eftir Jan Morris

Bókakæti:
  Þegar Margaret Busby, formaður dómnefndar Booker-verðlaunanna árið 2020, tilkynnti að skáldsagan Shuggie Bain hefði unnið og höfundur hennar Douglas Stuart þakkaði fyrir sig á tilfinningaríkan hátt. Ég rak upp gleðiöskur þegar hann vann þrátt fyrir að hafa ekki lesið þessa frumraun hans. Ég vonaði að hann myndi vinna en var hrædd um að það ynni gegn honum að vera hvítur karlmaður.

Hljóðvarpsþættir sem ég mæli með:
  Aftur að Shuggie Bain: Sam Leith, ritstjóri bókaumfjöllunar hjá The Spectator, talaði nýlega við höfundinn Douglas Stuart á hlaðvarpinu þeirra, The Book Club.
  Og hér talar Leith við Natalie Haynes um konur í grískri goðafræði.
  Í samræðum við Eleanor Wachtel hjá Writers & Company, talaði Martin Amis um bókmenntir, ástir og missi. Virkilega einlægur og hreinskilinn Amis.
  Ég kættist þegar ég sá að Stig Abell, fyrrverandi ritstjóri TLS, var kominn með með nýtt hlaðvarp sem kallast Stig Abell's Guide to Reading. (TLS-hlaðvarpið er ekki hið sama án hans.) Nýja hlaðvarpið tengist nýútgefinni bók hans, Things I Learned on the 6.28: A Guide to Daily Reading. Þessir tveir þættir eru mínir uppáhalds hingað til: Modern Literary Fiction með Kit de Waal og English Classics með Sam Leith, áðurnefndum ritstjóra.



föstudagur, 15. maí 2020

Virginia Woolf útgáfur

Bókarkápa: Mrs Dalloway eftir Virginia Woolf (Mariner Books)


Mrs Dalloway said she would buy the flowers herself. 

Þekkið þið þessa fyrstu setningu í Mrs Dalloway, klassíku skáldsögunni eftir Virginiu Woolf? Bókin var fyrst gefin út 14. maí 1925 af Hogarth Press, sem hún og eiginmaðurinn hennar Leonard Woolf settu á fót. Systir hennar, listakonan Vanessa Bell, hannaði bókarkápuna. Næsta bloggfærslan mín átti að vera úr lestrarkompunni en ég get ekki hætt að hugsa um þessar sex gömlu kiljuútgáfur sem ég sá á Instagram í gær - á Mrs Dalloway deginum. Hér höfum við kápurnar af Mrs Dalloway, Three Guineas og Orlando, sem ég bætti strax á óskalistann. Ef þær bara væru innbundnar.
Bókarkápa: Three Guineas eftir Virginia Woolf (Houghton Mifflin Harcourt)
Bókarkápa: Orlando eftir Virginia Woolf (Houghton Mifflin Harcourt)


Mrs Dalloway; Three Guineas; Orlando
Höf. Virginia Woolf
Kiljubrot: 224; 192; 352 blaðsíður
Mariner Books



föstudagur, 8. maí 2020

Letters to Felice · Franz Kafka

Bókarkápa Letters to Felice eftir Franz Kafka, hönnuð af Peter Mendelsund


The Schocken Kafka Library er safn þrettán bóka eftir Franz Kafka (f. 1883) sem inniheldur skáldskap hans, bréfaskrif og dagbækur. Safnið er gefið út í nokkuð stóru kiljubroti sem er afskaplega smekklega hannað, þar sem leturgerð titlanna hefur verið aðlöguð með læsilegri rithönd Kafka. Eins og er á ég bara eina bók úr safninu, bréfin sem hann skrifaði til vina, fjölskyldu og ritstjóra, en hef bætt mörgum á óskalistann. Letters to Felice (2016) geymir rúm 500 bréf sem hann skrifaði til kærustu sinnar Felice, sem hann trúlofaðist tvisvar en giftist aldrei. Þau kynntust í ágúst 1912 heima hjá Max Brod, besta vini Kafka, og samband þeirra einkenndist af bréfaskrifum þar sem hann bjó í Prag en hún í Berlín. Brod á annars heiðurinn af því að við höfum aðgang að skrifum Kafka í dag. Kafka bað hann um að brenna allt óútgefið efni eftir dauðadag sinn en Brod neitaði. Berklar drógu Kafka til dauða þann 3. júní 1924 þegar hann var á 41. aldursári. Kafka er grafinn í Nýja kirkjugarði gyðinga í Prag.

Bókahönnun: Peter Mendelsund

Letters to Felice
Höf. Franz Kafka
Ritstjórar: Erich Heller og Jürgen Born
Þýðendur: James Stern og Elisabeth Duckworth
Kiljubrot, 624 blaðsíður
ISBN 9780805208511
Schocken Books



sunnudagur, 19. apríl 2020

Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection · The Met Museum

Bókarkápa: Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection - The Met Museum


Ég var innblásin af náminu mínu í safnafræði þegar ég valdi bókarkápu Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection (2018) fyrir þessa fyrstu bloggfærslu eftir margra vikna hlé. Á önninni sat ég í kúrsi sem kallast „Safn og samfélag: Sirkus dauðans?“ þar sem við lásum meðal annars um safnastarf í samfélögum Hopi- og Zuni-frumbyggja í Norður-Ameríku. Fyrir utan að lesa námsbækur og fræðigreinar skoðaði ég efni um varðveislu á vefsíðum safna og í þeirri leit fann ég þessa fallegu útgáfu frá Metropolitan Museum of Art. Í safneign Charles og Valerie Diker eru gripir frá meira en fimmtíu menningarheimum N-Ameríku, sem spanna tímabilið frá því áður en hvíti maðurinn nam land til fyrri hluta 20. aldar. Bókin veitir innsýn í list, menningu og daglegt líf í frumbyggjasamfélögum.

Kápumynd, smáatriði: mussa/kyrtill og legghlífar eftir Tlingit-listamann.


Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection
Höf. Gaylord Torrence, Ned Blackhawk og Sylvia Yount
Innbundin, 232 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9781588396624
Metropolitan Museum of Art



Hluti af yfirhöfn karlmanns, ca 1820, Innu (Naskapi), frumbyggjar N-Ameríku/The Met
Hluti af yfirhöfn karlmanns, ca. 1820, Innu (Naskapi), frumbyggjar N-Ameríku/The Met

Í desember þegar ég deildi fyrstu bókarkápufærslunni hélt ég í alvörunni að ég gæti notað þessar færslur til að halda blogginu lifandi á meðan ég væri í námi. En ég hef áttað mig á því að það er ómögulegt þegar lífið einkennist af skiladögum verkefna ofan á lestur fyrir hvern fyrirlestur. Það koma tímabil þar sem tilfinningin er sú að maður komi varla upp til að anda.

Bókarkápa: Museum as Process eftir Raymond A. Silverman · Lísa Stefan

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur þessi önn verið skrýtin. Hún er næstum búin og hér í Austurríki hefur aðeins verið slakað á reglum um samkomubann. Því miður eru öll söfn enn lokuð þannig að ég hef hætt að gera mér vonir um að starfa sem nemi á safni í sumar. En góðu fréttirnar eru þær að enginn náinn mér hefur smitast og ég vona að blogglesendur mínir geti sagt hið sama. Farið vel með ykkur!

Mynd af yfirhöfn karlmanns af vefsíðu The Met



laugardagur, 25. janúar 2020

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read (TLS Books) · Lísa Hjalt


Að mínu mati var þetta ein af flottustu bókarkápum ársins 2019. Minimalísk en grípandi (bakgrunnurinn er ljósari en myndin hér að ofan sýnir). Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read var gefin út af TLS Books, nýrri bókaútgáfu sem tók til starfa í fyrra. TLS stendur fyrir Times Literary Supplement, vikulegt bókmenntarit sem kom fyrst út árið 1902. Virginia Woolf skrifaði fyrir TLS og hér höfum við fjórtán gagnrýnar ritgerðir sem skrifaðar voru frá 1916 til 1935. Bókin var á nýjasta bókalistanum mínum og ég naut þess að lesa hana.

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read
Innbundin, 256 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9780008355722
TLS Books

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read (TLS Books) · Lísa Stefan
Genius and Ink var á № 22 bókalistanum mínum

Það vill svo til að Virginia Woolf fæddist á þessum degi árið 1882, á æskuheimilinu við 22 Hyde Park Gate, Kensington, London. Fyrsta skáldsaga hennar, The Voyage Out, kom út árið 1915.