Sýnir færslur með efnisorðinu ferðalög | hugmyndir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ferðalög | hugmyndir. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 19. júní 2014

Innlit: gistihús á grísku eyjunni Íþöku



Ljósmyndararnir og hjónin Gerda Genis and Robbert Koene, bæði frá Suður-Afríku, létu drauminn rætast, keyptu gamalt hús í niðurníðslu á grísku eyjunni Íþöku, nánar tiltekið í sveitum Lahos, og gerðu það upp sem gisthús með svefnaðstöðu fyrir átta manns. Eins og sjá má á myndunum kusu þau náttúruleg efni og hráan stíl, steypu og stein í bland við viðarbita. Mér finnst hvítu gluggarnir, hurðirnar og loftin skapa skemmtilegt mótvægi og gefa húsinu léttleika. Eins og sjá má á myndunum sem birtust í Est Magazine er aðstaðan utandyra öll hin glæsilegasta í einfaldleika sínum.


Ég veit ekki með ykkur en ég væri nú alveg til í að eyða eins og einni viku eða svo á þessum stað.


myndir:
Robbert Koene af síðunni Est Magazine

miðvikudagur, 9. apríl 2014

West Midlands | The Granary - kofi til leigu



Hafið þið áhuga á að skoða West Midlands svæðið? Í sveitinni austan við borgina Birmingham er hægt að leigja endurgerðan kofa sem kallast The Granary og er í lokuðum einkagarði sem tilheyrir sveitabýlinu Dove House, sem var byggt í kringum 1350. Svefnherbergin eru þrjú (svefnaðstaða fyrir 5) og það er rúmgott eldhús/borðstofa og setustofa. Allt er smekklega innréttað og öll heimilistæki eru til staðar. Rétt hjá er þorpið Shustoke og bærinn Coleshill.

The Granary er í norðurhluta Warwickshire og það er stutt í hraðbrautir og út á Birmingham-flugvöll. Ef haldið er í suðurátt er komið inn í Shakespeare's Country, eins og svæðið kallast, en þar er að finna ákaflega fallega bæi eins og Stratford-upon-Avon, Leamington Spa og Warwick.
(Sjá einnig The Lodge sem er með einu svefnherbergi (svefnaðstaða fyrir 4)).



myndir:
Lísa Hjalt

þriðjudagur, 1. október 2013

Haustdagur í Luxembourg II

Haustdagur í Luxembourg II · Lísa Hjalt


Þá er októbermánuður genginn í garð! Ég lofaði fleiri myndum af Grund-hverfinu í Luxembourg og dagurinn í dag er eðal til þess að standa við það loforð. Ég deildi að vísu þessum sömu myndum á ensku útgáfunni í dag þannig að þetta eru kannski gamlar fréttir fyrir þá sem lesa bæði bloggin. Ég þarf að fara fljótlega aftur í göngutúr með myndavélina og ég skal muna að hlaða batteríið áður.

Haustdagur í Luxembourg II · Lísa Hjalt


mánudagur, 30. september 2013

Haustdagur í Luxembourg

Haustdagur í Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég fór í göngutúr í borginni í dag og ætlaði mér að ná fallegum haustmyndum í gamla hlutanum, sem kallast Grund. Áttaði mig svo á því þegar ég hafði rölt í gegnum Pétrusse-dalinn, eða gilið, og inn í gamla hlutann að ég hafði steingleymt að hlaða batteríið í myndavélinni. Kannski bara lán í óláni því það var kannski full sólríkt fyrir myndatökur um það leyti sem ég var á ferðinni (tók þessa mynd á svipuðum slóðum á laugardaginn þegar ég fór með vinkonur frá Íslandi í göngutúr). Ég náði nú samt nokkrum myndum í dag sem ég deili síðar í vikunni.

Ég smellti af þessari upp á hæðinni þegar ég var að njóta útsýnisins með lattebollann minn. Það er bara rétt aðeins farið að glitta í haustlitina hér í Luxembourg og veðrið leikur enn við okkur.

mánudagur, 2. september 2013

Bók: My Greek Island Home eftir Claire Lloyd



Á ensku útgáfu bloggsins í dag er ég með umfjöllun um bókina My Greek Island Home eftir Claire Lloyd. Ég las viðtal við hina áströlsku Claire fyrr á árinu og bókin rataði beint á óskalistann. Í sumar fékk ég hana í afmælisgjöf frá kærri vinkonu og ég gat ekki lagt hana frá mér þegar ég byrjaði að lesa. Til að gera langa sögu stutta þá keypti Claire hús í þorpi á grísku eyjunni Lesvos ásamt sambýlismanni sínum og þau breyttu algjörlega um lífsstíl eftir annasöm ár í London. Hún segir svo fallega frá lífinu á eyjunni og öllu því fólki sem hún hefur kynnst. Bókin fangaði mig við lesturinn og situr enn í mér.

Ég spurði Claire nokkurra spurninga sem hún svaraði fúslega og hún sendi mér nokkrar myndir og opnur úr bókinni til að deila með lesendum bloggsins. Ég ætla ekki að þýða færsluna hér þannig að ef þetta er eitthvað sem vekur áhuga þá kíkið endilega á Lunch & Latte.

Ég er á ferðalagi í þessari viku og verð hér aftur á mánudaginn. Eigið góðar stundir!

miðvikudagur, 31. júlí 2013

Innlit: gistihús í hjarta Bruxelles




Er einhver á leiðinni til Belgíu á næstunni? Chambre en Ville er gistihús (,bed & breakfast') í hjarta Bruxelles - fyrirgefið en ég bara get ekki skrifað Brussel eins og gert er í íslensku; þegar maður hefur búið í Belgíu þá er ekkert sem heitir Brussel, bara Bruxelles eða Brussels.

Gistihúsið er í uppgerðri 19. aldar byggingu sem áður hýsti speglaverksmiðju. Gistirýmin eru vægast sagt listræn en um leið vinaleg og snotur. Gistirýmið neðar í færslunni kallast La Vie d'Artiste, en skoðið endilega heimasíðuna þeirra til að sjá þau öll.



Kannski kannist þið við myndina hér að ofan því ég hef póstað henni áður undir Rýmið.



Chambre en Ville, 19, rue de Londres, 1050 Bruxelles

myndir:
af síðu Maire Claire Maison

þriðjudagur, 9. október 2012

provence-hérað með augum jose villa


Einn af mínum uppáhaldsljósmyndurum í dag er Jose Villa. Hann myndar aðallega brúðkaup og verk hans birtast í öllum þessum þekktu amerísku brúðarblöðum og víðar. Það var ekki fyrr en í sumar sem ég uppgötvaði bloggið hans og ég hreinlega elska þegar hann deilir myndum sem teknar eru á ferðalögum eða á tökustað en eru samt hans persónulegu myndir. Hann deildi þessum nýlega sem hann tók í Provence-héraði í Frakklandi.


myndir:
Jose Villa

miðvikudagur, 19. september 2012

austurlandahraðlestin


Fyrr í dag var ég að pinna þegar ég rakst á efstu myndina sem er tekin um borð í einhverri
„Austurlandahraðlestinni.“ Flökkukindin innra með mér veðraðist öll upp og ég sá mig svo fyrir
mér rölta eftir brautarpallinum með glæsilegar Louis Vuitton töskur á leið í einhverja dásamlega
ferð - með fulla vasa af gulli, hvað annað! Það vill svo til að fyrr á þessu ári las ég aftur
Austurlandahraðlestina eftir Agatha Christie þannig að ég var auðvitað byrjuð að sjá fyrir mér
allar sögupersónurnar um borð og hinn belgíska Hercule Poirot rannsaka morð til þess að gera
þessa ferð enn þá meira spennandi.

Þessi saklausa mynd var sem sagt það eina sem þurfti til þess að koma dagdraumunum yfir
á næsta stig!

myndir:
af vefsíðu Orient-Express Hotels Ltd.