fimmtudagur, 10. janúar 2013

parís: sacré coeur og útsýni


Ég hef sagt að það líði varla sá dagur að ég lesi ekki um París eða skoði myndir af borginni. Undanfarið hef ég verið að fletta fallegri ljósmyndabók eftir Henri Cartier-Bresson sem ég fékk lánaða á bókasafninu. Í henni eru myndir sem hann tók í París. Ég fékk svo tölvupóst um daginn frá vinkonu sem eyddi áramótunum í París og hún sendi mér ýmsa tengla af því sem hún skoðaði.

Ég var að hreinsa til í tölvunni um daginn og flokka myndir sem minnti mig á að ég átti eftir að deila nokkrum frá ferðinni góðu í október. Ferðin hófst í Montmartre-hverfinu, uppi á hæðinni þar sem Sacré Coeur stendur (er ekki alltaf talað um þessa kirkju sem Hvítu kirkju á íslensku? Það er eins og mig minni það). Þetta umhverfi er fallegt og útsýnið yfir borgina er dásamlegt. Þegar við komum gangandi upp tröppurnar í götunni Rue Maurice Utrillo (google map) þá blasti kirkjan við okkur í allri sinni dýrð, eins og á myndinni hér að ofan. Ég man eftir að hafa staðið þarna gapandi í smá stund áður en ég hafði rænu til að smella af mynd. Eftir að hafa virt fyrir okkur umhverfið þá fórum við inn í kirkjuna sem er ansi tignarleg. Orkan þarna inni er sérstök en ég verð að viðurkenna að það er óþolandi að sjá ferðamenn að stelast til að taka myndir inni í kirkjunni þegar það er bannað - þvílíkt virðingarleysi.

Þið sjáið útsýnið á myndum hér að neðan og líka Square Louise Michel, græna svæðið beint fyrir neðan kirkjuna. Ég skil ekki hvað þessi forljóta svarta bygging - Tour Montparnasse - er að gera þarna. Hver gaf eiginlega leyfi fyrir henni? Ef ég verð borgarstjóri í París einn daginn þá verður það mitt fyrsta verk að láta rífa hana niður. (Verst að líkur á því eru nákvæmlega engar!)


Þrátt fyrir fegurð kirkjunnar og umhverfisins þá get ég ekki sagt að þetta hafi verið uppáhaldsstaðurinn minn í borginni. Það var svo mikið um ferðamenn þarna og þegar við komum niður hæðina að götunni Place Saint-Pierre þá voru götusalar að reyna að ná athygli okkar. Þetta var of túristalegt fyrir minn smekk. Vinir mínir hafa sagt mér að ég eigi að skoða þetta svæði snemma að morgni á sunnudögum eða mjög snemma einhverja aðra daga til að virkilega njóta þess.

Ef þið eruð að rölta niður hæðina til þess að fara inn í 9. hverfi þá endilega haldið ykkur fjarri götu sem heitir Rue de Steinkerque. Það er sennilega ljótasta gatan í allri borginni, ekkert nema túristabúðir og varningurinn átakanlega hallærislegur.


Bókin sem ég minntist á hér að ofan heitir Propos de Paris (Paris à vue d'oeil á frönsku) eftir Henri Cartier-Bresson. Myndirnar í henni eru samtals 131, svarthvítar og teknar yfir langt tímabil. Mér finnst þessi af nunnunum fyrir framan Sacré Coeur svo skemmtileg. Fyrir ykkur sem hafið áhuga á ljósmyndun þá er meðal annars að finna þessa þekktu mynd af pari að kyssast á kaffihúsi.

myndir:
Lísa Hjalt
myndir frá París teknar í október 2012

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.