Sýnir færslur með efnisorðinu þýskar bókmenntir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu þýskar bókmenntir. Sýna allar færslur

mánudagur, 29. ágúst 2022

Töfrar í bókabúð

Kápan af Dichter im Café eftir Hermann Kesten (ars vivendi) · Lísa Stefan


Nýverið var ég stödd í bókabúð til að kaupa tvær bækur á óskalistanum og gaf mér tíma til að skoða. Eins og maður gerir. Skyndilega fangaði eitthvað athygli mína á lágri hillu í leikrita- og ljóðahorninu, þessi svarthvíta ljósmynd á bókarkápunni sem þið sjáið á myndinni að ofan. Ég sá þýska titilinn, Dichter im Café (Ljóðskáld á kaffihúsinu) og í eitt sekúndubrot las ég nafn höfundarins sem Hermann Hesse áður en ég áttaði mig á því að það var Hermann Kesten. Ég hafði aldrei heyrt um Kesten áður, eða ekki svo ég mundi. Ég tók bókina upp, sneri henni við og las:
Das Kaffeehaus - legendärer Treffpunkt
des literarischen Austauschs, Umschlagplatz
revolutionärer Ideen, Bühne des Lebens.

Þessi orð aftan á kápunni mætti þýða beint: Kaffihúsið - goðsagnakenndur fundarstaður fyrir bókmenntaumræður, miðstöð byltingarkenndra hugmynda, leiksvið lífsins.

Ég tók bókina með mér að næsta setkrók, þar sem töfrarnir gerðust. Þeir höfðu eiginlega byrjað um leið og ég sá bókina en mögnuðust þar sem ég sat og las formálann. Ég skildi allt; ef ég skildi ekki eintaka orð þá var merkingin ávallt skýr. Setning tvö hljóðaði svona: „Das Kaffeehaus is ein Wartesaal der Poesie“ (Kaffihúsið er biðsalur ljóðlistarinnar) og þegar ég las áfram varð það mér ljóst að þessa bók yrði ég að kaupa, síðasta eintakið í bókabúðinni.
Stofuborðið mitt og bækurnar · Lísa Stefan


Þögn mín hér á blogginu á sér skýringu. Ég flutti í hjarta Linz fyrr í sumar, sem þið hafði kannski séð á Instagram, og hef verið upptekin við alls kyns verkefni. Dásemdin við þennan nýja stað er bókabúðin sem er innan göngufæris - að skoða úrvalið áður en ég versla í matinn gefur lífinu nýja merkingu. Ég verð hérna aftur innan skamms með nýjan og löngu tímabæran bókalista.

mynd á bókarkápu Dichter im Café · Horst Friedrichs



þriðjudagur, 26. apríl 2022

№ 31 bókalisti: bréfaskrif Bishop & Lowell

Á № 31 bókalistanum mínum: bréfaskrif þeirra Bishop og Lowell · Lísa Stefan


Það var afbragðshugmynd að setja Swann's Way á síðasta bókalista (№ 30). Ég er enn að lesa Proust og botna ekkert í mér að hafa ekki lesið hann fyrr. Ríkur prósinn kallar á hæga yfirferð og því finnst mér best að lesa 8-10 síður í einu, einkum í kyrrð og ró að morgni. Daginn byrja ég á lestri; vakna eldsnemma með syninum sem þarf að þvera Linz og úthverfi með sporvagni til að fara í skólann. Þegar hann leggur af stað - flest fólk er þá enn sofandi - sest ég niður með fyrsta kaffibolla dagsins, ristað brauð og bækur. Þessa dagana byrja ég á nokkrum bréfum sem ljóðskáldin Elizabeth Bishop og Robert Lowell sendu sín á milli áður en ég sný mér að Proust og öðrum höfundum. Þessari rútínu lýkur svo með þýska skáldverkinu sem ég er að lesa þá stundina.

№ 31 bókalisti:

1  Words in Air: The Complete Correspondence Between Elizabeth Bishop
and Robert Lowell  · ritstj. Thomas Travisano & Saskia Hamilton
2  Upstream: Selected Essays  · Mary Oliver
3  Speak, Memory  · Vladimir Nabokov
4  Personal History  · Katharine Graham
5  Ein ganzes Leben  · Robert Seethaler [þýsk]

Ég er enn að lesa Der Untergeher (plebbinn á ísl., № 30), mína þriðju bók eftir hinn austurríska Thomas Bernhard. Hann er einstaklega hnyttinn sögumaður. Mig langar að lesa allt eftir hann sem ég kemst yfir á frummálinu. Ég held að verk hans hafi ekki verið gefin út á Íslandi en skáldsögur hans og leikrit eru til í enskri þýðingu. Ég hef aldrei lesið neitt eftir landa hans Robert Seethaler og nú er kominn tími á Ein ganzes Leben sem ég keypti í fyrrasumar. Mannsævi heitir hún í íslenskri þýðingu og kom út fyrir nokkrum árum.

Kirstuberjatré í blóma, Antwerpen, vor 2011 · Lísa Stefan
Kirsuberjatré í blóma, Antwerpen 2011

Fyrir svefninn undanfarið hef ég verið að lesa Personal History, ævisögu Katharinu Graham heitinnar, útgefanda The Washington Post. Bókin hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 1998. Ég byrjaði á henni fyrir töluvert löngu síðan en hinkraði með það að setja hana á bókalista þar til núna. Ég vissi að hún skrifaði marga kafla um fjölskyldu sína og uppvaxtarár (sá hluti ævisagna sem mér leiðist hvað mest) og því vildi ég gefa mér tíma til að komast í gegnum þá. Þegar frásögn hennar komst loks á flug var stundum erfitt að leggja bókina frá sér.
Á № 31 bókalistanum: sjálfsævisaga Vladimirs Nabokov · Lísa Stefan




sunnudagur, 21. nóvember 2021

Bóklestur í útgöngubanni

Kápan af Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995 · Lísa Stefan


Á föstudaginn trítlaði ég út á pósthús og fann um sjöhundruð síðna doðrant með bréfum Irisar Murdoch í hólfinu, Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995. Upphaflega keypti ég bókina til að setja undir jólatréð, gjöf frá mér til mín, en í staðinn verður hún útgöngubannsbókin mín. Bók með hlutverk.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að á morgun verður öllu skellt í lás í Austurríki vegna hárrar tíðni COVID-smita. Það er óhætt að segja að stemningin sé sérkennileg þessa dagana og ég held að ég sé ekki ein um að glíma við lokanaleiða. Ég hafði hlakkað til að klára skólaönnina og njóta þess í desember að rölta um jólaskreyttar götur Linz, kíkja í bókabúðir og setjast niður á notalegum kaffihúsum. Að vísu er gert er ráð fyrir afléttingum fyrir jól en þá má búast við mannmergð í miðborginni, sem ég kæri mig lítið um þó að ég sé bólusett. Kosturinn við útgöngubann er sá að nægur tími gefst fyrir bóklestur og kósíheit heima fyrir. Mín bíður góður bunki þannig að ég get ekki kvartað.
Lestur um menningu og menningararf · Lísa Stefan


Það verður enginn bókaskortur í þessu banni því í hillunum leynist margt ólesið. Nýverið var ég stödd í bókabúð og keypti tvær þýskar, meðal annars Medea. Stimmen eftir Christu Wolf (1929-2011). Ég hef aldrei lesið verk eftir hana. Ég var í skapi fyrir gríska goðafræði því í kaffipásum á þessu hausti hef ég teygt mig í Mythos eftir Stephen Fry. Þvílík skemmtilesning, hann er svo orðheppinn. Ég hef líka verið að lesa íslenskar esseyjur í bókinni Póetík í Reykavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson). Einn höfundanna, Margrét Bjarnadóttir, sendi mér óvænt eintak en hún gaf út bókina Orðið á götunni, sem ég fletti reglulega mér til skemmtunar (sjá № 14 bókalista). Bækurnar þrjár verða á næsta bókalista sem ég hef ekki enn deilt á blogginu sökum anna.

Pasta og lærdómur · Lísa Stefan
Klassík lærdómspása með grænmetispasta

Bókabúð á Linz Hauptplatz: Alex Buchhandlung · Lísa Stefan
Anddyri bókabúðarinnar Alex Buchhandlung

Ein bókabúðin í Linz heitir Alex Buchhandlung og er staðsett á Der Linzer Hauptplatz, aðaltorgi sem er rétt við meginbrúna yfir Dóná. Þetta er lítil verslun með gríðarlegt magn þýskra bóka. Ég var næstum því búin að kaupa þar Fischer-útgáfu af dagbókum Franz Kafka en hugsaði með mér að þýskan mín væri kannski ekki nógu góð til að virkilega njóta lesturins. Ég lét hana því bíða og ákvað að fyrst skyldi ég lesa eina ólesna í hillunum mínum sem inniheldur sögurnar Málsóknin og Umskiptin. Ég hef lesið þá síðari í íslenskri þýðingu en aldrei lesið Kafka á þýsku.
Kápan af sögum Kafka í þýskri útgáfu (Fischer) · Lísa Stefan