miðvikudagur, 23. október 2013

Innlit: enskt sveitasetur



Ég veit ekki í hvaða tímariti þessi umfjöllun um sveitasetrið hans John Roger birtist, en þar sem Carol Prisant skrifar greinina var það líklega World of Interiors eða House Beautiful. Roger stjórnar antíkmunadeild Sibyl Colefax & John Fowler, sem er enskt hönnunarfyrirtæki stofnað upp úr 1930. Það fyndna er að hann starfaði sem lögmaður þegar hann einn daginn gekk inn í sýningarsal þeirra í leit að skrifborði og starfsferill hann breyttist snarlega. Þið sjáið hluta af skrifborðinu hér fyrir neðan og svo getið þið séð það í horninu á myndinni úr stofunni. Mér finnst þetta sveitasetur hans heimilislegt en um leið smekklegt - ég er lítið fyrir ofhlaðinn sveitastíl. Garðhönnunin finnst mér ákaflega falleg og ekki of formleg. Ég vildi geta sagt ykkur eitthvað meira um húsið en ég fann þessar skönnuðu myndir á netinu án viðtalsins við Roger.

Á persónulegum nótum, vegna anna á næstu vikum þá verð ég í fríi frá bloggskrifum og veit ekki alveg hvenær ég sný aftur, kannski undir lok nóvember. Ég lofa smá fréttum þegar ég kem til baka. (Ef þið notið Pinterest þá er ég þar og kem til með að pinna í kaffipásum.) À bientôt!


myndir:
Elizabeth Zeschin (skannaðar) af blogginu Kitchens I Have Loved

fimmtudagur, 17. október 2013

París: fyrir ári síðan við Palais Royal

París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


Ég var með París í huganum þegar ég vaknaði í morgun og þegar ég leit á dagatalið áttaði ég mig á því með bros á vör að ég var í París á þessum degi fyrir akkúrat ári síðan. Ég átti enn nokkrar myndir úr ferðinni sem ég hafði ekki deilt á blogginu. Myndin hér að ofan sýnir stemninguna fyrir utan Le Nemours kaffihúsið, sem er við Palais Royal í 1. hverfi. Við settumst ekki niður til að fá okkur kaffi þar sem við höfðum verið að borða hádegisverð og eftirrétt á veitingastað hinum megin við Signu. En það var grenjandi rigning og göng Palais Royal veittu skjól.
París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


miðvikudagur, 16. október 2013

Uppskrift: sætkartöflusúpa með ristuðum graskersfræjum



Í gær birti ég uppskrift að sætkartöflusúpu með ristuðum graskersfræjum á matarblogginu. Ég fann hana á Sweet Paul vefnum en hún birtist einmitt í nettímaritinu þeirra, haustblaðinu 2013, sem er ókeypis. Vefurinn þeirra er einstaklega skemmtilegur fyrir ykkur sem hafið áhuga á matargerð.

mynd:
Lísa Hjalt

mánudagur, 14. október 2013

Innlit: heimili í Kent í eigu listamanna



Þetta fallega heimili í Kent í suðurhluta Englands er í eigu myndlistarkonunnar Karen Birchwood og píanóleikarans David Manson. Eins og sjá má á myndunum blanda þau saman nýjum, klassískum og gömlum húsgögnum og útkoman er einstaklega persónuleg. Ég er hrifin af bastkörfunum sem er að finna hér og þar, mér finnst þær alltaf svolítið sjarmerandi; þær gefa heimilinu náttúrulegan blæ og skapa hlýleika.


myndir:
David Merewether fyrir Wealden Times

miðvikudagur, 2. október 2013

Tískuvikan í París: Chloé - vor/sumar 2014



Undanfarnar vikur hafa tískuhúsin verið að kynna vor- og sumarlínur næsta árs. Fjörið byrjaði í New York, svo tók London við, þar á eftir var það Mílanó og að lokum París, en tískuvikunni þar lýkur einmitt í dag. Ég hef nú ekki komist yfir það að skoða þetta allt - geri þetta í smáskömmtum - en af því sem ég hef þegar séð þá fer línan sem Clare Waight Keller kynnti fyrir Chloé í París á sunnudaginn í flokk með mínum uppáhalds. Það lítur út fyrir að næsta vor og sumar hjá Chloé komi til með að snúast um þægindi. Litapalettan er mér auk þess að skapi.

Hin breska Clare Waight Keller hefur hannað fyrir Chloé síðan 2011, en þar hóf hún störf viku eftir að hafa átt sitt þriðja barn. Hún hefur verið í tískubransanum í yfir 20 ár og unnið fyrir Calvin Klein, Ralph Lauren, Gucci (þegar Tom Ford var yfir öllu þar) og Pringle of Scotland.

Ég hef lesið nokkur viðtöl við hana og það sem heillar mig mest í fari hennar er hversu mikil fjölskyldukona hún er. Í einu þeirra þegar hún var spurð hvað hún gerði til þess að slaka á þá var svarið að elda fyrir manninn sinn á heimili þeirra í 16. hverfi í París. Hann situr með rauðvínsglas í hendi á meðan hún stússast í eldhúsinu og þau nota tímann til að tala saman. Þetta fannst mér dásamlegt svar; tískuhönnuður sem stússast í eldhúsinu fær plús frá mér.


myndir:
Chloé vor 2014 af vefsíðu Vogue US

þriðjudagur, 1. október 2013

Haustdagur í Luxembourg II

Haustdagur í Luxembourg II · Lísa Hjalt


Þá er októbermánuður genginn í garð! Ég lofaði fleiri myndum af Grund-hverfinu í Luxembourg og dagurinn í dag er eðal til þess að standa við það loforð. Ég deildi að vísu þessum sömu myndum á ensku útgáfunni í dag þannig að þetta eru kannski gamlar fréttir fyrir þá sem lesa bæði bloggin. Ég þarf að fara fljótlega aftur í göngutúr með myndavélina og ég skal muna að hlaða batteríið áður.

Haustdagur í Luxembourg II · Lísa Hjalt